Efast um ungbarna­hristingsheilkenni

Nokkur mál hafa komið upp á Íslandi þar sem grunur leikur á að barn hafi verið hrist. Eitt þeirra var til umfjöllunar í Kveik í gærkvöldi en árið 2015 fjallaði Kastljós um annað slíkt mál. Það var mál dagföður hér á landi sem dæmdur var í Hæstarétti fyrir að valda dauða drengs með hristingi í daggæslu árið 2001.

Sjá einnig: „Í tannhjólum kerfis sem étur þau lifandi“

„Hefðbundin greining á ungbarnahristingsheilkenni eða shaken baby syndrome er úrelt og kanna verður ítarlega aðra þætti sem mögulega orsök heilkennisins en þau þrjú höfuðeinkenni sem stuðst hefur verið við í áratugi,“ sagði Dr. Waney Squier, breskur prófessor í taugameinafræði, í samtali við Kastljós þá.

Squier hafði verið falið að meta mál dagföðursins en hún sagði niðurstöður úr krufningu sem gerð var eftir andlát drengsins ófullnægjandi og ekki sanna að drengurinn hafi verið hristur eða beittur ofbeldi með þeim afleiðingum að hann lést.

Á seinni árum hefur heilkennið hefur verið umdeilt víða út í heimi meðal fræðimanna. Til að mynda hafa dómstólar í svíþjóð efasemdir um hvort hægt sé að byggja dóma á einkennum þessa heilkennis.

Hægt er að horfa á umfjöllun Helgu Arnardóttur og Inga R. Ingasonar úr Kastljósi frá 2015 hér fyrir neðan.