Drottning og stjörnur í Paradísarskjölunum

Klukkan sex í kvöld hófu erlendir fjölmiðlar umfjöllun um Paradísarskjölin, en það er vinnuheiti yfir milljónir skjala sem lekið var frá tveimur lögfræðiskrifstofum á aflandseyjum. Fá íslensk nöfn er að finna í þeim.

Drottning og stjörnur í Paradísarskjölunum

Um 400 blaðamenn um allan heim hafa unnið úr gögnunum undanfarið, í samvinnu við ICIJ, alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna. Rétt eins og með Panamaskjölin fyrir einu og hálfu ári, þá er það þýska dagblaðið Süddeutsche Zeitung sem hefur forgöngu í málinu og kom gögnunum til ICIJ.

Um er að ræða á fjórtándu milljón skjala frá Appleby á Bermúda, Asiaciti Trust í Singapúr og fyrirtækjaskrár frá 19 aflandssvæðum, þar á meðal Möltu og Caymaneyjum.

BBC sýndi nú klukkan sex fyrri Panoramaþátt sinn af tveimur sem helgaðir eru umfjöllun um Paradísarskjölin, enda er þar meðal annars að finna upplýsingar um aflandstengsl Karls Bretaprins og móður hans, Elísabetar Englandsdrottningar, auk alþjóðapoppstjarna og íþróttamanna.

Sænski fréttaskýringaþátturinn Uppdrag Granskning var sendur út klukkan sjö, en sænskir viðskiptamenn eru áberandi í skjölunum. Fá íslensk nöfn er hins vegar að finna í þeim, en nánar verður fjallað um Paradísarskjölin í fréttaskýringarþættinum Kveik hér á RÚV á þriðjudagskvöld.