Bókaþjóðin sem kann ekki að lesa

Á þriggja ára fresti verður allt vitlaust hérlendis, þegar niðurstöðurnar úr nýjasta PISA-prófinu koma og það kemur í ljós að íslensku nemendurnir standa sig ennþá verr en síðast.

Árið 2012 var mönnum öllum lokið þegar kom í ljós að þriðjungur drengja og 12 prósent stúlkna gátu ekki lesið sér til gagns eftir tíu ára grunnskólagöngu. Samt fórum við enn lengra niður 2015 og útkoman úr lesskimun í 2. bekk í Reykjavík í fyrra var sú versta í tólf ár.

„Ef við tökum þessi PISA-próf eins og þau eru, þá er fjórðungur af okkar nemendum í því sem mætti kalla ruslflokki, á þeim mælikvarða sem PISA er á læsi þjóðarinnar,“ segir Baldur Sigurðsson, forseti kennaradeildar menntavísindasviðs HÍ.

Dr. Hermundur Sigmundsson. (Mynd Kveikur/RÚV)

Strákarnir verr settir

Eitt af því sem mælist eiginlega alltaf í öllum könnunum og prófum er kynjamunur. Stelpur mælast reyndar með betri lesskilning í öllum 72 þátttökulöndum PISA. Strákarnir okkar er bara óvenju illa staddir. Hvers vegna er þessi munur?

Dr. Hermundur Sigmundsson gerði stóra rannsókn á þessu á norskum börnum. Um 500 börn voru prófuð við upphaf skólagöngu. Athugað var hversu marga stafi þau þekktu, bæði litla og stóra – og hversu mörg hljóð við þá.

Sjá einnig: Kenna stelpum og strákum á ólíkan hátt

„Við fundum að það var marktækur munur í öllum þessum fjórum þáttum, frá 20-40 prósent mismunur, þegar þau byrjuðu í skólanum. Stelpurnar voru miklu betri og kunnu miklu fleiri bókstafi og þeirra hljóð þegar þær byrja í skóla,“ segir hann.

Ástæðurnar fyrir þessum mun eru margvíslegar, að sögn Hermundar. Stúlkur ná alla jafna fyrr og hraðar tökum á tungumálinu - það er erfðatengt. Á hinn bóginn sýni rannsóknir einnig að frá fæðingu tali foreldrar meira við stúlkur en drengi.

Munurinn er þó ekki alltaf mikill. Freyja Birgisdóttir, dósent í sálfræði og læsissérfræðingur við HÍ, segir að niðurstöður á lesskimunaprófum í Reykjavík sýni mun á bilinu 3-4 prósent. „En það að hann komi alltaf fram og líka það að þessi kynjamunur, hann hefur tilhneigingu til að vaxa eftir því sem á skólagönguna líður, það er ástæða, alla vegana í mínum huga, að við þurfum að hafa áhyggjur af þessu,“ segir hún.

Freyja Birgisdóttir, dósent í sálfræði og læsissérfræðingur við HÍ. (Mynd Kveikur/RÚV)

Mismunandi kennsluaðferðir

Kennaranemar læra að kenna eftir hljóðaaðferðinni - stafur - hljóð. Ýmsar aðrar aðferðir hafa verið þróaðar. Við Miðstöð skólaþróunar á Akureyri var upp úr aldamótum búin til viðamikil lestrarkennsluaðferð sem hefur verið kölluð Byrjendalæsi.

Sumarið 2015 birti Menntamálastofnun úttekt á Byrjendalæsinu - en þá hafði um helmingur grunnskóla á landinu innleitt það. Samkvæmt úttektinni reyndist marktækur munur á árangri þeirra barna sem lærðu að lesa með þeirri aðferð, á samræmdum prófum í 4. bekk. Einkunnir þeirra voru að meðaltali einu stigi lægri en barna sem ekki höfðu lært að lesa með Byrjendalæsi.

Sjá einnig: Hvað er Byrjendalæsi?

Þetta snerist upp í miklar deilur þar sem Miðstöð skólaþróunar taldi illa að sér vegið og gerði margvíslegar athugasemdir við úttektina. Aðferðin væri enn í þróun, hún væri bara notuð í 1. og 2. bekk og þeirra innra mat benti frekar til þess að Byrjendalæsi virkaði vel.

Þessu svaraði Menntamálastofnun með frekari útreikningum og stóð fast á sínu. En hversu miklu máli skiptir lestrarkennsluaðferðin, ef börnin læra á endanum að lesa og leiðist ekki mikið á meðan?

Freyja segir hana skipta miklu máli. „Það er mjög mikilvægt að bæði leik- og grunnskólakennarar hafi aðgang að aðferðum sem hafa verið raunprófaðar. Sem hafa verið rannsakaðar og sýnt fram á að virki. Byrjendalæsi og fleiri kennsluprógrömm sem eru notuð hér, byggja á slíkum aðferðum. En ég held samt að við eigum að vera miklu ákveðnari í því að meta það sem við erum að nota,“ segir hún.

Baldur Sigurðsson, forseti kennaradeildar menntavísindasviðs HÍ. (Mynd Kveikur/RÚV)

Dregur úr hæfni til að láta drauma rætast

Það virðast allir sammála um að þetta sé hræðileg þróun, að lesfimi og –skilningi hraki. En hvaða afleiðingar hefur það ef drjúgur hluti þeirra sem elst upp hér á landi nær aldrei sæmilegum tökum á lestri?

„Ef þessi þróun bara heldur áfram og við svona leyfum þessu að gerast, þá verður alltaf sístækkandi hópur sem getur ekki lesið almennilega, getur ekki nýtt sér lestur til þess að gera það sem hann vill gera – hvort sem það er í námi eða lesa sér til yndisauka, sem má heldur ekki vanmeta,“ segir Freyja og bætir við að hún hafi sérstakar áhyggjur af börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.

Baldur segir þetta einfaldlega draga úr hæfni einstaklinga. „Þetta dregur úr hæfni þeirra til þess að láta drauma sína rætast og það dregur úr hæfni samfélagsins til að takast á við þekkingu og þróun,“ segir hann.

Illugi Gunnarsson, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra. (Mynd Anton Brink/RÚV)

Mælum áhrif átaksins seinna

Árið 2014 gaf þáverandi menntamálaráðherra, Illugi Gunnarsson, út Hvítbók um umbætur í menntun. Þar var sett fram það markmið að 90 prósent grunnskólanemenda næðu lágmarksviðmiðum í lestri árið 2018, en það stóð í 79 prósentum þá. Illugi stóð líka fyrir gerð Þjóðarsáttmála um læsi, sem hann og fulltrúar allra sveitarfélaga landsins undirrituðu á haustdögum 2015 og síðan hafa sveitarfélögin mótað sér formlega læsisstefnu.

En ætli þessi aðgerðaráætlun og Þjóðarsáttmáli skili tilætluðum árangri?

Baldur segir að ekki sé enn hægt að skera úr um það. „Ef þú ætlaðir að mæla áhrif af ráðherratíð Illuga Gunnarssonar á lestrarkunnáttu íslenskra skólabarna, eins og hún mælist í alþjóðlegum samanburði á PISA-prófunum, þá þarftu að bíða í átta ár í viðbót,“ segir hann. „Þannig að það er ekki alveg komið í ljós hvort að Þjóðarátak um læsi, sem Illugi setti af stað, skili sér alla leiðina þangað.“

Freyja segir að í eðli sínu sé þetta langtímaverkefni. „Og mér finnst stundum að við megum svona sýna aðeins meiri langtímahugsun þegar við rjúkum upp til handa og fóta yfir því að eitthvert átak skili ekki árangri á morgun, liggur við,“ segir hún.

Þessi umfjöllun er hluti af umfjöllun Kveiks um læsi á Íslandi.