Boðar úttekt á Fiskistofu og nýtt frumvarp

1. nóvember fjallaði Kveikur um brottkast, framhjálöndun og vanmátt þeirrar stofnunar sem ber ábyrgð á eftirliti með því, Fiskistofu. Forstjóri stofnunarinnar viðurkenndi, eins og hann hafði áður gert, að stofnunin hefði ekki burði til að fylgjast með hvort lög væru brotin. Þá kom fram að endurvigtun væri „alvarlegur veikleiki í regluverkinu“, sem allt benti til að væri misnotaður til að „hagræða tölum“.

Þegar þátturinn var sendur út var starfsstjórn í landinu og erfitt um vik að krefjast svara um hvað stjórnvöld ætluðu að gera til að bæta úr þessu. Nýr sjávarútvegsráðherra tók við fyrir skemmstu og það kemur í hans hlut að leiða þær breytingar sem þarf að gera – sé áhugi fyrir því. Í nýjum stjórnarsáttmála er reyndar ekkert minnst á þessa miklu sóun og stöðugan grun um lögbrot sem forstjóri Fiskistofu segir ómögulegt að fylgja eftir.

(Mynd Kveikur/RÚV)

Gera úttekt á Fiskistofu

Fiskistofa hefur ekki rannsakað neitt mál í á fimmta ár, ekki bara á þeim forsendum að ekki sé nægur mannskapur eða fjármagn, heldur fyrst og fremst vegna þess að regluverkið sé ónýtt. Svo virðist sem enginn ráðherra hafi treyst sér til að rugga bátnum og gera eitthvað í því. Verður Kristján Þór Júlíusson sá ráðherra?

„Ég allavegana hef reynslu af því að stíga ölduna í mínum fyrri störfum, þannig að ég treysti mér alveg til þess að vera í bát sem veltur í ólgusjó,“ segir hann og heldur áfram: „Það liggur fyrir að ráðuneytið mun gera úttekt á Fiskistofu á næsta ári og fara í gegnum það hvernig hún vinnur sín störf og hvernig hún uppfyllir þær kröfur sem til hennar eru gerðar og hvernig þá henni er gert það kleift að starfa og svo framvegis. Það kemur þá væntanlega í ljós í þeirri úttekt, sem við ætlum að gera hver ástæðan fyrir því er, ef Fiskistofa telur sig ekki geta sinnt sínu hlutverki.“

Í viðtali við Kveik í nóvember sagði Fiskistofustjóri að hann geti ekki sinnt þeim verkefnum sem séu nefnd í lögum um stofnunina. Kristján segir að það kalli á sérstaka skoðun. „Það finnst mér raunar alveg með ólíkindum ef að regluverkið er með þeim hætti að stofnunin geti ekki sinnt sínu lögskipaða hlutverki, það er mjög sérstakt og kallar á sérstaka yfirferð þá með stofnuninni.“

Hvað er endurvigtun?

En rifjum aðeins upp hvað endurvigtun er.

Ein af grunnstoðum íslenska fiskveiðistjórnunarkerfsins er rétt vigtun afla. Öðruvísi er enda ekki hægt að að sjá hversu mikið er búið að veiða og hversu mikið má veiða til viðbótar. Og í lögum er þetta nokkuð skýrt: Allur afli skal veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Skal við vigtunina nota löggilta vog. Vigtun skal framkvæmd af starfsmanni hafnar sem hlotið hefur til þess löggildingu. Eftirlitið ætti því að vera nokkuð einfalt. En þannig er það alls ekki.

Ástæðan er í næstu málsgrein laganna, svokölluð endurvigtun. Leyfi til endurvigtunar eru í dag um 120 um land allt. Þar með er lokaorðið um endanlega vigtun stórs hluta auðlindarinnar í höndum fyrirtækjanna sem veiða og vinna fiskinn. Endurvigtun felur það í raun sér að afli er vigtaður tvisvar. Fyrst á hafnarvog og síðan í viðkomandi fiskvinnslu. Og það er seinni vigtunin sem ræður.

Brottkast er stundað við strendur Íslands. (Mynd Kveikur/RÚV)

Von á frumvarpi

Kristján segir að von sé á frumvarpi frá honum um þessi mál á vorþingi. „Það er í smíðum og vonandi gengur okkur vel að lemja það saman og þegar að það liggur fyrir þá munum við kynna það,“ segir hann. „Taka á þeim ágöllum sem menn hafa haldið fram varðandi þetta kerfi og bæta úr þannig að við í rauninni getum stöðvað og komið í veg fyrir eða unnið gegn í það minnsta að menn séu að ganga á svig við lög.“

Kveikur hefur óskað eftir eftir upplýsingum um hvaða reglur Fiskistofa styðst við, við eftirlit með löndun uppsjávarafla, án þess að svör hafi borist. Í frásögnum fyrrverandi starfsmanna stofnunarinnar eru mörg dæmi um að margra tonna, jafnvel hundraða tonna munur sé á löndunum afla eftir því hvort eftirlitsmaður standi yfir lönduninni eða ekki. Engin ein aðferð sé sérstaklega viðurkennd af Fiskistofu til að vigta þennan afla.

Megum við eiga von á því að það breytist með boðuðu frumvarpi Kristjáns? „Það er atriði sem þarf að taka til skoðunar í tengslum við þetta. Þessar raddir hef ég heyrt, um það að menn séu svona, já, ekki hárnákvæmir í mælingum og þá er það best fyrir alla að búa svo um hnútana að óvissu og sögusögnum sé eytt og við reynum að koma þessum hlutum á hreint,“ segir hann.

Ekki æskilegt hugarfar

Kristján segir að ábyrgð stjórnvalda á einni mikilvægustu auðlind þjóðarinnar sé gríðarlega mikil og regluverkið verði að vera með þeim hætti að það sé unnt bæði að framfylgja því, fara eftir því, að það sé almennilega fjármagnað.

„En ekki síður hitt að menn séu allt í kringum borðið, skuldbundnir sjálfum sér gagnvart því verkefni að fara að þeim lögum og reglum sem stjórnvöld hafa sett. Og ég held í sumum tilfellum að það skorti dálítið á það. Ég leyfi mér til dæmis að fullyrða það að umræðan sem snýr að því að menn séu ekki að skila á land þeim afla sem heimildirnar þeirra kveða á um, heldur séu að svindla og fara fram hjá vigt, til dæmis - það er hugarfar sem að er ekki æskilegt og er bara þess eðlis að við eigum að leggja okkur fram um að beina fólki af þeirri braut. Og þá verðum við væntanlega að styrkja bæði regluverkið en ekki síður að gera stofnunum okkar kleift þá að framfylgja því,“ segir hann.

Kveikur sýndi myndbönd af brottkasti um borð í íslenskum togara. (Mynd Kveikur/RÚV)

Telur ábyrgðartilfinninguna hafa vaxið

Sjómenn víða um land hafa haft samband við Kveik eftir sýningu þáttarins 21. nóvember og staðfest enn frekar það sem þar kom fram. Brottkast sé og hafi verið stundað í miklum mæli á Íslandsmiðum og mörgum finnst það hart og eru með óbragð í munni vegna þess. Eftirlit hefur enda verið skorið niður um tvo þriðju hluta frá aldamótum og eftirlitsmönnum fækkað úr 44 í 24.

„Ég er alveg sannfærður um það að það er brottkast, það er sóun á verðmætum enn þá í kerfinu. En ég leyfi mér hins vegar að fullyrða að ábyrgðartilfinningin hjá sjómönnum, hjá útgerðarmönnum hefur vaxið mjög gagnvart þessu. Ég bara veit það að hér bara fyrir ekkert mjög mörgum árum, þó við getum mælt það í áratugum, þá var þetta með allt öðrum hætti. Það breytir ekki því að brottkast er ólíðandi og við þurfum þá að leggja saman í þann slag að reyna að vinna bug á því og halda því í lágmarki,“ segir Kristján aðspurður um þetta.

Hafrannsóknastofnun hefur frá aldamótum gert árlega rannsókn á brottkasti. Í þeirri nýjustu er brottkast þorsks og ýsu sagt hafa numið 3200 tonnum árið 2015, og ekki mælst meira í nærri áratug. Brottkast togaraflotans eins og sér er sagt „nálgast mest reiknaða brottkast“ á þorski frá upphafi. Milljón þorskum hafi verið hent það ár, eða nærri 1400 tonnum.

Kristján segist þó hafa aðra tilfinningu eftir samtöl sín við sjómenn. „Ég er ekki með neinn vísindalegan grunn á bak við þetta og ég ætla ekkert að draga í efa þessar mælingar Hafró. En ég hef ekki séð þær og ég þekki ekki hvernig þeir gera þetta. Og ef niðurstöður Hafrannsóknarstofnunar eru með þessum hætti, þá þurfum við að fara í gegnum það hvar og hvernig þeir mæla þetta og hvort við getum þá gripið til einhverra aðgerða sem draga þá úr því og vinna þá gegn þessari þróun sem þeir virðast vera að mæla,“ segir hann.

Stundum verður að henda

Kristján bendir á að stundum geti komið upp tilvik þar sem það sé næstum óhjákvæmilegt, svo sem á loðnuveiðum þar sem mjög gott kast fylli skip sem er einskipa á veiðum og afgangurinn af halinu verði því einfaldlega að fara í sjóinn. Það breytist tæplega í nánustu framtíð.

„Öðru máli gegnir um veiði ef við förum bara niður í gegnum handfæra- línuveiðar - trollveiðar. Þar er tæknin að verða sífellt meiri og menn sjá og hafa betri stjórn á þeim afla og því magni sem þeir eru að taka um borð hverju sinni og svo framvegis. Þannig að með aukinni og betri þekkingu og bara samfélagsvitund gagnvart auðlindinni sem við erum að umgangast, þá er ég bjartsýnn á það að við munum ná betri árangri í því sem við viljum flestöll losna við, sem við höfum kallað brottkast,“ segir Kristján.

Einn af fyrrverandi starfsmönnum Fiskistofu lýsti því í viðtali við Kveik að hann hefði orðið var við þá hugsun að brottkast væri í lagi af því að menn væru að tryggja atvinnu í viðkomandi þorpum. Kristján segist ekki hafa orðið var við þá hugsun. „Og mér finnst hún ekki boðleg, bara svo það sé sagt. Þú hefur enga réttlætingu á því að brjóta lög til þess að halda uppi einhverri stöðu sem þú telur æskilega. Þannig bara er gangverkið í samfélaginu ekki. Það er svo langur vegur frá því að menn hafi eitthvert sjálfdæmi í þessum efnum, það er ekki þannig,“ segir hann.

Samherji er eitt stærsta útgerðarfyrirtæki landsins. (Mynd Björgvin Kolbeinsson/RÚV)

Tengslin við Samherja ekki árekstur

Bent hefur verið á tengsl Kristjáns Þórs við stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, Samherja. Hann var stjórnarformaður þess fyrir aldamót og stundaði sjómennsku í þinghléum fyrir nokkrum árum. Mikil umræða hefur verið um mögulega hagsmunaárekstra stjórnmálamanna - eru þeir fyrir hendi hér?

„Ég hef ekki trú á því. Ég hins vegar bara eins og allir aðrir stjórnmálamenn hlýt að skoða það, ef að slík mál koma upp, að þegar kemur að einhverjum ákvörðunum sem að snerta fjölskyldu, kunningja eða vini, þá verðum við einfaldlega að ætla það að við eigum stjórnmálamenn sem fara í gegnum það að spyrja sjálfan sig og leggja mat á hæfi sitt til þess að taka ákvarðanir, það er eðlilegasti hlutur í heimi og það ættu allir að gera,“ segir hann.

Við sýnum sjávarútvegsráðherra dæmi um mögulegt vigtarsvindl, þar sem norskir eftirlitsmenn vigtuðu kar af handahófi um borð í Sólbaki við mælingar úti á sjó þann 1. apríl á þessu ári, en þegar landað var á Íslandi þremur dögum síðar var ekki eitt einasta kar í úrtakinu þar, sem náði sömu þyngd. Það er kannski ekki nema von að tortryggni sé ríkjandi, þegar kaupandi, seljandi og sá sem vigtar er einn og sami aðilinn, í þessu tilfelli Útgerðarfélag Akureyringa, dótturfélag Samherja.

„Þetta er bara nákvæmlega það sama og Fiskistofa hefur sagt og borið upp eftir þeirra athuganir hér innan lands og er í rauninni ástæðan fyrir því að við erum að boða það að við komum fram með frumvarp á vorþinginu sem ætlað er, meðal annars að taka á agnúum sem þessum,“ svarar Kristján.

Kunnugir vilja breyta endurvigtuninni

Kristján segir það muni koma í ljós þegar frumvarpið kemur fram hvernig endurvigtunarkerfinu mun reiða af. „Og það eru mjög skiptar skoðanir um það, svo ég upplýsi það,“ segir hann. En hver er hans eigin skoðun? „Ég ætla að ráðgast við sérfræðinga ráðuneytisins áður en ég gef hana upp og hún mun birtast í því frumvarpi sem ég legg fyrir þingið.“

Hann segir skoðanirnar ekki skiptast eftir neinum línum. „Það fer svona eftir því held ég mestan part hvaða þekkingu viðkomandi hafa á innviðum þessa kerfis, hvernig þeir líta það,“ segir hann. Þeir sem þekki innviðina vel telji fulla þörf á töluverðum breytingum á því.

Þeir sem þekkja það síður, telja það virka bara ágætlega eins og það er?

„Ja, það er bara fullt af Íslendingum sem veit í rauninni ekki einu sinni hvað endurvigtun er. En gera hins vegar kröfur um það að útgerð og sjómenn umgangist þessa sameiginlegu auðlind okkar af virðingu fyrir þeim lögum og reglum sem um hana gilda.“