Barnaverndarstofa gerði harðorðar athugasemdir

Barnaverndarmál hafa verið mjög til umræðu undanfarið misseri. Í nóvember fjallaði Kveikur um eitt slíkt mál - en það sem við vissum ekki þá, var að Barnaverndarstofa hafði skilað af sér afar harðorðum athugasemdum við vinnubrögð Barnaverndar Reykjavíkur í öðru máli, í byrjun september. Þar er málsmeðferð Barnaverndar Reykjavíkur beinlínis fordæmd og vinnubrögðin sögð til þess fallin að valda börnum alvarlegum skaða.

Samkvæmt heimildum Kveiks áttu Barnaverndarstofa og Barnaverndarnefnd Reykjavíkur fund í kjölfarið til að fara yfir stöðuna. Þar var nefnt að jafnvel kæmi til greina að áminna nefndina því ítrekaðar athugasemdir við óviðunandi vinnubrögð virtust ekki hafa verið teknar til greina.

En hvaða mál er þetta sem fór svona illa og virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn? Það snýst um þrjú systkini, tvö á leikskólaaldri og eitt í grunnskóla. Annað foreldrið er látið og hitt hefur verið svipt forsjá þeirra, enda bjuggu þau við vont atlæti þar samkvæmt gögnum, ofbeldi og vanrækslu. Reyndir fósturforeldrar á Vesturlandi voru beðnir fyrir yngsta barnið, um miðjan nóvember 2016.

Ítarleg umfjöllun um málið má sjá í spilaranum hér að ofan en þar er meðal annars rætt við fósturforeldrana, þau Aðalbjörgu Þórólfsdóttur og Kristbjörn H. Steinarsson, sem voru með systkinin í fóstri.