Aðrir geta skipað dómara í sátt

„Það skilur enginn í því að þetta sé eitthvað deilumál hér því vegna þess að það virðist vera fullkominn friður um þetta annars staðar,“ segir Reimar Pétursson, formaður Lögmannafélags Íslands, um deilur sem gjarnan skapast við skipan dómara á Íslandi.

Aðrir geta skipað dómara í sátt

Það hefur ítrekað gerst á síðustu árum að deilur rísi um skipan dómara eftir að ráðherrar hunsi hæfismat umsækjenda og skipi einhvern sem ekki var talinn hæfastur. Nú síðast við skipan fimmtán nýrra dómara við nýstofnaðan Landsrétt.

Landsréttur (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Höfum alþjóðleg viðmið

En hvernig er hægt að skipa dómara með þeim hætti að sátt ríki um það?

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur að hæfnisnefnd, ráðherra dómsmála og Alþingi eigi að koma öll að skipun dómara með beinum hætti. „Menn hafa nefnt líka möguleikann á því, að af hverju koma ekki dómaraefnin og bara ræða við þingið? Jafnvel við sérstaka dómarnefnd. Áður en tekin er ákvörðun um hverjir skuli skipaðir,“ segir hún.

Reimar segir að sér þyki það ekki skynsamleg nálgun. „Og ekki bara nóg með það heldur er það bara nálgun sem er bara ekki í samræmi við þau alþjóðlegu viðmið sem eru teiknuð upp af Evrópuráðinu. Og það hlýtur að vera metnaðarmál hjá okkur að falla inn í þá ramma sem eru teiknaðir þar upp, því annars erum við þá komin í samanburð við þjóðir sem ég held að fæstir hafi áhuga á því að líta til fordæma til.“

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. (Mynd Arnar Þórisson/RÚV)

Engar sannanir um klíkuskap

Störf hæfnisnefndarinnar hafa verið gagnrýnd í gegnum tíðina og spyr Sigríður Andersen dómsmálaráðherra meðal annars að því af hverju hagsmunaaðilar séu skipaðir í nefndina. „Dómarar þurfa líka að vera sjálfstæðir í sínum störfum gagnvart öðrum dómurum. Og þá er mjög mikilvægt að það sitji ekki í svona hæfisnefnd sem er að velja dómara, aðrir dómarar,“ segir hún.

Dómarar geti verið í þakkarskuld við annan þegar þeir séu að dæma.

Reimar kannast ekki við að slík klíkustarfsemi hafi komið í ljós. „Mér vitanlega hefur enginn komið fram með nokkra einustu sönnun að baki því að það sé einhver klíkustarfsemi eða óheilindi á bak við störf þessarar nefndar. Manni finnst kannski að þeir sem að eru ráðherrar dómsmála og bera ábyrgð gagnvart dómskerfinu eigi nú að forðast að taka undir og blása lífi í svoleiðis kenningar,“ segir hann.