Að skrifa eða ekki skrifa Njálu

Það hefur lengi verið nokkurs konar íþrótt eða samkvæmisleikur hérlendis að rífast um hverjir séu höfundar hinna ýmsu Íslendingasagna. Síðustu öldina hafa verið settar fram alls konar kenningar.

Einar Kárason rithöfundur hefur meðal annars blandað sér í þessi skoðanaskipti á síðustu árum, sannfærður um að hans maður, Sturla Þórðarson, höfundur Íslendinga sögu, hafi skrifað Njálu. Nú hafa menn tekið tölvurnar í sína þjónustu í höfundarleitinni og í nýjasta tölublaði Skírnis – hinu látlausa tímariti Hins íslenska bókmenntafélags – leynist skúbb.

Jón Karl Helgason, prófessor við Háskóla Íslands.(Mynd Benedikt Nikulás Anes Ketilsson/RÚV)

Kenndu tölvu að skrifa eins

Jón Karl Helgason, prófessor við Háskóla Íslands, kenndi um tíma námskeið um höfund Njálu í Endurmenntun, um það leyti sem Einar Kárason var að skrifa sínar greinar um Sturlu Þórðarson og að hann væri nokkuð örugglega höfundurinn. „Ég fór í gegnum alla þessa umræðu sem nær aftur á nítjándu öld og fór svolítið að velta því fyrir mér hvað væru gild rök þegar maður væri að halda því fram að einn væri höfundur sögunnar og ekki annar,“ segir hann.

Jón Karl fékk tvo mikla Njáluáhugamenn og stærðfræðinga til liðs við sig: Sigurð Ingiberg Björnsson og Steingrím Pál Kárason. Þeir höfðu fram að því verið að dunda sér við að kenna tölvu að skrifa eins og höfundur Njálu – láta hana skrifa týnda Íslendingasögu í sama stíl og Njálu. Jón Karl segir að þeir hafi sent honum sýnishorn af texta, sem hafi litið vel út, en verið súrrealískur og setningarnar ekki haft neina merkingu. Sem dæmi:

„Kunnigt er það Hávarður að eg hefi svo starfa fyrir haft“ Hávarður svarar. „Bráðráðið þykir mér þú ekki, enda skildagann við Ingvildi þann er þú hést þá er þú hafðir af skipinu það er vér leitum.“

Jón Karl fékk þá í staðinn til liðs við sig í það verkefni að svara Einari Kárasyni.

Haukur Þorgeirsson er brautryðjandi í stílmælingum. (Mynd Benedikt Nikulás Anes Ketilsson/RÚV)

Með stílmælingu að vopni

Þeir samþykktu það - og kynntu sér aðferð sem alveg hreint óskaplega þolinmóðir fræðimenn hófu að beita löngu áður en tölvurnar gerðu allt mun einfaldara og fljótlegra. Stílmæling var vopnið sem þeir völdu sér.

Haukur Þorgeirsson rannsóknardósent er brautryðjandi í stílmælingum. „Engar tvær manneskjur tala nákvæmlega eins eða skrifa nákvæmlega eins. Jafnvel þótt það sé ekki eitthvað sem maður hnýtur um þá tölum við öll svolítið mismunandi, jafnvel þótt við notum algeng orð, þá notum við kannski mismunandi algeng orð og við notum þau misoft og þegar þetta safnast saman þá verður til einhvers konar stílfræðilegt fingrafar, sem er einkennandi fyrir tiltekinn höfund,“ útskýrir hann.

„Aðferðin er mjög einföld. Við einfaldlega skoðum orðin í textanum, þúsund algengustu orðin og mælum tíðni þeirra. Og svo berum við þetta bara saman með ákveðnum tölfræðilegum aðferðum og reiknum svokallað delta, fjarlægð milli tveggja texta og þetta virkar því betur eftir því sem textarnir eru lengri.“

Þessi tækni þýðir þó ekki að hægt sé að taka texta, henda honum inn í forrit og það spýti svo út úr sér nafni höfundar. En með þessu er hægt að sjá hvort líklegt sé að sami höfundur sé að tveimur verkum. Jón Karl og félagar báru texta fjörutíu og níu Íslendingasagna saman við texta Njálu.

Og hver er þá niðurstaðan? Skrifaði Sturla Þórðarson Brennu-Njáls sögu, eins og Einar Kárason, Matthías Johannessen og ýmsir fleiri eru sannfærðir um?

Stella í raun líklegri höfundur

Jón Karl segir þá hafa gert ýmsar mælingar á Njálutextanum. „Byrjuðum á því að hafa Njálu bara sem heild og hún var ekki lík Íslendingasögu sem er talið víst að Sturla hafi samið. Það eru reyndar fáir textar jafn ólíkir og Íslendinga saga Sturlu Þórðarsonar og fyrri hluti Njálu,“ segir hann.

„Og svona til gamans þá settum við þarna inn texta eftir Stellu Blómkvist, sem væri nú gaman að finna út hver væri og það væri nú hugsanlegt að gera það með þessari aðferð - en í raun er Stella líklegri til að vera höfundur Njálu heldur en Sturla Þórðarson, samkvæmt þessari mælingu.“

Hann tekur ekki beint undir að það sé skellur fyrir Sturlumenn. „Kannski bara skemmtilegt fyrir Stellu,“ segir Jón.

(Mynd Steingrímur Páll Kárason)

Á myndinni er, innst í hringnum, fyrri hluti Brennu-Njáls sögu. Svo er texti seinni hluta Njálu, allra hinna 49 sagnanna og Morðsins á Bessastöðum eftir Stellu Blómkvist borinn saman við texta fyrri hlutans. Eftir því sem sögurnar eru fjær og línan lengri, þeim mun ólíkari Njálu eru þær.

Lifði á 13. öldinni í leit að höfundi

Einar Kárason rithöfundur segir að þegar fólk hafi giskað á höfund Njálu eins og fræðimenn hafa gert, nefnt nöfn eins og Árna biskup Þorláksson eða Þorvarð Þórarinsson, þá sé það bara ágiskun. „Sem byggir á því að þeir gætu verið það vegna þess að þeir voru uppi á þessum tíma og trúlega læsir og skrifandi,“ segir hann.

Það sé þó öðru vísi með Sturlu. „Með Sturlu Þórðarson er allt annað uppi á teningnum. Hann var náttúrulega höfuðskáld sinnar samtíðar, þrautþjálfaður ritsnillingur, eins og við vitum af Íslendinga sögu og það sem meira er, þessi frægasta bók hans, Íslendinga saga, úr Sturlungubálknum og Njáls saga, hafa svo ótrúleg líkindi.“

Einar segist hafa legið yfir þessu í fimmtán ár. „Ég eiginlega lifði í 13. öldinni og það voru skrifuð mörg hundruð verk á Íslandi á þeim tíma sem er alveg einstakt, náttúrulega. Við gætum ímyndað okkur svona fyrirfram, við myndum giska á það að í afskekktu, fámennu samfélagi þar sem fáir menn kunna að lesa og skrifa að það sem sé skrifað sé svona kannski áhugavert, fullt af merkilegum upplýsingum, en við reiknum kannski síður með því að þetta séu heimsbókmenntaleg snilldarverk,“ segir hann.

„Mikið af þessum bókum er... við getum sagt svona meðal og kannski oft frekar frumstæður litteratúr. Tólf, kannski fimmtán af þessum bókum sem voru skrifaðar á öldinni, eru snilldarverk. Hvernig stendur á því? Það hlýtur að hafa verið að minnsta kosti einn snillingur uppi og það er allt sem bendir til þess að þeir hafi verið tveir. Því við þekkjum snilldarverk eftir tvo höfunda frá þessum tíma. Við þekkjum náttúrulega Heimskringlu Snorra og Snorra-Eddu. Við þekkjum Íslendinga sögu Sturlu sem er ekkert minna snilldarverk. Og þegar við förum að skoða aðrar bækur sem við getum sett í flokk snilldarverka frá tímanum, þá er mjög auðvelt að sjá tengslin við þessa menn. Til dæmis tengsl Grettis sögu við Sturlu og tengsl Egils sögu við Snorra, Njálu við Sturlu.“

Einar Kárason rithöfundur. (Mynd Benedikt Nikulás Anes Ketilsson/RÚV)

Höfundur með fleiri stílbrigði

Jón Karl segir að sterkustu rökin hjá Einari og Matthíasi að Sturla er augljóslega reyndur höfundur. „Það voru fleiri reyndir höfundar og það eru mörg verk sem við erum ekki að mæla þarna. Við erum ekki með biskupasögur, ekki fornaldarsögur, ekki riddarasögur, fjöldi þýðinga. Þannig að ég hef nú trú á að með tímanum gæti viðameiri mæling hugsanlega gefið vísbendingar um fleiri höfunda Íslendingasagna,“ segir hann.

En það er ekki að sjá að þessar niðurstöður rannsóknarinnar bíti nokkuð á Einar og trú hans á Sturlu Þórðarsyni.

Einar segir stórmerkilegt að rannsóknir af þessum toga skuli vera gerðar. „Þetta er mjög spennandi. Og mér finnst í þeim tilfellum þar sem við sjáum mikinn skyldleika milli tveggja ólíkra texta eða stíla, þá er það alveg örugglega nokkuð merkileg vísbending um að það geti verið sami höfundurinn,“ segir hann.

„Það hins vegar að við sjáum minni líkindi milli annarra texta, það þarf ekkert að segja neitt annað en það að til dæmis einn höfundur hefur margs konar stílbrigði í sínu vopnabúri. Mér dettur í hug nærtækt dæmi, Sjón vinur minn hann skrifaði bók sem var dálítið svona innblásin af science fiction og rokkmúsík og heitir Stálnótt. Svo hefur hann skrifað aðra sem fjallar um Jón lærða sem var uppi á 17. öld og heitir Rökkurbýsnir. Það er ekkert líkt þarna með þessu.“

Rannsóknin felur í sér að orð eru talin og textar bornir saman. (Mynd Benedikt Nikulás Anes Ketilsson/RÚV)

Hversu áreiðanleg er rannsóknin?

Fyrst hann segir þetta, þá er kannski hægt að velta fyrir sér hversu áreiðanleg rannsóknaraðferð þetta sé, stílmæling. Að telja orð og bera saman texta. Hversu sterkt, skýrt og endingargott er fingrafar höfundarins?

Haukur segist nota aðferð sem sé kennd við mannanafnið Burrows. „Þá er ég sem sagt að nota aðferð sem hefur verið notuð á mörgum textum og á mörgum tungumálum og hefur verið staðfest að virki og ég hef líka prófað hana á safni af skáldsögum eftir 19. aldar höfunda á íslensku. Þar kemur í ljós að þetta virkar ágætlega. Auðvitað viljum við gjarnan hafa einhvers konar aðrar forsendur líka. Að það sé einhvern veginn fyrir fram sennilegt að höfundurinn sé grunaður um þetta af einhverjum öðrum ástæðum - haft áhuga á þessu efni eða verið á réttum stað á réttum tíma,“ segir hann.

En ef við hugsum út fyrir þetta, burtséð frá stíl sem sagt, þá eru formgerð og uppbygging Njálu og Íslendingasögu Sturlu mjög líkar, á því leikur enginn vafi og það hafa bæði Einar og fleiri fjallað ítarlega um.

Einar segir að einhver sem hafi verið feikilega handgenginn Íslendingasögu Sturlu hafi skrifað Njálu. „Það eru alveg hreinar línur,“ segir hann. „Í viðbót þá er það þannig að Njáls saga er svo feikilega úthugsað og strúktúrerað og flókið verk. Margar persónur, það er haldið mörgum boltum á lofti í gegnum mjög langa og innviklaða frásögn. Svona verk skrifa bara þrautþjálfaðir höfundar sem eru búnir að skrifa margar bækur og kynna sér sitt fag.“

Hún verður ekki til upp úr engu?

„Að sjálfsögðu ekki. Þetta er niðurstaða æviverks snillings.“

(Mynd Kveikur/RÚV)

Vonandi skoðar einhver málið betur

Þá liggur beint við að spyrja Jón Karl hvort það seu einhverjar vísbendingar sem benda í einhverja aðra átt? Hvort einhver annar hafi skrifað Njálu? „Sko, það er engin saga sérstaklega lík Njálu. Ljósvetningasaga er sú sem er líkust samkvæmt þessari mælingu en líkindin eru samt ekki slík að maður geti sagt að þetta sé sterk vísbending. En þetta er samt vísbending sem ég vona að einhver muni kannski skoða betur,“ svarar hann.

Það er merkilegt hvernig fólk virðist ánetjast þessum heimi ef það sökkvir sér ofan í hann á annað borð. Sem stendur virðast útlendingar reyndar hafa miklu meiri áhuga á rannsóknum á íslenskum miðaldabókmenntum, flestir nemendur í þeirri deild koma að utan. En eftir að hafa dvalið í fimmtán ár á 13. öldinni, og skrifað fjórar skáldsögur um Sturlungaöld, er rithöfundurinn þá kannski kominn með nóg?

Einar segist hafa verið varaður við þessu. „Mér var nú sagt það áður en ég fór inn í þetta að það væri mjög erfitt að komast inn í Sturlungu en það væri útilokað að komast út úr henni aftur. Og þannig fór nú fyrir mér,“ segir hann.

„Kannski var það að skrifa þessar fjórar bækur svona tilraun mín til að komst út úr þessu. En ég alla vega hef engin áform um að skrifa fleiri bækur, jafnvel þó að söguefnin séu alltaf svona að detta: Hugsa sér hvað væri hægt að gera með þetta. Ég skal nú bara nefna eitt. Ef einhver annar höfundur er að spá í þetta: Það væri hægt að gera stórkostlega skáldsögu um dætur Snorra Sturlusonar og þeirra örlög. Ef enginn annar gerir það neyðist ég kannski til þess.“