Yfirlýsing fréttastjóra vegna erindis Samherja til stjórnar RÚV

31 Mar Yfirlýsing fréttastjóra vegna erindis Samherja til stjórnar RÚV

Stjórn RÚV vísaði frá þeirri kröfu stjórnenda Samherja að Helgi Seljan yrði áminntur í starfi og meinað að fjalla frekar um málefni fyrirtækisins. Stjórnin gat ekki komist að annarri niðurstöðu enda skýrt að stjórnin, sem Alþingi skipar, á enga aðkomu að ritstjórn. Samherji taldi stjórnendur fréttastofunnar og RÚV, sem sögðu úrskurð siðanefndar engin áhrif hafa á störf Helga, ekki skilja alvarleika niðurstöðu siðanefndar og leitaði því til stjórnarinnar.  Afstaða stjórnenda RÚV mótast fyrst og fremst af því að fréttaflutningur Kveiks og fréttastofunnar var ekki til umfjöllunar hjá nefndinni frekar en störf Helga.  Sú umfjöllun stendur, sem fyrr. Ekki var um að ræða brot á starfsskyldum fréttamannsins. Hvort sem menn telja ummæli Helga Seljan á samfélagsmiðlun viðeigandi eða ekki er fráleitt að slíta þau úr samhengi við þá aðför eða herferð sem fulltrúar Samherja hafa skipulagt gegn frétta- og blaðamönnum sem fjallað hafa um málefni fyrirtækisins síðustu misseri. Aðför sem hefur þann eina tilgang að kæfa gagnrýna umræðu og koma í veg fyrir að fréttamenn geti sinnt starfi sínu. Að skjóta sendiboðann svo upplýsingar skili sér ekki til almennings.
No Comments

Sorry, the comment form is closed at this time.