26 Mar Niðurstaða siðanefndar í máli Samherja á hendur 11 starfsmönnum RÚV
Úrskurður siðanefndar Ríkisútvarpsins vegna kæru Samherja hf. gegn ellefu starfsmönnum RÚV var birtur þann 26. mars. Kæran varðaði færslur umræddra starfsmanna á samfélagsmiðlum en þær voru kærðar til siðanefndarinnar í ágúst og október árið 2020. Niðurstaða nefndarinnar er skýr og ótvíræð varðandi 10 af 11 starfsmönnum RÚV. Þar er kærum ýmist vísað frá nefndinni eða niðurstaðan er að ummælin teljist ekki brot á siðareglum RÚV. Að mati siðanefndarinnar hefur einn starfsmaður, Helgi Seljan fréttamaður, brotið siðareglur RÚV með nánar tilgreindum ummælum á samfélagsmiðlum. Samkvæmt 9. gr. reglna um siðanefnd Ríkisútvarpsins segir að ef niðurstaða nefndarinnar bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli nefndin vekja athygli útvarpsstjóra á því. Ekkert kemur fram í niðurstöðu nefndarinnar um að það eigi við í umræddu tilviki. Niðurstaðan hefur því ekki áhrif á störf Helga Seljan hjá RÚV.
Sorry, the comment form is closed at this time.