Liðlega 3000 jólakveðjur lesnar í Ríkisútvarpinu í ár

23 Dec Liðlega 3000 jólakveðjur lesnar í Ríkisútvarpinu í ár

Liðlega 3000 jólakveðjur voru lesnar í Ríkisútvarpinu í ár og er það svipaður fjöldi af kveðjum og í fyrra. Landsmenn voru heldur langorðaðri í ár en venjulega. Annað hvort lá þeim meira á hjarta en áður eða nýttu sér breytt fyrirkomulag á jólakveðjunum, þar sem í ár var fast verð fyrir hverja kveðju óháð lengd. Það hefði tekið um 14 klukkustundir að lesa allar kveðjurnar samfellt. Jólakveðjulesturinn í heild sinni tók hins vegar um 20 klukkustundir í dagskránni, þar sem tónlist hljómaði inn á milli hátíðarkveðjanna auk hefðbundinna fréttatíma. 

Kveðjurnar voru lesnar að kvöldi 22. desember og allan liðlangan daginn á Þorláksmessu. Sigvaldi Júlíusson þulur hélt utan um lesturinn en auk hans lásu reyndir þulir kveðjurnar; Anna Sigríður Einarsdóttir, Atli Freyr Steinþórsson, Stefanía Valgeirsdóttir, Anna María Benediksdóttir, Guðríður Leifsdóttir og Arna Sigríður Ásgeirsdóttir auk Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra. 

No Comments

Sorry, the comment form is closed at this time.