Tölur frá miðlum

91.000

Fylgja fréttastofu á TikTok

7.200.000

Áhorf á efni á Facebook RÚV

21.000

Fréttir birtar á ruv.is

143

Fréttavaktir á ruv.is

Stafræn þróun og spilari

Á árinu voru grunngögn dagskrárefnis færð í nýtt kerfi sem hlaut nafnið Lísa. Lísa heldur utan um öll lýsigögn dagskrárefnis og var smíðað af hugbúnaðarþróun RÚV. Með nýju kerfi var rekstrarumhverfi einfaldað og gert öruggara. Ferlar voru auk þess einfaldaðir og straumlínulagaðir. Þetta grunnkerfi leysir framtíðarþarfir RÚV og auðveldar frekari þróun spilarans á vef og í öppum til bættrar notendaupplifunar. Á sama tíma var eldra kerfi  aflagt. Þá var vefspilarinn færður í skýið til að auka sveigjanleika og rekstraröryggi hans til framtíðar.

 

Nýtt smáforrit fyrir Android-sjónvarp leit dagsins ljós ásamt því að Apple TV-app var uppfært og betrumbætt. Aðgengi að útvarpsefni var bætt við í uppfærslunni. Notendum var gert kleift að bæta við efni í „mínir þættir“ og beint streymi allra miðla RÚV var gert aðgengilegt (RÚV, RÚV 2, Rás 1, Rás 2 og Rondo).

 

Unnið var að innskráningu fyrir spilara til að gera Íslendingum stöddum erlendis kleift að spila efni sem aðeins hefur verið aðgengilegt innan landamæra Íslands. Innskráningin verður tekin í notkun á fyrri hluta ársins 2024.

 

Nýir ferlar voru útfærðir á Mitt RÚV. Nú er hægt að senda inn gögn með tólf ólíkum ferlum. Nýir ferlar á árinu eru fyrir innsendingar vegna hugmyndadaga RÚV, innsendingar til KrakkaRÚV fyrir hugmyndir ungs fólks að efni, þætti og keppnir tengdar RÚV og ferill fyrir innsendingu og móttöku lýsigagna og STEF- og myndSTEF-upplýsinga fyrir aðkeypt innlent dagskrárefni.

Samfélagsmiðlar

RÚV hélt áfram að vaxa á samfélagsmiðlum árið 2023. Fréttastofan náði til yngri hóps á TikTok og menningar- og dægurefni fékk betri dreifingu á Instagram. Fylgjendum á öllum miðlum heldur áfram að fjölga.

 

91 þúsund manns fylgja TikTok-aðgangi fréttastofu RÚV. Fréttastofan hóf fréttaflutning á TikTok árið 2022 og hefur náð gríðarlegri útbreiðslu, hér heima og erlendis. TikTok er sá samfélagsmiðill sem nær hvað best til yngsta hópsins og fréttastofan hefur meðal annars nýtt sér gagnvirkni miðilsins til að svara spurningum og vangaveltum notenda um málefni líðandi stundar.

 

65 þúsund manns fylgja RÚV á Facebook. Fylgjendum hefur fjölgað mikið undanfarin ár og voru þeir um 25 þúsund árið 2019, þegar RÚV hóf að gera breytingar á miðlun efnis á samfélagsmiðlum.

 

1,6 milljón smellir voru á árinu. Dægurmálum og menningu af vef RÚV er dreift á Facebook-síðu RÚV með góðum árangri. Árið 2023 voru smellirnir á þetta efni á Facebook 1,6 milljón og jukust um rúmlega 30 prósent á milli ára.

 

7,2 milljón áhorfa voru á efni á Facebook á árinu. Áhorf þar eykst um tæplega 11 prósent milli ára.

 

255 prósent vöxtur var á útbreiðslu efnis á Instagram-síðu RÚV milli ára. RÚV hóf að leggja enn meiri áherslu á Instagram á árinu 2023 með því að birta þar stutt brot úr sjónvarpsefni. Það varð til þess að notkun á Instagram jókst mikið, útbreiðsla á efni RÚV meira en tvöfaldaðist og fylgjendum og heimsóknum fjölgaði mikið.

Vefur

 

Nýtt RÚV.is hélt áfram að vaxa á árinu 2023. Frá því að vefurinn fór í loftið í lok árs 2022 hefur þróun hans haldið áfram og stór skref verið tekin í að bæta vef sem þegar hefur verið stórbættur. Stórviðburðir lituðu árið á RÚV.is, bæði hvað varðar framboð á efni og heimsóknir notenda. Jarðhræringar og eldsumbrot á Reykjanesskaga standa upp úr.

 

Þegar litið er á heimsóknatölur alls ársins blasa við þrír turnar. Einn þessara hápunkta var í byrjun júlí þegar eldgos hófst við Litla-Hrút. Sá næsti og jafnframt stærsti var 10. nóvember og dagana á eftir þegar jarðskjálftahrinan undir Grindavík færðist verulega í aukana. Þriðji varð 18. desember, þegar eldgos hófst norðan Grindavíkur.

 

Á þessum dögum fjórfaldaðist fjöldi heimsókna á RÚV.is miðað við meðalfjölda heimsókna á dag yfir allt árið. Þá nærri fjórfaldaðist fjöldi daglegra notenda miðað við meðalfjölda daglegra notenda yfir allt árið.

Þessi tölfræði segir okkur að fréttastofa RÚV og RÚV í heild er enn mikilvægur liður í upplýsingagjöf til almennings, sérstaklega þegar mikið liggur við og almannahagsmunir eru í húfi.

 

Á nýjum vef gefst fréttamönnum RÚV tækifæri til þess að flytja fréttir af atburðum í rauntíma með því sem við köllum fréttavakt (e. liveblog). Þetta verkfæri hefur reynst okkur gríðarlega vel til þess að koma nýjustu vendingum hratt og örugglega til notenda. Fréttavaktir eru nú hluti af fyrsta viðbragði fréttastofunnar þegar mikið liggur við og óvæntir atburðir henda. Árið 2023 héldum við úti 143 fréttavöktum á vefnum þar sem fréttum var streymt til notenda.

 

Þegar á heildina er litið eru fréttavaktir aðeins lítill – en mikilvægur – hluti af þjónustunni á vefnum. Á árinu birtum við meira en 21.000 fréttir af innlendum og erlendum vettvangi, af menningu og dægurmálum og af íþróttum.

 

Mestur þungi fer í framleiðslu innlendra frétta sem eru ríflega 38% af öllum fréttum sem við segjum á vefnum. 23% frétta eru af erlendum vettvangi. Ríflega 14% eru íþróttafréttir og nærri 10% fjalla um menningu og dægurmál.