Framleiðsla RÚV árið 2022

Árið 2023 var mjög fjölbreytt þegar kom að vönduðu dagskrárefni á RÚV. Við fórum í loftið með nýja þætti í bland við þætti sem margir hverjir hafa verið á dagskrá um árabil og haldið stöðugum vinsældum. Árið hófst á því að 50 ára sögu Vestmannaeyjagossins voru gerð skil í máli og myndum. Engan óraði fyrir því að síðustu mánuði ársins yrði athygli heimsins á Grindavík þar sem í annað skipti á 50 árum þurfti að rýma heilt bæjarfélag til þess að forða íbúum þess frá eldgosi. Jarðhræringarnar sem hófust við Grindavík þann 10. nóvember settu mikinn svip á dagskrá síðustu tvo mánuði ársins.

Fréttatengt efni

Fréttatengt efni var vandað að venju. Kastljós fór þar fremst í flokki  dægurmálaumræðu, stjórnmál, efnahagsmál og samfélagsleg mál ásamt sterkum menningaráherslum í forgrunni. Ritstjóri var Baldvin Þór Bergsson og með honum voru Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir og Bergsteinn Sigurðsson. Þau fengu liðsauka þegar leið á árið í Viktoríu Hermannsdóttur og Óðni Svan Óðinssyni. Áfram var lögð áhersla á málefni líðandi stundar og klippt innslög í bland við snörp viðtöl í beinni útsendingu.

Kveikur hélt áfram að kafa djúpt í erfið efni, afhjúpa fréttatengd mál og fjalla um misbeitingu valds. Þær breytingar urðu á að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri kvaddi RÚV eftir áralangt starf og við ritstjórn tók Ingólfur Bjarni Sigfússon. Vönduð umfjöllun um áhugaverð málefni unnin með aðferðum rannsóknarblaðamennsku voru mörg og vöktu nokkur alveg sérstaka athygli. Má þar nefna sílikonpúðamálið, bresti í kerfinu fyrir börn í vanda, á vígaslóð í Úkraínu, hoppukastalaslysið, oxycontin og umhverfisslys í Patreksfirði. Loks var áhrifaríkur þáttur um hamfarirnar í Grindavík.

Af öðrum fréttatengdum þáttum má nefna að teknar voru stórar ákvarðarnir um Silfrið sem hefur um árabil verið á dagskrá á sunnudagsmorgnum í umsjón Egils Helgasonar. Eftir að hafa á sinn einstaka lipra hátt séð um þáttinn frá árinu 2000, fyrst á Stöð 2 og svo á RÚV, ákvað Egill að láta gott heita og afhenda öðrum keflið. Sigríður Hagalín Björnsdóttir hélt áfram sem einn umsjónarmanna og með henni tóku við taumunum þeir Bergsteinn Sigurðsson og Valgeir Örn Ragnarsson. Silfrið færðist yfir á mánudagskvöld eftir eilítið styttan fréttatíma frá og með 25. september. Það má segja að þessi tímasetning hafi reynst hin besta því áhorfið hefur aukist jafnt og þétt eftir að þátturinn var fluttur af sunnudögum á mánudaga og áfram eru umfjöllunarefnin helstu pólitísk átök líðandi stundar og samfélagsmál sem brýnt erindi eiga við almenning.

Þann 28. nóvember hóf göngu sína nýr umræðuþátturinn Torgið sem er ætlað að fara út í samfélagið og ná til fólksins í landinu, varpa fram spurningum og kalla eftir svörum frá þeim sem þau eiga að veita. Torginu er ætlað að tala um málefnin sem rædd eru af kappi á kaffistofum landsins. Eldsumbrot í Grindavík voru nýhafin þegar fyrsti þátturinn fór í loftið og lá því beinast við að bjóða Grindvíkingum til samtals á Torginu.

Menning og mannlíf

Af sinni alkunnu snilld leiddi Gísli Einarsson kraftmikinn hóp samstarfsfólks í Landanum sem fjallaði um alls kyns hundakúnstir, kynjaverur, konur, kvár, menn og málefni. Landinn býður sem fyrr upp á frábær innslög og ferðast um landið allt og gefur innsýn í allt undir sólinni. Nálgunin er fersk og fjölbreytt enda leidd af góðum og vönum hópi, þeim Eddu Sif Pálsdóttur, Þórgunni Oddsdóttur, Hafsteini Vilhelmssyni, Elsu Maríu Guðlaugs-Drífudóttur og við hópinn bættist síðla árs Þórdís Claessen.

Söngvakeppnin 

Söngvakeppnin og systurþættir hennar fóru af stað um miðjan febrúar og var gefið forskot á söngvasæluna 28. janúar þegar lögin og flytjendur voru kynnt í sérstökum sjónvarpsþætti. Þar með hófst  niðurtalning fyrir hina einu sönnu Eurovision, sem af áhorfi að dæma er enn einn stærsti og vinsælasti sjónvarpsviðburður ársins. Árið 2023 var Söngvakeppnin send út úr stúdíói Gufunesi og tókst mjög vel. Tíu lög öttu þar kappi og líkt og áður voru tvö undankvöld með glimmeri og glamúr, það fyrra 18. febrúar og það síðara 25. febrúar. Sigurvegarinn var krýndur með pomp og prakt í úrslitaþættinum 4. mars. Eftir æsispennandi keppni bar Diljá sigur úr býtum með laginu Power.

Kynnar voru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, Unnsteinn Manúel og Sigurður Þorri Gunnarsson.

Þættirnir #12 stig og Alla leið voru sem fyr niðurtalningin að stóru stundinni í umsjá Felix Bergssonar. Var þar farið yfir þau lög sem Ísland keppti við það árið.

Söngvakeppni evrópsku sjónvarpsstöðvanna var að þessu sinni haldin í bítlaborginni sjálfri, Liverpool á Englandi. Sigurður Þorri Gunnarsson gerði upphitunarþætti, Beðmál í borginni, og þóttu þeir ferskir og skemmtilegir. Íslenska lagið keppti á fyrra undanúrslitakvöldinu 9. maí. Það komst ekki í lokakeppnina sem haldin var 13. maí. Frændur okkar Svíar unnu með og því verður keppnin næst haldin í Malmö í Svíþjóð á 50 ára afmælisári Waterloo með ABBA.

Spurningakeppnir

Að vanda hófst nýja árið með spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, og var hún sem áður undir stjórn Kristjönu Arnarsdóttur. Að lokinni spennandi viðureign í útvarpi tóku við sjónvarpsútsendingar þar sem átta lið kepptu til úrslita. Eftir æsispennandi viðureignir mættust MR og FSU í lokaþættinum sem að þessu sinni var sendur út frá í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. Jóhann Alfreð Kristinsson og Laufey Haraldsdóttir voru spurningahöfundar og dómarar.

Rás 2 átti 40 ára afmæli á árinu og af því tilefni gerði RÚV nokkra spurningaþætti þar sem rifjaðar voru upp helstu stjörnur áttunnar, níunnar, núllsins, ássins. Að auki var sérstakur jólaþáttur, Með á nótunum, þar sem tíska, tíðarandi, fréttir, tónlist og margt fleira þvældist fyrir keppendum. Umsjónarmenn voru Salka Sól, Helga Margrét Höskuldsdóttir, Sigurður Þorri Gunnarsson og Guðrún Dís Emilsdóttir.

Kappsmál hefur stimplað sig hressilega inn og er einn vinsælasti skemmtiþátturinn á RÚV. Þátttakendur leikar sér þar að fínni blæbrigðum íslenskunnar. Í fimmtu þáttaröð voru teknir upp nýir leikir þar sem stafsetning og orðaleikir voru viðfangsefnið. Hinn sívinsæli viðtengingarháttur þátíðar í nútíð fleirtölu og efsta stigi tók á sig ýmsar undarlegar myndir. Enn og aftur voru þræluðu Bragi Valdimar Skúlason og Björg Magnúsdóttir keppendum í gegnum frumskóga ástkæra ylhýra tungumálsins.

Viðburðir og beinar útsendingar 

Að vanda eru margir viðburðir á dagskrá RÚV á ári hverju sem og beinar útsendingar. Íslensku bókmenntaverðlaunin, Gríman, Eddan og íslensku menntaverðlaunin fara þar fremst í flokki, svo og íslensku tónlistarverðlaunin. Svo eru það fastir viðburðir sem yngri kynslóðin stendur fyrir eins og Skrekkur, Skólahreysti, Söngkeppni Samfés, Sögur, verðlaunahátíð barnanna sem var óvenju vel heppnuð í ár. 

 

Þann 29. Maí var óvæntu ákalli svarað þar sem Ellen Kristjáns tónlistarkona í samstarfi við fjölmarga tónlistarmenn og Rauða Krossinn vakti athygli á ógnvekjandi ópíóðafaraldri á landinu. Útsendingin Vaknaðu! tókst vonum framar og í samstarfi við Hörpu var henni komið á, á mettíma.  Gekk sú söfnun vel og söfnuðust yfir 40 milljónir króna sem nota á til þess að auka meðvitund um skaðsemi ópíóða og þau skaðaminnkandi úrræði sem í boði eru.  

 

En stóri söfnunarþáttur haustsins var að þessu sinni helgaður Grensásdeildinni og fékk útsendingin það volduga nafn Söfnunarþáttur fyrir Grensás, gefum byr undir báða vængi. 

 

Fjölmargir tónleikar voru ýmist teknir upp eða sýndir beint og var Tónaflóð á menningarnótt stærsti viðburðurinn. Aðrir fastir tónleikaliðir fengu sitt pláss í dagskránni, en þar má nefna Eyjatónleika, Laufey og Sinfó, Aldrei fór ég suður, Bræðsluna, Sigga og Siggu með Sinfó og Iceland Airwaves. Samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt áfram í því fína formi sem áður var og voru tónleikar haustsins tileinkaðir kvikmyndatónlist. Sinfóníukvöld í sjónvarpi og Græna röðin eru svo hápunktar klassísku tónlistarveislu þeirrar sem RÚV býður upp á ári hverju. 

 

Nokkur uppistönd þekktra grínara voru sýnd árinu og má þar nefna Loksins eftirhermur – Sóla Hólm, Allt í góðu hér með Snjólaugu Lúðvíksdóttur. Við sýndum auk þess nokkur leikrit, meðal annars Góðan daginn Faggi og Blátt áfram Björk.

Jóladagskrá 

Árið 2023 var jóladagskráin fjölbreytt á RÚV. Jólastjarnan var í fyrsta sinn kynnt á RÚV í þremur þáttum og tókst afburðavel, þar sem ungur einstaklingur var valinn til þess að koma fram á hinum árlegu tónleikum Björgvins Halldórssonar. Ný íslensk stuttmynd, með þjóðsögulegu ívafi var frumsýnd, Þið kannist við…- Sagan um jólaköttinn. Þátturinn átti upphaflega að vera barnaefni, en þegar myndin fékk hárin til að rísa á fullorðnum áhorfendum var henni fundinn staður í kvölddagskrá. Jólatónleikaflóðið var mjög fjölbreytt í ár og má þar nefna Jólagesti Björgvins, Julevenner Emmsjé Gauta, bæði ritskoðuð og óritskoðuð útgáfa. Sérstakur jólaþáttur af Fyrir alla muni í umsjón Viktoríu Hermannsdóttur og Sigurðar Helga Pálmasonar var konfekt fyrir þá sem elska gamlar jólahefðir.   Jól í Norðurljósum skartaði nokkrum helstu söngdívum þessa lands þeim Ellen Kristjáns, Kristjönu Stefáns, Guðrúnu Gunnars og Röggu Gröndal. Friðarstund í Fríkirkjunni var sýnd og til þess að rifja upp hvernig halda skuli almennilegar jóla- og áramótaveislur var Veislan með tvo þætti yfir hátíðarnar, þætti um jól og áramót. Nýr umsjónarmaður Veislunnar, Sverrir Þór Sverrisson var þar í slagtogi með  Gunnar Karli sem reiddi fram hvern réttinn á fætur öðrum á meðan Sverrir undirbjó gillið. 

 

Hinir hefðbundnu frétta- og íþróttaannálar voru á dagskra um áramótin og enn og aftur sló Áramótaskaupið í gegn með sínum gamansömu snúningum á fréttir og atburði líðandi árs. Að þessu sinni voru það Hraðfréttamennirnir Benedikt Valsson og Fannar Sveinsson sem leikstýrðu og framleiddu.  Messur og menningarannáll prýddu svo auk þess dagskrána áður en kirkjuklukkur hringdu inn árið 2024. 

Íslenskar þáttaraðir  

RÚV framleiddi marga íslenskar þáttaraðir bæði innanhúss sem og keypti af sjálfstæðum framleiðendum. Má þar nefna Fílalag í umsjá Bergs Ebba og Snorra Helgasonar en í þáttunum gæddu þeir hlaðvarpsþætti sína nýju lífi með myndum, tísku og allskyns stórkostlegu myndefni sem fannst í dýflissum safnadeildar RÚV. Menningarþátturinn Opnun fylgdi sex listamönnum sem undirbjuggu samsýningu sem síðan sýndu þau verk sem þeir fengust við. Önnur þáttaröðin af Dagur í lífi var sýnd á árinu og um páskana fór af stað hin eftirminnilega þáttaröð Tvíburar þar sem Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir fylgdist með fæðingu tvíbura og þeim áskorunum, leik og gleði sem fylgir því að eignast og ala upp tvíbura. Þáttaröðin vinsæla Eyðibýli gaf innsýn inn í yfirgefin hús sem vekja forvitni á ferð um landið. Þáttaröðin Mannflóran eru heimildaþættir sem fjalla um fjölmenningu í íslensku samfélagi og tekur á spurningum eins og hvernig hefur þjóðarímyndin breyst með auknum fjölda fólks af erlendum uppruna. Chanel Björk Sturludóttir varpaði þar ljósi á erfiðleika þá sem fólk af erlendum uppruna mætir í daglega lífinu í íslensku samfélagi og kostina sem felast í fjölmenningu.

 

Aðrir þættir sem vert er að nefna eru Baráttan er ekki búin eftir Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur sem unnin var samhliða Hinsegin dögum. Aðrir fastir liðir eru þættir eins og Með okkar augum en þrettánda þáttaröðin var sýnd á árinu. Fleiri Hvunndagshetjur voru auk þess kynntar í samnefndum þáttum og til þess að mæla og meta hvernig allar þessar íslensku hetjur eru, var framleiddur þátturinn Svona erum við…- en þar skyggndist Gunna Dís inn í sálarlíf þjóðarinnar með því að draga upp myndir af viðhorfi og hegðun landans eftir mælitækjum markaðsrannsókna. Hvað hreyfir við okkur og hvernig erum við í raun og veru?

 

Og loks þótti nú rétt að gera 40 ára afmæli Rásar 2 hærra undir höfði í sjónvarpi voru þættirnir Fyrst og fremst sýndir þar sem 10 af uppáhaldslögum þjóðarinnar sem valin höfðu verið í kosningu á Rás 2 voru til umfjöllunar.

Fastir liðir

Fjörið og fjaðrafok fólksins hélt áfram eins og fyrri ár í þætti Gísli Marteins og Berlindar Festival, Vikunni. Fram komu og fjölmargir í sjónvarpssal á föstudagskvöldum og skemmtu áhorfendum með umræðum um mál vikunnar á gamansömum nótum sem fléttuð eru inn í líf viðmælenda. Vikan leggur mikinn metnað í að frumflytja íslenska tónlist og var árið 2023 þar engin undantekning. Margar og fjölbreyttar hljómsveitir, einleikarar og allt þar á milli fluttu nýja tónlist og settust á skörina hjá Gísla.

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir hin frábæra sjónvarpskona fékk til sín góða gesti í Okkar á milli þar sem rædd voru hjartans mál af mikilli einlægni. Og ekki má gleyma Kiljunni sem er fyrir löngu orðinn ómissandi þáttur í lífi bókaþjóðar. Egill Helgason ásamt góðum hópi gagnrýnanda fjallaði þar um áhugaverðar nýútkomnar bækur, heimsótti rithöfunda um land allt og fór yfir það sem helst kemur út á prenti.

Sjónvarpið í Spilara RÚV

Á spilara RÚV er boðið upp á fjölbreytt sjónvarpsefni sem hægt er að njóta þegar hentar og þar sem hentar. Þar er að finna allt efni úr dagskrá sjónvarpsins auk valins efnis úr safni. Á spilaranum er gott úrval erlendra leikinna þáttaraða frá Norðurlöndunum, Bretlandi og víðar um leið og íslenskt efni er alltaf í fyrirrúmi jafnt skemmtiefni, leikið efni og heimildarefni. Áhorf á sjónvarpsefni í spilara RÚV, á vefnum, í öppum í þjónustum símafyrirtækjanna heldur áfram að aukast ár frá ári. Helsta breytingin frá árinu 2022 var jafnari nýting yfir árið. Efni var sótt í spilarann jafnt um sumar og um vetur.
Með spilaranum gefst tækifæri til að draga fram þemu og viðeigandi efni við ýmiskonar tilefni. Dæmi um þemu sem boðið var upp á árið 2023 eru grín og gamanþema, Innblástur, geðheilsa og líðan, 50 ár frá gosi í Vestmannaeyjum, Vika6, stríð í Úkraínu, Hollywood, #BlackLivesMatter, Páskahám, Kósíkvöld fyrir fjölskylduna, Náttúra og umhverfi, Sjómannadagurinn, Kvennaverkfall, Reykjavík Pride, alþjóðadagur Alzheimer, 40 ára afmæli Rásar2, Íslenskt bíósumar, Grænland, evrópskar kvikmyndir og leikið pólskt efni.

 

Barnaefni var mest sótt á spilara RÚV árið 2023 og voru teiknimyndirnar um hvolpinn Blæju vinsælastar ásamt öðrum teiknimyndum og Stundinni okkar. Leiknar þáttaraðir, jafnt innlendar sem erlendar, voru einnig mikið sóttar. Má þar nefna Aftureldingu, írsku spennuþáttaröðina Kæfandi ást (Smother), norsku þættina Útrás, bresku sakamálaþættina Hamingjudalur (Happy Valley), bresku spennuþættina Grafin leyndarmál (Unforgotten) og íslensku þáttaröðina Hvítar lygar. Einnig naut íslenskt heimildarefni mikilla vinsælda. Þar má nefna þáttaraðirnar Tvíburar, Stormur, Skeggi og Skaginn og heimildarmyndirar Sundlaugasögur, Atomy, Baráttan um Ísland, Sovíet Barbara og Konungur Fjallanna. Þegar boðið er upp á íslenskar kvikmyndir njóta þær undantekningalaust vinsælda. Sýndar voru meðal annars myndirnar Skjálfti, Svar við bréfi Helgu, Abbababb!, Berdreymi og Dýrið. Fastir liðir RÚV nutu einnig vinsæla á spilara. Má þar nefna Vikuna með Gísla Marteini, Áramótaskaup, Með á nótunum, Kveik, Kappsmál, Landann, Okkar á milli, Kastljós, Söngvakeppnina, Dag í lífi, Kiljuna og Silfrið. Mest var horft á spilarann 1. janúar og 5. mars. Þá voru Áramótaskaupið og Úrslit Söngvakeppninnar mest sótt.
Í upphafi árs var áhersla á efni sem léttir lundina. Grínefni, hugljúft efni sem veitir innblástur og efni um geðheilsu og líðan. HM karla í handbolta var á sínum dag og gerði eflaust nokkuð til að lyfta lundinni í skammdeginu. Einnig var í boði efni úr safni RÚV í tilefni 50 ára frá gosi í Eyjum.
Í sjöttu viku ársins er Vika6 þar sem vakin er athygli á kynheilbrigði og góðum samskiptum. Á spilara RÚV mátti finna innlent og erlent sjónvarpsefni því tengdu.

 

Í febrúar og mars voru Söngvakeppnin og Eurovision áberandi á spilaranum. Á sama tíma var einnig í boði úrval erlendra heimildarmynda. Í febrúar var áhersla á Úkraínu vegna átakanna þar og í spilara RÚV voru meðal annars myndirnar Mariupol Unlost Hope, Against all Odds, Pútín og Zelensky forseti. Í mars var boðið upp á úrval mynda og heimildarþætti um Hollywood í tilefni Óskarsverðlaunanna. (JFK, Pig, Dallas Buyers Club, Saga kvikmyndanna, Ennio, Traust í blindni).

 

Árið 2023 voru tíu ár frá því að baráttubylgja sem notar myllumerkið #BlackLivesMatter hófst. Að því tilefni var þema á spilara RÚV með úrval heimildarmynda og leikinna mynda sem fjölluðu um baráttu svartra í Bandaríkjunum og Bretlandi. (Frelsisbarátta svartra Bandaríkjamanna, Ég er ekki negrinn þinn, Andóf í fjandsamlegu umhverfi, Lítil þúfa, Lífshlaup í tiú myndum).

 

Um páskana var gott úrval leikinna þáttaraða til að hámhorfa í sumarbústaðnum (Atburðir við vatn, Dansmeyjar, Horfin, Útrás III ofl.), gæðaefni fyrir fjölskyldur og Íslensku myndirnar Berdreymi og Á ferð með mömmu. Sýningar á þáttaröðinni Afturelding hófst um páskana við góðar undirtektir. Áhorf á Aftureldingu í spilara var gott út árið og endurspeglar það hvernig fólk nýtir sér æ meira kosti þess að geta nálgast efni á spilara á öðrum tímum en efnið er á dagskrá í Sjónvarpinu.

 

Þegar leið fram á vorið í maí var í boði efni um vorverkin í garðinum og efni um náttúru og umhverfi. Á Alþjóðlegum degi umhverfismála (5. júní) var á spilara þema um náttúru- og umhverfismál.

 

Efni um konur og baráttu kvenna var lyft upp á Alþjóða baráttdegi kvenna 8. mars. Fleiri tilefni gáfust til að bjóða viðeigandi efni eins og til dæmis á Sjómannadeginum, 17. júní, Kvenréttindadeginum, í kringum Reykjavík Pride, í tilefni kvennaverkfalls, á degi íslenskrar tónlistar, á alþjóðadegi Alzheimer og svo framvegis.
Í júní hófust þættirnir Með á nótunum í tilefni 40 ára afmælis Rásar 2. Samhliða þeim var þema í dagskrá og á spilara í tengslum við hvern áratug sem var til umfjöllunar. Þá var boðið upp á bíómyndir, dægurmálaþætti og menningarþætti sem tengdust áttunni, níunni, núllinu og ásnum.

 

Í júlí var í spilaranum úrval íslenskra bíómynda undir yfirskriftinni Íslenskt bíósumar á meðan HM kvenna í fótbolta var áberandi í dagskrá Sjónvarps. Í ágúst var boðið upp á efni í tengslum við Reykjavík Pride (Hinsegin daga). Í september var þema um frjósemi meðgöngu, fæðingar og börn um leið og í boði var úrval efnis tengt kynfræðslu. Einnig var sérstakt Grænlandsþema og hægt að nálgast í spilara eldri umfjallanir um hátíðina RIFF í gegnum árin í tilefni þess að hátíðin var X ára.

 

Í október tók við hrekkjavökuþema og leikið pólskt efni. Í nóvember voru 60 ár frá upphafi gosins sem mótaði Surtsey og að því tilefni var heimildarmynd um Surtsey frumsýnd ásamt því að efni úr safni var gert aðgengilegt á spilara. Í nóvember var úrval evrópskra kvikmynda á spilara.
Í desember var hefðbundið jólaþema, jólahám og hátíðardagskráin eins og hún leggur sig. Rúmlega 50 leiknar þáttaraðir og um 40 kvikmyndir voru aðgengilegar á spilara RÚV yfir hátíðarnar.

Íslenskar heimildarmyndir 

RÚV hefur lengi verið leiðandi á sviði íslenskra heimildamynda og heimildaþáttaraða og á það við klassískar myndir, listrænar, fróðlegar, frumlegar og fjölbreyttar. Þetta ár var ekki nein undantekning á því og var úrvalið fjölbreytt.

 

Heimildamyndárið 2023 byrjaði með glans með átta þátta röðinni Stormur í umsjón Jóhannesar K. Kristjánssonar og Sævars Guðmundssonar um Covid faraldurinn. Þó að þjóðin hafi haft ákveðin þreytueinkenni eftir Covid árin á undan þá sást það ekki á áhorfi á þáttaröðina en það var með afbrigðum gott. Ímynd var svo heimildaþáttaröð um íslenska ljósmyndara frá upphafi í leikstjórn Hrafnhildar Gunnarsdóttur sem sýndi lífið á bakvið linsuna. Rithöfundaröð okkar státaði af myndum um Auði Haralds og sagnameistarann Einar Kárason. Hringfarinn, Kristján Gíslason og kona hans Ásdís Rósa Baldursdóttir eyddu Covid árunum í að ferðast um heimaslóðir á mótorhjóli og sýndi RÚV afraksturinn í þremur þáttum. Fótboltaáhugafólk fékk svo einstaklega vandaða þætti um gullaldarár ÍA en þáttaröðin Skaginn var á dagskrá á haustmánuðum og fjallaði um uppgang þess liðs og áratugabaráttu liðsins við KR um efsta sætið. Fyrir þá sem eru orðnir ráðsettir, miðaldra og hættir að fara á djammið rifjuðu Andri Freyr og Dóra Takefusa upp dökkar og dimmar eða góðar og glaðlegar stundir frá næturlífinu í þáttunum Tjútt sem færðu okkur allt frá Glaumbæ til Kaffibarsins.

 

 

Hvað varðar stakar heimildmyndir voru það Sundlaugasögur, Stórmeistarinn í tveimur hlutum, Er ást um Þorvald Þorsteinsson heitinn. Myndin Magnús og Jóhann var tónleikamynd í bland við heimildamynd. Um páskana sýndum við tveggja þátta mynd um Skeggja Ásbjarnarson sem unnin var í framhaldi af hlaðvarpsþáttum Þorsteins J. og voru á dagskrá Rásar 1 árið 2022. Aðrar myndir voru Tímar tröllanna, La Chana, Er ekki allir sexý? Sem var saga af hljómsveitinni Síðan skein sól. Rapparar fengu svo hina einlægu Mold Emmsjé Gauta og má svo nefna Rafhring Íslands, Atomy, Baráttuna um Ísland í tveimur hlutum um uppgjör eftir bankahrunið. Útrýming eða uppreisn í leikstjórn Sigurjóns Sighvatssonar fjallaði um loftslagsvá, Konungur fjallanna um Kristinn í Skarði fjallkóng. Góður strákur og vel upp alinn var blanda af heimildamynd og tónleikamynd um listamanninn Prins Póló sem lést eftir erfið veikindi á árinu. Surtsey land verður til gaf okkur innsýn inn í nýtt líf á nýrri eyju, sýnd þann 14. Nóvember í tilefni þess að 60 ár voru frá því að Surtseyjargosið hófst. Maður margra tóna um Jón Ólafsson tónlistarmann var svo í jóladagskránni og loks hin áhrifamikla Sovíet Barbara um listamanninn Ragnar Kjartansson og stórmerkilega sýningu hans sem var nýopnuð í Rússlandi þegar innrásin í Úkraínu hófst.

Leiknir íslenskir þættir 

Að vanda sinnir RÚV leiknum þáttum af alúð. Fjórða þáttaröð af Kanarí var á dagskrá í janúar en stóra leikna þáttaröðin árið 2023 var frumsýnd um páskana – þáttaröðin Afturelding sem framleidd var af ZikZak eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson og Halldór Laxness Halldórsson. Þættirnir átta segja sögu útbrunninnar handboltastjörnu sem tekur við þjálfun kvennaliðs Aftureldingar eftir margra ára óreglu. Á gömlu heimaslóðunum þarf gamla kempan að horfast í augu við breytta tíma, fjarlæga dóttur sína, veðmálabrask og síðast en ekki síst nýja kynslóð kvenna sem kalla ekki einu sinni ömmu sína, ömmu sína. Með aðalhlutverk fara Ingvar E. Sigurðsson, Svandís Dóra Einarsdóttir og Saga Garðarsdóttir. Þættirnir fóru firnavel ofan í landsmenn og fengu mikla umfjöllun og áhorf.

Tímamót og sögulegir viðburðir 

Þau miklu tímamót urðu í janúar 2023 að 50 ár voru liðin frá eldgosinu í Heimaey. Af því tilefni dustaði RÚV rykið af nokkrum gömlum gosmyndum og myndefni sem til var í safni sem hafði verið framleitt gosárið 1973. En á þeim tíma var ekki ljóst að stórir sögulegir atburðir væru í vændum áður en árið var liðið. Rétt eins og 23. Janúar 1973 verður alltaf greyptur í söguminni þjóðarinnar mun 10. Nóvember verða annar slíkur hamfaradagur. Undir miðnætti þess dags þurftu íbúar Grindavíkur að taka saman föggur sínar og flýja í skjóli myrkurs heimili sín vegna gríðarlegra jarðhræringa á Reykjanesi. Jarðskjálftahrinur höfðu haldið íbúum vakandi vikum og mánuðum saman og tvö eldgos á skaganum höfðu talið vísindamönnum trú um að nú væri gosbeltið á þeim stað að vakna. Eldgos hófst svo 18. Desember og sér því miður ekki fyrir endann á þeim hamförum.

Íslenskar kvikmyndir 

Það er alltaf vel þegið þegar íslenskar kvikmyndir eru sýndar á RÚV og árið 2023 voru þær má mögulega gera að því skóna að met hafi verið slegið í sýningu íslenskra kvikmynda. Alls voru á fjórða tug íslenskra kvikmynda á dagskrá RÚV árið 2023.

 

RÚV hefur lagt sig fram um að styðja við íslenska kvikmyndagerð og hefur að vanda keypt sýningarréttinn af flestum þeim myndum sem framleiddar eru faglega. Margar íslenskar myndir eru orðnar klassík og því eru nokkrar þeirra sýndar amk einu sinni á ári. Má þar nefna Stellu í Orlofi og svo ekki sé minnst á Með allt á hreinu.

 

Aðrar myndir voru verðlaunamyndin Dýrið, Andið eðlilega, Skjálfti, Undir trénu, Wolka, Benjamín Dúfa, Berdreymi, Djúpið, Útlaginn, Lilja, Blossi, Englar alheimsins, Böðullinn og skækjan, Sódóma Reykjavík, Óskabörn þjóðarinnar, Fíaskó, Foreldrar, Íkingut, Stella í framboði, Dís, Kona fer í stríð, Fyrir framan annað fólk, Tryggð, París norðursins, Reykjavík, Þrestir, Héraðið, Ég man þig, Húsið, Draugasaga, Abbabbab, Eiðurinn og Undir halstjörnu. Auk þess voru sýndar stuttmyndirnar Hreiðrið, Selshamurinn og Dunhagi 11.

Erlend dagskrá

Erlend innkaup og dagskrársetning tekur í auknu mæli mið af sérstökum áherslupunktum þar sem lagt er upp með sérvalin viðfangsefni sem talin eru eiga sérstakt erindi við þjóðina. Við beindum þannig sjónum okkar að mannréttindum, hnatrænni hlýnun sem og jákvæðni og gleði í dimmasta mánuði ársins, janúar. Stríðinu í Úkraínu voru gerð sérstök skil auk þess sem sem sérstakur fókus var á Rússlandi, þ.á.m. í seríu frá DR, Skuggastríð (Skyggekrigen) þar sem norrænir rannsóknarblaðamenn rannaka hvernig njósnum Rússa er háttað á Norðurlöndum.

 

Heimildaseríur frá BBC með David Attenborough í fararbroddi prýddu dagskránna á vormánuðum. Síðari hluta júní rifjuðum við upp 50 ára sögu Glastonbury tónlistarhátíðarinnar. Einnig var sýnt beint frá krýningu Karls þriðja konungs.

 

Maí og júní voru tileinkaðir hnattrænni hlýnun. Þættirnir Staðreyndir um loftslagsbreytingar (Climate Change the Facts), Norðurheimskautið: Ár á ísnum (Artic Drift: A year in the Ice) og 100 milljarða plastvandamál (The 100 Billion Plastic Problem).

 

Mikið úrval var af leiknu norrænu efni sem er afrakstur samnorræna samstarfi okkar í N12. Þáttaraðir byggðar á sönnum atburðum, voru þar áberandi, sbr. danska serían Carmenrúllur (Carmen Curlers) sem rekur hvernig danska uppfinningin Carmen-rúllurnar sigruðu heimin á6. Og 7. áratug síðustu aldar. Sænska serían Veðmálshneykslið (Spelskandalen) byggir á sannri sögu sem skók sænska íþróttaheiminn á tíunda áratugs síðusta aldar. Einnig leit dagsins ljós þriðja og jafnframt síðasta sería af Útrás (Exit), þar sem vinirnir fjórir eiga ekki sjö daganna sæla.

 

Breskt leikið efni heldur áfram að mælast með gott áhorf. Þættir á borð við: Séra Brown, Veru, Barnaby ræður gátuna og Ljósmóðirin. Sjö ár bið var síðan á enda þegar þriðja serían af Hamingjudalnum (Happy Valley) leit dagsins ljós og aðdáendur urðu svo sannarlega ekki fyrir vonbriðum.

 

Við frumsýndum einnig sakamálaseríur frá Portugal, Suður (Sul) og tvær pólskar seríur, Kennarinn (Belfer) og Ymur (Klangor)

Nýr dagskrárstjóri og breytingar á mannauði

Á vormánuðum hætti Þröstur Helgason sem dagskrárstjóri Rásar 1 eftir farsælt starf í tæpan áratug. Fanney Birna Jónsdóttir var ráðin dagskrárstjóri. Hún hefur starfað víða í heimi fjölmiðlanna, meðal annars á dagskrárdeild sjónvarps. Þrír nýir dagskrárgeraðrmenn gengu til liðs við rásina; Þóra Tómasdóttir kom inn í fréttaskýringaþáttinn Þetta helst, Arnhildur Hálfdánardóttir kom frá fréttastofu RÚV í Samfélagið og Melkorka Ólafsdóttir var ráðin í menningarþáttinn Víðsjá en Tómas Ævar Ólafsson leysir hana tímabundið af á meðan hún er í orlofi.

Hlaðvarpsritstjórn

RÚV hélt áfram að efla miðlun hljóðefnis í ólínulegri dagskrá. Bætt var formlega í hóp þeirra sem hafa það sérstaklega á sínum höndum að framleiða efni í hlaðvarp. Sérstök áhersla var lögð á styttri þáttaraðir og framleiddir um þrjátíu titlar sem rötuðu bæði á Spilara RÚV og hlaðvarpsveitur, auk fjölda annarra sem aðeins var veitt inn á spilara vegna takmarkanna utanaðkomandi veitna.

Vinsælustu ólínulegu þáttaraðir ársins voru Árið er, sem fór í fyrsta skipti á hlaðvarpsveitur vegna afmælis Rásar 2; Myrtu þeir Eggert, sem var spiluð yfir 100 þúsund sinnum þrátt fyrir að vera aðeins tveir þættir og Hrífunes sem fékk um 150 þúsund hlustanir. Ýmsir fastir liðir í dagskrá Rásar 1 og 2 bættu áfram við sig hlustun á ólínulegum vettvangi og dagskrárgerðarmenn léku sér með formið. Þar ber helst að nefna Gervigreindar-Lestina, frumraun í íslensku útvarpi þar sem þremur línulegum þáttum Lestarinnar á Rás 1 var skipt upp í sex þætti fyrir streymisveitur og lokahnykkurinn var fyrsti íslenski hljóðvarpsþátturinn framleiddur af gervigreind.

Mikill meirihluti hlustana á hlaðvörp RÚV fer fram í gegnum Spilara RÚV á vef og í appi. Yfirstandandi betrumbætur á þessum vettvangi munu gera hlaðvarpsritstjórn og rásunum tveimur kleift að efla þjónustu við hlustendur til muna, jafnt línulega sem ólínulega.

Útvarpsleikhúsið

Útvarpsleikhúsið hefur heyrt undir hlaðvarpsritstjórn frá árinu 2022 og einbeitir sér fyrst og fremst að hlaðvarpsvænum leiknum þáttaröðum. Þetta er í takt við þróunina í nálægum löndum. Stefnt er á að framleiða árlega tvær til fjórar þáttaraðir á vegum Útvarpsleikhússins á ári.

Tvær þáttaraðir voru frumfluttar árið 2023. Um páska var Sjálfsalinn, eftir leikhópinn Kriðpleir, frumfluttur.  Sjálfsalinn er framhaldsverk í fjórum hlutum og fjórða verkefni Kriðpleirs á vegum Útvarpsleikhússins. Verkinu var afar vel tekið og það fékk góða hlustun í spilara RÚV og á hlaðvarpsveitum. Sjálfsalinn var tilnefndur til hinna virtu Prix Europa-verðlauna í flokki skáldaðra hljóðvarpsverka. Síðar á árinu var ráðist í viðamikið verkefni, Víkinga, sem er samvinnuverkefni SR, DR, NRK og RÚV með stuðningi frá Nordvision-sjóðnum. Verkið er sænskt í grunninn og segir sögur fjögurra norrænna víkinga í níu þáttum með afar öflugri hljóðmynd. Til stóð að hleypa verkinu af stokkunum í útvarpi og hlaðvarpi í nóvember, sömu helgi og jarðskjálftarnir urðu í Grindavík. Var ákveðið í ljósi aðstæðna að fresta útgáfu til desemberloka og þá fór öll þáttaröðin í hlaðvarp. Einnig framleiddi Útvarpsleikhúsið verkið Angantýr þar sem Sóley Stefánsdóttir tónskáld les samnefnda skáldsögu eftir langalangömmu sína, Elínu Thorarensen, og fjallar einnig um bókina í heimildarþætti. Þetta er tilraun til endurskoðunar á miðlun bókmennta í útvarpi sem er í örum vexti eins og sést á vinsældum hljóðbóka. RÚV þarf að skoða aðkomu sína að slíkri miðlun og var þetta verkefni framlag til þeirrar umræðu.

Tónlist

Á árinu 2023 voru á dagskrá Rásar 1 tónlistarþættir þar sem kynnt var tónlist af ýmsu tagi, nýjar tónleikahljóðritanir, bæði innlendar og erlendar og hljóðrit gerð sérstaklega fyrir Ríkisútvarpið.

 

Beinar útsendingar voru frá flestöllum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árinu, en viðamikil dagskrárgerð fer fram samhliða tónleikunum þar sem hlustendum er veitt innsýn í efnisskrá tónleikanna í sérstökum þáttum.

Tónleikar

Auk tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóðritaði Rás 1 og sendi út frá ýmsum öðrum tónleikum á fyrri hluta ársins. Má þar nefna tónleikaröðina Ár íslenska einsöngslagsins; tónleika Kammersveitar Reykjavíkur og tenórsins Stuarts Skelton; tónleika Kordo-kvartettsins í Kammermúsíkklúbbnum; flutning Benedikts Kristjánssonar tenórs og píanóleikarans Mathiasar Halvorsen á Vetrarferðinni eftir Schubert; Sálumessu Verdis í flutningi Söngsveitarinnar Fílharmóníu; einleikstónleika breska píanóleikarans Stephens Hough í Hörpu og tónleika Stórsveitar Reykjavíkur þar sem minnst var 100 ára fæðingarafmælis Thad Jones. Einnig var útvarpað upptöku frá einleikstónleikum Ernu Völu Árnadóttur píanóleikara í dagskrá þar sem Erna Vala talaði um minningar og tónlist og tengingu sína við verkin. Íslensk tónverk hljómuðu í hátíðardagskrá á vormánuðum; Barnaóperan Rabbi rafmagnsheili eftir Þorkel Sigurbjörnsson, í hljóðritun frá tónlistarhátíðinni Erkitíð, var á dagskrá á sumardaginn fyrsta. SOS sinfónía Jóns Hlöðvers Áskelssonar í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands var á dagskrá á uppstigningardag og upptaka tónlistarhópsins Ensemble Multilatérale á Lamenta, nýju verki eftir Pál Ragnar Pálsson sem pantað var af franska ríkisútvarpinu, var flutt á föstudaginn langa. Einnig var flutt hljóðritun frá þýska útvarpinu á slagverkskonserti Daníels Bjarnasonar, Inferno, í flutningi SWD-sinfóníuhljómsveitarinnar og slagverksleikarans Martins Grubingers.

Kjarasamningsmál

Í sumar féll dómur í félagsdómi í máli sem FÍH höfðaði gegn RÚV vegna deilna um túlkun á kjarasamningi. Málið féll FÍH í vil og upp frá því hefur hljóðritun tónleika á Rás 1 að mestu legið niðri þar sem framkvæmdin, í samræmi við niðurstöðu dómsins, er að mati RÚV ógerleg. Viðræður um endurnýjaðan kjarasamning við FÍH standa yfir og er góður gangur í þeim. Vonir standa til þess að svo fljótt sem auðið er verði hægt að taka upp þráðinn við að miðla skilmerkilega frá lifandi íslensku tónlistarlífi.

Samstarf

Samstarf við Samband evrópskra útvarpsstöðva, EBU, er þýðingarmikill þáttur í tónlistardagskrá Rásar 1. Hlustendur hafa notið þessa samstarfs í reglulegum útsendingum og Ríkisútvarpið og íslenskt tónlistarlíf hafa með þessu samstarfi verið virkir þátttakendur í frjóu samfélagi evrópsks tónlistarlífs. Tónleikahljóðritunum frá helstu tónlistarhúsum og tónlistarhátíðum Evrópu var útvarpað í þáttunum Endurómi úr Evrópu, Óperukvöldum og Tónlistarkvöldum Útvarpsins og Sumartónleikum.

Jólalag Ríkistútvarpsins

Frumflutningur á Jólalagi Ríkisútvarpsins, sem Rás 1 pantar á hverju ári hjá íslensku tónskáldi, er löngu orðinn að hefð í jóladagskránni. Jólalagið 2023 var NĀT eftir Báru Gísladóttur, í flutningi kammerkórsins Schola Cantorum og tónskáldsins á kontrabassa undir stjórn Bjarna Fímanns Bjarnasonar. Lagið var flutt í hátíðardagskrá Rásar 1 og RÚV í desember en verkefnið, sem var samstarfsverkefni Rásar 1 og Danska ríkisútvarpsins, var styrkt að hluta af Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs.

Hljóðritanir

Fjölmargir tónlistarmenn voru fengnir til að koma í stúdíó 12 í Útvarpshúsinu og hljóðrita dagskrá í tali og tónum. Djasstríó, skipað þeim Daníel Friðriki Böðvarssyni, Hilmari Jenssyni og Matthíasi Hemstock, lék tónlist eftir Theolonius Monk og ræddi um mikilvægi Monks í djassi á alþjóðlegum degi djasstónlistarinnar 30. apríl. Píanistarnir Davíð Þór Jónsson og Eyþór Gunnarsson léku spunatónlist á sögufræga flygla Ríkisútvarpsins og ræddu um samstarf sitt og tilurð tónlistarinnar. Tríóið Gadus Morhua, sem skipað er þeim Björk Níelsdóttur, Eyjólfi Eyjólfssyni og Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur, flutti íslensku fjárlögin í eigin útsetningum í þættinum Fjárlög í fínum fötum sem útvarpað var 17. júní. Tónlistarhópurinn Tríó Mýr frá Akureyri flutti tónlist frá ýmsum heimshornum og ræddi um samsetningu dagskrár með ólíkri tónlist. Saxófónleikarinn Óskar Guðjónsson og brasilíska söngvaskáldið og gítarleikarinn Ife Tolentino fluttu tónlist sem þeir hafa slípað í samstarfi sínu undanfarin 20 ár og ræddu áhrif ólíks uppruna á þá tónlist og vinskapinn.

Tónlistarþættir

Tveir nýir tónlistarþættir voru settir á dagskrá á árinu. Í þættinum Straumar fjallar Árni Matthíasson um tónlistarstrauma úr ýmsum áttum og ræðir við skapandi tónlistarfólk og í Tónhjólinu, í umsjón Guðna Tómassonar, er hugað að því sem hæst ber á tónlistarsviðinu hverju sinni í heimi sígildrar tónlistar og djasstónlistar.

Á meðal þátta sem héldu áfram göngu sinni frá fyrri árum má nefna Á tónsviðinu í umsjón Unu Margrétar Jónsdóttur, Á reki með KK þar sem Kristján Kristjánsson leikur tónlist af ýmsu tagi, Óskastund Svanhildar Jakobsdóttur, Flugur Jónatans Garðarssonar og sumarþáttaröðina Hljóðrás ævi minnar þar sem umsjónarfólk segir frá tímabili í ævi sinni og leikur tónlist sem endurspeglar tímann eða atburði sem sagt er frá. Einnig gegna menningarþættir á borð við Víðsjá og Lestina mikilvægu hlutverki við að upplýsa og fræða hlustendur um sögu tónlistar og strauma og stefnur í samtímanum.

 

Af heimildarþáttum og stökum þáttum um tónlist má nefna þáttaröð Guðna Tómassonar um kanadíska píanistann Glenn Gould; Jónatan Garðarsson ræddi við Magnús Kjartansson heiðursverðlaunahafa Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023; frumkvöðulsins Ingólfs Guðbrandssonar var minnst í páskadagskrá og brugðið var upp svipmynd af tónlistarkonunni Laufeyju Lin. Elísabet Indra Ragnarsdóttir ræddi við Víking Heiðar Ólafsson um Goldberg-tilbrigði Bachs í aðdraganda heildarflutnings á nýrri hljóðritun Víkings á verkinu fyrir Deutsche Grammophone; í tilefni 100 ára fæðingarafmælis Jónasar Árnasonar sá Una Margrét Jónsdóttir um þáttinn Ó skrítna líf og minnst var tónlistarmannanna og tónskáldanna Páls Pampichlers Pálssonar, Burts Bacharach og Ryuichis Sakamoto sem létust á árinu.

 

Rás 1 stóð fyrir tónleikum í desember í samstarfi við tónlistarhópinn Nordic Affect. Á efnisskrá voru verk eftir Anthony Holborne, Henry Purcell, William Byrd og fleiri auk þjóðlegrar tónlistar frá Íslandi og Hjaltlandseyjum í bland við rafhljóðverk eftir Höllu Steinunni Stefánsdóttur sem sérstaklega voru gerð fyrir tónleikana með styrk úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs. Tónleikarnir voru framlag Ríkisútvarpsins til jólatónleikadags EBU og var þeim útvarpað í á þriðja tug ríkisútvarpsstöðva í Evrópu og Kanada.

 

Nýtt hljóðrit Rásar 1 úr Akureyrarkirkju var frumflutt á aðfangadag. Þar léku Sóley Björk Einarsdóttir trompetleikari, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir sellóleikari, Emil Þorri Emilsson slagverksleikari, Jón Þorsteinn Reynisson harmónikuleikari og Eyþór Ingi Jónsson orgelleikari Akureyrarkirkju, hátíðlega barokktónlist í aðdraganda jóla.

Tónlistarstefna

Á haustmánuðum skipaði útvarpssstjóri starfshóp sem var falið að móta tónlistarstefnu útvarpsins, Rásar 1 og Rásar 2. Þar verða mótaðar tillögur að heildartónlistarstefnu sem og tónlistarstefnu Rásar 1 og Rásar 2. Hópurinn skilar niðurstöðum sínum í upphafi ársins 2024 og verður stefnan gefin út formlega í vor.

Rás 2 40 ára

„Góðan daginn, gott fólk. Þá er Rás 2 komin í gang eftir skemmtilega meðgöngu undanfarna mánuði. Eins og annað ungviði ætlar Rásin að láta heyra duglega í sér strax frá byrjun og núna þennan fyrsta morgun verður tónlist allsráðandi á dagskrá Rásar 2.“ Með þessum orðum hófst nýr kafli í fjölmiðlasögu þjóðarinnar, á fimmtudegi 1. desember 1983, þegar sleðum á mixerborði nýrrar útvarpsstöðvar var ýtt upp í fyrsta sinn og raddir og hljómar Rásar 2 tóku að heyrast á öldum ljósvakans. Eftir sitja fjörutíu ár af sögu Rásar 2.

Fjörutíu ára afmæli Rásarinnar var fagnað með ýmsum hætti árið 2023, fyrst og fremst með góðu samtali við þjóðina, og tækifærið var nýtt til hins ítrasta til þess að horfa í baksýnisspegilinn og líta yfir farinn veg. Fyrrverandi starfsfólk og fornfrægar raddir voru dregnar að hljóðnemanum að nýju og sumar hverjar rötuðu í dagskrárgerð með sumrinu. Undir yfirskriftinni Raddir Rásar 2 fengu hlustendur að endurnýja kynni sínum við margar af þekktustu röddunum í þessari fjörutíu ára sögu.

Fyrst og fremst í íslenskri tónlist 

Eitt helsta aðalsmerki Rásar 2 er að vera fyrst og fremst í íslenskri tónlist. Því lagði starfsfólk Rásarinnar upp í það ferðalag að skoða með hlustendum öll uppáhaldslög þjóðarinnar frá upphafsárum stöðvarinnar. Með dyggri aðstoð reyndasta starfsfólks RÚV voru helstu og mest spiluðu lög hvers áratugar fundin og rötuðu þau í kosningu hlustenda. Uppáhaldslögin úr áttunni, níunni, núllinu og ásnum af Rás 2 voru í forgrunni frá sumri inn í haustið og með mikilli þátttöku þjóðarinnar sátu eftir vinsælustu lög áratuganna. Það voru lögin Fjöllin hafa vakað með Egó, Vegbúinn með KK, Murr Murr með Mugison og París norðursins með Prins Póló og þau hlutu viðurkenningar frá Rás 2 í lok ársins.

Uppáhaldslög áratugunna

Rás 2 er tónlistarstöð og lögheimili íslenskrar tónlistar og íslensku tónlistarfólki var þökkuð samfylgdin fram að þessu á afmælisárinu. Uppáhaldslögin frá hverjum áratug í starfi Rásar 2 voru í brennidepli á árinu með um hundrað viðtölum og færslum í sjónvarpi og á RÚV.is. Lögin voru hryggjarstykkið í þáttaröðinni Fyrst og fremst, sem var sýnd í sjónvarpinu á haustmánuðum en upptakturinn að veisluhöldunum var spurningaþáttaröðin Með á nótunum sem var á dagskrá sjónvarpsins fyrri hluta sumars. Í hverjum þætti kepptu tvö þriggja manna lið í léttum spurningaleik um áratugina fjóra, sem voru kallaðir áttan, nían, núllið og ásinn og eru níundi og tíundi áratugur 20. aldar og fyrsti og annar áratugur 21. aldar. Þættirnir Með á nótunum nutu mikilla vinsælda og gáfu þeir tóninn fyrir það sem koma skyldi.

Íslensk tónlist

Rás 2 er leiðandi í íslenskri tónlist og færði hlustendum sem fyrr íslenska tónlist í beinni útsendingu. Úrslitakvöld Músíktilrauna, Aldrei fór ég suður, Bræðslan og Iceland Airwaves voru í beinni útsendingu á Rás 2. Í Stúdíó RÚV flytja íslenskir listamenn nýja íslenska tónlist úr aðalmyndveri. Efnið er á línulegri dagskrá Rásar 2 og er einnig sent út sem stök myndbönd á samfélagsmiðlum og í samnefndum sjónvarpsþætti. Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2 á Arnarhóli voru á dagskrá á Menningarnótt í sérstökum afmælisbúningi. Að þessu sinni komu fram Floni, Diljá, Una Torfa, Aron Can, HAM, Klara Elias, og loks Ragga Gísla með gestum á borð við Valdimar, GDRN og Mugison.

1. desember 2023

Fyrsta dag desembermánaðar 2023 mætti dagskrárgerðarfólk og annað starfsfólk Rásar 2 sérstaklega prúðbúið til vinnu á 40 ára afmæli Rásarinnar. Góðkunningjar undanfarinna áratuga komu við í Efstaleiti, þar á meðal Sniglabandið sem spilaði óskalög hlustenda. Þá var hulunni svipt af fjórum uppáhaldslögum þjóðarinnar. Því var fagnað með gömlum og nýjum röddum, núverandi og fyrrverandi starfsfólki sem hefur glætt áratugi lífinu og borið endalaust gagn og gaman á borð hlustenda frá fyrsta degi.

Rás 2 verður eflaust áfram í öndvegi sem lifandi útvarp, grípur tíðarandann í hvívetna, hefur í heiðri íslenska tónlistarmenningu sem er sífellt í blóma og hlustar á samtón þjóðarinnar um landið og miðin næstu fjörutíu ár.

Áfram mikil hlustun

Hlustun á Rás 2 er mikil og hefur verið síðustu þrjú ár. Meira var hlustað á Rás 2 en nokkra aðra útvarpsstöð á landinu á árinu auk þess sem hlustendum undir þrítugu fjölgaði mikið. Áframhaldandi áhersla er á að auka hlut kvenna í dagskránni, bæði í hópi þáttastjórnenda og flytjenda. Í dægurmálaþáttum eru konur í meirihluta í hópi þáttastjórnenda og hugað er að því í uppsetningu allrar annarrar dagskrár að hlutfallið sé sem jafnast. Fréttahlustun var í hæstu hæðum og þar fyrir utan var mikil hlustun á aðra dagskrá.

Fréttastofa RÚV starfar allan sólarhringinn, allan ársins hring. Fréttastofan er með starfsstöðvar í Efstaleiti í Reykjavík, á Akureyri, Egilsstöðum, í Borgarnesi og Brussel í Belgíu. Undir fréttastofuna heyra fréttatímar útvarps og sjónvarps, fréttaskýringaþættirnir Kveikur, Spegillinn og Heimskviður og fréttahlaðvarpið 7 mínútur með fréttastofu RÚV, umræðuþátturinn Silfrið og fréttaþjónusta RÚV á netinu og samfélagsmiðlum. Þá heyra RÚV English og RÚV Polski undir fréttastofuna sem og veðurfréttaþjónusta RÚV. Önnur stór verkefni fréttastofunnar eru til að mynda fréttaannálar í útvarpi og sjónvarpi, útsending frá stefnuræðu forsætisráðherra og umræðum um hana, útsending frá eldhúsdagsumræðum á Alþingi og umfjöllun í aðdraganda kosninga.

Stórt fréttaár

Árið 2023 fer í sögubækurnar vegna náttúruhamfara sem dundu yfir Reykjanesskaga. Eldgos hófst við Litla-Hrút 10. júlí og olli bæði gasmengun og gróðureldum. Gosvirkni lauk 5. ágúst. Miklar jarðhræringar urðu svo 10. nóvember í grennd við Grindavík. Bærinn var rýmdur og þar með voru nærri fjögur þúsund íbúar á vergangi. Svo miklar skemmdir urðu á bænum að íbúum var ekki leyft að flytja þangað aftur fyrir áramót. Eldgos hófst 18. desember við Sundhnúksgíga nærri Grindavík. Gosið varði stutt, aðeins í þrjá sólarhringa.

Þessar jarðhræringar settu mikinn svip á fréttaárið. Að auki var mikið fjallað um aðrar náttúruhamfarir eins og snjóflóð sem féll á Neskaupstað í mars. Af erlendum vettvangi má helst nefna hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael í byrjun október og hefndaraðgerðir Ísraela. Áfram var fjallað um stríðsátök í Úkraínu en á árinu var eitt ár liðið frá því að Rússar réðust af fullu afli inn í landið.

Fréttaflutningur að utan

Fréttastofan var á faraldsfæti á árinu. Fréttamenn sinntu störfum sínum hérlendis sem erlendis, meðal annars í Úkraínu, Póllandi, Litáen, Noregi og Finnlandi. Jón Björgvinsson, fréttaritari RÚV, sendi talsvert efni frá Úkraínu og frá Marokkó og Tyrklandi þar sem miklar náttúruhamfarir urðu í stórum jarðskjálftum.

Í byrjun mars kom fréttastofan á nýrri stöðu fréttaritara RÚV í Brussel. Björn Malmquist, þaulreyndur fréttamaður, tók við henni og flytur fréttir frá Brussel og nærsveitum með áherslu á þau málefni sem eru í deiglunni hjá Evrópusambandinu og NATO og áhrif þeirra á Ísland og íslenska hagsmuni. Með því að hafa fréttamann í Brussel er ætlunin að vakta betur mál sem hafa áhrif á íslenska hagsmuni. Sem dæmi má nefna fréttir af boðuðum reglum um losunarheimildir í flugrekstri og fréttir af breyttum veruleika í öryggis- og varnarmálum Evrópu.

Verðlaun og viðurkenningar

Kveikur hlaut Edduverðlaun sem besti frétta- eða viðtalsþáttur ársins á undan. Fréttastofa RÚV hlaut fjórar tilnefningar til blaðamannaverðlauna ársins 2022, Sólveig Klara Ragnarsdóttir fyrir viðtal við kynsegin ungmenni; Ingólfur Bjarni Sigfússon og Arnar Þórisson fyrir umfjöllun um flóttafólk frá Sýrlandi sem settist að hér á landi; Tryggvi Aðalbjörnsson og Árni Þór Theódórsson fyrir rannsókn á öryggismálum ferjunnar Baldurs og loks Bogi Ágústsson fyrir umfjöllun af erlendum vettvangi.

Traust og aukið áhorf

Traust er öllum fjölmiðlum nauðsynlegt en það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt og fréttastofan er þakklát fyrir það aukna traust sem almenningur ber til hennar. Samkvæmt könnun sem var gerð í desember 2023 sögðust 73,5% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofunnar. Því þarf að viðhalda með faglegum og góðum vinnubrögðum alla daga ársins. Það er umtalsvert meira traust en mældist í sömu könnun í garð annarra fjölmiðla hér á landi.

Þegar á reynir leitar þjóðin til fréttastofu RÚV og það sést glöggt á niðurstöðum áhorfs- og hlustunarmælinga. Meðaláhorf á sjónvarpsfréttir klukkan 19 var um 24,3% árið 2023 samanborið við 24% árið 2022. Mest áhorf var á sjónvarpsfréttatíma sem tengdust jarðhræringum við Grindavík í nóvember. Meðaláhorf á fréttir klukkan 22 var um 14,1%. Meðalhlustun á hádegisfréttir RÚV var 9,2%, um 70 þúsund hlusta á hádegisfréttir í hverri viku. 52 þúsund hlusta á Spegilinn í hverri viku, meðalhlustun var 5,3%. Meðaláhorf á Kveik var 18%.

Kveikur

Fréttaskýringaþátturinn Kveikur leitaði víða fanga á árinu. Sagðar voru sögur af afleiðingum þess fyrir konur að fá sílikonbrjóstapúða; af úrgangsmálum og urðun hér á landi; umfangi búðahnupls; starfsemi flugvélar Landhelgisgæslunnar erlendis og Kveikur fletti hulunni af því sem gerðist í hoppukastalaslysinu á Akureyri. Fréttamenn Kveiks fóru til Úkraínu þegar ár var liðið frá innrás Rússa. Þá var fjallað um stöðu rafbílavæðingar; fjölda eftirlitsmyndavéla í sveitarfélögum landsins og lýðræðisþátttöku innflytjenda. Kveikur fjallaði um hamfarirnar í Grindavík, slysasleppingar úr laxeldi í Patreksfirði og um fíkniefnaheiminn og lyfið oxycontin.

Efnisval Kveiks er fjölbreytt en markmiðið er ávallt að fá dýpri og ítarlegri umfjöllun en unnt er að veita í daglegum fréttum. Fréttaskýringar Kveiks eru alla jafna nokkrar vikur eða mánuði í vinnslu og vekja verðskuldaða athygli. Nauðsynleg samfélagsleg umræða fer iðulega af stað í kjölfar þeirra.

Spegillinn

Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn er rótgróinn og mikilvægur liður í fréttaþjónustu RÚV. Daglega geta hlustendur Rásar 1 og 2 leitað þangað eftir djúpri og umfangsmikilli umræðu um öll helstu samfélagsmál. Ofarlega á baugi á árinu voru náttúruhamfarir, kjaramál, umhverfis- og loftslagsmál og erlend málefni. Spegillinn nýtur liðsinnis pistlahöfunda í nágrannalöndunum sem fjalla um helstu mál í sínum löndum.

Nýjungar á fréttastofunni

Fréttastofan hélt áfram að þróa fréttaflutning á samfélagsmiðlum sem hófst haustið 2022. Sú þjónusta mæltist mjög vel fyrir hjá yngstu aldurshópum fréttaneytenda og í skólasamfélaginu. Þegar náttúruhamfarir riðu yfir Grindavík var gerð  tilraun til að senda út fréttir á ensku og pólsku á Tiktok fréttastofunnar. Þær fengu mjög mikla dreifingu og voru notaðar til að leiðrétta rangan eða ónákvæman fréttaflutning og upplýsingaóreiðu sem varð vart á samfélagsmiðlum.

Í byrjun mars tók Björn Malmquist til starfa sem fréttaritari RÚV í Brussel í Belgíu. Ætlunin er að efla fréttaflutning frá útlöndum, sérstaklega af þeim stofnunum sem varða Ísland mestu, þar sem ákvarðanir eru teknar sem hafa áhrif á líf almennings og starfsemi fyrirtækja á Íslandi. Auk þess er ætlunin að fylgjast náið með þróun öryggis- og varnarmála í breyttri heimsmynd eftir að Rússar hófu innrásarstríð sitt í Úkraínu.

Í byrjun ársins tók til starfa nýr umsjónarmaður RÚV English, fréttaþjónustu RÚV á ensku, Darren Adam, þrautreyndur útvarpsmaður frá Bretlandi. Hans hlutverk var ekki einungis að sinna fréttaþjónustu á ensku heldur einnig að þróa áfram þá þjónustu sem RÚV veitir enskumælandi samfélaginu. Hluti af því hefur verið að hlaðvarpið RÚV English Radio.

Í byrjun ársins var ráðið í starf fréttamanns á Suðurlandi. Sú staða var ekki til og rennt blint í sjóinn. Tilraunin gekk vel en fréttamaðurinn fór til annarra verkefna innan RÚV með haustinu. Sökum hagræðingar undir lok ársins 2023 var ekki ráðið aftur í stöðuna.

Ráðið var í stöðu fréttamanns á Vesturlandi og Vestfjörðum vorið 2023. Sú staða hafði verið ómönnuð í eitt ár. Undir lok ársins voru því starfandi þrír fréttamenn á Akureyri ásamt tæknimanni, einn á Vesturlandi og einn á Austurlandi.

Haustið 2023 hóf fréttastofan útgáfu á fréttahlaðvarpinu 7 mínútur með fréttastofu RÚV. Hugmyndin er að gefa út stutt hlaðvarp með helstu fréttum dagsins sem hægt er að hlusta á snemma morguns. Umsjónarmaður ræðir gjarnan við fréttamenn sem geta sett málin í samhengi og gefið meiri bakgrunnsupplýsingar en koma fram í fréttum.

Heimskviður

Heimskviður er eini fréttaskýringaþáttur landsins sem setur erlend málefni í brennidepil. Þátturinn er vikulega á dagskrá Rásar 1 og jafnframt vinsæll á hlaðvarpsveitum. Á árinu rýndu þáttarstjórnendur í átökin á Gaza og stöðuna í löndum þar sem íslenskir fjölmiðlar leita sjaldan fanga, til að mynda í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku.

Íþróttadeild RÚV 

RÚV fylgir afreksfólki Íslands eftir og birtir íþróttaefni sem sameinar þjóðina. Við fjöllum um fjölbreyttar íþróttagreinar og allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. RÚV leggur mikla áherslu á að fjalla um íþróttaiðkun beggja kynja og ólíkra hópa. Með þessu varðveitum við íþróttasögu Íslands og hvetjum til aukinnar íþróttaiðkunar meðal þjóðarinnar.

Landsliðin okkar

Heimsmeistaramót karla í handbolta var haldið í Svíþjóð í janúar og eftir gott gengi á EM árið áður var hugur í leikmönnum Íslands og íslensku þjóðinni.

Ísland var í snúnum riðli og mætti þekktum andstæðingum í fyrstu tveimur leikjunum. Eftir sigur á Portúgal kom grátlegt tap fyrir Ungverjalandi. Öruggur sigur vannst svo á Suður-Kóreu í lokaleik riðlakeppninnar og Ísland varð í öðru sæti riðilsins. Í milliriðli endaði íslenska liðið í þriðja sæti og munaði þar enn tapinu fyrir Ungverjalandi úr undanriðlinum. Ísland var úr leik og endaði í 12. sæti á mótinu.

Eins og venjan er á stórmótum í handbolta greip íslensku þjóðina handboltafár og fimmta árið í röð var karlalandslið Íslands í handbolta vinsælasta sjónvarpsefnið í flokki íþróttaútsendinga.

Kvennalandslið Íslands í handbolta komst á sitt fyrsta stórmót í tólf ár þegar liðið fékk boðssæti á heimsmeistaramótinu sem haldið var í lok árs. Þrátt fyrir hetjulega baráttu komst liðið ekki í milliriðil.

Þátttöku Íslands á HM var þó ekki lokið því íslenska liðið fór í keppni neðstu liða mótsins sem kallast Forsetabikarinn. Ísland spilaði þá til úrslita við Kongó og vann leikinn, 30-28. Ísland fékk því Forsetabikarinn og endaði um leið í 25. sæti af 32 liðum á HM.

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta keppti í Þjóðadeild Evrópu í fyrsta sinn. Íslenska liðið sýndi sínar bestu hliðar í lokaleikjum riðilsins og vann fyrst Wales og svo kom glæsilegur 0-1 sigur á Dönum í Viborg. Ísland leikur við Serbíu í febrúar 2024 í umspili um hvort liðanna verður í A-deild í undankeppni næsta Evrópumóts og verða leikir Íslands í beinni útsendingu á RÚV.

Karlalandslið Íslands í körfubolta átti góðan möguleika á að komast í fyrsta sinn í lokakeppni heimsmeistaramótsins í ársbyrjun. Allt var lagt undir í lokaleik Íslands gegn Georgíu á útivelli og loftið var þrungið spennu í fjórða leikhluta. Þrátt fyrir að hafa sigrað, 77-80, missti Ísland af sæti á HM með minnsta mun. Liðið hefði tryggt sér sæti á HM með fjögurra stiga sigri.

Sem fyrr fylgdi íþróttadeild RÚV íslensku landsliðunum á stórmótum auk þess að vera með umfjöllun í myndveri hér heima.

Íþróttafólkið okkar

Íþróttadeild hélt áfram að sýna frá íþróttafólki okkar á EM og HM í beinni útsendingu.

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee lauk árinu á því að synda til úrslita í sinni sterkustu grein, 200 metra bringusundi, á Evrópumótinu í 25 metra laug. Þar átti hann í harðri baráttu um sigurinn allt til loka og endaði í öðru sæti. Anton Sveinn var fyrsti Íslendingurinn sem náði lágmarki fyrir Ólympíuleikana í París næsta sumar og synti til úrslita á HM þar sem hann endaði í sjöunda sæti.

Heimsmeistaramót íslenska hestsins var haldið í Hollandi í sumar og þar voru íslenskir knapar sigursælir. Íslendingar hafa aldrei unnið til jafn margra verðlauna á mótinu og í ár. RÚV var á staðnum og fjallaði um mótið í samantektarþáttum flesta keppnisdagana.

Sveindís Jane Jónsdóttir varð á árinu þriðji Íslendingurinn til að leika til úrslita í Meistaradeild Evrópu í fótbolta. Hún var í byrjunarliði Wolfsburg sem tapaði naumlega 3-2 fyrir sterku liði Barcelona. Sveindís varð því að láta sér lynda silfurverðlaun. Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á RÚV.

Íslendingar áttu þrjá keppendur á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum sem haldið var í Búdapest í Ungverjalandi í ágúst. Okkar fólk komst ekki í úrslit að þessu sinni.

HM kvenna í fótbolta

Heimsmeistaramót kvenna í fótbolta var að þessu sinni haldið í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi. Ísland var ekki meðal þátttökuliða. Allir 64 leikir mótsins voru sýndir í beinni útsendingu á RÚV og RÚV 2 og HM-stofan gerði svo upp alla leikina. Mótið var mjög vel heppnað og aldrei hafa fleiri horft á HM kvenna í fótbolta um allan heim.

Íslandsmót, bikarúrslit, Skólahreysti og aðrir viðburðir

RÚV hélt áfram að sýna frá Íslandsmótum og bikarúrslitum í ýmsum íþróttagreinum í veglegri umgjörð. Meðal annars voru beinar útsendingar frá Íslandsmótinu í golfi, borðtennis, hestaíþróttum og fimleikum. Einnig voru var sent út frá bikarúrslitum í handbolta, körfubolta, fótbolta, blaki og fimleikum. Þá var sýnt frá fjölda greina á Reykjavíkurleikunum auk þess sem Skólahreysti var á sínum stað. Þar keppa nemendur í grunnskólum landsins sín á milli í ýmsum greinum sem reyna á kraft, styrk og þol keppenda.

Á árinu sýndi RÚV heimildarþætti um lið ÍA sem vann einstakt afrek í íslenskri knattspyrnusögu þegar það varð Íslandsmeistari karla fimm ár í röð á árunum 1992-1996. Í þáttunum fóru þjálfarar, leikmenn, andstæðingar, stjórnarmenn, stuðningsfólk og fjölmiðlafólk yfir þetta sögulega tímabil.

Dagskrá fyrir börn

KrakkaRÚV býður upp á fjölbreytt efni fyrir börn í línulegri dagskrá, í spilara og á vefmiðlum. KrakkaRÚV einbeitir sér að börnum á aldrinum 0-12 ára. Kjarni þjónustunnar er á krakkaruv.is þar sem spilarinn er staðsettur. Á vefnum má nálgast allt innlent og erlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn. KrakkaRÚV er sent út í línulegri dagskrá alla daga klukkan 18-18.50 og um helgar klukkan 07–10. Að staðaldri eru framleiddir sex nýir þættir á viku auk annarrar framleiðslu. Á KrakkaRÚV er lögð mikil áhersla á að efnið sem framleitt er endurspegli íslenskt samfélag eins fjölbreytt og það er.

KrakkaRÚV fyrir öll

Fjölbreytt framboð var á efni fyrir börn og ungmenni í öllum miðlum RÚV árið 2023. Áhersla var lögð á fjölbreytileika og inngildingu. Þjónusta við þau allra yngstu, 0-3 ára, hélt áfram að þróast og var mikil áhersla lögð á innkaup á teiknimyndum. Einnig var áhersla á leikið efni þar sem Stundin okkar með Bolla og Bjöllu hélt áfram að þróast.

Krakkafréttir

Krakkafréttir halda áfram að festa sig í sessi og eru sem fyrr á dagskrá fjóra daga vikunnar. Þar eru fluttar skýrar og hnitmiðaðar fréttir af því helsta sem gerist í íslensku samfélagi og heiminum öllum. Í fréttatímum má meðal annars finna fréttir af vísindum, íþróttum, menningu og krökkum sem gera garðinn frægan. Gunnar Hrafn Kristjánsson og Kolbrún María Másdóttir héldu áfram að flytja fréttir í stóra fréttastúdíóinu. Auk hefðbundinna lesinna frétta var farið á vettvang, svo sem í tilefni þingsetningar og Barnaþings. Birta Steinunn Sunnu Ægisdóttir lagði Kolbrúnu og Gunnari lið áfram og flutti m.a. fréttir af leiðtogafundinum í maí. Breyting varð á ásýnd fréttanna á RÚV þar sem Krakkafréttir hafa frá því í mars 2023 verið táknmálstúlkaðar á aðalrás. Einnig urðu Krakkafréttir meira áberandi á Tiktok þar sem gerð voru sérstök myndbönd um það sem gerist á bak við tjöldin. Krakkafréttaárinu lauk á Krakkafréttaannál þar sem Gunnar og Kolbrún fóru yfir fréttir ársins og ræddu við góða gesti.

Húllumhæ

Bjarni Kristbjörnsson og Anja Sæberg fjölluðu um menningarheim krakka í Húllumhæ fram á vor. Þau lásu kynningar og gerðu innslög á vettvangi. Að hausti var ákveðið að breyta um stefnu og breyta Húllumhæ í ungmennaþáttinn Hvað er í gangi? sem sagt er frá í kaflanum um UngRÚV.

Krakkakiljan

Bókaormarnir Emma Nardini Jónsdóttir og Auðunn Sölvi Hugason fjölluðu um uppáhaldsbækurnar sínar og aðrar nýútkomnar bækur. Þau ræddu við höfunda, þýðendur og myndhöfunda bókanna í Kiljusettinu. Viðtölin voru sýnd í Húllumhæ. Um haustið hófst hugmyndavinna um nýjan bókaþátt fyrir börn í útvarpi  og var stefnt á að setja þáttinn Hvað ertu að lesa í loftið í janúar 2024.

Stundin okkar

Stundin okkar með Bolla og Bjöllu hóf annað ár sitt í sjónvarpi. Ævintýri Bolla og Bjöllu héldu áfram á skrifborðinu hans Bjarma. Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Níels Thibaud Girerd fara með hlutverk álfanna og Árni Gunnar Magnússon er í hlutverki Bjarma. Arnór Björnsson, Óli Gunnar Gunnarsson og Mikael Emil Kaaber eru handritsthöfundar og leikstjórn er í höndum Agnesar Wild.
Fyrri hluta ársins galdraðist Bjalla burtu af skrifborðinu og Bolli var einn eftir að reyna að finna hana. Seinni hluta ársins voru fimm þættir á skrifborðinu og í síðasta þættinum, sem var í tveimur hlutum, voru Bolli og Bjalla voru ryksuguð af borðinu. Þau festust í ryksugupoka með álfinum Kuski. Inn á milli sáum við Bjarma í skólanum þar sem hann fór með samnemendum sínum í heimilisfræði og íþróttir.
Í lok nóvember hófst framhaldþáttaröðin Jólaflakk Bolla og Bjöllu, sem var sýnd alla sunnudaga til jóla. Í þáttunum óskuðu Bolli og Bjalla þess að Stundin okkar væri ekki til. Í þessari þáttaröð voru gamlir stjórnendur Stundarinnar okkar fengnir til að hitta Bolla og Bjöllu og hjálpa þeim að bjarga Stundinni okkar. Þetta voru Sigyn Blöndal, Björgvin Franz og Gunni og Felix auk Flakkarans og Herra Tívolí.

Jólastundin

Jólastundinn er einn elsti þátturinn á dagskrá RÚV og því óskaplega mikilvægt að hann haldi áfram að vaxa og dafna í takt við samfélagið. Í ár var ákveðið að blanda saman því sem hefur verið gert síðustu ár. Árið 2022 var Jólastundin alfarið leikin og 2021 var spjallþáttur. Því var ákveðið að fara milliveginn 2023 og gera leikinn þátt sem gerist í spjallþætti. Laddi lék þáttastjórnandann sem var í tökum á Jólastundinni og fékk til sín ýmsa góða gesti. Það voru Fía Sól og Ingólfur Gaukur, Vigdís Hafliðadóttir og Geitin Síða. Með Ladda var Magnús Þór Bjarnason sviðsstjóri og Bikkja, sem Ilmur Kristjánsdóttir lék. Hressir jólasveinar komu í heimsókn, þeir Stekkjastaur, Hurðaskellir og Kertasníkir. Jólastundin var uppfull af skemmtilegum tónlistaratriðum þar á meðal steig á svið hópur barna í upphafs- og lokalagi ásamt tónlistarkonunum í Raddbandinu.

Þátttaka barna

Börn tóku þátt í ýmsum verkefnum á árinu. Nú er hægt að senda inn myndbönd í gegnum mitt.ruv.is og það hefur auðveldað yfirferð á innsendu efni. Börnum gafst tækifæri til að senda inn myndbönd og sækja um að taka þátt í eftirfarandi verkefnum.

 

Ungt fréttafólk
o Umsækjendur voru 40 og tíu voru valin til að flytja fréttir á Barnamenningarhátíð.

Jólastjarnan
o Hátt í 80 börn sendu inn myndband þar sem þau sungu jólalög. Tíu af þeim voru valin til að taka þátt í söngvakeppninni Jólastjarnan 2023.

Krakkaskaupið
o Á hverju ári koma ótal sketsar frá krökkum sem vilja taka þátt í Krakkaskaupinu. Þetta ár var engin undantekning þar sem Krakkarúv bárust 35 sketsar. Valdir voru sex sem voru gerðir að nýju með framleiðsluteymi Krakkaskaupsins.

Sögur
o Alls bárust 117 framlög í Sögur, 79 smásögur, 11 leikrit, 19 stuttmyndahandrit og átta lög.

Bókaklúbbur
o Börnum stóð til boða að vera með í bókaklúbbi KrakkaRÚV. Fjörutíu áhugasamir krakkar sendu inn myndbönd og tólf þeirra urðu bókaormar í útvarpsþættinum Hvað ertu að lesa. Þau sem ekki voru valin fá að vera í bókaklúbbi sem les þær bækur sem fjallað er um í næsta þætti. Þátturinn fer á dagskrá 2024.

Barnasáttmálinn
o Í tilefni af því að tíu ár eru frá því að Barnasáttmálinn var lögfestur á Íslandi gerði KrakkaRÚV myndband með Birtu Steinunni Sunnu- Ægisdóttur og Vilhjálmi Haukssyni sem tóku viðtal við barnamálaráðherra og fræddu önnur börn um Barnasáttmálann.

Krakkaskaupið

Krakkaskaupið var sýnt í kvölddagskrá, á besta sýningartíma, 30. desember og aftur að morgni gamlársdags. Áhorf á þáttinn er í hæstu hæðum og Krakkaskaupið er einn af fimm mest sóttu þáttum í spilara RÚV. Þátturinn var eins og áður byggður upp af innsendum myndböndum frá krökkum í bland við atriði sem handritshöfundurinn og framleiðandinn Árni Beinteinn skrifaði. Eins og áður bauðst krökkum að senda inn sketsa og sex af þeim voru endurgerðir með tökuliði og leikstjóra. Lokalagið samdi Íris Ósk.

Teiknimyndir

KrakkaRÚV býður upp á fjölbreyttar og skemmtilegar teiknimyndir fyrir börnin. Aðaláherslan er á að kynjahlutfall aðalpersóna sé jafnt og að viðfangsefni teiknimyndanna dreifist á aldurshópinn. Þáttaröðin Blæja (Bluey) sem frumsýnd var í lok árs 2021 fór á flug og hefur vakið gríðarlega athygli. Blæja hefur tekið fram úr Hvolpasveitinni sem vinsælasti þátturinn í dagskránni, sem er stórkostlegt afrek. Gamalt efni í bland við nýtt var á dagskrá og þættirnir sívinsælu um Friðþjóf forvitna komu aftur á dagskrá auk þess sem Múmínálfarnir og Strumparnir birtust aftur í sjónvarpinu. Áhersla var lögð á efni sem byggist upp á fræðslu og má þar nefna tölukubbana, Bursta og Fílsa og vélarnar. Einnig var sett á dagskrá vandað leikið efni fyrir eldri krakka, Silferpoint og Superheltskolen, sem vöktu mikla athygli.

Sögur

Sögur er stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Það hófst 2017 og hefur stækkað ár hvert. Markmiðið er að auka læsi og áhuga á íslenskum barnabókum og sögum og upphefja um leið barnamenningu á Íslandi.

Sögur hófust í október 2022 á því að KrakkaRÚV hvatti krakka til að senda inn smásögu, lag og texta eða handrit að stuttmynd eða leikriti. Höfundar þeirra sagna sem valdar voru tóku þátt í skapandi smiðjum þar sem fagfólk leiðbeindi og ævintýrin lifnuðu við. Sumar sagnanna voru gefnar út í rafbók á vegum Menntamálastofnunar, aðrar urðu að stuttmynd, nokkur lög lifnuðu við og leikrit litu dagsins ljós á fjölum Borgarleikhússins. Það eru nefnilega engin takmörk fyrir því hvar góð saga getur endað.

Í ár bárust 23 stuttmyndahandrit og tvö þeirra voru valin til framleiðslu; Vekjaraklukkan eftir Bergdísi Sögu Sævarsdóttur og Úlfhildi Andradóttur í leikstjórn Sturlu Skúlasonar Holm og Dularfulla græna duftið eftir Árdísi Evu Árnadóttur, Berglindi Rún Sigurðardóttur, Freydísi Erlu Ómarsdóttur, Lovísu Rut Ágústsdóttur og Valgerði Ósk Þorvaldsdóttur í leikstjórn Heklu Egilsdóttur. Myndirnar voru allar settar saman í þáttinn Sögufólk framtíðarinnar ásamt efni um það sem gerist bak við tjöldin þar sem Anja Sæberg kynnti myndirnar. Þátturinn var sýndur sunnudaginn fyrir verðlaunahátíðina Sögur sem var haldin í Hörpu 3. júní.

Verðlaunahátíðin Sögur er lokapunktur þessa stóra samstarfsverkefnis. Þar eru verk barnanna verðlaunuð auk þess sem krakkar fá tækifæri til að verðlauna það mennigarefni sem þeim fannst skara fram úr á árinu. Hátíðin var sýnd í beinni útsendingu, kynnar kvöldsins voru Kolbrún María Másdóttir og Gunnar Hrafn Kristjánsson og þau sungu og dönsuðu upphafs- og lokalagið með hópi af krökkum. Þrjú lög sem voru send inn í Sögur voru útsett og frumflutt á hátíðinni. Reykjavíkurdætur, Frikki Dór og Vigdís Hafliða fluttu lögin.

Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar var Brian Pilkington.

Smástund

Þjónusta við yngstu börnin hélt áfram að dafna og þar er Smástund í fararbroddi. Gerðir voru átta þættir auk eins jólaþáttar. Í þáttunum er notað tákn með tali, íslensk sönglög og einföld grafík enda eru þeir sérstaklega gerðir til þess að örva málþroska og skilning barna á íslenskri tungu. Um dagskrárgerð sér Agnes Wild og Sigrún Harðardóttir semur og útsetur alla tónlist í þáttunum. Smástund eru langvinsælustu þættirnir sem KrakkaRÚV hefur gert og þeir eru annað mest sótta efnið í spilara RÚV.

Norrænt samstarf í B15

RÚV hefur verið virkur þátttakandi í Nordvision-samstarfi og hefur frá 2022 tekið þátt í samstarfsverkefninu B15. RÚV skuldbindur sig til að skila einni þáttaröð inn í samstarfið og fær í staðinn 14 aðrar norrænar þáttaraðir. Í gegnum þetta samstarf hefur KrakkaRÚV fengið mikið efni sem hefur náð geysilegum vinsældum meðal barnanna á íslandi. Þar má nefna Bursta broddgölt, Fílsa og vélarnar og Ofurhetjuskólann. Fyrsta þáttaröðin sem KrakkaRÚV sendi var Sagan um Randalín og Munda. Hún er í talsetningu hjá hinum stöðvunum og verður sýnd fyrir jólin 2024. B15 er ótrúlega mikilvægt verkefni sem eykur fjölbreytni þess efnis sem sýnt er á KrakkaRÚV.

Barnamenningarhátíð

KrakkaRÚV var hluti af Barnamenningarhátíð eins og önnur ár. Hátíðin hófst með pomp og prakt í beinni útsendingu á RÚV 2 frá opnunarhátíð í Eldborg í Hörpu. Ritstjórn Krakkafrétta stóð fyrir námskeiði fyrir ungt fréttafólk nokkru fyrr og þátttaka þar var töluvert meiri en undanfarin ár. Sprenglærðir fréttamennirnir skiluðu af sér viðtölum við listafólk, skipuleggjendur og gesti, sem voru sýnd í Krakkafréttum og Húllumhæ dagana á eftir, ásamt því að klippifærsla úr hverri frétt var birt á RÚV.is.

UngRÚV

UngRÚV er þjónusta fyrir ungmenni í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldskólanema. Lögð er áhersla á dagskrárefni fyrir unglinga og eftir unglinga, beinar útsendingar frá viðburðum og vandað efni í framleiðslu RÚV. UngRÚV er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og RÚV.

Upptakturinn  

Í Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, gefst ungu fólki tækifæri til að senda inn tónsmíði og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og listafólki. UngRÚV hefur verið partur af Upptaktinum frá upphafi ásamt tónlistarhúsinu Hörpu, Barnamenningarhátíð, Tónlistarborginni Reykjavík og Listaháskóla Íslands.
UngRÚV sá um upptöku og framleiðslu á kynningarinnslögum þar sem viðtal var tekið við höfunda allra laganna. Tónleikarnir voru sýndir á vef UngRÚV.

VIKA6

Kynfræðsluvikan, Vika6, var tekin með trompi þetta árið og aldrei hefur eins mikið farið fyrir þessari viku og í ár. Gerð voru fimm myndbönd með þekktum einstaklingum sem voru sýnd í sjónvarpinu strax á eftir Krakkafréttum. Einnig var innslag í Kastljósi um hvernig foreldrar eiga að tala við unglingana sína um kynheilbrigði. Gísli Marteinn minntist á herferðina í sínum þætti og fjallað var um Sexuna í fréttunum. Spilari UngRÚV var uppfullur af íslensku og erlendu fræðsluefni ásamt leiknu efni.

Skólahreysti

Skólahreysti var haldin í 18. sinn í ár og RÚV hefur lengi verið heimili Skólahreysti. Haldnar voru þrjár undankeppnir, tvær í Reykjavík, í Laugardalshöllinni, og ein á Akureyri. Alls kepptu 60 skólar í undanriðlinum og aðeins 12 komust í úrslit. Á Akureyri sló Ester Katrín Brynjarsdóttir í Þelamerkurskóla Íslandsmetið í hreystigreip með því að hanga í 17 mínútur og 20 sekúndur.

Skrekkur

Skrekkur, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík, var á sínum stað eins og önnur ár. Keppnin hefur haldið áfram að vaxa og framleiðslan í kringum hana hefur þróast og stækkað. Í aðdraganda undankeppnanna heimsótti UngRÚV alla þátttökuskólana og tók upp kynningarinnslög sem voru sýnd í dómarahléinu á undanúrslitakvöldunum og í beinu streymi á vef UngRÚV. Lokakvöldið var í beinni útsendingu á RÚV með 24% uppsafnað áhorf. Fyrir úrslitin voru tekin upp ný kynningarinnslög í stúdíói A með þeim skólum sem komust í úrslit. Öll atriðin úr Skrekk voru birt á vef UngRÚV. Hagaskóli bar sigur úr býtum með atriðið Líttu upp. UngRÚV fékk þau Patrik og Karen til að sjá um samfélagsmiðla UngRÚV, sýna stemninguna baksviðs og taka viðtöl við ungmennin í keppninni.

Fiðringurinn á Norðurlandi og Skjálftinn á Suðurlandi

Vinsældir Skrekks hafa verið hvetjandi fyrir sveitarfélög í öðrum landshlutum til að halda hæfileikakeppni ungmenna. Fiðringurinn á Norðurlandi var haldinn í Hofi og þar kepptu skólar á Norðurlandi og Í Skjálftanum á Suðurlandi komu skólar á Suðurlandi til leiks. UngRÚV tók upp báða viðburðina og voru atriðin birt í UngRÚV spilaranum.

Móðurmál

Þættirnir Móðurmál voru sýndir í sjónvarpinu á fyrri hluta ársins. Þar var fjallað um börn og ungmenni sem eiga annað móðurmál en íslensku og hafa hlotið Íslenskuverðlaun unga fólksins. Dagskrárgerð og umsjón var í höndum Hafsteins Vilhelmssonar. Þættirnir nutu mikilla vinsælda og var sérstaklega mikil ánægja með umfjöllunarefnið innan skólakerfisins. Móðurmál voru sýndir á mánudögum en föstudaginn fyrir útsendingu var stjörnu hvers þáttar boðið ásamt fjölskyldu sinni og starfsfólki Reykjavíkurborgar á sérstaka frumsýningu á RÚV.

Hvítar lygar 

Þáttaröðin Hvítar lygar var sett í spilara RÚV og UngRÚV í maí. Þetta eru sjónvarpsþættir sem voru gerðir í samstarfi við Hitt húsið og Reykjavíkurborg og teknir upp 2022. Fimm ungir leikarar voru fengnir til að skrifa handrit að leikinni þáttaröð fyrir ungt fólk undir handleiðslu Dominique Gyðu Sigrúnardóttur. Þættirnir voru frumsýndir með pomp og prakt í Bíó Paradís í byrjun maí og í framhaldi af því var sett af stað auglýsingaherferð á Tiktok og “bak við tjöldin”-efni ásamt brotum úr þáttunum var sett í loftið. Efnið náði mikilli útbreiðslu en mestri þó á Tiktok með 92.600 áhorf. Þættirnir voru spilaðir 70.000 sinnum í fyrstu vikunni og hefur verið horft þá þá um 200.000 sinnum í spilaranum. Hvítar lygar verða framlag RÚV til B15 2024 og fara þá í sýningu annars staðar á Norðurlöndunum.

Danskeppni Samfés, Rímnaflæði, hönnunarkeppnin Stíll og söngkeppni Samfés

UngRÚV hefur verið í góðu samstarfi við SAMFÉS undanfarin ár og hélt það áfram í ár. UngRÚV fjallaði um viðburðina Danskeppni Samfés, Rímnaflæði, hönnunarkeppnina Stíl og söngkeppni Samfés.

Sýnileiki í Kastljósi og Landanum

Aukin áhersla hefur verið á sýnileika ungmenna í línulegri dagskrá. Umfjöllun um ungt fólk hefur verið aukin í Kastljósi, fréttum og Landanum. UngRÚV er í stöðugu samtali við stjórnendur þessara þátta og miðlar hugmyndum til þeirra. Sem dæmi má nefna umfjöllun um ungt fólk, klám og klámfíkn í Kastljósi, viðtal við Klaudiu, unga lögreglukonu á Ísafirði í Landanum og beina innkomu frá Skrekk í fréttatímum í sjónvarpi.

Hvað er í gangi?

Glænýir þættir þar sem Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Daníel Óskar Jóhannesson fjalla um málefni og menningu ungs fólk. Tveir prufuþættir voru sýndir í október og svo fara þættirnir í fulla framleiðslu 2024. Hvað er í gangi? verður á dagskrá á besta tíma á föstudagskvöldum og þar verður ungt fólk í forgrunni.

Aðkeypt efni

Aukin áhersla hefur verið lögð á kaup á erlendu efni fyrir ungt fólk. Í gegnum norræna samstarfið B15 hefur RÚV fengið frábæra norræna þætti sem tileinkaðir eru ungu fólki. Þar má nefna Limbo, Neisti, Strula, Otajmat og Rykter.