Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstöf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars að hann hefur hlotið fjölmörg verðlaun fyrir verk sín og var til að mynda á síðasta ári tilnefndur til Íslensku þýðingarverðlaunanna. Aðalsteinn var um tíma framkvæmdastjóri Félags tónskálda og textahöfunda og enginn hefur gegnt lengur formennsku í Rithöfundasambandi Íslands en Aðalsteinn sem var formaður í átta ár. Hljómsveitin Vintage Caravan hlaut Krókinn 2022, viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu. Á síðasta ári lék hljómsveitin á 70 tónleikum í 21 landi, heiðraði plötuna Lifun með Trúbroti á tónleikum í Hörpu og hlaut þrjár tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna svo eitthvað sé nefnt. Þriðja vaktin var orð ársins á RÚV, þar sem lesendur ruv.is kusu um orð ársins í netkosningu. Leitað var til almennings um tillögur og um 240 orð bárust. Kosningin stóð um 15 orð úr þeim tillögum. Innrás er orð ársins hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Langbylgjuútsendingar frá Eiðum voru lagðar af 27. febrúar 2023. Langbylgjuútsending Rásar 2 hefur fram til þessa verið skilgreind sem útvarpsöryggisútsending RÚV. Nú hefur verið ákveðið, í góðri samvinnu við Neyðarlínuna og almannavarnir, að útvarpsöryggisútsendingar verði í gegnum FM-senda Rásar 2. Markviss uppbygging FM-kerfisins á fáfarnari stöðum hófst 2017 og miðar vel. Sendum hefur verið komið fyrir á hálendinu auk stórra senda á lykilstöðum fyrir sjófarendur. Með varaaflsstöðvum er dregið úr hættu á að útsending rofni vegna veðurs og rafmagnsleysis.
Hlutfall karla og kvenna sem rætt var við í dagskrá RÚV, utan frétta, var nánast jafnt á síðasta ári. RÚV sker sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis hvað varðar kynjajafnvægi. Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum og í reglubundnum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af því hver birtingarmynd kynjanna er í dagskránni en hún er mikilvægur liður í að mæla hver staðan og þróunin er. Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV, utan frétta, var nánast jafnt, 51% kvenkyns og 49% karlkyns. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 43% kvenkyns og 57% karlkyns.
Samskipta- og kynningardeild er ný eining innan RÚV sem heyrir undir útvarpsstjóra og Atli Sigurður Kristjánsson var ráðinn samskipta- og kynningarstjóri. Atli hefur víðtæka stjórnunarreynslu auk mikillar reynslu af markaðsmálum sem markaðsstjóri hjá Marel og þar áður Bláa Lóninu.
Margir þættir og viðfangsefni RÚV voru tilnefnd til Edduverðverðlaunanna. Viktoría Hermannsdóttir var kjörin sjónvarpsmanneskja ársins og Kveikur fékk verðlaun sem besta frétta- eða viðtalsefni ársins. Evrópsku kvikmyndaverðlaunin hlutu verðlaun sem besta menningarefni ársins en RÚV átti þar stóran hlut að máli. Áramótaskaupið hlaut verðlaun sem besta skemmtiefni árið 2023 og Salóme Þorkelsdóttir var verðlaunuð í flokknum útsendingar- eða upptökustjóri ársins fyrir Söngvakeppnina 2022.
RÚV.is var tilnefndur til Íslensku vefverðlaunanna fyrir árið 2022 í flokki frétta- og efnisveitna en hann fór í loftið í byrjun desember sama ár. Á nýjum vef var frétta- og efnisframboð RÚV gert aðgengilegra með nýju útliti, endurhönnuðu leiðakerfi og öflugri ritstjórnartólum. Vefurinn var að nær öllu leyti unninn í hugbúnaðarþróun RÚV. Teymið sem að honum vann naut liðsinnis samstarfsaðila hjá Andes, Overcast og Hugsmiðjunni.
Fanney Birna Jónsdóttir var ráðin í starf dagskrárstjóra Rásar 1. Hún hefur sinnt fjölbreyttum störfum á sviði fjölmiðlunar sl. tíu ár, þar á meðal við dagskrárgerð bæði í sjónvarpi og útvarpi, við blaða- og fréttamennsku og nú síðast við framleiðslu á ýmis konar menningar- og afþreyingarefni fyrir sjónvarp. Hún starfaði við dagskrárgerð hjá RÚV frá árinu 2017 til 2021 auk afleysinga í útvarpi á Rás 1. Samhliða störfum á RÚV frá árinu 2020 og síðar í fullu starfi hefur hún leitt lögfræði- og viðskiptaþróunarsvið hjá framleiðslufyrirtækinu Glassriver. Áður var hún m.a. aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, ritstjóri Markaðarins og aðstoðarritstjóri vefmiðilsins Kjarnans. Fanney hefur MA próf í lögfræði frá Háskóla Íslands og málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi.
Hugmyndasmiðum, höfundum, framleiðendum og öðrum gafst kostur á að kynna hugmyndir og tillögur að dagskrárefni fyrir dagskrárstjórum RÚV dagana 4. og 5. apríl. Hugmyndadagar fara alla jafna fram tvisvar á ári og voru fyrst haldnir í október 2017. Alls hafa meira en 2400 hugmyndir borist Hugmyndadögum frá upphafi, um 650 hópar og einstaklingar verið boðaðir á fund í Efstaleiti eða á Teams til að kynna tillögur sínar nánar og um 130 verkefni hafa þegar orðið að veruleika, eru í þróun eða eru til frekari athugunar. Markmiðið er að halda áfram að auka á fjölbreytni í dagskrárframboði RÚV, opna hugmyndaþróunina og styrkja tengsl RÚV og sjálfstæðra framleiðenda.
KrakkaRÚV var hluti af Barnamenningarhátíð líkt og önnur ár. Hátíðin byrjaði í beinni útsendingu á RÚV 2 með pompi og prakt á opnunarhátíð í Eldborg, Hörpu. Ritstjórn Krakkafrétta stóð fyrir námskeiði fyrir ungt fréttafólk nokkru fyrr og þátttaka þar var töluvert meiri en undanfarin ár. Sprenglærðir fréttamennirnir skiluðu af sér viðtölum við listamenn, skipuleggjendur og gesti sem voru svo sýnd í Krakkafréttum og Húllumhæ dagana á eftir, ásamt því að klippifærsla úr hverri frétt fór á ruv.is.
Á aðalfundi Ríkisútvarpsins ohf., sem var haldinn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti miðvikudaginn 19. apríl, var ný stjórn kjörin og í henni sitja Ingvar Smári Birgisson, Silja Dögg Gunnarsdóttir formaður, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Rósa Kristinsdóttir, Aron Ólafsson, Margrét Tryggvadóttir, Þráinn Óskarsson, Mörður Áslaugarson, Diljá Ámundadóttir Zoëga. Fulltrúi starfsfólks í stjórn RÚV er Hrafnhildur Halldórsdóttir.
Aðalfundur Ríkisútvarpsins var haldinn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti miðvikudaginn 19. apríl. Útvarpsstjóri kynnti niðurstöður ársreiknings og vék einnig að eftirtöldum málum: nýrri stefnu til 2026 sem tekur á gildum, stefnuáherslum og framtíðarsýn, nýjum vef, ruv.is, sem er hluti af stafrænni þróun RÚV, dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi og umhverfi á fjölmiðlamarkaði og stöðu RÚV á auglýsingamarkaði. Mikill meirihluti þjóðarinnar nýtti sér þjónustu RÚV árið 2022. Daglega notuðu 57% landsmanna ljósvakamiðla RÚV og 80% í hverri viku samkvæmt rafrænum mælingum Gallups á áhorfi og hlustun. Tæpur þriðjungur landsmanna notaði ruv.is daglega. Viðhorf til RÚV var áfram afar jákvætt, 70% voru mjög jákvæð eða jákvæð í þess garð. Þegar spurt var til hvaða fjölmiðils fólk leitaði helst eftir íslensku efni, íslensku leiknu efni og menningarefni var Ríkisútvarpið efst í huga landsmanna. Fréttastofan naut mikils trausts og langflestir töldu að RÚV væri mikilvægasti fjölmiðill þjóðarinnar.
RÚV tók þátt í norrænni rástefnu um mikilvægi þess að framsetning og málnotkun sé skýr og auðskiljanleg þegar stjórnvöld, stofnanir, samtök eða fyrirtæki vilja koma á framfæri brýnum upplýsingum sem varða almenning. Einkum er horft til samskipta og upplýsingagjafar þegar hætta á borð við náttúruhamfarir, stríð, hryðjuverk eða heimsfaraldur steðjar að. Ráðstefnan var hluti af norrænni ráðstefnuröð sem hófst í Stokkhólmi fyrir 25 árum. Að henni stóð samnorrænn vinnuhópur um skýrt og skiljanlegt málfar á opinberum vettvangi og rannsóknir á því. Vinnuhópurinn er skipaður fulltrúum fimm norrænna tungumálastofnana, einni í hverju ríki. Að undirbúningi ráðstefnunnar innanlands komu fulltrúar frá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, RÚV og Stjórnarráðinu.
Heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu voru veitt 17. júní. Þar tók Jónatan Garðarsson, dagskrárritstjóri Rásar 1, á móti riddarakrossi sem hann hlaut fyrir dagskrárgerð og þekkingarmiðlun um dægurtónlist, nærumhverfi og skógrækt. Jónatan hefur komið að íslenskri tónlist á margvíslegan hátt í rúma fjóra áratugi og verið starfsmaður RÚV um langa hríð. Hann veitti ýmsum félögum forstöðu eða kom að stofnun þeirra, t.d. Jazzvakningu. Hann var formaður Sambandi flytjenda og hljómplötuframleiðanda, formaður Tónlistarsjóðs, framkvæmdastjóri Félags íslenskra hljómplötuútgefanda og formaður Skógræktarsambands Íslands. Árið 2020 hlaut Jónatan heiðursverðlaun dags íslenskrar tónlistar fyrir framúrskarandi störf í þágu íslenskrar tónlistar í tímans rás, meðal annars fyrir vandaða og metnaðarfulla dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi.
Safn RÚV fékk styrk frá Rannís í gegnum Miðstöð stafrænna lista og hugvísinda (MSLH) til þess að yfirfæra rúmlega 12000 segulbönd á stafrænt form. Fyrirtækið sem tekur verkið að sér heitir Memnon og er staðsett í Belgíu. Segulböndunum var pakkað í kassa og voru svo send í hita- og rakastýrðum gámi til Belgíu í lok sumars. Gert er ráð fyrir að verkið taki um eitt ár og RÚV fær reglulega sendar hljóðskrár sem verða tengdar við skráningar í Kistu jafnóðum.
Tónaflóð Rásar 2 var á sínum stað á Menningarnótt og í beinni útsendingu á RÚV og Rás 2 frá Arnarhóli. Á þessu 40 ára afmælisári Rásar 2 var boðið upp á töfrandi tónlistarveislu með þátttöku fjölda frábærra tónlistarmanna og stóð hún í meira en 3 klukkustundir.
Guðni Tómasson dagskrárgerðarmaður var skipaður menningarritstjóri allra miðla RÚV. Markmiðið er að efla og samhæfa menningarumfjöllun Ríkisútvarpsins og er staðan sett upp til reynslu í eitt ár. Guðni verður stjórnendum, dagskrárgerðarfólki og fréttamönnum til ráðgjafar og stuðnings við ritstjórn og umfjöllun um stóra viðburði á menningarsviðinu, framleiðslu og innkaup á menningarefni og fleira. Samhliða sinnir hann áfram dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi.
Á árinu var kynnt velferðarstefna sem rammar inn velferðaráherslur í fjórum meginþáttum er varða hreyfingu og næringu, vellíðan, jákvæð tengsl og þekkingarvöxt.
STEF, höfundaréttarsamtök tón- og textahöfunda, og Ríkisútvarpið gerðu nýjan samning um flutning tónlistar og hljóðsetningu. Miklar breytingar á tækni og miðlun hafa orðið síðan eldri samningur frá 1987 var gerður og tímabært að aðlaga samninginn nýjum tímum. Helstu breytingar í endurnýjuðum samningi snúa að skýrari heimildum um hljóðsetningu svo og miðlunar efnis í stafrænu formi. Samningurinn felur í sér allnokkra hækkun á þóknun til höfunda í samræmi við breyttar miðlunarleiðir og það sem best tíðkast erlendis.
Umræðuþátturinn Silfrið hóf göngu sína á ný í lok september með nýjum umsjónarmönnum og á nýjum tíma. Þættirnir voru á dagskrá á sunnudagsmorgnum en voru á settir á dagskrá eftir tíufréttir á mánudögum. Umsjón með þættinum höfðu Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Valgeir Örn Ragnarsson og Bergsteinn Sigurðsson. Egill Helgason, sem var umsjónarmaður Silfursins um langa hríð vann að annarri dagskrárgerð í sjónvarpinu.
Ríkisútvarpið hélt árlegt Útvarpsþing fimmtudaginn 28. september. Yfirskriftin var RÚV í samfélaginu. Lögð var áhersla á hlutverk fjölmiðla í almannaþágu, helstu áskoranir, samfélagsumræðu og lýðræðisþróun. Fyrirlesarar voru Ingibjörg Þórðardóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá CNN og aðalritstjóri hjá BBC, Jón Gunnar Ólafsson, nýdoktor í fjölmiðlafræði og Liz Corbin, yfirmaður fréttamála hjá EBU. Í tengslum við útvarpsþingið voru haldnar vinnustofur þar sem starfsmenn RÚV og gestir ræddu lýðræðishlutverk RÚV og ýmis mál sem tengjast því.
Átta evrópskir almannaþjónustumiðlar hafa tekið höndum saman um samstarfsverkefni sem felur í sér framleiðslu á átta leiknum sjónvarpsþáttaröðum á ári. Verkefnið ber yfirskriftina New8 og auk RÚV standa að því ZDF í Þýskalandi, NPO í Hollandi, VRT í Belgíu, NRK í Noregi, DR í Danmörku, SVT í Svíþjóð og YLE í Finnlandi. Samstarfið var staðfest á MIA-kaupstefnunni í Róm og er til þriggja ára. Tilgangurinn er að framleiða gæðaefni og tryggja sem mesta dreifingu á efninu sem miðlarnir framleiða. Fyrirmyndin er sambærilegt samstarf almannaþjónustumiðla á Norðurlöndum. Ráðgert er að fyrstu þáttaraðirnar fari í framleiðslu árið 2023 og verði frumsýndar árið 2024.
Fjöldi samtaka launafólks, kvenna og hinsegin fólks stóðu að kvennaverkfalli þriðjudaginn 24. október og stór hluti starfsfólks RÚV lagði niður störf þennan dag. Þrátt fyrir það var nauðsynlegri þjónustu haldið gangandi, eftir því sem aðstæður leyfðu. Ríkisútvarpið dró ekki af launum þeirra sem tóku þátt í verkfallinu. Lögreglan telur að allt að hundrað þúsund manns hafi safnast saman á Arnarhóli á baráttufundi en viðburðir voru haldnir á yfir 20 stöðum víðsvegar um landið.
Björn Þór Hermannsson var ráðinn í starf fjármálastjóra Ríkisútvarpsins. Starfið var auglýst í september og alls sóttu 29 um það. Björn Þór er með B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og M.Sc.-gráðu í fjármálahagfræði frá sama skóla. Hann hefur starfað á skrifstofu opinberra fjármála hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2011. Fjármálastjóri Ríkisútvarpsins ber ábyrgð á stefnumótun, umsjón og daglegri fjármálastjórnun RÚV, annast fjárhags- og rekstraráætlanagerð og eftirfylgni áætlana, ber ábyrgð á rekstrarlegri greiningu og miðlun fjárhagsupplýsinga, hefur yfirumsjón með bókhaldi, uppgjöri og fleiru.
“Sjö mínútur með fréttastofu” er nýtt hlaðvarp frá fréttastofu RÚV þar sem augnablikið er krufið hverju sinni. Það er gefið út þrisvar í viku; mánudögum, miðvikudögum og föstudögum. Í fyrsta þættinum, sem nefndist Frásögn af afsögn var skyggnst á bakvið tjöldin á sögulegum degi þegar Bjarni Benediktsson sagði af sér sem fjármálaráðherra. Umsjónarmaður er Freyr Gígja Gunnarsson.
RÚV fjallaði um Skrekk, hæfileikakeppni grunnskólabarna í Reykjavík, með margvíslegum hætti. Undankeppnir voru í streymi, spjallað við keppendur og úrslitakvöldið var sýnt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Þetta var í 34. skipti sem Reykjavíkurborg stóð að keppninni og RÚV hefur verið samstarfsaðili um árabil.
Vegna mikilla jarðhræringa á Reykjanesskaga fór RÚV yfir allar áætlanir sínar um upplýsingamiðlun og viðbúnað þegar viðburðir af þessu tagi eiga sér stað. Uppfærð áætlun var virkjuð föstudaginn 10. nóvember þegar neyðarstigi Almannavarna vegna jarðhræringanna var lýst yfir og starfað hefur verið á grunni hennar síðan. Í uppfærðri áætlun var farið yfir öryggisbúnað starfsfólks, skipulag vefútsendinga frá Reykjanesskaga, varaleiðir til samskipta, dreifingu og fjarskiptabúnað, þar á meðal Tetra-stöðvar. Auk þess var áætlun uppfærð um fyrstu viðbrögð og skipulag útsendinga allra miðla ef til goss eða frekari annarra náttúruhamfara kæmi.
RÚV og Alda Music undirrituðu nýjan útgáfusamning um allt efni Ríkisútvarpsins enda leggur RÚV mikla áherslu á að auka aðgengi að efni úr safni sínu og hefur undanfarin ár gefið út töluvert af efni. Markmiðið er að efla mjög stafræna útgáfu á eldra efni úr safni RÚV auk þess að styrkja alþjóðlega dreifingu á lögum úr Söngvakeppninni. Alda Music mun sjá um alla skráningu og hljómjöfnun á upptökum frá RÚV og nýta sérþekkingu sína í dreifingu til að koma tónlistinni á framfæri í flóknum og síbreytilegum stafrænum heimi.
Heimsmeistaramót kvenna í handbolta hófst í lok nóvember og það var í fyrsta sinn í 11 ár sem íslenska landslið tók þátt í stórmóti. Allir leikir íslenska liðsins auk fjölda annarra leikja, voru sýndir beint á rásum RÚV. Einar Örn Jónsson stýrði Stofunni fyrir og eftir leiki Íslands og auk hans voru Kristín Guðmundsdóttir, Karen Knútsdóttir og Rakel Dögg Bragadóttir sérfræðingar. Þá var RÚV mjög virkt á samfélagsmiðlum í kringum mótið.
Jólakveðjur Ríkisútvarpsins eru órjúfanlegur þáttur í jólahaldi landsmanna. Þær eru lesnar að kvöldi 22. desember og allan liðlangan daginn á Þorláksmessu. Fyrirkomulagi pantana á vefnum var breytt þannig að pöntunarformið var einfaldað, fast verð var sett fyrir hverja kveðju í stað þess að verðleggja eftir lengd. Fjöldi jólakveðja hefur aukist jafnt og þétt með árunum og síðustu ár hafa kveðjurnar verið ríflega 3.000 talsins.
Í lok september hófst leit RÚV að Jólastjörnunni 2023. Unglingum 14 ára og yngri var boðið að syngja lag að eigin vali og senda inn myndbandsupptöku af söngnum. Dómnefnd valdi svo tíu söngvara sem þóttu skara fram úr og þeim boðið í prufur. Dómnefndir komst að þeirri niðurstöðu að Írena Rut Jónsdóttir frá Dalvík yrði Jólastjarnan 2023. Hún segist hafa byrjað að syngja áður en hún lærði að tala og er búin að vera í söngnámi frá því hún var fimm ára gömul og er nú í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga. Írena Rut og hinir krakkarnir sem valdir voru í prufur tóku svo þátt í tónleikunum Jólagestir Björgvins 16. desember.
Skál fyrir Vésteini með Andrési Vilhjálmssyni bar sigur úr býtum í hinni árlegu Jólalagakeppni Rásar 2. Höfundur flutti lagið á Jólagestum Björgvins Halldórssonar 16. desember. Jólalagakeppni Rásar 2, sem hóf göngu sína árið 2002, er fastur liður í jólaundirbúningi RÚV. Dómnefnd fór í gegnum öll innsend lög í keppnina í ár og valdi fimm þeirra í úrslit. Það var svo í höndum hlustenda að kjósa sitt uppáhalds jólalag. Atkvæði þeirra giltu jafnt á móti dómnefnd.
Hrefna Lind er með B.Sc.-próf í hugbúnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc.-próf í hönnun og stafrænni miðlun frá Háskólanum í Edinborg og MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnun mannauðs, hugbúnaðarvörum og verkefnum í hugbúnaðargeiranum á undanförnum 17 árum, síðustu ár sem tækni- og þróunarstjóri Stafræns Íslands. Framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá RÚV ber ábyrgð á að móta og fylgja eftir stefnu í stafrænni þróun og upplýsingatækni í takt við stefnu RÚV, leiðir öflugt samstarf milli sviða og deilda til að hámarka árangur með hagnýtingu stafrænna lausna og upplýsingatækni, ber ábyrgð á daglegum rekstri og mannauðsmálum sviðsins sem og áætlanagerð og eftirfylgni með fjárfestingum.
Sífellt fleiri nota öpp til að neyta efnis frá ljósvakamiðlum og smáforrit frá RÚV eru jafnan meðal þeirra mest sóttu fyrir snjalltæki hér á landi. Í aðgengisstefnu Ríkisútvarpsins er lögð áhersla á að RÚV sé aðgengilegt á öllum miðlum. Því tengdu þá hefur smáforrit RÚV verið aðgengilegt í stýrikerfum Apple og Android. Mikilvægt er í ljósi öryggis, gæða og upplifunar að halda slíkum smáforritum uppfærðum. Á árinu voru smáforrit fyrir Apple og Android uppfærð til að auðvelda notkun þeirra og bæta aðgengi notenda að efni RÚV.
Áhersla á íslenska tungu, miðlun á eldra efni, þjónustu við börn og ungmenni og aðgengi allra að miðlum RÚV eru meðal áhersluatriða í nýjum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðherra við Ríkisútvarpið ohf. sem var undirritaður 21. desember og gildir frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2027. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sagði við það tækifæri: “Í nýjum samningi er lögð áhersla á íslensku sem er í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu, sem ég mælti fyrir á Alþingi fyrr í mánuðinum. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu menningar- og félagslegu hlutverki og skiptir miklu máli að tryggja aðgengi allra þjóðfélagshópa að þeirra þjónustu.“ Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði um nýja samninginn að “Áherslurnar sem þar eru lagðar eru skýrar og í sterkum tengslum við þá stefnu RÚV sem mörkuð var á síðasta ári. Öflugt Ríkisútvarp auðgar íslenska fjölmiðlaflóru og samfélagið í heild sinni, enda starfar það dag hvern í þágu fjölbreytts íslensks samfélags. Þeir fjármunir sem varið er til rekstrar RÚV fara beint í framleiðslu og miðlun á fjölbreyttu efni af öllu tagi í sjónvarpi, útvarpi og vef. Slík framleiðsla og miðlun á gæðaefni á íslensku er mikilvæg til að styrkja og efla íslenska tungu á tímum þegar að henni er sótt úr mörgum áttum.“
Liðlega 3000 jólakveðjur voru lesnar í Ríkisútvarpinu í ár og er það svipaður fjöldi af kveðjum og í fyrra. Landsmenn voru heldur langorðaðri í ár en venjulega. Annað hvort lá þeim meira á hjarta en áður eða nýttu sér breytt fyrirkomulag á jólakveðjunum, þar sem í ár var fast verð fyrir hverja kveðju óháð lengd. Það hefði tekið um 14 klukkustundir að lesa allar kveðjurnar samfellt. Jólakveðjulesturinn í heild sinni tók hins vegar um 20 klukkustundir í dagskránni, þar sem tónlist hljómaði inn á milli hátíðarkveðjanna auk hefðbundinna fréttatíma. Kveðjurnar voru lesnar að kvöldi 22. desember og allan liðlangan daginn á Þorláksmessu. Sigvaldi Júlíusson þulur hélt utan um lesturinn en auk hans lásu reyndir þulir kveðjurnar; Anna Sigríður Einarsdóttir, Atli Freyr Steinþórsson, Stefanía Valgeirsdóttir, Anna María Benediksdóttir, Guðríður Leifsdóttir og Arna Sigríður Ásgeirsdóttir auk Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra.
NĀT eftir Báru Gísladóttur var Jólalag Ríkisútvarpsins árið 2023 Kammerkóriinn Schola Cantorum flutti ásamt tónskáldinu sem lék á kontrabassa; Bjarni Frímann Bjarnason stjórnaði. Frumflutningur á hljóðriti Ríkisútvarpsins var gerður í samstarfi við Danska útvarpið.