Sjálfbærnisstefna

Umhverfi og

loftslag

Félagsleg

sjálfbærni

Ábyrgir

stjórnunarhættir

Umhverfi og loftslag

RÚV mætir auknum kröfum um sjálfbærni með því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni með markvissum aðgerðum og leitast við að vera öðrum til fyrirmyndar í umhverfis- og loftslagsmálum.

 

Átak hefur verið gert í flokkun sorps, pappírsnotkun minnkuð og dregið úr matarsóun. Í byrjun árs 2022 var ný loftslagsstefna RÚV samþykkt og var það gert samkvæmt lögum um loftlagsmál. Stefnan inniheldur meðal annars skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun starfseminnar ásamt aðgerðum svo að þeim markmiðum verði náð. Tilgangurinn er að draga markvisst úr áhrifum losunar gróðurhúsalofttegunda af starfseminni og vera til fyrirmyndar með því að hafa bein og óbein áhrif á loftslagsskuldbindingar Íslands.

 

Hjá RÚV er í gildi samgöngustefna sem hefur það að markmiði að gera starfsmönnum auðveldara að fara til og frá vinnu með því að sameinast í bíla eða nota almenningssamgöngur og aðra valmöguleika en að fara um á einkabíl. Samgöngustyrkur er veittur starfsfólki á grundvelli samgöngusamninga við hvern og einn.

 

Skoða umhverfis- og loftslagsstefnu RÚV

Félagsleg sjálfbærni

RÚV styrkir félagslega sjálfbærni með ábyrgri umfjöllun og skýrri stefnu um fjölbreytileika, jafnræði og þátttöku í starfseminni allri. Kynjajafnrétti er sem fyrr hornsteinninn í ytra og innra starfi.

RÚV ohf. starfar í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020. Jafnréttisáætlun RÚV miðar að því að jafna stöðu kynja en nær einnig yfir jafnrétti óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, í samræmi við lög nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.

 

Launaákvarðanir byggjast á málefnalegum forsendum og greiða skal sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf. RÚV fékk jafnlaunavottun 2019 og hún hefur verið endurnýjuð árlega.
Útvarpsstjóri skipaði jafnréttisnefnd haustið 2021 í samræmi við jafnréttisáætlunina með það að markmiði að auka samráð í jafnréttismálum og tryggja að samstaða sé um jafnréttisáætlun og jafnréttisstarf á vinnustaðnum með virkri þátttöku starfsfólks og í góðu samráði við það.

 

Hlutverk jafnréttisnefndar er að fylgjast með stöðu og þróun jafnréttismála hjá RÚV, framvindu þeirra aðgerða sem skilgreindar eru í jafnréttisáætlun og endurskoða umrædda áætlun og aðgerðir eftir því sem þörf krefur. Nefndin fundar reglulega og miðlar upplýsingum um störf sín til útvarpsstjóra og starfsfólks RÚV. Jafnréttisáætlun RÚV og viðbragðsáætlun vegna eineltis og áreitni eru aðgengilegar á rúv.is. Þar er einnig að finna reglur um ráðningar hjá RÚV, samninga við verktaka og reglur um meðferð athugasemda og ábendinga sem tóku gildi vorið 2022.

 

Ársfjórðungslega eru birtar niðurstöður viðmælendagreiningar með tilliti til hlutfalls kynja í miðlum RÚV.

 

Skoða aðgengisstefnu RÚV

Skoða jafnréttisáætlun RÚV

Ábyrgir stjórnunarhættir

 

Stjórn RÚV leggur áherslu á að viðhalda góðum og stjórnarhættir félagsins samræmist því regluverki sem um starfsemina gildir, alþjóðlega viðurkenndum viðmiðum og bestu framkvæmd á sviði stjórnarhátta. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur og er þar meðal annars að finna reglur um fundarsköp, reglur um hæfi stjórnarmanna, upplýsingagjöf útvarpsstjóra gagnvart stjórn og fleira. Fundargerðir stjórnar eru birtar á vef RÚV.

 

Í stjórn RÚV sitja tíu manns, sex karlar og fjórar konur en þar af er einn fulltrúi starfsmanna. Stjórn hefur skipað endurskoðunarnefnd og starfskjaranefnd. Í endurskoðunarnefnd sitja tveir stjórnarmenn og einn starfsmaður RÚV. Meginhlutverk og ábyrgð nefndarinnar er að hafa eftirlit með vinnuferlum við gerð reikningsskila og aðrar eftirlitsaðgerðir, sbr. IX. kafla A. í lögum um ársreikninga nr. 3/2006. Endurskoðunarnefnd skal skila skýrslu um störf sín eigi sjaldnar en árlega. Í starfskjaranefnd sitja þrír stjórnarmenn. Meginhlutverk og ábyrgð nefndarinnar er að yfirfara gildandi starfskjarastefnu og endurskoða hana.

 

Til að tryggja að reikningsskil félagsins séu í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla hefur félagið lagt áherslu á vel skilgreind ábyrgðarsvið, eðlilega aðgreiningu starfa, ásamt reglubundnum fundum og gagnsæi í starfseminni. Ferli mánaðarlegrar skýrslugjafar ásamt rýni fyrir einstakar deildir er mikilvægur þáttur í eftirliti með afkomu og öðrum lykilþáttum starfseminnar. Mánaðarleg uppgjör eru unnin og lögð fyrir stjórn félagsins. Til staðar eru ferlar til að tryggja eftirlit með tekjuskráningu, rekstrarkostnaði og fleiri liðum sem hafa áhrif á rekstur félagsins. Með þjálfun starfsmanna og starfsreglum stefnir félagið að öguðu eftirliti þar sem allir starfsmenn eru meðvitaðir um hlutverk sitt og skyldur.

 

Í þjónustusamningi er kveðið á um að RÚV skuli viðhafa innra eftirlit og fylgja gæðaferlum auk þess sem upplýst skal á gagnsæjan hátt með hvaða hætti það er gert á hverjum tíma, í þeim tilgangi að stuðla að faglegum vinnubrögðum og tryggja gæði frétta- og dagskrárefnis. Aðilar samningsins halda fundi eigi sjaldnar en tvisvar á ári til að fjalla um framkvæmd samningsins, þróun hans, fyrirhugaðar breytingar og markmið.

 

Græna bókhaldið*

65,33%

Eldsneyti fyrirtækja

55,49

Rafmagn

67,65

Heitt vatn

103,4

Flug

*Mælieining í t CO2í