Framleiðsla RÚV árið 2022
Hvergi var slegið af í framleiðslu vandaðs efnis á RÚV þrátt fyrir sérstakt árferði. Það mátti enda færa rök fyrir því að sérstaklega áríðandi væri að gleðja landsmenn á tímum íþyngjandi samkomureglna og gera þeim kleift að dreifa huganum við sjónvarpið, tölvuna eða snjallsímann. Ógnvænlegar fréttir dundu á fólki um hvert metið á fætur öðru í smittölum og áður óþekkt afbrigði veirunnar. RÚV framleiddi vandað efni þar sem ýmsir góðkunningjar landsmanna komu við sögu og einnig nýtt og áhugavert efni.
Margt spennandi efni var á boðstólum á RÚV með bæði nýjum og kunnuglegum andlitum. Fyrstu mánuðirnir voru óvenjulegir en faraldurinn og takmarkanir í framleiðslu höfðu sett svip sinn á árin á undan. Árið 2022 birti til og aftur var hægt að fara á stórviðburði og samkomur og halda nokkurn veginn eðlilegum framleiðslulínum gangandi.
Fréttatengt efni
Breytingar voru gerðar á Kastljósi á árinu þar sem viðtalsþátturinn var sameinaður Menningunni og þannig fékkst meiri sveigjanleiki í umfjöllunum. Ritstjóri var Baldvin Þór Bergsson og með honum voru Sigríður Dögg Auðunsdóttir, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Bergsteinn Sigurðsson og Chanel Björk Sturludóttir. Fjallað var um menningu og málefni líðandi stundar með snörpum viðtölum.
Rannsóknarblaðamennsku var áfram sinnt af fullum krafti í Kveik undir ritstjórn Þóru Arnórsdóttur og með henni vaskir rannsóknarblaðamenn. Farið var djúpt í saumana á ýmsum samfélagsmálum og fjallað um aðstæður á vegum og bílslys, slæman aðbúnað aldraðra, skotvopnaeign landsmanna, úrræðaleysi í vörnum Íslands, ofskynjunarlyf, Úkraínumenn á flótta auk fjölda annarra áhugaverðra og átakanlegra mála.
Silfrið í umsjón Egils Helgasonar var á sínum stað á sunnudögum, en með Agli var hin reynda fjölmiðlakona, Sigríður Hagalín Björnsdóttir. Þau fjölluðu um helstu pólitísku átök líðandi viku og önnur áhugaverð samfélagsmál.
Menning og mannlíf
Landinn var á sínum stað og heimsótti áhugavert fólk og spennandi staði út um allt land. Þátturinn hefur fyrir löngu öðlast sess meðal landsmanna. Ritstjórn Landans var í höndum Gísla Einarssonar og með honum Edda Sif Pálsdóttir, Þórgunnur Oddsdóttir og Viktoría Hermannsdóttir. Ólöf Rún Skúladóttir fréttakona bættist síðar í hópinn.
Sumarlandinn stóð vaktina í sumar og heimsótti landann út um víðan völl og grænar grundir þar sem hann naut veðurblíðunnar. Umsjón var í höndum Gísla Einarssonar og með honum í för voru Guðríður Helgadóttir, Hafsteinn Vihelmsson, Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, Þórgunnur Oddsdóttir, Sigrún Hermannsdóttir og þá var Hlynur Snær trúbador með í för og skemmti áhorfendum með gítarinn.
Gísli Marteinn hélt uppi fjörinu í Vikunni á föstudögum. Þau Berglind Festival fengu til sín skemmtilega gesti og buðu að vanda upp á íslenska tónlist. Ekkert lát virðist á vinsældum Vikunnar, Gísla Marteini og Berglindi til mikillar gleði.
Sigurlaug Margrét Jónasdóttir hélt áfram að fá til sín góða gesti í Okkar á milli og rætt var hispurslaust um áföll, gleði og sorgir.
Bókaormar hafa dálæti á Kiljunni, einum langlífasta þætti RÚV. Egill Helgason fjallaði um áhugaverðar bækur um allt milli himins og jarðar og innlendir sem erlendir höfundar ræddu verk sín, auk þess sem álitsgjafar rýndu í ný verk.
Söngvakeppnin
Söngvakeppnin 2023 var í fyrsta sinn haldin í kvikmyndaverinu í Gufunesi. Það tókst með miklum ágætum og sá vettvangur reyndist henta einkar vel fyrir svo umfangs- og tilkomumiklar beinar útsendingar. Eftir spennandi keppni valdi þjóðin með símakosningu lagið Með hækkandi sól eftir Lay Low, í flutningi Systra. Þær höfðu betur í æsispennandi einvígi við Reykjavíkurdætur.
Eurovision var að þessu sinni haldin í Tórínó á Ítalíu. Felix Bergsson hafði umsjón með þáttunum #12 stig og Alla leið þar sem farið var yfir lög keppninnar og spáð í spilin. Gísli Marteinn fylgdi Systrum til Tórínó og hafði umsjón með þættinum Á tali í Tóríní ásamt Björgu Magnúsdóttur. Gísli Marteinn var sem fyrr þulur í beinum útsendingum í undanúrslitunum 10. og 12. maí og í úrslitunum 14. maí. Systur fluttu framlag Íslands í fyrri undanúrslitunum og komust áfram í úrslit þar sem lagið hafnaði í 23. sæti með 20 stig.
Spurningar og svör
Gettu betur, spurningakeppni framhaldsskólanna, undir stjórn Kristjönu Arnarsdóttur spyrils, er árviss viðburður og keppnin æsispennandi sem fyrr. Undankeppnin var á Rás 2 og úrslitaviðureignirnar fóru fram á föstudagskvöldum í beinni útsendingu á RÚV. Menntaskólinn í Reykjavík hafði betur á móti Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í úrslitaþættinum eftir spennandi keppni. Jóhann Alfreð Kristinsson og Laufey Haraldsdóttir sem voru spurningahöfundar og dómarar, og Sævar Helgi Bragason var áfram til aðstoðar á bak við tjöldin. Þáttaröðin Gettu betur – á bláþræði tók svo við af keppninni en þar sem áttust við ýmsir gleðigjafar.
Í Skólahreysti kepptu efri bekkir grunnskólanna í ýmsum greinum. Þáttaröðin hefur notið mikilla vinsælda um árabil.
Fjórða sería af Kappsmáli fór í loftið á haustdögum. Bragi Valdimar Skúlason og Björg Magnúsdóttir léku sér að tungumálinu og lögðu þrautir fyrir gesti. Stigbeyging, viðtengingarháttúr þátíðar, orðaleikir og fleiri heilabrot biðu keppenda sem komu á óvart með framgöngu sinni.
Kosningar
Í apríl voru sveitarstjórnarkosningar og sama dag var lokakvöldið í Eurovision í Torino á Ítalíu. Fréttamenn RÚV stóðu vaktina á kosningavöku og á sama tíma fylgdist þjóðin með og beið úrslitanna í Eurovision.
Jóladagskrá
Jóladagskráin var óvenjuleg þar sem HM í fótbolta tók desembermánuð að miklu leyti yfir með tíðum beinum útsendingum frá Katar. Hefðbundnir jólaþættir voru prjónaðir inn í þéttskipaða íþróttadagskrá með tilheyrandi HM stofu.
Eftir langt hlé bauð RÚV uppá nýtt íslenskt jóladagatal fyrir börnin, Randalín og Mundi, dagar í desember. Þetta eru 24 vandaðir leikna þætti, tíu mínútna langir, sem voru sýndir daglega frá 1. desember. Þættirnir eru byggðir á bókum Þórdísar Gísladóttur sem einnig skrifaði handrit. Silja Hauksdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir leikstýrðu. Jólaþáttur Ævars vísindamanns var fullur af skemmtilegum uppgötvunum og Jólastundin, sem var að þessu sinni tekin upp á Akureyri, var mjög metnaðarfull og vönduð.
Jólastund snjóbarnanna var samvinnuverkefni norrænu stöðvanna. Hvert land fékk pláss fyrir jólahefðir sínar sem búið var að pakka inn í einn þátt.
Hátíðarmessa biskups á jóladag setti helgisvip á dagskrána og um áramótin fóru í loftið frétta- og menningarannáll, vandaðir þættir þar sem farið var yfir það helsta sem fréttnæmt var á árinu.
Íslenskar þáttaraðir
RÚV framleiddi fjölda þátta og átti auk þess í góðri samvinnu við sjálfstæða framleiðendur sem skiluðu mörgum fínum þáttum. Þar á meðal eru þættirnir Nærumst og njótum, Hvunndagshetjur, Hljómskálinn, Náttúran mín, Veislan, Skapalón og síðustu þættirnir í þáttaröðinni Hvað getum við gert. Hringfarinn bauð upp á ferðalag um Afríku og umsjónarmenn þáttarins Með okkar augum heimsóttu áhugavert fólk og staði.
Viðburðir og beinar útsendingar
FJöldinn allur af viðburðum var sendur út enda voru tónlistarmenn og uppistandarar búnir að fá nægan tíma til þess að liggja undir feld og þróa og semja nýtt efni Covid árin á undan.
Hefðbundnar verðlaunaafhendingar voru á sínum stað, Íslensku bókmenntaverðlaunin, Gríman, Eddan og íslensku menntaverðlaunin og svo íslensku tónlistarverðlaunin fóru fram í beinni útsendingu. Eins voru það fastir liðir eins og Skrekkur, Skólahreysti, Söngkeppni Samfés og Sögur, verðulaunahátíð barnanna sem sýnd voru á árinu.
Í október var farið í stóra söfnun í samstarfi við Rauða Kross Íslands þar sem mannvinasöfnun fór fram undir slagorðinu Verum vinir. Sú söfnun gekk vonum framar en þar var vináttan þema kvöldsins. Síðar þann mánuð áttust skákmenn alls staðar að við á Fischer slemiskákmóti þar sem heimsmeistarinn Magnus Carlsen fór á kostum. Hann veitti auk þess stórskemmtilegt viðtal að loknu móti þar sem Páll Magnússon spurði hann spjörunum úr.
Sent var út frá fjölmörgum tónleikaviðburðum á árinu svo sem Bræðslunni á Borgarfirði eystra og Tónaflóði á Menningarnótt sem íslenskir tónlistarmenn fóru á kostum. Diskókóngurinn Páll Óskar hélt loksins upp á fimmtugsafmælið sitt sem hann sló á frest í kórónuveirufaraldrinum. RÚV sendi út frá þeim viðburði með tilheyrandi glimmeri og glitri.
Tónleikar Ásgeirs Trausta, Dýrð í dauðaþögn, voru teknir upp og settir á dagskrá. Einnig tónleikar Mugisons og Cauda collecitve, tónleikar Hjálma og Sigga Beinteins í 40 ár að ógleymdri Söngkeppni framhaldsskólanna.
Græna röðin með Sinfó hélt áfram og voru stórtónleikar Víkings Heiðars undir stjórn Daníels Bjarnasonar meðal hápunkta sem sendir voru út.
Íslenskar kvikmyndir
Að venju sýndi RÚV fjölda íslenskra kvikmynda og má þar helstar nefna Ég man þig, Hjartasteinn, Hvítur, hvítur dagur og Þorpið í bakgarðinum. Einnig voru sýndir nokkrir eldri gullmolar eins og Með allt á hreinu singalong, Stella í orlofi og Mýrin.
Íslenskar heimildarmyndir
Fjölmargar íslenskar heimildarmyndir voru á dagskrá RÚV. Þar kenndi margra grasa og þar á meðal eru Eftirsókn eftir vindi, Jón Múli 100 ára, Stolin list í tveimur hlutum og Verbúðin á bak við tjöldin, þar sem farið var yfir gerð þessara geysivinsælu þátta. Ennfremur 5 konur 400 ár, Ég er einfaldur maður, ég heiti Gleb, Leitin að gullskipinu, ME sjúkdómurinn, Eins og málverk eftir Eggert Pétursson og Öldin hennar samantekt. Sýndir voru fjórir þættir um Sigga Sigurjóns, einn ástsælasta leikara þjóðarinnar. Egill Helgason fór yfir byggingasögu fimm bæja í þáttunum Bæirnir byggjast. Bæirnir eru Akureyri, Ísfjörður, Vestmannaeyjar, Hafnarfjörður og Seyðisfjörður. Í þættinum Grund var faum 100 ára sögu hjúkrunarheimilisins og að lokum var sýndur þátturinn Velkominn Árni, hugljúf saga um mann sem fær óvænt símtal sem breytir lífi hans á svipstundu.
Leiknir íslenskir þættir
Verbúð var frumsýnd annan dag jóla 2021 og sýningar héldu áfram á fyrri hluta ársins 2022. Það skipti engum togum að þættirnir slógu rækilega í gegn. Landsmenn köfuðu inn í skápa eftir gömlu krepgöllunum, legghlífunum og ennisböndunum og tónlistin úr þáttunum heyrðist hljóma í öllum partíum. Vesturport gerði þáttaröðina sem talaði beint inn í þjóðarsál Íslendinga sem fylgdust æsispenntir með örlögum Vestfjarðanornarinnar og Jóns Hjaltalín útgerðarmanns sem fór á þing. Skemmst er frá því að segja að þáttaröðin sló öll fyrri áhorfsmet fyrir leikið íslenskt efni og var á allra vörum lengi fram eftir ári.
Spunahópurinn Improv Ísland kom með nýja seríu af Kanarí og samdi auk og framleiddi þáttinn Fullveldisdagskrá VHS.
Randalín og Mundi, dagar í desember var nýtt jóladagatal. Fimmtán ár eru síðan RÚV gerði þáttaröð af þessu tagi. Vinirnir Randalín og Mundi lenda í miklum ævintýrum í jólamánuðinum, gera góðverk og óvart skemmdarverk. Þau leysa ráðgátur um grunsamlega nágranna, hjálpa hælisleitendum á flótta, leita aðstoðar spákonu með kristalskúlu, fást við nágranna sem á snák og eltast við alvörujólasvein sem er að læra mannfræði í Háskóla Íslands og dúkkar upp á ólíklegustu stöðum.
RÚV gekk til liðs við hinar norrænu sjónvarpsstöðvarnar í B15 sem er samkomulag um framleiðslu á barnaefni, sambærilegt við N12 sem er leikið efni framleitt og í boði norrænu sjónvarpsstöðvanna. Í gegnum B15 fær RÚV á hverju ári allt að 14 leiknar þáttaraðir sem ætlaðar eru börnum og leggur sjálft til eina. Þannig tryggir RÚV að framleitt er að minnska kosti ein þáttaröð af leiknu barnaefni á ári.
Tímamót og sögulegir viðburðir
Áramótaskaupið 2022 sló í gegn og var sagt vera eitt það besta í áratugi. Framleiðslan var í höndum S800, nýstofnaðs félags í eigu Sigurjóns Kjartanssonar. Leikstjóri var Dóra Jóhannsdóttir, yfirumsjón með handriti hafði Saga Garðarsdóttir og aðrir höfundar voru Sigurjón Kjartansson, Vigdís Hafliðadóttir, Friðgeir Einarsson, Jóhann Kristófer Stefánsson og Dóra Jóhannsdóttir.
Erlent efni
Fjölbreytni, framsýni og sérstaða eru lykilorðin við val á erlendu dagskrárefni. Lagt er kapp á að sýna úrval af því frambærilegasta hverju sinni, einkum því sem annars stæði íslenskum sjónvarpsáhorfendum ekki til boða. Það endurspeglast meðal annars í því að framboð á evrósku efni, jafnt leiknu sem heimildarþáttum, hefur stóraukist og einkum það norræna en hlutfall þess í dagskrá RÚV hefur margfaldast á liðnum árum. Áfram var kappkostað að bjóða upp á efni sem á brýnt erindi við samtímann og setur það sem er efst á baugi hverju sinni í skýrt samhengi.
Erlendar heimildarmyndir
Á árinu var dagskrá RÚV prýdd fjölbreyttu úrvali heimildarþáttaraða og -mynda. Náttúrulífsþættir úr smiðju BBC fengu mest áhorf, þættir á borð við Dýrin taka myndir (Animals with Camera), Serengeti, Njósnarar í náttúrunni (Spy in the Wild) og Leyndarlíf hunda (Secret Life of Dog).
Átakalínur í heimsmálunum settu greinilegt mark á val heimildarmynda. Sýndar voru umtalaðar myndir á borð við Navalny, Zelensky forseti (Zelensky: The Story), Innrás Pútíns í Úkraínu (Putin’s War), Samtal við Gorbatsjov (Meeting Gorbachev) og Trump-sýningin.
Áfram var áhersla á sérvaldar heimildarmyndir um fræga listamenn. Heimsfrægt tónlistarfólk var í forgrunni í myndum á borð við Kryddpíur: Stelpustyrkurinn breytti heiminum (Spice Girls: How Girl Power Changed The World), Líf mitt í The Rolling Stones (My Life as a Rolling Stone), Joni Mitchell (Joni Mitchell: Lady in Blue), Madonna og Amy Winehouse (Reclaiming Amy).
Stakir fræðsluþættir og þáttaraðir um sögu og menningu eins og Persar, saga Írans (Persia: A History), Til Búrma með Simon Reeve (Burma With Simon Reeve), Uppgangur nasista (Rise of the Nazis) og Lífið í Írak (Once Upon a Time in Iraq). Dönsku þættirnir Lausafé (Cash) skoðuðu þær breytingar sem urðu á lífsviðurværi fólks um allan heim af völdum COVID-19, allt frá nuddurum á Taílandi til norskra hóteleigenda.
Léttari mannlífs-, lífsstíls- og matreiðsluþættir voru sem fyrr á dagskrárhlaðborðinu svo sem Af hverju þyngist ég (Why do I put on Weight), Sannleikurinn um breytingaskeiðið (The Truth About the Menopause), Nigella Lawson, Elda, borða, aftur og aftur (Nigella’s Cook, Eat, Repeat). Sænska þáttaröðin Húsið okkar á Sikiley (Husdrömmar på Sicilien) var mjög vinsæl. Þar mátti fylgjast með sænskri fjölskyldu gera upp hús á Sikiley á Ítalíu.
Vandað sérvalið norrænt heimildaefni skipar fastan og fyrirferðarmikinn sess í dagskrá RÚV. Heimildarmyndirnar hafa vakið athygli og auðgað úrvalið í spilara RÚV þar sem þær nýtast vel þegar í boði eru sérstök þemu helguð ákveðnum viðfangsefnum sem gjarnan tengjast tímamótum, árstíma eða viðburðum.
Erlent leikið efni
Samvinna við aðrar norrænar sjónvarpsstöðvar undir merkjum N12 gat enn af sér fjölda frambærilegra, fjölbreyttra og vinsælla leikinna þáttaraða þar sem efnistökin sveiflast frá því að vera hádramatísk eða hörkuspennandi yfir í að vera uppfull af húmor. Hljómsveitin (Orkestret) gefur innsýn í grátbroslegt líf danskrar sinfóníuhljómsveitar, Carmenrúllur (Carmen Curlers) segir sögu eins af helstu frumkvöðlum Danmerku sem ruddi brautina fyrir atvinnuþáttöku og valdeflingu kvenna um leið og hárið var krullað með einfaldari og hagkvæmari hætti en áður. Þetta er fyrsta þáttaröðin af þremur sem DR ætlar að framleiða. Ein allra vinsælasta norræna þáttaröð ársins var önnur röð norsku þáttanna Exit. Þeir fjalla um gerspillta athafnamenn sem hafa misst tökin á lífinu og eru með siðblindu á háu stigi.
Sem fyrr var kappkostað að sýna fjölbreytt evrópskt leikið efni. Meðal þess sem stóð upp úr voru þriðja þáttaröð Framúrskarandi Vinkonu (My Brilliant friend) og Þetta verður vont sem báðar eru byggðar á metsölubókum. Gamlir kunningjar á borð við Veru, Barnaby og Séra Brown stóðu að vanda fyrir sínu og leystu hverja morðgátuna á fætur annarri á föstudagskvöldum á meðan dönsku háðfuglarnir Casper og Frank héldu uppteknum hætti við að koma sér í klandur í tveimur nýju Trúða-seríum (Klovn).
Erlendar kvikmyndir og þemu
Evrópsku kvikmyndaverðlaunin voru veitt hér á Íslandi 10. desember. RÚV stóð fyrir viðamikilli beinni útsendingu sem sýnd var um allan heim. Í tengslum við hátíðina var eldri verðlaunamyndum gert hátt undir höfði í nóvember og desember. Þetta voru kvikmyndir eins og Ferningurinn (The Square), Ninjubarnið (NinjaBaby), pólska kvikmyndin Kalt stríð (Zimna wonja), serbneska kvikmyndin Hvert ferðu, Aida? (Quo Vadis, Aida?) og hollenska kvikmyndin Stúlka (Girl). Einnig var áhersla á fjölskylduvænar kvikmyndir sem sýndar voru á kjörtíma og mælast alltaf vel fyrir.
Hlaðvarpsritstjórn stofnuð og ólínuleg hlustun eykst
Mikilvægt skref var stigið í starfsemi Rásar 1 í átt að aukinni áherslu á ólínulegt efni, þróun þess og framleiðslu þegar hlaðvarpsritstjórn var sett á laggirnar. Hún hefur það sértæka hlutverk að þróa framboð á ólínulegu hljóðefni RÚV og framleiða átta til tólf þáttaraðir á ári sem hugsaðar eru sérstaklega fyrir ólínulega dreifingu. Mest af þessu efni fer þó einnig í línulega dagskrá Rásar 1 og Rásar 2. Áhersla er lögð á vandaða heimilda- og hljóðvinnu og þáttagerð um sértæk efni. Framleiddar voru þáttaraðirnar Kerfið, Leitin, Sterki maðurinn, Lífið eftir vinnu, Skeggi og Joe Grimson: saga af svikum sem allar fengu mikla hlustun. Tvær síðastnefndu þáttaraðirnar nutu sérstakra vinsælda og hlustað var yfir 100.000 sinnum á þær í Spilara RÚV sem er fáheyrt. Allar fengu þessar þáttaraðir þó líka mjög mikla hlustun í dagskrá Rásar 1. Útvarpsleikritið Vetrarfrí vakti líka mikla athygli og fékk mikla hlustun í Spilara.
Breytingar á hádegisdagskrá
Breytingar voru gerðar á hádegisútvarpinu á Rás 1 í lok árs 2021 með því að setja á dagskrá nýjan fréttaskýringaþátt sem fékk nafnið Hádegið. Í maí 2022 var ákveðið að skerpa á þættinum sem fréttaskýringaþætti með því að stytta hann og endurnefna. Þátturinn fékk heitið Þetta helst og er nú á dagskrá að loknum hádegisfréttum kl. 12.40. Þá var líka settur var á dagskrá ný þáttur, Uppástand, að loknu fréttayfirliti kl 12, þar sem fólk víða að úr samfélaginu nálgast tiltekin þemu úr ólíkum áttum. Síðasta lag fyrir fréttir var gert að sérstökum dagskrárlið í umsjá Unu Margrétar Jónsdóttur sem velur lögin og kynnir þau. Síðasta lag fyrir fréttir varð einnig aðgengilegt í Spilara RÚV og nýtur þar talsverðra vinsælda. Allar þessar breytingar á hádegisdagskrá Rásar 1 gáfu góða raun, línurnar í Þetta helst urðu skýrari sem skilaði meiri hlustun bæði línulega og ólínulega, Uppástand er skemmtilegt uppbrot á hádegisdagskránni og Síðasta lag fyrir fréttir nýtur sín betur og fær auk þess talsverða hlustun í Spilaranum.
Menning og samfélag
Hlustun á línulega dagskrá Rásar 1 hefur aukist talsvert á undanförnum árum eftir breytingar sem gerðar voru fyrir sjö til átta árum. Dagskráin er fjölbreytt en byggist umfram allt á upplýsandi og gagnrýnni umfjöllun og umræðu um menningarleg og samfélagsleg mál. Sögulegir þættir á borð við Í ljósi sögunnar með Veru Illugadóttur og Frjálsar hendur með Illuga Jökulssyni njóta líka mikilla vinsælda ásamt fjölbreyttri tónlistardagskrá. Þar mætti til að mynda nefna Á reki með KK, Óskastundina með Svanhildi Jakobsdóttur og Flugur Jónatans Garðarssonar, auk reglulegra útsendinga frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og öðrum tónleikaviðburðum á landinu.
Hátíðardagskrá
Að vanda var svo lagt mikið upp úr hátíðardagskrá Rásar 1 enda vinsældir Rásar 1 sjaldan jafn miklar og einmitt á hátíðum. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að framleiða þáttaraðir fyrir hátíðisdaga á borð við jól og páska, þáttaraðir sem einnig henta vel til ólínulegrar hlustunar. Þáttaröðin um Joe Grimson: saga um svik er dæmi um þetta, sömuleiðis þáttaröðin um kvótakerfið, sem nefnd var hér að framan, og svo þáttaröðin Óróapúls sem fjallaði um grundvallarrit alþjóðlegs módernisma eftir James Joyce og T.S. Eliot sem komu út fyrir hundrað árum, Ódysseifur og Eyðilandið. Eins og undanfarin ár var svo lagt mikið upp úr því að framleiða heimildaþáttaraðir til flutnings á laugardagsmorgnum kl 10.15 sem jafnframt hafa hentað vel til ólínulegrar hlustunar. Þar voru á dagskrá þáttaraðir á borð við Á verkstæði bókmenntanna, Fólkið í garðinum, Pilluna, Leitina, Húsmæður Íslands, Sjáandann á Vesturbrú og Skeggja.
Eiríkur Guðmundsson
Eiríkur Guðmundsson, útvarpsmaður og rithöfundur, féll frá 8. ágúst 2022. Eiríkur hóf störf á Rás 1 árið 1997 og vann þar með stuttu hléi til ársins 2021. Hann var án vafa einn af áhrifamestu útvarpsmönnum landsins. Með honum hverfur ein af sterkustu röddunum í íslenskri menningarblaðamennsku síðasta aldarfjórðung. Eiríkur hélt úti menningarþættinum Víðsjá mestan hluta sinn starfsferil hjá RÚV en átti einnig stóran þátt í því að búa til annan grundvallarþátt í menningardagskrá Rásar 1, Lestina.
Tónlist
Á árinu 2022 voru á dagskrá Rásar 1 tónlistarþættir, þar sem kynnt var tónlist af ýmsu tagi, nýjar tónleikahljóðritanir, bæði innlendar og erlendar og hljóðrit gerð sérstaklega fyrir Ríkisútvarpið, bæði ný og úr safni.
Einn mikilvægasti liðurinn í tónlistardagskrá Rásar 1 er hljóðritun á tónlist, en með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útsendingum frá ýmsum tónlistarhátíðum og öðrum tónleikum gegnir Rás 1 lykilatriði við miðlun tónlistar til allra landsmanna. Auk tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands hljóðritaði Rás 1 og sendi út frá ýmsum tónleikum í tónleikaröð Hörpu „Sígildum sunnudögum“, frá tónleikum Stórsveitar Reykjavíkur og Íslensku óperunnar og frá þremur tónleikaröðum Salarins í Kópavogi, tónleikaröðunum Tíbrá, Syngjandi í Salnum og Ár íslenska einsöngslagsins. Einnig má nefna hljóðritanir frá Listahátíð í Reykjavík, tónlistarhátíðinni Norræum músíkdögum og norrænu kórahátíðinni Nordklang auk tónleika úr tónleikaröð Kammermúsíklúbbsins og tónleika Kammersveitar Reykjavíkur. Jólatónleikar Kammersveitarinnar voru framlag Ríkisútvarpsins til jólatónleikadags EBU, Sambands evrópskra útvarpsstöðva, og var þeim útvarpað í á þriðja tug ríkisútvarpsstöðva í Evrópu, auk þjóðarútvarpsstöðva í Ástralíu, Nýja Sjálandi, Bandaríkjunum og Kanada.
Ungt tónlistarfólk
Ungt tónlistarfólk var í forgrunni í stúdíóhljóðritum sem útvarpað var í hátíðardagskrá um jól og áramót. Fjórir, ungir píanóleikarar, sigurvegarar EPTA píanókeppninnar, léku í nýju hljóðriti Rásar 1 á nýársdag og fiðluleikarinn Rannveig Marta Sarc, sem valin var „Bjartasta vonin“ á Íslensku tónlistarverðlaununum 2022, lék barokktónlist í aðdraganda jóla á aðfangadag.
Jólalag Ríkisútvarpsins
Jólalag Ríkisútvarpsins hefur fyrir löngu skipað sér sess í jóladagskrá Rásar 1. Jólalagið 2022 er eftir Pál Ragnar Pálsson tónskáld, og Tui Hirv og Spilmenn ríkisins frumfluttu það í desember. Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins og STEF styrkja verkefnið.
Samstarf
Samstarf við Samband evrópskra útvarpsstöðva (EBU) er þýðingarmikill þáttur í tónlistardagskrá Rásar 1. Hlustendur hafa notið þessa samstarfs í reglulegum útsendingum og Ríkisútvarpið og íslenskt tónlistarlíf hafa verið virkir þátttakendur í frjóu samfélagi evrópsks tónlistarlífs. Tónleikahljóðritunum frá helstu tónlistarhúsum Evrópu var útvarpað í þáttunum Endurómi úr Evrópu, Óperukvöldum útvarpsins og Sumartónleikum evrópskra útvarpsstöðva. Má þar nefna hljóðritun frá samstöðutónleikum Fílharmóníusveitar Berlínar með úkraínsku þjóðinni; tónleika sem UNESCO stóð fyrir í Marokkó í tilefni af Alþjóðlega djassdeginum þar sem afrískar djasskonur voru í sviðsljósinu; og hljóðritun á Rínargulli Richards Wagners frá Bayreuth-hátíðinni þar sem barítónsöngvarinn Ólafur Kjartan Sigurðarson var í aðalhlutverki.
Heimildarþættir um tónlist
Af heimildarþáttum um tónlist sem voru á dagskrá á árinu má nefna þátt Elísabetar Indru Ragnarsdóttur um píanóleikarann Önnu Guðnýju Guðmundsdóttur, heiðursverðlaunahafa Íslensku tónlistarverðlaunanna 2022. Þá minntist Vernharður Linnet 100 ára fæðingarafmælis bassaleikarans og tónskáldsins Charles Mingus og Pétur Grétarsson rifjaði upp aðdragandann að stofnun Stórsveitar Reykjavíkur á 30 ára afmælisári sveitarinnar. Una Margrét Jónsdóttir minntist söngvaranna Þuríðar Pálsdóttur og Jóns Sigurbjörnssonar í þáttum sínum Á tónsviðinu og ný hljóðrit voru flutt í þáttum hennar um tónskáldin Jónas, Helga og Sigurð Helgasyni auk frumhljóðritunar á lagi eftir Bjarna Þorsteinsson.
Útvarpsleikhús ið
Árið 2022 var um margt óhefðbundið fyrir Útvarpsleikhúsið en sú ákvörðun var tekin í byrjun árs að Útvarpsleikhúsið heyri undir nýstofnaða hlaðvarpsritstjórn. Útvarpsleikhúsið einblínir því fyrst og fremst að hlaðvarpsvænum verkefnum og leiknum þáttaröðum. Tvær þáttaraðir voru frumfluttar, en stefnt er að því að þær verði þrjár til fjórar á ári. Fjöldasamkoman á Gjögri var frumflutt um páskana en það er framhaldsverk í fjórum þáttum eftir Hallveigu Kristínu Eiríksdóttur og Eygló Höskuldsdóttur Viborg og hugmyndin kom í gegnum Hugmyndadaga RÚV. Leikna hlaðvarpið Vetrarfrí var frumflutt í haust en það byggist á tveimur verðlaunabókum Hildar Knútsdóttur, Vetrarfrí og Vetrarhörkur og er fyrst og fremst ætlað stálpuðum börnum og ungmennum. Hildur skrifaði útvarpsleikgerðina og Sigurjón Kjartansson leikstýrði. Þetta var fyrsta eiginlega verkefni Útvarpsleikhússins undir hlaðvarpsritstjórn. Lögð var áhersla á að ná til markhópsins í gegnum samfélagsmiðla og auglýsingar og óhætt er að segja að vel hafi tekist til því Vetrarfrí er meðal vinsælustu hlaðvarpa ársins og fékk afar góða hlustun, ekki síst ólínulega.
Hlutverk Rásar 2 er miðlun á íslenskri tónlist og markmið stöðvarinnar er að íslensk tónlist sé um helmingur allrar tónlistar. Hlutfallið var enn hærra á árinu en hluta af þeim árangri má rekja til aukningar í útgáfu á íslenskri tónlist. Rúmlega helmingur flytjenda og höfunda plötu vikunnar voru konur. Markvissar aðgerðir hafa aukið hlustun verulega í hópi fólks á aldrinum 18-29 sem leggur grunn að framtíðarhlustendum stöðvarinnar.
Íslensk tónlist í öndvegi
Rás 2 er leiðandi í umfjöllun um íslenska tónlist. Rás 2 tók upp þráðinn eftir heimsfaraldur og hélt áfram að senda út íslenska tónlist í beinni útsendingu. Rás 2 sendi út úrslitakvöld Músíktilrauna, Aldrei fór ég suður, Bræðsluna og Iceland Airwaves og Stúdíó RÚV fór í loftið, en þar koma fram íslenskir listamenn í Stúdíó A og flytja nýja íslenska tónlist. Efnið fer í gegnum línulega dagskrá Rásar 2 og er sent út sem stök myndbönd á samfélagsmiðlum og sjónvarpsþáttur undir merkjum Stúdíó RÚV. Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2 á Arnarhóli voru svo aftur á dagskrá á Menningarnótt en þar kom fram rjómi íslenskrar tónlistar og Bríet lokaði kvöldinu með glæsilegum tónleikum.
Ný íslensk tónlist
Rúmlega 800 ný íslensk lög voru frumflutt í Undiröldunni og Popplandi. Yfir sumarið voru svo á dagskrá sérstakar tónlistarseríur þar sem farið var yfir sögu Hip hops á alþjóðavísu ásamt því að Krummi Björgvinsson gerði sérstaka seríu um sveitatónlist og kántrí. Þessar seríur héldu svo áfram um haust og vetur, en þær hafa verið á dagskrá á sunnudagsmorgnum þar sem einblínt hefur verið á sérstakar tónlistarstefnur eins og t.d. sveitatónlist, sálar og funk tónlist svo eitthvað sem nefnt. Að lokum má geta þess að 90 ný íslensk jólalög voru send inn í jólalagakeppni Rásar 2.
Party Zone snéru svo aftur heim á Rás 2 og voru undir diskó kúlunni á laugardagskvöldum sumarið 2022.
Rás 2 um allt land
Sumarið 2022 urðu gerðar töluverðar breytingar á helgardagskrá Rásar 2. Þátturinn Hljóðvegur 1 fór í loftið og var á dagskrá eftir hádegi á laugardögum og sunnudögum yfir allt sumarið. Þau Steiney Skúladóttir og Jóhann Alfreð Kristinsson voru umsjónarfólk Hljóðvegs 1 en þar var einblínt á að miðla því sem var að gerast út um allt land. Til að gera það fóru þau sjálf út um allt land og sendu út í beinni útsendingu allstaðar af landinu. Félagsheimilið opnaði svo dyrnar á sumarmánuðum með þeim Friðriki Ómari og Sigga Gunnars, en Félagsheimilið eríslenskur skemmtiþáttur sem var á dagskrá eftir hádegi alla föstudaga sumarið 2022 og naut sá þáttur gríðarlegra vinsælda.
Mikil hlustun
Hlustun á Rás 2 er mikil og hefur haldist þannig síðustu tvö ár. Meira var hlustað á Rás 2 en nokkra aðra útvarpsstöð á landinu auk þess sem hlustun hefur aukist mikið meðal hlustenda undir þrítugu. Skýr merki um það árið 2019 að áherslubreytingar í dagskrá leiddu til aukinnar hlustunar. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka hlut kvenna í dagskránni, bæði í hópi þáttastjórnenda og flytjenda. Í dægurmálaþáttum stöðvarinnar eru konur í meirihluta í hópi þáttastjórnenda og hugað er að því í uppsetningu allrar annarrar dagskrár að hlutfallið sé sem jafnast. Fréttahlustun var í hæstu hæðum en þar fyrir utan var mikil hlustun á aðra dagskrá.
Nýr dagskrár– og tónlistarstjóri og Gunna Dís sneri aftur
Í upphafi árs hætti Baldvin Þór Bergsson sem dagskrárstjóri Rásar 2 og er nú ritstjóri Kastljóss. Matthías Már Magnússon var ráðinn dagskrárstjóri Rásar 2 en hann hafði áður verið aðstoðardagskrárstjóri samhliða störfum sínum sem tónlistarstjóri rásarinnar. Þá var Sigurður Þorri Gunnarsson ráðinn tónlistarstjóri Rásar 2 en hann var áður dagskrár- og tónlistarstjóri útvarpsstöðvarinnar K100. Sigurður er menntaður fjölmiðlafræðingur frá Háskólanum á Akureyri og með meistaragráðu í fjölmiðlafræði með áherslu á útvarp frá háskólanum í Sunderland á Englandi. Guðrún Dís Emilsdóttir hóf aftur störf á Rás 2 og gekk til liðs við Andra Frey Viðarsson og Hrafnhildi Halldórsdóttur í Síðdegisútvarpinu.
Stórt fréttaár
Árið 2022 rak hver stórviðburðurinn annan í fréttum. Stríðsátök í Evrópu, með innrás Rússa í Úkraínu í lok febrúar, settu mestan svip á fréttaárið. Afleiðingar átakanna voru líka áberandi í fréttum: orkukreppa, verðbólga og stríður straumur flóttamanna, meðal annars til Íslands með tilheyrandi álagi á innviði. Öryggislandslag Evrópu gerbreyttist og ríki sem áður stóðu utan varnarbandalaga leituðu skjóls í Atlantshafsbandalaginu. Fréttastofa RÚV fjallaði ítarlega um innrásina og afleiðingar hennar og var meðal annars með fréttateymi í Kyiv daginn sem innrásin hófs. Nokkrum vikum síðar var fréttateymi RÚV í Póllandi og fylgdist með flóttamannastraumi frá Úkraínu og á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madrid þar sem aðildarumsóknir Svía og Finna voru samþykktar. Þá var Jón Björgvinsson, fréttaritari RÚV, talsvert í Úkraínu og sendi fréttir heim.
Af öðrum stórum fréttamálum má nefna heimsfaraldurinn, kosningar til sveitarstjórna, óvenjumörg stór sakamál, miklar vetrarhörkur og eldgos á Reykjanesskaga,
Kosningar til sveitarstjórna
Þann 14. maí var kosið til sveitarstjórna. Fréttastofan skipulagði kosningaumfjöllun þar sem rætt var við fulltrúa allra framboða í 12 af fjölmennustu sveitarfélögum landsins. Þættirnir voru sendir út á Rás 2 og í fyrsta sinn líka í mynd á RÚV.is. Fjallað var um öll sveitarfélög landsins á kosningavef RÚV sem var opnaður í byrjun maí og þar var líka finna kosningapróf sem mörg hundruð frambjóðendur af landinu öllu og meira en 50 þúsund kjósendur svöruðu. Mánuði fyrir kosningar fór kosningahlaðvarp í loftið en það var samstarfsverkefni fréttastofu, Rásar 1 og Rásar 2 þar sem fjallað um kosningarnar frá ýmsum hliðum og rætt við frambjóðendur. Fjallað var um ýmis málefni tengd kosningunum í fréttatímum og í Kastljósi vikurnar fyrir kjördag. Daginn fyrir kjördag mættust oddvitar framboða í Reykjavík í beinni útsendingu í sjónvarpssal. Að kvöldi kjördags stóð fréttastofan fyrir kosningavöku þar sem fylgst var talningu atkvæða og úrslitum í öllum sveitarfélögum landsins. Mikil vinna fór í undirbúning vökunnar, ekki síst nýtt kerfi til að birta niðurstöður í hverju sveitarfélagi. Stór snertiskjár var í fyrsta sinn notaður í sjónvarpsútsendingunni til að skýra tölur og úrslit.
Fréttaflutningur erlendis frá
Fréttastofa RÚV var á faraldsfæti á árinu. Fréttamenn sinntu störfum sínum hérlendis sem erlendis, meðal annars í Úkraínu, Póllandi og á Spáni. Þá fylgdist fréttastofan með kosningum í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Frakklandi og fylgdi forsætisráðherra á fund Atlantshafsbandalagsins í Brussel. Loks fylgdist fréttastofan með útför Elísabetar drottningar í London. Jón Björgvinsson, fréttaritari RÚV, sendi talsvert efni frá Úkraínu en einnig frá Katar þar sem heimsmeistaramótið í fótbolta fór fram.
Traust og aukið áhorf
Traust er öllum fjölmiðlum nauðsynlegt en það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt og fréttastofan er þakklát fyrir það aukna traust sem almenningur ber til hennar.
Traust er öllum fjölmiðlum nauðsynlegt en það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt og fréttastofan er þakklát fyrir það aukna traust sem almenningur ber til hennar. Í nóvember 2022 sögðust nærri 70% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofunnar. Því þarf að viðhalda með faglegum og góðum vinnubrögðum alla daga ársins.
Þegar á reynir leitar þjóðin til fréttastofu RÚV og það sést glöggt á niðurstöðum áhorfs- og hlustunarmælinga. Meðaláhorf á sjónvarpsfréttir klukkan 19 var um 25% árið 2022 samanborið við 26% árið 2021. Mest áhorf var á sjónvarpsfréttatíma sem tengdust veðurofsa og rauðum veðurviðvörunum. Meðaláhorf á fréttir kl. 22 var um 16%. Meðalhlustun á hádegisfréttir RÚV var 10,6%.
Meðaláhorf á Kveik var 18,7%.
Kastljós
Í byrjun árs var Kastljós endurskipulagt með sameiningu við Menninguna. Við það varð til lengri þáttur, stærri ritstjórn og efnistökin urðu fjölbreyttari. Þátturinn er samvinnuverkefni fréttastofu og Dagskrárdeildar sjónvarps en fréttastofan á einn fulltrúa í ritstjórninni.
Kveikur
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur leitaði víða fanga á árinu. Sagðar voru sögur af stöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum, fjallað um fyrirhuguð vindorkuver á Íslandi og smávirkjanir, fjárfestingasvik á netinu, hormónaraskandi efni í leikföngum og öðrum barnavörum, ofskynjunarefni sem gætu nýst gegn geðsjúkdómum, slæman aðbúnað aldraðra, skjáfíkn barna og skotvopnaeign. Þá var fjallað um öryggi farþega um borð í Breiðafjarðarferjunni Baldri um umferðaröryggi, fæðuöryggi og hernaðarlegt öryggi. Í lok árs var sýndur jólaþáttur um tvær sýrlenskar fjölskyldur sem komu til Íslands sem flóttamenn fyrir sjö árum. Kveikur hafði fylgt þeim eftir í sjö ár. Fréttateymi Kveiks var í Úkraínu þegar Rússar réðust inn í landið í lok febrúar. Markmiðið var að fjalla um aukna spennu á svæðinu en þegar innrásin hófst var ákveðið að teymið færi aftur úr landinu. Innslag þeirra um ferðalagið frá Kyiv til Póllands vakti mikla athygli.
Efnisval Kveiks er fjölbreytt en markmiðið er ávallt að fá dýpri og ítarlegri umfjöllun en unnt er að veita í daglegum fréttum. Fréttaskýringar Kveiks eru alla jafna nokkrar vikur eða mánuði í vinnslu og vekja verðskuldaða athygli. Nauðsynleg samfélagsleg umræða fer iðulega af stað í kjölfar þeirra.
Spegillinn
Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn er rótgróinn og mikilvægur liður í fréttaþjónustu RÚV. Daglega geta hlustendur Rásar 1 og 2 leitað þangað eftir djúpri og umfangsmikilli umræðu um öll helstu samfélagsmál. Ofarlega á baugi á árinu voru farsóttin og áhrif hennar, kjaramál, umhverfis- og loftslagsmál og erlend málefni. Spegillinn nýtur liðsinnis pistlahöfunda í nágrannalöndunum sem fjalla um helstu mál í sínum löndum.
Nýjungar á fréttastofunni
Eitt stærsta verkefni ársins var að taka í notkun nýjan vef RÚV. Vefurinn var hannaður og smíðaður innanhúss og var opnaður almenningi í byrjun desember. Með nýjum og hraðari vef gjörbreyttist framsetning frétta og annars efnis. Þar að auki var vinnuumhverfi frétta- og dagskrárgerðarmanna einfaldað til muna með nýju vefumsjónarkerfi.
Eitt af verkefnum ársins var að stórauka fréttaþjónustu á pólsku fyrir pólskumælandi fólk á Íslandi. Ráðinn var pólsku- og íslenskumælandi fréttamaður sem þýðir fréttir yfir á pólsku, flytur fréttir af pólska samfélagingu á íslensku og heldur úti fréttahlaðvarpinu Wyspa. Wyspa þýðir eyja á pólsku og er oft notað yfir Ísland.
Á árinu var ráðinn fréttamaður til að halda úti fréttaþjónustu á samfélagsmiðlum. Þetta er nýjung í starfsemi fréttastofunnar en á sér fyrirmyndir hjá erlendum almannaþjónustumiðlum. Markmiðið er að ná til þeirra sem ekki horfa eða hlusta á fréttir í línulegri dagskrá, sækja sér heldur ekki fréttir á netinu heldur treysta á fréttir af samfélagsmiðlum. Þetta á fyrst og fremst við um yngstu kynslóð fréttaneytenda. Samhliða þessari ráðningu var opnaður Tiktok-reikningur fréttastofunnar sem hefur vakið talsverða athygli en þar eru birtar fréttir og skýringar sem eiga að höfða sérstaklega til yngstu hópanna.
Haustið 2022 var starfsemi fréttastofunnar á landsbyggðinni endurskoðuð. Þá hafði verið ákveðið að ráða ekki í lausa stöðu fréttamanns á Vesturlandi og Vestfjörðum. Sú staða var auglýst en mjög fáar umsóknir bárust. Ákveðið var að auglýsa stöðu fréttamanns á Suðurlandi í staðinn, setja fréttaferðir á Vesturland og Vestfirði í ákveðinn farveg og skerpa á ritstjórnarhlutverki svæðisstjóra. Ágúst Ólafsson, sem var svæðisstjóri, er nú ritstjóri svæðisfrétta. Í árslok voru þrír fréttamenn starfandi á Akureyri, einn á Egilsstöðum og verið að ráða fréttamann á Suðurlandi. Vonir standa til að hægt verði að ráða í stöðu fréttamanns á Vesturlandi árið 2023.
Heimskviður
Heimskviður er eini fréttaskýringaþáttur landsins sem setur erlend málefni í brennidepil. Þátturinn er vikulega á dagskrá Rásar 1 og er líka vinsæll á hlaðvarpsveitum. Á árinu rýndu þáttastjórnendur í stöðuna í Úkraínu og Rússlandi með nýstárlegum hætti, með því að fjalla til dæmis um staðgöngumæður í Úkraínu, sögu og hugmyndafræði innrásarinnar, eftirspurn eftir úkraínskum konum í kynferðislegum tilgangi eftir innrásina og jarðsprengjumagnið sem Rússar skilja eftir sig. Samhliða ítarlegum fréttaskýringum með hjálp sérfróðra viðmælenda er fjallað um erlend málefni sem sjaldan rata í fréttir hér á landi, til dæmis fangaskiptasamning Danmerkur og Kósóvó, dauðarefsingar í Íran og fjáraustur stjórnvalda í Sádi-Arabíu í íþróttaheiminum. Þátturinn er unninn í samstarfi fréttastofu og Rásar 1.
Nýtt stjórnendateymi og mannabreytingar
Í byrjun árs tók Heiðar Örn Sigurfinnsson, varafréttastjóri, við sem settur fréttastjóri eftir að Rakel Þorbergsdóttir lét af störfum. Staða fréttastjóra var auglýst í janúar, fjórar umsóknir bárust og Heiðar Örn var ráðinn í starfið um miðjan febrúar. Þann fyrsta mars tóku Birta Björnsdóttir og Valgeir Örn Ragnarsson við sem varafréttastjórar. Broddi Broddason, varafréttastjóri, lét af störfum í apríl eftir áratugastarf hjá RÚV.
Íþróttadeild RÚV
RÚV fylgist með afreksfólki og birtir íþróttaefni sem sameinar íslensku þjóðina og kappkostar að fjalla um fjölbreyttar íþróttagreinar og allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. Mikil áhersla er lögð á að fjalla um íþróttaiðkun allra kynja og ólíkra hópa. Markmiðið með þessari stefnu er í senn miðla helstu íþróttaafrekum í opinni dagskrá, varðveita íþróttasögu okkar og hvetja til aukinnar íþróttaiðkunar og lýðheilsuvitundar.
EM karla og kvenna í handbolta
Evrópumót karla í handbolta fór fram í Ungverjalandi í janúar. Þrátt fyrir að fjöldi lykilmanna hafi ekki getað leikið með liðinu vegna heimsfaraldurs þá var árangurinn góður og liðið endaði í 6. sæti. Handboltafár greip um sig meðal þjóðarinnar og leikir Íslands röðuðu sér í efstu sætin yfir þá íþróttaviðburði sem fengu mest áhorf á árinu og þar hafði gengi liðsins mikið að segja.
Ísland tók ekki þátt í Evrópumóti kvenna í handbolta í nóvember en átti þar sinn fulltrúa að venju. Þórir Hergeirsson stýrði norska kvennalandsliðinu til sigurs á mótinu og er þetta fimmti Evrópumeistaratitill Noregs undir stjórn Þóris. Mótinu voru gerð góð skil á rásum RÚV.
Vetrarólympíuleikar og Vetrarólympíumót fatlaðra í Beijing
Að þessu sinni átti Ísland fimm keppendur á Vetrarólympíuleikunum. Snorri Einarsson náði bestum árangri Íslendinga á leikunum þegar hann tók þátt í 30 kílómetra skiptigöngu. Snorri endaði í 29. sæti sem er besti árangur sem íslenskur skíðagöngumaður hefur náð á Ólympíuleikum. RÚV var á staðnum í Kína og fylgdist náið með keppendum Íslands auk þess að sýna frá fjölda greina í beinni útsendingu og fjalla um helsta viðburði dagsins í Ólympíukvöldi.
Hilmar Snær Örvarsson var eini keppandi Íslands á vetrarólympíumóti fatlaðra. Hilmar mætti öflugur til leiks í svigi og endaði í fimmta sæti. Það er besti árangur Íslendings frá upphafi á vetrarólympíumóti fatlaðra. Umfjöllun Rúv um Vetrarólympíuleika fatlaðra hefur aldrei áður verið eins fyrirferðamikil í miðlum Rúv.
EM kvenna í fótbolta
Ruv fylgdi eftir íslenska liðinu sem tók þátt í Evrópumóti kvenna í fótbolta fjórða skiptið í röð. Í aðdraganda mótsins sýndi RÚV þættina „Förum á EM“ þar sem leikmenn liðsins voru heimsóttir og kynntir til leiks. Ísland var í riðli með Frökkum, Ítölum og Belgum en jafntefli í öllum þremur leikjunum dugði liðinu ekki til að komast uppúr riðlinum og í 8-liða úrslit. Allir leikir á EM kvenna voru sýndir á rásum RÚV auk þess sem EM stofan var á sínum stað fyrir og eftir alla leiki. Leikur Frakklands og Íslands fékk mesta áhorfið á EM og gaman að sjá töluverða vöxt í áhorfi Íslendinga á kvennaknattspyrnu. HM kvenna verður sýnt í beinni útsendingu á RÚV í júlí og ágúst 2023.
HM karla í fótbolta
Heimsmeistamót karla í fótbolta fór fram að þessu sinn í Katar sem var gagnrýnt töluvert vegna mannréttindabrota þar í landi. Allir leikir mótsins voru sýndir í beint á rásum RÚV og svo gerðir sérstaklega upp í HM-stofu og á HM-kvöldi. Þetta var fyrsta sinn sem heimsmeistaramót var haldið í nóvember og desember en áhorfið var með því mesta sem hefur mælst. Niðurstöður könnunar sem Maskína gerði fyrir RÚV sýndu að yfirgnæfandi ánægja var með framkvæmd mótsins að hálfu RÚV. Argentína stóð uppi sem sigurvegari eftir vítaspyrnukeppni við Frakkland í leik sem margir telja besta úrslitaleik í sögu heimsmeistarakeppninnar.
Bikarúrslit, Skólahreysti og aðrir viðburðir
RÚV hélt áfram að sýna frá Íslandsmótum og bikarúrslitum í hinu ýmsu íþróttagreinum. Meðal þess sem fjallað var um í beinum útsendingum var Meistaradeildin í hestaíþróttum, Íslandsmótið í golfi, bikarúrslit í handbolta, körfubolta, fótbolta, blaki og fimleikum. Þá var sýnt frá fjölda greina á Reykjavíkurleikunum auk þess sem Skólahreysti var á sínum stað þar sem nemendur í grunnskólum landsins keppa sín á milli í hinum ýmsu greinum sem reyna á kraft, styrk og þol. RÚV var einnig í Þýskaland og fjallaði um Meistaramót Evrópu en þar á meðal voru íslenskir þátttakendur í frjálsíþróttum, sundi, fimleikum og hjólreiðum. Verðlaunahátíðin um valið á í íþróttamanni ársins var í beinni útsendingu í lok árs. Íþróttadeild RÚV hélt úti hlaðvarpsþáttum á stórmótum til að gefa hlustendum aðra sýn á viðburði sem skipta þjóðina máli. Það gaf góða raun og verður haldið áfram.
Miðlun dagskrár
Á KrakkaRÚV er fjölbreytt framboð efnis fyrir börn á öllum aldri í línulegri dagskrá, í spilara og á vefmiðlum. Kjarni þjónustu KrakkaRÚV er á krakkaruv.is en þar er spilarinn staðsettur. Á vefnum má nálgast allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn. KrakkaRÚV á sér tíma í línulegri dagskrá alla daga milli 18:00-18:50 og um helgar frá 07:15-10. Að staðaldri eru framleiddir sex nýir þættir á viku en stundum fleiri. Áhersla er lögð á samstarf við stofnanir sem vinna í þágu barna.
KrakkaRÚV fyrir öll
Fjölbreytt framboð var á efni fyrir börn og ungmenni á öllum miðlum RÚV árið 2022. Áhersla var lögð á að auka þjónustu við þau allra yngstu (0-3 ára), með aðgengilegum styttri þáttum sem ýta undir málþroska og eru ekki með of mikið áreiti. Einnig var leikið efni í forgrunni með Stundinni okkar þar í fararbroddi.
Krakkafréttir
Krakkafréttir halda áfram að festa sig í sessi. Þar eru fluttar skýrar og hnitmiðaðar fréttir af því helsta sem gerist í íslensku samfélagi og heiminum öllum. Í fréttatímum má meðal annars finna fréttir af vísindum, íþróttum, menningu og krökkum sem gera garðinn frægan. Gunnar Hrafn Kristjánsson og Kolbrún María Másdóttir héldu áfram að flytja fréttir, en í haust fluttu Krakkafréttir úr grænskjástúdíói í stóra fréttastúdíóið. Auk hefðbundinna lesinna frétta voru sérstakir þættir á vettvangi, svo sem í tilefni Vetrarólympíuleika og Barnaþings. Í mars urðu breytingar á framleiðslu Krakkafrétta þegar Jóhannes Ólafsson hætti sem ritstjóri og Karitas M. Bjarkadóttir tók við Krakkafréttum, Húllumhæ og Krakkakiljunni. Fram að sumri héldu krakkafréttamennirnir Elfa Rún Karlsdóttir og Vilhjálmur Hauksson áfram að flytja fréttir á vettvangi á Norðurlandi og í Reykjavík. Birta Steinunn Ægisdóttir bættist svo í hópinn í vor og var fréttaritari Krakkafrétta á meginlandi Evrópu. Krakkafréttaárinu lauk á Krakkafréttaannál þar sem Gunnar og Kolbrún fóru yfir fréttir ársins og ræddu við góða gesti.
Húllumhæ
Iðunn Ösp Hlynsdóttir og Árni Beinteinn héldu áfram að fjalla um menningarheim krakka í Húllumhæ. Iðunn las í setti og Árni Beinteinn heimsótti leikhús, listamenn, söfn og tónlistarhús um allt land. Að hausti var svo kominn tími á breytingar og eftir prufur voru Bjarni Kristbjörnsson og Anja Sæberg ráðin til að halda áfram ítarlegri og skemmtilegri menningarumfjöllun. Þau lesa bæði kynningar og gera innslög á vettvangi.
Krakkakiljan
Bókaormarnir Emma Nardini Jónsdóttir og Auðunn Sölvi Hugason fjölluðu um uppáhaldsbækurnar sínar og aðrar nýútkomnar bækur. Þau ræddu við höfunda, þýðendur og myndhöfunda bókanna í Kiljusettinu. Viðtölin voru sýnd í Húllumhæ og gerðir voru útvarpsþættir. Einn sérstakur þáttur var gerður þegar metsöluhöfundurinn David Walliams kom til landsins og Emma hitti hann í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Bókaumfjöllun fyrir börn hefur því aldrei verið meiri og ítarlegri.
Stundin okkar
Leikið efni hélt áfram að vera í forgrunni á stundinni okkar og Ævintýri Bolla og Bjöllu héldu áfram á skrifborðinu hans Bjarma. Ásthildur Úa Sigurðardóttir og Níels Thibaud Girerd fara með hlutverk álfana og Árni Gunnar Magnússon fer með hlutverk Bjarma. Þættirnir eru skrifaðir af Arnóri Björnssyni, Óla Gunnari Gunnarssyni og Mikael Emil Kaaber. Leikstjórn er í höndum Agnesar Wild.
Fyrri hluta árs tókust álfarnir á við stóru málin í lífinu, skilnað, ást, dauða og vináttu við góðar undirtektir. Það vakti mikla athygli þegar að Bolli sagði Bjöllu og áhorfendum að hann væri samkynhneigður. Seinni hluti árs var minni boðskapur og mikið einblínt á grín og glens. Inná milli sáum við Bjarma í skólanum, Bolli og Bjalla fóru með honum í íþrótta tíma en þar kepptu krakkar í íþróttaþraut. Matargat hélt áfram og stundin rokkar. Seinni part árs var var farið í fleiri heimsóknir í skólann, en Bjarmi fór og tók viðtöl við krakka í skólahljómsveit. Hressir krakkar í heimilisfræði elduðu mat frá öllum heimshornum, Auður og Guðbjörg gerðu tilraunir í vísindum og krakkar fóru og kynntust nýjum íþróttum.
Jólastundin
Breytt fyrirkomulag á jólastundinni leit dagsins ljós í ár, en ákveðið var að breyta um stefnu og fara úr spjallþáttarforminu og færa yfir í leikið efni. Jólastundin var jólaævintýri um feðginin Elísu og Egill (Margrét Rúnarsdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson) sem eru á leið í jólaboð þegar að bíllinn þeirra festist. Til að reyna að komast áfram leiðar sinnar ákveða þau að fara og banka uppá kofa sem þau finna. En þar inni býr Ómar Sveinn, Jólasveinn (Örn Árnason). Handrit og leikstjórn var í höndum Agnesar Wild og framleiðandi var Hekla Egilsdóttir. Upphafsatriðið með laginu „Jólastund“ með Stuðkompaníinu var tekið upp í Aðalstræti á Akureyri þar sem hátt í 80 aukaleikarar tóku þátt. Þátturinn var allur tekin upp á Akureyri.
Þátttaka barna
Í þáttunum Jólaratleikurinn og Frímó tóku krakkar þátt í þrauta og spurningaleikjum. Frímó stækkaði og stökk út úr stundinni okkar og varð sjálfstæður þáttur. Þar voru það Rebekka og Alex spyrlar og krakkar á aldrinum 9-11 ára kepptu í skemmtilegum spurningaleik. Jólaratleikurinn var nýr þáttur framleiddur í aðdraganda jóla þar sem systkinin Arnar og Lóa, ásamt mömmu leituðu að gömlum myndbrotum úr Stundinni okkar.
Krakkaskaupið
Krakkaskaupið var sýnt í kvölddagskrá, á besta mögulega sýningartíma, 30. Desember 2021 og svo aftur um morgun á gamlársdag. Áhorf þáttarins var gífurlegt og var Krakkaskaupið í topp 5 sætunum af mest sóttu þáttum í spilara RÚV yfir árið. Þátturinn var eins og önnur ár byggður upp á innsendum myndböndum frá Krökkum í bland við atriði sem handritshöfundarnir Birna Pétursdóttir og Árni Beinteinn skrifuðu. Leikstjórn var í höndum Sturla Skúlasonar. Lokalagið var samið af Axel Inga Árnasyni. Í krakkaskaupinu í ár var lögð áhersla á fjölbreytileika samfélagsins okkar.
Teiknimyndir
KrakkaRÚV heldur áfram að bjóða upp á fjölbreyttar og skemmtilegar teiknimyndir. Áhersla er lögð á að kynjahlutfall sé jafnt þegar kemur að aðalpersónum og að viðfangsefni teiknimyndanna dreifist á aldurshópinn. Þáttaröðin Blæja (Bluey) sem frumsýnd var í lok árs 2021 hefur vakið mikla athygli og tekið fram úr Hvolpasveitinni sem vinsælasti þátturinn í dagskránni. Þættirnir um Zorro sem komu nýir inn fyrir eldri krakkana hefur einni vakið mikla lukku og Strumparnir hafa fengið verðskuldaða athygli. Þættirnir Tik Tak sem eru án tals og söguþráðar eru sérhannaðir til að efla þroska ungra barna á sjónrænan hátt. Þættirnir voru settir á dagskrá í samfloti við Smástundina sem er framleiðsla RÚV og slógu í gegn hjá foreldrum ungra barna.
Sögur
Sögur er stórt samstarfsverkefni margra stofnanna sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Verkefnið hófst 2017 og hefur stækkað ár hvert. Markmiðið er að auka læsi og áhuga á íslenskum barnabókum og sögum og upphefja í leiðinni barnamenningu á Íslandi. Í október auglýsti KrakkaRÚV eftir smásögum, lögum og textum og handritum af stuttmynd eða leikriti. Höfundar framúrskarandi verkefna tóku þátt í skapandi smiðjum þar sem fagfólk leiðbeindi og ævintýrin lifnuðu við. Sumar sögur enduðu í rafbók á vegum Menntamálastofnunar, aðrar í stuttmynd, nokkur lög lifnuðu við og leikrit litu dagsins ljós á fjölum Borgarleikhússins. Það eru nefnilega engin takmörk á því hvar góð saga getur endað.
Stuttmyndahandrit sem bárust voru 26 talsins og þrjú þeirra voru valin til framleiðslu: Dularfulla hálsmenið eftir Bryndísi Maríu Jónsdóttur í leikstjórn Heklu Egilsdóttur; Fimmhundruðkall eftir Sölku Björt Björnsdóttur í leikstjórn Sturla Skúlasonar; og Bókrollan og stuldurinn á hálsfestinni eftir Kolbein Kjóa Kjartansson í leikstjórn Erlu Hrundar Halldórsdóttur. Myndirnar voru svo allar settar saman í þættinum Sögufólk framtíðarinnar sem var sýndur fyrir verðlaunahátíðina 4. júní í Hörpu.
Sögur verðlaunahátíðin er lokapunktur þessa stóra samstarfsverkefnis. Þar eru verk barnanna verðlaunuð auk þess sem börn fá tækifæri til að verðlauna það menningarefni sem þeim fannst skara fram úr á árinu. Hátíðin var í beinni útsendingu á RÚV og kynnar kvöldsins voru þau Kolbrún María Másdóttir og Gunnar Hrafn Kristjánsson, sem sungu og dönsuðu með krökkum í upphafs- og lokalagi. Lay Low, Salka Sól og Elín Ey frumfluttu lög á hátíðinni sem voru útsett sérstaklega fyrir tilefnið.
Heiðursverðlaunahafi hátíðarinnar var Kristín Helga Gunnarsdóttir.
Smástund
Smástund eru fjögurra mínútna þættir fyrir þau allra yngstu. Með tákn með tali, íslenskum sönglögum og einfaldri grafík er leitast við að örva málþroska og skilning barna á íslenskri tungu. Agnes Wild sá um dagskrárgerð og Sigrún Harðardóttir samdi og útsetti alla tónlist.
B15
RÚV hefur verið virkur þátttakandi í Nordvision-samstarfinu en fyrir nokkrum árum stofnuðu DR, NRK, SVT og SvYLE samstarfið B14, fyrirmynd þess verkefnis er N12-samstarfið. Árið 2022 gekk RÚV í þetta samstarf og heitir verkefnið nú B15.
Barnamenningarhátíð
KrakkaRÚV tók sem fyrr þátt í Barnamenningarhátíð. Hátíðin hófst með pomp og prakt í beinni útsendingu á RÚV 2 frá opnunarhátíð í Eldborgarsal Hörpu. Ungt fréttafólk tók viðtöl við listamenn og fréttir þeirra voru sýndar í Krakkafréttum. Árni Beinteinn gerði Húllumhæ-þátt tileinkaðan hátíðinni og fjallaði um ýmsa skemmtilega viðburði.
UngRÚV
UngRÚV er þjónusta fyrir ungmenni í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldskólanema. Lögð er áhersla á dagskrárefni fyrir unglinga og eftir unglinga, beinar útsendingar frá viðburðum og vandað efni sem framleitt er af RÚV. UngRÚV er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og RÚV.
Upptakturinn
Í Upptaktinum, tónsköpunarverðlaunum barna og ungmenna, gefst ungu fólki tækifæri til að senda inn tónsmíði og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með listnemum og litamönnum. UngRÚV hefur verið partur af Upptaktinum frá upphafi ásamt tónlistarhúsinu Hörpu, Barnamenningarhátíð, tónlistaborginni Reykjavík og Listaháskóla Íslands.
UngRÚV sá um upptöku og framleiðslu á kynningarinnslögum þar sem viðtal var tekið við alla höfunda laganna. Tónleikarnir voru sýndir á vef UngRÚV. Öll lögin í upptaktinum ásamt viðtölum við krakkana voru sýnd í þættinum Húllumhæ á föstudögum.
Skrekkur
Hæfileikakeppni grunnskóla í Reykjavík, Skrekkur var á sínum stað eins og önnur ár. Keppnin hefur haldið áfram að vaxa og framleiðslan í kringum hana hefur þróast og stækka. Í aðdraganda undankeppnanna heimsótti UngRÚV alla þátttökuskólana og tóku upp kynningar sem voru svo sýnd í dómarahléi á undanúrslitakvöldunum sem voru í beinu streymi á vef UngRÚV. Lokakvöldið var svo sýnt í beinni útsendingu á RÚV með 22,6% áhorf. Fyrir úrslitin voru tekin upp ný kynningarinnslög í stúdíó A með þeim skólum sem komust í úrslit. Öll atriði Skrekks birtust svo á vef UngRÚV.
Í vikunni sem undankeppnirnar voru var sýnd á RÚV heimildarmyndin Skrekkur á bakvið tjöldin, um ferðalag Laugalækjarskóla frá fyrstu fram að sýningu í Borgarleikhúsinu . Mynd eftir þá Kára Einarsson, Adam Son Thai Huyhn, Orri Elíasson og Rommel Ívar Quamco Patago.
Fiðringurinn
Í kjölfar vinsælda Skrekks hafa aðrir landshlutar og bæjarfélög tekið upp leikinn að halda hæfileikakeppni ungmenna. Fiðringurinn á Norðurlandi var haldin í fyrsta sinn í Hofi þar sem skólar af norðurlandi kepptu um fyrsta sætið. RÚV sendi út keppnina á RÚV2
Móðurmálið / Íslenskuverðlaunin
Í samstarfi við Reykjavíkurborg og íslenskverðlaun unga fólksins fóru í framleiðslu þættirnir Móðumál, þar sem Hafsteinn Vilhelmsson talar við börn og unglinga sem eiga annað móðurmál en Íslensku. Þættirnir fara svo í sýningu vorið 2023 og verða fimm talsins.
Hvítar lygar
Að vori hófst samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar og RÚV um framleiðslu nýrra leikinna sjónvarpsþátta fyrir unglinga. Dominique Gyða Sigrúnardóttir var ráðin verkefnastjóri og í apríl voru haldnar prufur. Fimm ungmenni voru ráðin í sumarstarfið hjá Reykjavíkurborg. Í júní hófst vinnan þar sem Dominique og krakkarnir unnu saman að því að skrifa handrit að fjórum þáttum. Vinnan var samstarf leikstjóra og leikara og í júlí hófust æfingar. Í ágúst var serían tekin upp og hún verður sýnd á RÚV árið 2023.
Samfés-dans, Rímnaflæði, Stíll og söngkeppni
UngRÚV hefur verið í góðu samstarfi við Samfés, landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, undanfarin ár. UngRÚV fjallaði um sanskeppni Samfés, Rímnaflæði, hönnunarkeppnina Stíl og söngkeppnin var með stærra sniði en vanalega. Allir viðburðirnir voru í beinu streymi á UngRÚV.
Kastljós, Fréttir og Landinn
Aukin áhersla hefur verið á sýnileika ungmenna í dagskrá RÚV. Meiri umfjöllun hefur verið um ungt fólk í Kastljósi, fréttum og Landanum. UngRÚV er í stöðugu samtali við stjórnendur og miðla hugmyndum til þeirra. Sem sæmi má nefna umfjöllun um ljóðaskáld í Neskaupstað í Landanum; innkomu Skrekks í fréttum; og viðtöl við höfunda Skrekks á bak við tjöldin í Kastljósi.
Nýr RÚV.is
Nýr frétta- og fyrirtækjavefur Ríkisútvarpsins fór í loftið 3. desember 2022. Nýr vefur var unninn frá grunni í hugbúnaðarþróun RÚV. Allir framleiðsluferlar voru endurskoðaðir, gagnagrunnar endurnýjaðir og útliti breytt. Vefurinn tók þess vegna stakkaskiptum bæði gagnvart starfsfólki sem vinnur við hann sem og neytendum RÚV. Vinna við nýja vefinn gekk út á að skapa vefumhverfi sem hægt er að byggja ofan á til framtíðar. Nýr vefur er jafnframt kjölfesta þegar kemur að endurnýjun og þróun annars hugbúnaðar Ríkisútvarpsins.
Vefkerfin og verkfærin á vefnum eru nú mun öflugri og fjölbreyttari. Markmiðið með nýjum vef var að einfalda alla efnisframleiðslu og gera starfsfólk sjálfbærara í fjölbreyttri framsetningu efnis. Þar er einnig mun einfaldara aðgengi að allri framleiðslu RÚV og hægt að draga fleiri atriði í dagsljósið á forsíðunni og víðar.
Kosningavefurinn
Fyrir sveitarstjórnarkosningar vorið 2022 var í fyrsta sinn samkeyrð úrslitagrafík fyrir sjónvarpsútsendingu og vef. Almenningur hafði þar kost á að fletta í gegnum sömu myndrit og sýnd voru í kosningasjónvarpinu. Kosningakerfið var að öllu leyti unnið í hugbúnaðarþróun RÚV og birti þar upplýsingar sem unnar eru í kosningareiknivélinni sem RÚV hefur notað um árabil. Kosningavefurinn var þannig glæddur lífi þar sem fólk gat fylgst með talningu atkvæða í sínu sveitarfélagi í rauntíma.
Almenningi var jafnframt gefinn kostur á að þreyta kosningaprófið, eins og fyrir kosningar síðustu ára. Kjósendur gátu þar mátað sig við framboð og frambjóðendur. Kosningaprófið er afar vinsælt og augljóst að þessi þjónusta er mikilsverð í huga kjósenda.
Hugbúnaðarþróun spilara
Undirbúningur fyrir nýjan spilara RÚV hófst á árinu 2022 og neytendur mega eiga von á að sjá afraksturinn síðla árs 2023. Markmiðið með verkefninu er að straumlínulaga vinnulag og bæta notendaupplifun með fjölbreyttari framsetningu efnis í spilara RÚV, hvort heldur sem litið er til vefsins eða RÚV-öppum. Nýtt Apple TV-app er í þróun og við útgáfu þess verður búið að einfalda rekstrarumhverfi smáforrita RÚV. Það gefur tækifæri til að gera efni RÚV aðgengilegra fyrir neytendur á öllum aldri með fjölbreyttari hætti þegar fram í sækir.
Samfélagsmiðlar
Samfélgsmiðlar RÚV héldu áfram að vera áberandi og styðja við dagskrá í sjónvarpi og útvarpi á árinu 2022. Fjöldi fylgjenda RÚV á Facebook og Instagram hefur verið í hægum vexti eftir fordæmalausa fjölgun síðustu ár og viðbrögð fólks við efni RÚV á samfélagsmiðlum halda áfram að aukast. Í júlí skipaði útvarpsstjóri hóp um mótun samfélagsmiðlastefnu RÚV en þær einingar sem miðla efni í gegnum samfélagsmiðla áttu fulltrúa í hópnum. Atli Fannar Bjarkason, verkefnastjóri samfélagsmiðla, hélt utan um vinnuna og hópurinn skilaði af sér nýrri samfélagsmiðlastefnu RÚV í byrjun desember. RÚV hélt sínu striki á Facebook, Instagram og Twitter og hóf að birta efni á samfélagsmiðlinum TikTok til að ná betur til yngri hópa. Rás 2 og fréttastofan riðu á vaðið en KrakkaRÚV og RÚV fylgdu í kjölfarið. Fyrstu viðbrögð hafa verið frábær en viðvera RÚV á TikTok hefur vakið mikla athygli og þá sérstaklega velheppnaður fréttaflutningur fréttastofunnar.
Áhorf í Spilara RÚV
Áhorf á dagskrárefni sjónvarps í spilara RÚV á vefnum, í öppum og í þjónustum símafélaganna hefur aukist mikið síðustu ár. Þar er að finna mikið og fjölbreytt efni til fræðslu, innblásturs og skemmtunar. Íslenskt efni er vinsælast auk leikinna erlendra þáttaraða og heimildarefnis. Lögð var áhersla á úrval íslensks efnis, heimildarmyndir og kvikmyndir en vandaðar erlendar leiknar þáttaraðir, heimildar- og fræðsluþætti og áhugaverðar kvikmyndir voru á sínum stað.
Um páskana var boðið upp á fjölda leikinna þáttaraða í hámhorfi og lögð áhersla á íslenskar heimildarmyndir, fjölbreytt efni fyrir fjölskyldur og grín. Um jólin var hægt að horfa á 25 leiknar þáttaraðir í jólahámi auk ríkulegs úrvals af gæðaefni fyrir fjölskyldur og fjölda bíómynda og heimildarmynda. Íslenskar kvikmyndir voru áberandi og jólalegt efni úr safni. Auk þáttanna um Randalín og Munda voru fjögur jóladagatöl í spilara RÚV.
Fjölbreytt þemu voru dregin fram í Spilara RÚV þar sem sjónvarpsefni úr dagskrá og safni var tekið saman, til dæmis heilsa, heimildarmyndasumar, loftslagsmál, kynheilbrigði, evrópskir kvikmyndadagar, barnæska, ungdómur og uppeldi, hinsegin dagar, 10 ára afmæli KÍTÓN, hönnun, kvenréttindadagurinn, þunglyndi, HM í Fischer-slembiskák, vetrarólympíuleikarnir, sveitarstjórnarkosningar, EM kvenna í fótbolta og Eurovision.