Sjónvarpsárið 2020
Sjónvarpsárið 2020 litaðist mjög af heimsfaraldri COVIDd-19 og beinum viðbrögðum við honum. Það á jafnt við um framleiðslu, þar sem upplýsinga- og fræðsluhlutverkið var í hávegum haft, og dagskrársetningu, sem miðaði að því að skemmta og stytta þjóðinni stundir á þessum krefjandi og erfiðu tímum. Rík áhersla var lögð á að bjóða landsmönnum vandað dagskrárefni til að stytta þeim stundir þar sem aðrar menningarstofnanir, eins og leikhús, kvikmyndahús og tónleikahús, voru lokaðar stóran hluta ársins, sundlaugar og líkamsræktarstöðvar líka og íþróttaviðburðum slegið á frest. Ráðist var í lengja dagskrána alla virka daga með blöndu af endursýndu og frumsýndu efni. Beinar útsendingar voru frá menningarviðburðum án áhorfenda og sýndir voru fræðslu- og umræðuþættir um ástand faraldursins, sóttvarnarviðbrögð og líðan þjóðarinnar.
Þau tímamót urðu í íslenskri sjónvarpssögu að daglegir blaðamannafundir Almannavarna voru langtímum saman vinsælasta sjónvarpsefni landsins auk þess sem áhorf á fréttir sló flest fyrri met þegar á heildina er litið og til lengri tíma.
Beinar útsendingar féllu niður frá Euorvision og öðrum menningarviðburðum, verðlaunaafhendingum og þýðingarmiklum íþróttaviðburðum á borð við landsleiki enda var þeim frestað eða aflýst. Ólympíuleikarnir, sem áttu að vera í Tókýó í Japan í júlí og ágúst með tilheyrandi sjónvarpsútsendingum var frestað um ár.
Sjónvarpsáhorf verður dreifðara
Sjónvarpsáhorf hélt áfram að breytast á árinu og mátti merkja töluverða aukningu á svokölluðu hliðruðu áhorfi. Það er allt áhorf eftir frumsýningu í línulegri tímasettri dagskrá á sérstakri sjónvarpsrás, endursýningar og áhorf í spilara RÚV og efnisveitum símafélaga. Þannig hefur heildaráhorf lítið breyst en dreifingin haldið áfram að aukast, efnið sótt víðar og yfir lengra tímabil.
Haldið var áfram að frumsýna efni í meira mæli í spilara RÚV og gera heilar þáttaraðir aðgengilegar á meðan eða jafnvel áður en sýning hófst í hefðbundinni línulegri dagskrá RÚV. Þetta hefur reynst mjög vel og áhorfendur venjast fyrirkomulaginu og leita í auknum mæli uppi slíkt efni í spilaranum.
Þrátt fyrir áhrif kórónuveirufaraldursins og breyttar sjónvarpsvenjur var ekki hvikað frá þeirri markvissu og yfirlýstu stefnu að kappkosta að þjónusta sem breiðastan hóp landsmanna, á öllum aldri og af öllum kynjum og uppruna, í öllum miðlum með áframhaldandi innleiðingu á sértækri þjónustu. Liður í því var að skerpa enn frekar á þjónustu við börn og ungmenni með því að sameina í eina öfluga deild, KrakkaRúv, sem leggur áherslu á börn að 12 ára aldri, og UngRúv og Rúv Núll þar sem frekar er einblínt á ungmenni á unglinga- og framhaldsskólastigi.
Sá viðburður sem vakti einna mesta athygli var án efa sólahrings-afmælisútsending Landans, Dagur í lífi landans, þar sem liðsmenn Landans og fjölmörg tökuteymi ferðuðust vítt og breitt um landið og héldu uppi samfelldri dagskrá í beinni útsendingu í 24 klukkustundir. Þetta mæltist vel fyrir og landsmenn tóku virkan þátt, bæði sem áhorfendur og þátttakendur, og fögnuðu hundraðasta þætti eins vinsælasta sjónvarpþáttar RÚV í mörg ár.
Dagskrárgerð tengd COVID-19
Fjórir umræðuþættir voru sendir út á árinu til að upplýsa og svara brýnustu spurningum landsmanna um COVID-19 faraldurinn. Tveir þeirra voru almenns eðlis hverfðust um upplýsandi og fræðandi umræðu. Í þriðja þættinum, í lok mars, var sjónum beint að stöðu heimilanna og þeim félagslegu og fjárhagslegu áskorunum sem margir stóðu frammi fyrir. Umsjón með þessum þáttum höfðu Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Sigmar Guðmundsson. Í fjórða þættinum, sem sendur var út í byrjun apríl í umsjón Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur og Hafsteins Vilhelmssonar, svöruðu framlínan, ráðamenn og sérfræðingar spurningum og vangaveltum barna og ungmenna. Í þættinum voru frumflutt tvö lög sem vöktu mikla athygli, Lagið um það sem er samkomubannað þar sem Sigurður Guðmundsson flutti nýjan texta Braga Valdimars Skúlasonar við Lagið um það sem er bannað, og lagið Ferðumst innanhúss, þar sem einvala lið tónlistarfólks ásamt þríeykinu vinsæla Ölmu, Víði og Þórólfi sameinaði krafta sína, hver í sínu horni vegna samkomubanns, til að minna landsmenn á að halda áfram að virða fyrirmæli Almannavarna og takmarka ferðalög um páskana til að hefta útbreiðslu COVID-19. Lagið er betur þekkt undir heitinu Góða ferð en var nú flutt með nýjum texta eftir Leif Geir Hafsteinsson.
Til að efla þjónustu við landsmenn á meðan neyðarstig Almannavarna var í gildi voru morgunþættir Rásar 1 og 2 sameinaðir og sendir út í beinni á samtengdum rásum útvarps, í sjónvarpi og á rúv.is. Þar var miðlað öllum nýjustu upplýsingum um stöðu mála, umræðum og fréttum. Þessi samtenging stóð yfir alla virka daga frá 16. mars til 30. apríl.
Til að halda landsmönnum í formi var boðið upp á Heimaleikfimi í upphafi dagskrár og aftur um hádegisbil alla virka daga í apríl, maí, október og nóvember. Íris Rut Garðarsdóttir sjúkraþjálfi gaf þar góð ráð og kenndi æfingar sem tilvalið var að gera heima í samkomubanni.
Vegna heimsfaraldursins voru sendar út fleiri hugvekjur og guðsþjónustur en venja er til enda áttu landsmenn ekki kost á að sækja kirkjur landsins stóran hluta ársins. Haldin var páskahugvekja á föstudaginn langa og hátíðarguðsþjónusta í Dómkirkjunni á páskadag. Í desember voru aðventumessur á hverjum sunnudegi. 13. desember var send út hugvekju- og minningarstund fyrir syrgjendur á vegum Sorgarmiðstöðvar, Landspítalans og Þjóðkirkjunnar. Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson, Matthías Stefánsson og Hilmar Arnar Agnarsson fluttu þar tónlist og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti hugvekju. Landsmenn voru hvattir til að sýna samhug með því að kveikja á kerti og mynda bylgju hlýhugar og samkenndar á erfiðum tímum.
Einnig voru send út fleiri ávörp en vanalega frá ráðamönnum þjóðarinnar, bæði forsætisráðherra og forseta Íslands, þar sem landsmenn voru upplýstir og hvattir til dáða á erfiðum tímum.
Enn var aukin áherslan á að sinna sem breiðustum hópi landsmanna, á öllum aldri, í öllum miðlum, með áframhaldandi innleiðingu á sértækri þjónustu. KrakkaRÚV, þjónusta fyrir börn yngri en sextán ára, hélt áfram göngu sinni með auknu framboði af vönduðu innlendu efni sem gjarnan er skapað af börnum. UngRÚV, þjónusta ætluð krökkum á aldrinum 13-16 ára, hélt áfram að festa sig í sessi með dagskrárgerð sem er mikið til í höndum fólks á þeim aldri. Þá var mikill kraftur í RÚV núll sem er þjónusta ætluð ungu fólki á aldrinum 16-29 ára, drifin áfram af dagskrárgerðarfólki á sama aldri.
Menningarviðburðir og aðrar beinar útsendingar
Íslensku tónlistarverðlaunin voru veitt í beinni útsendingu frá Hörpu 11. mars. Þetta var ein af síðustu verðlaunahátíðunum sem haldin var með óbreyttu sniði áður en samkomutakmörk komu í veg fyrir það.
Eddunni, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaununum, sem átti að vera í mars var frestað fram á haust vegna faraldursins. Þar sem hert var aftur á sóttvarnarreglum seinni hluta árs var ákveðið að hafa verðlaunaafhendinguna með öðru sniði. Tekinn var upp þáttur án áhorfenda í umsjón Veru Sölvadóttur og Ásgríms Sverrissonar og sendur út 6. október. Í þættinum var nokkrum verðlaunahöfum komið á óvart á skemmtilegan hátt auk þess sem tilkynnt var um sigur í öðrum flokkum.
Slakað var á sóttvarnareglum yfir sumarmánuðina og tókst að halda Íslensku sviðslistaverðlaunin, Grímuna 2020, með nokkurn veginn hefðbundnum hætti í beinni útsendingu frá Þjóðleikhúsinu 15. júní.
Í október stóð til að sýna Verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í beinni útsendingu. Norðurlandaráð veitir ár hvert fimm verðlaun til að vekja athygli á bókmenntum, tungumáli, tónlist og kvikmyndum Norðurlandanna ásamt nýskapandi aðgerðum á sviði umhverfismála. Hætt var við hátíðina vegna kórónuveirufaraldursins en gerður sjónvarpsþáttur þar sem Halla Oddný Magnúsdóttir fjallaði um tilnefningar og tilkynnti hverjir hlytu verðlaunin með aðstoð fyrri verðlaunahafa og forseta Íslands. Þátturinn var sýndur á öllum norrænu stöðvunum sama dag og skartaði skemmtiatriðum, m.a. með Víkingi Heiðari Ólafssyni, hljómsveitinni Of Monsters and Men og Íslenska dansflokknum.
Þar sem fresta þurfti fjölda hátíðarhalda og viðburða á árinu sökum faraldursins ákvað RÚV í samvinnu við aðrar stofnanir og samtök að efna til þáttagerðar þar sem viðburðum var varpað heim í stofu á öruggan hátt. Þar á meðal var afmælishátíðin Til hamingju Vigdís! í tilefni af 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, 15. apríl og samanstóð af fallegum tónlistaratriðum og ljóðalestri auk þess sem ráðamenn báru Vigdísi hamingjuóskir.
Byggjum réttlátara þjóðfélag var útsending frá skemmti- og hvatningardagskrá í Hörpu í tilefni af baráttudegi verkalýðsins 1. maí. Landsþekktir tónlistarmenn, skemmtiatriði og hvatningarorð frá forystu verkalýðshreyfingarinnar einkenndu þennan sögulega viðburð sem heildarsamtök launafólks, ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, stóðu að.
Fagna átti 20 ára afmæli Gleðigöngunnar með veglegum hátíðahöldum í miðbæ Reykjavíkur 8. ágúst en vegna samkomutakmarkana var áfanganum fagnað í skemmtiþætti, Stolt í hverju skrefi.
Beinni útsendingu frá Söngkeppni framhaldsskólanna var frestað fram í lok september og vegna sóttvarnareglna var ákveðið að halda keppnina án áhorfenda.
Degi íslenskrar tónlistar 1. desember var fagnað með beinni útsendingu frá hátíðardagskrá í Iðnó á vegum SAMTÓN þar sem velunnurum íslenskrar tónlistar voru veittar viðurkenningar og fluttar voru íslenskar dægurperlur.
Söfnunarþátturinn Fyrir fjölskylduna var á dagskrá 4. desember. Málefni SÁÁ, Samtaka áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann, og staða málaflokksins í þjóðfélaginu voru þar rædd á opinskáan hátt, flutt voru tónlistar- og skemmtiatriði og fé safnað til styrktar samtökunum. Umsjónarmenn voru Sigmar Guðmundsson og Björg Magnúsdóttir. Upptaka frá jólaballi SÁÁ var sýnd 27. desember. Sigríður Beinteinsdóttir og Grétar Örvarsson tóku á móti gestum í Norðurljósasal Hörpu og voru börn og foreldrar hvött til að taka þátt í jólaballinu heima í stofu og dansa í kringum jólatréð.
Söngvakeppnin og Eurovision í skugga COVID-19
Í byrjun árs var Söngvakeppnin haldin með pompi og prakt. Tíu atriði kepptust um að fanga hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar í tveimur undankeppnum í Háskólabíói. Sigurvegarar í glæsilegri úrslitakeppni í Laugardalhöll voru Daði og Gagnamagnið, sem lentu í öðru sæti 2017. Hatari, sem vann Söngvakeppnina í fyrra, og norska sveitin Keiino, sem hlaut flest símaatkvæði áhorfenda í Eurovision það ár, komu fram á úrslitakvöldinu en kynnar voru Fannar Sveinsson, Benedikt Valsson og Björg Magnúsdóttir.
Sigurlagið Think about things átti samkvæmt venju að keppa fyrir Íslands hönd í Eurovision í Rotterdam í Hollandi í maí. Spennan var mikil þar sem Íslandi var spáð mjög góðu gengi. EBU, samtök evrópskra almannaþjónustumiðla sem halda Eurovision, hættu við keppninga vegna heimsfaraldurs og sendi í staðinn út þáttinn Europe Shine a Light laugardagskvöldið 16. maí. Þar var kynnt það 41 lag sem valið hafði verið til þátttöku þó að hvorki væri haldi formleg keppni né kosning. um formlega keppni né kosningu að ræða. Í þættinum sendu fulltrúar þátttökuþjóðanna skemmtilegar myndbandskveðjur til áhorfenda og fluttu saman sigurlagið frá 1997, Love Shine a Light með Katrina and the Waves, á nýstárlegan hátt. Fyrri keppendur komu einnig fram í þættinum og írski söngvarinn Johnny Logan söng vinningslag sitt What´s Another Year frá 1980 ásamt kynnum kvöldsins og áhorfendum sem höfðu sent inn upptökur af söng sínum.
Til að sefa Eurovision-þyrsta Íslendinga var ákveðið að halda Eurovision-gleði á RÚV. Alla vikuna fram að þætti EBU var boðið upp á fjölbreytta dagskrá auk þess sem gamlar íslenskar Eurovision-perlur og eftirminnilegustu keppnir liðinna ára voru rifjaðar upp.
Felix Bergsson og álitsgjafar hans, Karitas Harpa Davíðsdóttir og Jóhannes Þór Skúlason, fóru ásamg góðum gestum yfir öll lögin sem hefðu keppt í Eurovision 2020. Í samantektarþáttum voru spiluð brot úr öllum lögunum. Eftir það gafst landsmönnum kostur á að kjósa uppáhaldslagið sitt í keppninni. Í Eurovision-fyrirpartýi 12. maí tilkynntu veislustjórarnir Björg Magnúsdóttir og Felix Bergsson hvaða 15 lög hefðu orðið efst í kosningu íslensku þjóðarinnar og álitsgjafa þáttarins Alla leið. Fimmtudagskvöldið 14. maí gafst kostur á að kjósa milli þessara 15 laga í þættinum Okkar 12 stig til að komast að því hvaða lag hefði fengið 12 stig frá Íslandi. Forsetahjónin, Daði Freyr og Gagnamagnið, Klemens í Hatara, Sveppi, ríkisstjórnin, fyrrverandi stigakynnar og fjölmargir fleiri tóku þátt í þessari Eurovision-veislu fyrir alla fjölskylduna og kynnar kvöldsins voru Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Jón Jónsson.
Föstudagskvöldið 15. maí sendi RÚV beint út frá heimili Daða Freys í Berlín þar sem hann lék eftirlætis Eurovision-lögin sín og óskalög áhorfenda í þættinum Euro-Daði. Kvöldið eftir, strax að lokinni útsendingu frá Europe Shine a Light, tók við bein útsending frá Eurovision-partýi í Hörpu þar sem Euro-bandið og fleiri listamenn léku eftirlætis Eurovision-lög þjóðarinnar og slógu lokatóninn í margra vikna langri Eurovision-veislu RÚV.
Til gamans má geta þess að margar af hinum þátttökuþjóðunum héldu eigin Eurovision-hátíðir með svipuðum hætti þar sem áhorfendur kusu uppáhalds lag sitt í keppninni og oftar en ekki lentu Daði og Gagnamagnið í efsta sæti með lagið Think about things. Lagið vakti mikla athygli víða um heim, á samfélagsmiðlum og hjá mörgum þekktum erlendum stórstjörnum. Athyglin opnað Daða fjölmörg atvinnutækifæri á erlendri grundu.
Á haustmánuðum tilkynnti RÚV að Daði Freyr yrði fulltrúi Íslands í Eurovision sem haldin verður í Rotterdam í maí 2021, og því yrði ekki haldin hefðbundin Söngvakeppni.
Tónlist og menning
Menningartengd dagskrárgerð var í hávegum höfð á árinu og átti stóran þátt í að stytta landsmönnum stundir þegar fjölmörgum menningarviðburðum eins og leiksýningum, tónleikum, myndlistarsýningum og öðrum uppákomum var frestað vegna samkomutakmarkana.
Aukið samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands
RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands ákváðu að snúa bökum saman og bjóða landsmönnum til sannkallaðrar tónlistarveislu heima í stofu. Sendir voru sendir út tónleikar í beinni útsendingu í bland við eldri upptökur sem fæstur höfðu verið sýndar í sjónvarpi áður.
Í tónleikaröðinni Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands voru tíu upptökur frá tónleikum sveitarinnar. Þar á meðal voru tónleikar með Víkingi Heiðari Ólafssyni, Radovan Vlatkovic og Daníel Bjarnasyni í nóvember 2019, tónleikar með lettneska fiðluleikaranum Baibu Skride og norska hljómsveitarstjóranum Eivind Aadland í nóvember 2015 og 70 ára afmælistónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar 5. mars 2020 með fiðlusnillingnum og Grammy-verðlaunahafanum Augustin Hadelich og sjaldheyrðu verki eftir Pál Ísólfsson, Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar. Á efnisskrá annarra tónleika sveitarinnar voru verk eftir Ravel og Dvorák, Vorblót Stravinskíjs, Eldur eftir Jórunni Viðar, sem er fyrsta hljómsveitarverk íslensks kventónskálds auk klarinettukonserts Mozarts með Arngunni Árnadóttur. Hljóðritunin er mest spilaða upptakan af verkinu á YouTube með yfir átta milljón áhorf.
Sinfóníuhljómsveit Íslands í beinni
Seinni hlutann í maí kom Sinfóníuhljómsveit Íslands loks saman á ný og hélt þrenna tónleika fyrir landsmenn í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV. Hljómsveitin fékk til liðs við sig nokkra af fremstu einsöngvurum og einleikurum landsins, þau Hallveigu Rúnarsóttur, Pál Óskar Hjálmtýsson og Víking Heiðar Ólafsson.
Skólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru einnig sýndir í beinni útsendingu úr Hörpu í maí. Á tónleikunum var leikin fjörmikil tónlist sem átti að færa íslenskum ungmennum vor í hjarta. Kynnir var trúðurinn Aðalheiður, leikin af Völu Kristínu Eiríksdóttur, og hljómsveitarstjóri var Bjarni Frímann Bjarnason.
Í Klassíkinni okkar efndu Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV í fimmta sinn til glæsilegra tónleika í beinni útsendingu frá Hörpu í upphafi nýs starfsárs hjá hljómsveitinni og nú var því fagnað að 90 ár voru liðin frá stofnun Ríkisútvarpsins og 70 ár frá fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Eins og fyrr gafst landsmönnum kostur á að ráða efnisskránni sem spannaði allt frá Jóni Múla til Ígors Stravinskíj og rifjaðar voru upp merkar stundir í tónlistarsögu landsmanna. Fram komu meðal annarra Emilíana Torrini, Elmar Gilbertsson, Dísella Lárusdóttir, Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson, Páll Palomares og Mótettukór Hallgrímskirkju. Stjórnandi var Daníel Bjarnason og Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir voru kynnar kvöldsins.
Til hamingju með afmælið Beethoven!
Í september fögnuðu Sinfóníuhljómsveitin og RÚV því að 250 ár voru liðin frá fæðingu tónskáldsins Ludwigs van Beethovens með þrennum tónleikum tileinkuðum þessu einu mesta tónskáldi sögunnar. Á þeim fyrstu, fjölskyldutónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, var rifjað upp hver þessi óvenjulegi maður var og hvers konar tónlist hann samdi. Þrír ungir og efnilegir einleikarar komu fram og risakór íslenskra ungmenna flutti Gleðisönginn, nýja útgáfu af Óðnum til gleðinnar, við texta Braga Valdimars Skúlasonar og í útsetningu Hildigunnar Rúnarsdóttur. Kynnir og handritshöfundur var Ólafur Egill Ólafsson en stjórnandi var Bjarni Frímann Bjarnason.
Á seinni tónleikunum voru flutt nokkur af frægustu verkum tónskáldsins undir stjórn Evu Ollikainen, nýskipaðs aðalstjórnanda hljómsveitarinnar; lokaþáttur Sinfóníu nr. 1, píanókonsert Beethovens nr. 3 með Víkingi Heiðari Ólafssyni, og fimmta sinfónía Beethovens, Örlagasinfónían, sem er ein frægasta og áhrifamesta sinfónía allra tíma. Einnig hljómaði Aeriality, eitt mest flutta verk Önnu Þorvaldsdóttur, sem er í dag talin eitt virtasta samtímatónskáld heims og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín.
Hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Í lok ársins voru sendir út tvennir hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Aðventutónleikar voru haldnir 10 . desember þar sem flutt voru verk eftir Vivaldi, Händel og Mozart ásamt því að Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópransöngkona þreytti frumraun sína með hljómsveitinni. Á aðfangadag var sýnd upptaka frá hátíðlegum jólatónleikum þar sem flutt var jólatónlist frá ýmsum tímum. Fram komu Páll Óskar Hjálmtýsson, Valgerður Guðnadóttir, Kolbrún Vökudóttir, Stúlknakór Reykjavíkur, dansarar úr Listdansskóla Íslands, Bjöllukór Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og fagotthópur úr Tónlistarskóla Reykjavíkur. Hljómsveitastjóri var Bjarni Frímann Bjarnason og kynnir trúðurinn Barbara en sérstakur gestur var Maximús Músikús.
Í mars og apríl tóku Harpa, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenska óperan og RÚV höndum saman um lifandi tónlistarstreymi úr Eldborg klukkan 11 virka daga á meðan samkomubann varði undir yfirskriftinni Heima í Hörpu. Fjöldi söngvara og tónlistarmanna kom fram á þessum 20-30 mínútna löngu tónleikum sem sendir voru út á RÚV 2, Facebook-síðu og Youtube-rás Hörpu og menningarvef RÚV. Meðal listamanna má nefna Kristján Jóhannsson, Bjarna Frímann Bjarnason, Sigrúnu Eðvaldsdóttur, Agnar Má Magnússon, Nathalíu Druzin, Dúó Stemmu og Dúó Harpverk ásamt Voces Thules, svo örfáir séu nefndir.
Streymandi tónlist á tímum sóttvarna
RÚV sýndi fjölda tónlistarviðburða á árinu. Þar á meðal má nefna upptöku frá tónleikunum Söngvar um svífandi fugla í Salnum í Kópavogi haustið 2014. Þar flutti Kristinn Sigmundsson sönglög eftir Þorvald Gylfason við ljóð Kristjáns Hreinssonar í útsetningum Þóris Baldurssonar.
Um páskahelgina hófu göngu sína þættirnir Sóttbarnalög Hljómskálans þar sem góðir gestir heimsóttu Hljómskálann og tóku lög af ýmsum ástsælustu barnaplötum þjóðarinnar í bland við óvænt en fjölskylduvæn eftirlætislög úr ýmsum áttum.
Á annan í páskum var sýnd upptaka frá 30 ára afmælistónleikum hljómsveitarinnar Todmobile ásamt SinfoniuNord í Eldborg 2018. Sérstakur heiðursgestur á tónleikunum var skoski tónlistarmaðurinn Midge Ure, söngvari og lagahöfundur hljómsveitarinnar Ultravox.
Í lok maí var sýnd upptaka frá stórtónleikum hljómsveitarinnar Írafárs í Eldborg í Hörpu í júní 2018. Hljómsveitin kom þá saman í fyrsta sinn í tólf ár í tilefni að tuttugu ára afmæli sínu og tók alla sína helstu smelli.
Á hvítasunnudag var sýnd upptaka frá upphafstónleikum Kirkjulistahátíðar 2019 þar sem Óratórían Mysterium op.53 eftir Hafliða Hallgrímsson var frumflutt. Stjórnandi var Hörður Áskelsson og meðal flytjenda voru Mótettukór Hallgrímskirkju, Schola cantorum, Herdís Anna Jónasdóttir, Hanna Dóra Sturludóttir, Elmar Gilbertsson og Oddur A. Jónsson.
Flestum tónlistarhátíðum ársins var frestað en nokkrar héldu sérstakar heimaútgáfur sem RÚV sendi út. Ísfirska tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður, sem er haldin fyrir páska ár hvert, hvatti landsmenn til að halda sig heima og sendi því út heimaútgáfu. Fjölmargt tónlistarfólk flutti lög að heiman og fram komu Mugison, Helgi Björns, Eivör, Lay Low, Moses Hightower, Salóme Katrín, Hipsumhaps og fleiri.
Alþjóðlegu tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves var einnig frestað í hefðbundinni mynd en ástsælustu hljómsveitir landsins komu saman 13. og 14. nóvember og héldu tónlistarhátíð í anda Iceland Airwaves undir nafninu Beint frá Reykjavík (Live from Reykjavík).
Leikhúsveisla í stofunni
RÚV og Þjóðleikhúsið tóku sig saman í apríl og buðu til sannkallaðrar leikhúsveislu heima í stofu þar sem landsmenn áttu ekki þess kost að sækja leikhús í samkomubanni vorsins. Sýndar voru upptökur af átta ástsælum uppsetningum Þjóðleikhússins. Það voru fjölskyldusýningin Í hjarta Hróa hattar eftir David Farr úr smiðju Vesturports og Þjóðleikhússins í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar og Selmu Björnsdóttur; Hart í bak eftir Jökul Jakobsson í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar; barnasýningin Kuggur og leikhúsvélin eftir Sigrúnu Eldjárn í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar; Með fulla vasa af grjóti eftir Marie Jones í leikstjórn Ians McElhinney þar sem Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson fóru á kostum í einni vinsælustu sýningu leikhússins á síðari árum; Græna landið eftir Ólaf Hauk Símonarson í leikstjórn Þórhalls Sigurðssonar með Gunnari Eyjólfssyni, Kristbjörgu Kjeld og Birni Thors; Englar alheimsins í leikgerð Símonar Birgissonar og Þorleifs Arnar Arnarssonar, leikstjóra sýningarinnar, byggð á einni áhrifamestu íslensku skáldsögu síðari ára eftir Einar Má Guðmundsson; Íslandsklukkan í leikgerð Benedikts Erlingssonar, leikstjóra sýningarinnar, af skáldsögu Halldórs Laxness; og síðast en ekki síst Sjálfstætt fólk í leikgerð Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur og Kjartans Ragnarssonar, leikstjóra sýningarinnar, af skáldsögu Halldórs Laxness með Ingvari E. Sigurðssyni og Margréti Vilhjálmsdóttur í hlutverkum Bjarts og Rósu.
Aðrar leikhúsupptökur sem sýndar voru á árinu eru meðal annars Sveinsstykki, einleikur eftir Þorvald Þorsteinsson sem var sérstaklega skrifaður fyrir Arnar Jónsson. Verkið var sýnt í Reykjavík og víðar á árunum 2003-2013 í sviðssetningu Lifandi leikhúss en er hér lagað að sjónvarpi. Einnig var sýnd upptaka af sýningunni Kvenfólk þar sem dúóið Hundur í óskilum fer yfir sögu kvenna og kvennabaráttu Íslands á hundavaði, veltir við hverjum steini og grefur upp ýmislegt óvænt og skemmtilegt í sögu jafnréttisbaráttunnar. Að endingu var endursýnd fjölskyldusýningin Blái hnötturinn sem er byggð á samnefndri sögu Andra Snæs Magnasonar.
Flæðandi tónar um land allt
RÚV sýndi fjölda þáttaraða á árinu þar sem menningartengdu efni voru gerð skil í mörgum styttri þáttum. Poppkorn – sagan á bak við myndbandið var á dagskrá á föstudögum frá lokum mars og þar var rýnt í gömul íslensk tónlistarmyndbönd og sagan á bak við þau skoðuð. Þættirnir Úr ljóðabókinni í leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar fjölluðu um ljóð frá ýmsum tímum, þar á meðal Ferðalok, Sonatorrek, Ólag og Á Sprengisandi. Víkingur Heiðar Ólafsson og Halla Oddný Magnúsdóttir leiddu áhorfendur í tali og tónum um töfraheima sígildrar tónlistar í fjórtán Músíkmolum auk þess sem Víkingur leikur verk af nýlegum hljómplötum sínum á sviði Eldborgar í Hörpu. Í þáttaröðinni Óperuminning rifja ýmsir þekktir listamenn og góðir gestir upp óperuminningar og upplifanir sem hafa mótað tengingu þeirra við listformið í tilefni af því að Íslenska óperan fagnaði 40 ára afmæli á árinu.
Umræðuþátturinn Lestarklefinn, vikulegur þáttur um menningu og listir í víðum skilningi á Rás 1, var einnig sendur út í sjónvarpi á fyrri hluta ársins.
Þar sem snemma var ljóst að stórviðburðirnir Menningarnótt og Tónaflóð, tónleikar RÚV og Rásar 2, yrðu ekki með hefðbundnum hætti um miðjan ágúst var ákveðið að bjóða landsmönnum upp á sumartónleika, Tónaflóð um landið, í beinni útsendingu úr öllum landshlutum fimm föstudagskvöld í júlí. Þar var lögð áhersla á tónlist og tónlistarfólk frá hverjum stað. Hljómsveitin Albatross með þau Sverri Bergmann og Elísabetu Ormslev í fararbroddi bauð til sín þekktum og óþekktum söngvurum úr hverjum landshluta. Ferðinni í kringum landið lauk með Menningarnæturdansleik í Gamla bíói í Reykjavík 22. ágúst.
Sama kvöld var sýndur þátturinn Menningarnótt heima þar sem Baldvin Þór Bergsson og Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir vöppuðu um Reykjavíkurborg og skoðuðu listina og lífið úr tveggja metra fjarlægð í ljósi þess að Menningarnótt var aflýst.
Spurninga- og skemmtiþátturinn Kappsmál, sem hóf göngu sína á síðasta ári, sneri aftur í september í umsjá Bjargar Magnúsdóttur og Braga Valdimars Skúlasonar. Þættirnir, sem eru þrettán, eru helgaðir íslenskri tungu og etja þátttakendur kappi í fjölbreyttum leikjum og þrautum.
Einnig var á árinu frumsýnt nýtt ljóðlistaverk eftir Hallgrím Helgason í leikstjórn Kristins Arnars Sigurðssonar þar sem Hallgrímur les ljóð úr bók sinni Við skjótum títuprjónum við trommuleik Þorvalds Þórs Þorvaldssonar.
RÚV komst í jólafíling
RÚV blés til sóknar í desember til að koma landsmönnum í hátíðarskap á aðventunni þrátt fyrir samkomutakmarkanir og almenna covid-þreytu.
Hljómsveitin Baggalútur hélt jólatónlistarveislu í Skíðaskálanum í Hveradölum á laugardögum í desember í þáttunum Kósýheit í Hveradölum. Ýmsir góðir gestir fluttu gömul og ný jólalög sem koma áttu landsmönnum í sannkallaðan „jólafíling “. Eftir þriðja og síðasta þáttinn var sýnd upptaka frá jólatónleikum í Háskólabíói í fyrra, Ég kemst í jólafíling, þar sem jólastórsveit Baggalúts, gestir og leynigestir spiluðu, skemmtu og sungu gömlu lummurnar í bland við glansandi ferska smelli.
Sunnudaginn 20. desember sýndi RÚV Síðasta jólalag fyrir fréttir, tónleikaupptöku frá Fríkirkjunni í Reykjavík í tilefni af 90 ára afmæli Ríkisútvarpsins. Ellen Kristjánsdóttir, KK og Jón Ólafsson fluttu þar gömlu góðu íslensku jólalögin sem ómuðu úr viðtækjum landsmanna á fyrstu áratugum Rásar 1.
Á Þorláksmessu var sýnd upptaka frá jólatónleikum Friðriks Ómars, Heima um jólin, í Hofi á Akureyri í desember 2019. Sérstakir gestir Friðriks Ómars voru Gissur Páll Gissurarson, Sigríður Beinteinsdóttir, Jógvan Hansen, Svala Björgvinsdóttir og Margrét Eir.
Rétt fyrir miðnætti á aðfangadag voru sýndir hátíðlegir miðnæturtónleikar Páls Óskars Hjálmtýssonar og Moniku Abendroth hörpuleikara ásamt strengjasveit í Fríkirkjunni í tilefni af 120 ára afmælis kirkjunnar. Páll Óskar og Monika héldu fyrstu miðnæturtónleika sína á aðfangadagskvöld árið 2002 og eru tónleikarnir orðnir órjúfanlegur hluti af helgihaldi margra Íslendinga. Nú gafst allri þjóðinni í fyrsta sinn tækifæri til að njóta þeirra.
Áramótaskaupið var enn í höndum Reynis Lyngdal leikstjóra en einvalalið leikara og skemmtikrafta rýndi í fréttir, viðburði og uppákomur ársins, enda af nógu að taka. Höfundarnir voru Vala Kristín Eiríksdóttir, Hugleikur Dagsson, Lóa Hjálmtýsdóttir, Þorsteinn Guðmundsson, Reynir Lyngdal, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Bragi Valdimar Skúlason. Áhorfið var með besta móti og mikil sátt um hvernig til tókst.
Áramótasprengjan 2020 sló botninn í árið. Þessi nýstárlegi áramótafagnaður var sýndur strax á eftir Áramótaskaupinu. Rjómi íslenskra tónlistarmanna flutti tónlist sína í þrívíðum ævintýraheimi. Undir taktfastri tónlist Sigur Rósar, Kaleo, Stuðmanna, Grýlanna, Auðar, Bríetar og Friðriks Dórs var ferðast milli ómælisvídda á vit kynkvenda af ýmsum toga og gafst áhorfendum kostur á þátttöku og sýnileika í viðburðinum á samfélagsmiðlum.
Leikið efni
RÚV hefur á undanförnum árum markvisst aukið áherslu og framboð á leiknu íslensku efni. Kallast það með beinum hætti á við yfirlýsta dagskrárstefnu RÚV um aukna áherslu á frumskapað íslenskt dagskrárefni; leiknar sögur sagðar á íslensku fyrir íslenska áhorfendur. Það er jafnframt svar við augljósri eftirspurn því að leikið íslenskt efni reynist nær undantekningarlaust vera meðal þess sem allra mest er horft á. Á árinu voru sýnd fjögur ný leikin íslensk verk sem er með mesta móti samanborið við árin á undan.
Morðgátur og leyndarmál þjóðarleiðtoga
Á nýársdag var haldið áfram að sýna Brot, nýja íslenska spennuþáttaröð úr smiðju Truenorth og Mystery Ísland, sem hóf göngu sína á jóladag 2019. Þættirnir eru sköpunarverk Þórðar Pálssonar sem jafnframt leikstýrir ásamt Davíð Óskari Ólafssyni og Þóru Hilmarsdóttur. Þættirnir fjalla um rannsóknarlögreglukonuna Katrínu sem rannsakar óvenjulegt morð í Reykjavík og áttar sig smám saman á því að hún er að fást við fyrsta íslenska fjöldamorðingjann. Nína Dögg Filippusdóttir leikur annað aðalhlutverkið og Björn Thors leikur kollega hennar starfandi í Noregi. Netflix tryggði sér sýningarréttinn utan Íslands og mun þetta vera í fyrsta sinn sem efnisveiturisinn kemur með eins umfangsmiklum hætti að fjármögnun og framleiðslu íslenskrar þáttaraðar.
Um páskana var frumsýnd sjónvarpsútgáfa í tveimur hlutum af íslensku hrollvekjunni Ég man þig sem byggð er á vinsælli skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Leikstjórinn Óskar Þór Axelsson settist að klippiborðinu á nýjan leik og gerði lengri og ítarlegri útgáfu fyrir sjónvarp, eins konar „Director´s Cut“. Með helstu hlutverk fara m.a. Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Þröstur Leó Gunnarsson og Sara Dögg Ásgeirsdóttir.
Í september var frumsýnd ný átta þátta þáttaröð, Ráðherrann, með Ólafi Darra Ólafssyni og Anítu Briem í helstu hlutverkum. Þættirnir fjölluðu um forsætisráðherra sem greinist með geðhvörf og leggja samstarfsmenn hans bæði stöðugleika ríkisins og einkalíf sitt að veði til að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni. Leikstjórn var í höndum Nönnu Kristínar Magnúsdóttur og Arnórs Pálma Arnarssonar.
Á jóladag og annan í jólum var sýnd sjónvarpsútgáfa af íslensku fjölskyldu- og gamanmyndinni Ömmu Hófí í leikstjórn Gunnars B. Guðmundssonar. Myndin fjallar um eldri borgarana Hófí og Pétur sem eru orðin leið á aðbúnaðinum á elliheimilinu og ákveða að ræna banka til að hafa efni á að kaupa sér litla íbúð. Með helstu hlutverk fara Edda Björgvinsdóttir, Þórhallur Sigurðsson, Steinþór Hróar Steinþórsson og Sverrir Þór Sverrisson.
Þá frumsýndi RÚV sænsk-íslensku spennuþáttaröðina Ísalög (Tunn is) snemma árs. Þættirnir eru sameiginleg framleiðsla Sagafilm og Yellowbird í Svíþjóð með stuðningi frá RÚV og voru að mestu teknir upp á Íslandi. Þeir fjalla um átök innan Norðurskautsráðsins um olíuborun á Grænlandi og norðurheimskautssvæðið og í helstu hlutverkum eru Lena Endre, Bianca Kronlöf, Alexander Karim, Johannes Kuhnke og Angunnguaq Larsen. Handritshöfundar eru íslenskir; Birkir Blær Ingólfsson, Jónas Margeir Ingólfsson og Jóhann Ævar Grímsson. Fjöldi annarra Íslendinga tók þátt í framleiðslunni, bæði fyrir framan og aftan myndavélina.
Á síðasta ári var tekin upp sú nýbreytni að sýna valda dagskrárliði með enskum texta á RÚV 2 jafnhliða frumsýningu, þar á meðal leiknu íslensku þáttaröðunum, Áramótaskaupinu og völdum íslenskum bíómyndum, og var því haldið áfram á árinu. Þetta er hugsað sem hluti af nýrri þjónustu RÚV English sem hefur það markmið að ná til nýrra Íslendinga sem enn hafa ekki náð tökum á íslensku en vilja njóta þess dagskrárefnis sem í boði er.
Nýjar íslenskar bíómyndir í fyrirrúmi
Sem endranær voru fjölmargar íslenskar bíómyndir frumsýndar á árinu. Verðlaunamyndin Svanurinn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur var frumsýnd að kvöldi nýársdags og í hátíðardagskrá á páskadag voru dansk-íslenska fjölskyldumyndin Goðheimar og Héraðið eftir Grím Hákonarson frumsýndar. Meðal annarra íslenskra bíómynda sem frumsýndar voru á árinu má nefna Eitur í æðum eftir Lýð Árnason, Webcam eftir Sigurð Anton Friðþjófsson og finnsk-íslensku myndina Nöldurseggurinn (The Grump) í leikstjórn Dome Karukoski. Á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní var ein ástsælasta gamanmynd íslenskrar kvikmyndasögu, Með allt á hreinu, sýnd í sérstakri samsöngsútgáfu þar sem áhorfendum var boðið að taka undir og syngja með. Myndin var einnig sýnd í stórbættum hljóð- og myndgæðum og voru skjátextar birtir undir sönglögum myndarinnar. Á jóladag var sýnd myndin Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur, sem sópaði að sér verðlaunum á síðustu Edduverðlaunahátíð, þar á meðal fyrir bíómynd ársins og leikkonu ársins í aðalhlutverki. Einnig var frumsýnd ein verðlaunastuttmynd á árinu, Atelier eða Vinnustofa eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur.
Undanfarin sumur hefur RÚV endursýnt valdar íslenskar bíómyndir á sunnudögum, með frumsýndar í bland, undir yfirskriftinni Íslenskt bíósumar. Þetta hefur reynst vel og verið kærkomið tækifæri fyrir Íslendinga til að rifja upp kynni sín af kvikmyndaperlum okkar. Meðal mynda sem sýndar voru þetta sumarið eru Brim í leikstjórn Árna Óla Ásgeirssonar, Stella í framboði eftir Guðnýju Halldórsdóttur, Ingaló eftir Ásdísi Thoroddsen, María eftir Einar Heimisson, Opinberun Hannesar eftir Hrafn Gunnlaugsson, Nói albinói eftir Dag Kára Pétursson og Tár úr steini eftir Hilmar Oddsson.
Alíslensk fyndni
Klassískt íslenskt gamanefni var endursýnt á föstudagskvöldum yfir sumarið undir heitinu Íslenskt grínsumar og var með því allra vinsælasta hjá landanum. Meðal annars mátti þar sjá þáttaraðir eins og Fastir liðir eins og venjulega frá 1985 í leikstjórn Gísla Rúnars Jónssonar, grínþættina sögufrægu, Tvíhöfða, frá árunum 1996-2000 og Ligeglad frá 2016 þar sem leikkonan og uppistandarinn Anna Svava Knútsdóttir fer í ævintýralegt ferðalag til Danmerkur með Helga Björnssyni söngvara og Vigni Rafni Valþórssyni leikara.
Fastir liðir eins og venjulega
Af föstum dagskrárliðum og áframhaldandi þáttaröðum ber að nefna Landann, sem enn ber höfuð og herðar yfir alla sambærilega þætti hvað áhorf varðar. Hann er á dagskrá á sunnudögum vetur, vor og haust, og í ár var einnig ákveðið að fylgja landanum eftir yfir sumarmánuðina. Sumarlandinn var á flakki í júní, júlí og ágúst, leitaði uppi áhugaverða viðburði og skemmtilegar sögur og hitti landann fyrir uppi á fjöllum, úti í garði, á tjaldsvæðinu, vinnustaðnum, hjólastígnum og víðar. Tónlistarmaðurinn KK var með í för og tók lagið inn á milli, svona eins og honum einum er lagið.
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur hélt áfram að vekja athygli á mikilvægum málum í þjóðfélaginu á þriðjudagskvöldum og í Silfrinu á sunnudagsmorgnum fengu Fanney Birna Jónsdóttir og Egill Helgason til sín góða gesti til að kryfja með sér atburði liðinnar viku og pólitískt landslag hverju sinni.
Kiljan í umsjón Egils Helgasonar fjallaði sem fyrr um bókaútgáfu, sagnahefð og menningarsögu þjóðarinnar á miðvikudögum og fjóra daga vikunnar gerðu Bergsteinn Sigurðsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir helstu menningarfréttum og því sem almennt bar hæst í lista- og menningarlífi þjóðarinnar góð í Menningunni, strax á eftir Kastljósi.
Í apríl stóð sjónvarpsfólkið á bak við þáttaröðina Með okkar augum að gerð þáttar um COVID-19 þar sem þau spurðu spurninga um þennan vágest, með sínu lagi, svo allir fengu skilið hvað væri gerast. Á haustmánuðum fagnaði þáttaröðin tíu ára afmæli sínu með tíundu þáttaröðinni en þessir margverðlaunuðu þættir hafa vakið athygli fyrir nýstárleg og frumleg efnistök. Eins og fyrr er það fólk með þroskahömlun sem vinnur þættina með fagfólki í sjónvarpsgerð og miðlar þannig fjölbreytileika íslensks samfélags.
Nýr viðtalsþáttur, Okkar á milli, hófu göngu sínu í upphafi árs. Sigmar Guðmundsson fékk til sín góða gesti úr öllum áttum sem höfðu áhugaverða sögu að segja og ræddi við þá undir fjögur augu.
Af afþreyingar- og skemmtiefni er helst að nefna Gettu betur – stjörnustríð, þar sem gamlir keppendur, spyrlar, spurningahöfundar og stigaverðir úr Gettu betur í gegnum tíðina öttu kappi í tilefni þess að 35 ár voru liðin frá því að spurningakeppni framhaldsskólanna hóf göngu sína. Þættirnir voru fjórir og á dagskrá á föstudögum í janúar. Beinar útsendingar frá hefðbundnu Gettu betur spurningakeppninni voru svo á sínum stað í febrúar og mars, og að þessu sinni stóð Menntaskólinn í Reykjavík uppi sem sigurvegari.
Vikan með Gísla Marteini festi sig enn frekar í sessi sem ómissandi partur af föstudagskvöldum þjóðarinnar og í sérstakri áramótaútgáfu, Árið með Gísla Marteini, þann 30. desember gerðu gestir Gísla Marteins upp árið sem leið.
Kærkomin endurkoma
Allnokkrar þáttaraðir sneru aftur á skjáinn á árinu eftir mislanga fjarveru.
Hljómskálinn sneri aftur í febrúar eftir sjö ár, stappfullur af íslenskri tónlist. Farið var vítt og breitt yfir sviðið í tali og tónum auk þess sem tónlistarfólk úr ólíkum áttum vann lög sérstaklega fyrir þættina. Unnið var með ólík þemu í hverjum þætti á borð við mat, hættulega tónlist, ímynd og peninga. Umsjónarmaður þáttanna er Sigtryggur Baldursson og honum til halds og trausts er sérstök greiningardeild Braga Valdimars Skúlasonar og Guðmundar Kristins Jónssonar.
Ferðaþættirnir Úti, í umsjá útivistarhjónanna Brynhildar Ólafsdóttur og Róberts Marshall, sneru aftur í nýrri þáttaröð í apríl eftir tveggja ára fjarveru. Í sex þáttum fara þau með fólki um ósnortna náttúru Íslands og fræða áhorfendur um hvernig hægt er að njóta útivistar á skynsamlegan og skemmtilegan hátt.
Nafnarnir og sjónvarpsmennirnir Andri Freyr Viðarsson, úr þáttunum Andri á flandri, og Andri Freyr Hilmarsson, úr Með okkar augum, sneru bökum saman í þáttaröðinni Andrar á flandri. Þeir fóru til Bretlandseyja í leit að sjálfum Mr. Bean, átrúnaðargoði Andra Freys Hilmarssonar.
Matreiðsluþátturinn Soð sneri aftur á vormánuðum með Mömmusoð þar sem Kristinn Guðmundsson eldaði dýrindis mömmumat á sinn einstaka hátt.
Nýjasta tækni og vísindi hófu einnig göngu sína á nýjan leik eftir mjög langa fjarveru. Efnistökin voru fjölbreytt og fróðleg með íslenskar vísindarannsóknir í forgrunni. Fjallað var um allt milli himins og jarðar, svo sem öldrun, hvali, sprotafyrirtæki og snjallheimilið svo fátt eitt sé nefnt.
Að endingu sneri heimsborgarinn Frímann Gunnarsson aftur á skjáinn á haustmánuðum með þátt sinn Smáborgarasýn Frímans. Eftir að hafa gert borgarmenningunni góð skil var nú komið að landsbyggðinni og ferðaðist Frímann á húsbíl í kringum landið og rýndi af sinni alkunnu snilld í þjóðarsál Íslands.
Fjölbreytt og fyrirferðarmikið heimildaefni
Íslenskar heimildarmyndir voru fyrirferðarmiklar í dagskrá RÚV. Rúmlega 30 myndir voru frumsýndar á árinu auk fjölda þáttaraða. Margar þessara mynda hafa farið sigurför á hátíðum víða um heim og aðrar verið framleiddar sérstaklega fyrir íslenska sjónvarpsáhorfendur en allar eiga sameiginlegt að spyrja áleitinna spurninga og fjalla um áhugavert fólk, atburði, staði og hugmyndir sem vekja áhorfandann til umhugsunar og fræða. Hægt er að skipta heimildaefninu sem sýnt var í nokkra meginflokka.
Listamenn í brennidepli
Í fyrsta lagi má nefna heimildarmyndir um tónlistarfólk og tónlist almennt, t.a.m. um Pál Pampichler Pálsson, fyrrverandi stjórnanda Karlakórs Reykjavíkur, mynd um sögu tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves, tónlistarmyndina Svarthvítur draumur um líf liðsmanna hljómsveitarinnar Hipsumhaps og Aldamótaböndin um hljómsveitirnar sem tröllriðu íslensku tónlistarsenunni um aldamótin. Einnig var sýnd ný heimildarmynd í tveimur hlutum um Hinn íslenzka þursaflokk sem margir telja meðal merkustu hljómsveita sem komið hafa fram á Íslandi. Að lokum var sýndur þáttur í minningu Ragnars Bjarnasonar, Við bjóðum góða nótt. Í þættinum var farið yfir tónlistarferil þessa síunga söngvara og tónlistarmanns í tali og tónum.
Í öðru lagi eru heimildamyndir um aðra íslenska listamenn sem hafa sett svip sinn á íslenskt menningarlíf, svo sem myndina Vasulka áhrifin um hjónin Steinu og Woody Vasulka sem voru frumkvöðlar í vídeólist á heimsvísu, Þvert á tímann um ritstjórann og skáldið Matthías Johannessen, Skuggar sem anda um Sigurð Árna Sigurðsson myndlistarmann og heimildarmynd Páls Steingrímssonar um listamanninn, myndhöggvarann og hljóðfærasmiðinn Pál á Húsafelli. Í myndinni Frá Heimaey á heimsenda er svo rakin litrík ævisaga Páls Steingrímssonar kvikmyndagerðarmanns sem féll frá 2016. Páll var einn ötulasti heimildamyndagerðarmaðurinn á Íslandi og eftir hann liggurfjöldi heimildar- og fræðslumynda sem flestar fjalla um náttúru Íslands, dýralíf og tengsl mannsins við náttúruna.
Ljóslifandi sögur af fólki
Í þriðja lagi voru sýndar myndir og þáttaraðir um sögur, baráttu og lífshlaup athyglisverðra einstaklinga. Af þeim má nefna meðal annars Fyrstu 100 árin eru verst um Ib Árnason Riis, 103 ára Íslending sem var gagnnjósnari Breta á Íslandi í seinni heimsstyrjöldinni; Hver stund með þér um Ólaf Björn Guðmundsson, sem orti ástarljóð til konu sinnar, Elínar Magnúsdóttur, á 60 ára tímabili; Þegiðu og syntu! sem segir frá ótrúlegu þrekvirki Sigrúnar Þuríðar Geirsdóttur sem synti yfir Ermarsundið fyrst íslenskra kvenna; Ísaksskóli í 90 ár um stofnanda skólans, Ísak Jónsson, sem var frumkvöðull í menntamálum og átti stóran þátt í mótun kennsluhátta fyrir bæði kennara og nemendur; og Goðsögnin FC Kareoki sem fjallar á gamansaman hátt um hóp manna og kvenna sem stundar jaðaríþróttina mýrarbolta þar sem skiptir jafn miklu máli að hafa gaman innan vallar og utan.
Rjómi fjallar um fimm ára þrotlausa baráttu Hilmars Egils Jónssonar fyrir að fá að flytja fjölskylduhundinn Rjóma til Íslands, og pólsk-íslenska heimildamyndin Hugsað heim (In touch) er um nýja Íslendinga frá pólska bænum Stare Juchy. Um þriðjungur bæjarbúa hefur flust búferlum til Íslands síðan á níunda áratugnum og enginn þeirra hefur snúið aftur. Í myndinni er varpað ljósi á söknuðinn og heimþrána og sambandið við þá sem eftir eru í bænum.
Í þáttaröðinni Sögur frá landi kynntu Hlédís Sveinsdóttir og Hallgrímur Ólafsson sér sögu, menningu og matargerðarlist Norðurlands vestra í þremur þáttum og leituðu uppi dramatískar örlagasögur og áhugavert fólk.
Að lokum má nefna heimildamyndina Nýjar hendur, innan seilingar um einstaka sögu Guðmundar Felix Grétarssonar sem missti báða handleggi í slysi fyrir um 20 árum og hefur síðan barist fyrir að fá græddar á sig nýjar hendur. Kvikmyndagerðarmennirnir fylgdu Guðmundi eftir til fjölda ára en ákváðu loks að ljúka við myndina þar sem ekki var útséð um hvort aðgerðin yrði gerð á næstu árum enda hefur slík ágræðsla aldrei verið gerð áður. Rétt um ári eftir að myndin var sýnd á RÚV kom þó loks kallið og hefur Guðmundur nú fengið bæði nýja handleggi og axlir, eins og frægt er orðið.
Tímamót og sögulegir viðburðir
Í fjórða lagi fjölluðu fjölmargar myndir og þáttaraðir um mikilvæg tímamót og sögulega atburði sem mörkuðu þáttaskil í Íslandssögunni og þróun samfélagsins í heild. Þrjár vandaðar þáttaraðir skipuðu þar stóran sess; Siglufjörður – saga bæjar í umsjón Egils Helgasonar, en í fimm þáttum var rakin saga Siglufjarðar sem vegna mikils uppgangs á 20. öld varð þungamiðja síldveiða sem um skeið voru arðvænlegasta atvinnugrein á Íslandi; Háski – fjöllin rumska, heimildaþáttaröð í þremur hlutum sem sýnd var í kringum páska og fjallaði um mannskæð snjóflóð sem féllu á byggðina í Norðfirði þann 20. desember 1974 og markaði djúp spor í vitund heimamanna; og Í góðri trú – saga íslenskra mormóna í Utah sem sagði áður ósagða sögu fyrstu vesturfaranna, íslenskra mormóna sem fluttu til fyrirheitna landsins í Utah-fylki Bandaríkjanna á seinni hluta 19. aldar og í byrjun þeirrar 20.
Hér má einnig nefna myndir eins og Bráðum verður bylting um þegar barátta íslenskra námsmanna náði hámarki í róttækustu aðgerð þeirra – sendiráðstökunni í Stokkhólmi þann 20. apríl 1970, þegar ellefu námsmenn fóru inn í íslenska sendiráðið og lýstu því yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn og drógu rauðan fána að húni; og Fjaðrafok sem fjallar um 20 ára sögu Gleðigöngu Hinsegin daga og hvernig hún endurspeglar baráttu samkynhneigðra fyrir réttindum sínum meðal annars með því að auka sýnileika homma og lesbía og síðar transfólks á götum úti.
Í tengslum við náttúruna
Í fimmta lagi voru sýndar heimildamyndir sem fjölluðu á ýmsan hátt um mikilvæg tengsl okkar og samspil við náttúruna, en þar má meðal annars nefna myndir eins og Jarðtengdur (Why on Earth) sem sýnd í tveim hlutum og fjallaði um Echan Deravy sem gekk berfættur þvert yfir Ísland og aftur til baka í þeim tilgangi að sýna fólki fram á mikilvægi jarðtengingar. Í myndinni Strandir var tveim vinum fylgt eftir í sex daga göngu um Hornstrandir þar sem á vegi þeirra urðu fjölmargar áskoranir í bland við mikla náttúrufegurð og fugla- og dýralíf og myndin Fjallakóngar fjallaði um sauðfjárbændur í Skaftártungu á Suðurlandi og ferlið að hausti þegar bændur verða fjallmenn og halda til fjalla og smala fé sínu. Í Síðasta haustið er svo fjallað um Úlfar bónda og Oddnýju konu hans í Krossnesi á Ströndum sem smala fé sínu í réttir í síðasta sinn og enda þar með fjárbúskap sem hefur verið stundaður kynslóð fram af kynslóð í hundruð ára.
Í íslensku heimildarmyndinni Börn hafsins er fylgst með hinum landlausa Moken-ættflokki við Andaman-haf í suðaustanverðri Asíu sem notar yfir þúsund ára gamlar veiðiaðferðir við að draga fram lífið. Fólkið kafar niður á 30 metra dýpi án hjálparbúnaðar og heldur niðri í sér andanum í allt að fimm mínútur í senn með einungis spjót sem veiðarfæri.
Náttúruöflin eru okkur Íslendingum hugleikin og í myndinni Á vaktinni í 100 ár er starfsfólki Veðurstofunnar fylgt eftir í eitt ár til að veita innsýn í fjölbreytt og mikilvægt rannsókna- og vísindastarf þeirra sem snýst um að vakta flest það sem að náttúruöflunum snýr. Að lokum var á degi íslenskrar náttúru þann 16. september sýnd heimildarmynd um Ómar Ragnarsson og hans baráttu gegn virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka, en þennan sama dag er einnig afmælisdagur Ómars sem í ár fagnaði 80 ára afmæli.
Líkamleg og andleg heilsa:
Í sjötta og síðasta lagi voru sýndar þó nokkrar myndir sem tóku fyrir líkamlega og andlega heilsu, en meðal þeirra voru Karlamein um krabbamein í blöðruhálskirtli þar sem sjúklingar segja frá reynslu sinni og læknar fjalla um eðli, greiningu og meðhöndlun sjúkdómsins; Að sjá hið ósýnilega um konur á einhverfurófinu, en myndin varpar ljósi á lífi og reynslu sem hefur að mörgu leyti verið öðrum dulin vegna þess að konur virðast síður fá einhverfugreiningu en karlar; Hjálp til sjálfshjálpar um starfsemi Hjálparstarf kirkjunnar með sérstakri áherslu á söfnun fermingarbarna fyrir margþættu vatnsverkefni í Eþíópíu; og Lífið er núna um Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Um jólin var svo frumsýnd ný íslensk heimildamynd eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur, Þriðji póllinn, þar sem fylgst er með ferðalagi tónlistarmannsins Högna Egilssonar og Önnu Töru Edwards um Nepal. Myndin fjallar um óvænta vináttu og er hreinskilin og opin umræða um hvað það þýðir að vera með geðsjúkdóm og að vera aðstandandi.
Erlendar heimildarmyndir og fræðsluþættir
Heimildarþáttaraðir frá BBC skipuðu stóran sess í dagskránni. Stærsta þáttaröð ársins Lífsbarátta í náttúrunni (Dynasties) reyndist vinsælasta erlenda heimildarþáttaröðin. Haldið var upp á 50 ára afmæli tungllendingarinnar í júlí með fræðsluþáttum á borð við 8 dagar – til tunglsins og heim á ný ( 8 Days – To the Moon and Back) og Geimfarar – erfiðasta starf í alheiminum (Astronauts The Toughest Job in the World). Við héldum áfram að kynnast undrum alheimsins á haustdögum í heimildarþáttaröðinni Reikistjörnurnar (Planets) þar sem eðlisfræðingurinn Brian Cox fer á kostum. Þættirnir voru að miklu leyti teknir upp á Íslandi. Umdeildustu þættir ársins voru án efa Týndu drengirnir í Hvergilandi (Leaving Neverland) þar sem meint kynferðisofbeldi poppstörnunnar Michaels Jackson er dregið fram í dagsljósið á mjög áhrifamikinn hátt. Einnig voru á dagskrá þættirnir Þrælaslóðir (Slavery Routes) þar sem rakinn er saga þrælaviðskipta í heiminum í gegnum aldirnar. Tónlistartengdir þættir voru einnig á dagskrá, þar á meðal Rómantísku meistararnir: Tónlistabylting 19. aldar (Musical Masters of the 19th Century), Oasis (Oasis: Supersonic), Með eigin orðum: Bruce Springsteen (Bruce Springsteen: In His Own Words) og Duran Duran (Duran Duran, There is something you should know) svo einhverjar séu nefndar. Við fylgdumst einnig með Sælkeraferðum Ricks Stein (Rick Stein’s Long Weekends) sem kom meðal annars við í Reykjavík. Joanna Lumely kynnti okkur fyrir undrum Japans og síðast en ekki síst leiddi vísindamaðurinn Stephen Hawking okkur í sannleikann um skipulag alheimsins (Stephen Hawking’s Grand Design).
Listamenn í brennidepli
Af heimildarmyndum sem fjölluðu um listamenn og listir almennt má nefna myndirnar Sjóndeildarhringur eftir Friðrik Þór Friðriksson um myndlistarmanninn Georg Guðna; Blindrahundur um Birgi Andrésson; GARN um hóp alþjóðlegra listamanna sem hefur skapað nýja bylgju nútímalistar tengda handverki, hekli og prjónaskap; Skáldagatan í Hveragerði um íslensk skáld sem á árum áður voru búsett voru í einni og sömu götunni í Hveragerði; myndina Á æðruleysinu um tónlistarmanninn KK; Can’t Walk Away um Herbert Guðmundsson; Verksummerki, um rithöfundinn og hugsjónakonuna Steinunni Sigurðardóttur og heimildarmynd í tveimur hlutum um einstaka sögu hljómsveitarinnar Mezzoforte.
Fjölbreytt og fyrirferðarmikið heimildaefni
Íslenskar heimildarmyndir voru fyrirferðarmiklar í dagskrá RÚV og hátt í 30 myndir voru frumsýndar á árinu auk fjölda heimildaþáttaraða. Heimildarmyndum var gert hátt undir höfði í upphafi árs með heimildarmyndahátíð í janúar þar sem sýndar voru tíu myndir. Þetta mæltist vel fyrir meðal áhorfenda RÚV og má til að mynda nefna GARN í leikstjórn Unu Lorenzen og UseLess (Sóun) eftir Rakel Garðarsdóttur og Ágústu M. Ólafsdóttur. Báðar myndirnar hafa vakið mikla athygli og sópað til sín verðlaunum bæði hér og erlendis.
Erlent efni – heimildamyndir og fræðsluþættir
Áfram var fylgt þeirri markvissu stefnu að auka fjölbreytni í efnisvali og uppruna við val á erlendu efni til sýningar á árinu. Norrænt efni hélt áfram að verða æ fyrirferðarmeira, bæði í línulegri dagskrá RÚV og í spilaranum, ekki aðeins leikið efni heldur einnig valið heimildaefni. Kórónuveirufaraldurinn setti ennfremur sterkan svip á efnisvalið því lögð var rík áhersla á að færa þjóðinni sem skjótast frétta- og heimildatengt efni þar sem leitast var við að varpa ljósi á þennan fordæmalausa faraldur sem skók gervalla heimsbyggðina.
Forsetakosningar í Bandaríkjunum voru fyrirferðarmiklar í dagskránni í október og nóvember. Sýndir voru heimildarþættirnir Trump-sýningin (The Trump Show) ásamt þáttaröðinni Kosningar:2020 Trump vs. Biden (Kosningar 2020: Trump vs. Biden) frá PBS.
Menningarefni var sem fyrr haft í hávegum, einkum í völdum menningar- og listtengdum þáttum og þáttaröðum á mánudagskvöldum. Þar á meðal má nefna heimildarþáttaraðirnar Menning í mótun (Civilasations) og Listasaga Frakklands (The Art of France), báðar frá BBC.
Aðrar umfangsmiklar heimildarþáttaraðir vöktu athygli á árinu svo sem margumtöluð þáttaröð Stevens Spielbergs, Undirrót haturs (Why We Hate) sem fjallar þann um eiginleika mannsins að geta hatað. Þáttaröðin hefur verið notuð í kennslu í íslenskum framhaldsskólum eftir að hún var sýnd.
Þá voru sýnd tvö þrekvirki til úr smiðju Davids Attenboroughs, Sjö heimar, einn hnöttur (Seven Worlds One Planet) og Hafið, bláa hafið – endurlit (Blue Planet, Revisited).
Sökum ferðatakmarkana var leitast við að bjóða áhorfendum í ferðalag um heiminn í þáttaröðunum Joanna Lumley – Silkileiðin (Joanna Lumley – Silk Road), Martin Clunes og eyjar Ástralíu (Martin Clunes: Islands of Australia), Ella kannar Suður Ítalíu (Resa med Ella: Syd Italien) og Kólumbía með Simon Reeve (Colombia with Simon Reeve).
Ein allra umtalaðasta heimildarmynd ársins var án nokkurs vafa Moldvarpan (The Mole) sem danska ríkisútvarpið DR gerði. Þættirnir voru tíu ár í vinnslu og afhjúpuðu möguleg vopnaviðskipti Norður-Kóreu þrátt fyrir viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna.
Leikið efni
Átaksverkefni norrænu almannaþjónustustöðvanna, Nordic 12, hefur fest sig í sessi og stór hluti alls leikins efnis á dagskrá RÚV árið 2020 kemur úr ranni þessa samstarfs. Þetta eru þáttaraðir á borð við 22. júlí, Sveitasælu (Fred til lands), Þegar rykið sest (Når støvet har lagt sig), Paradís (Paratiisi), Tvíburi (Twin) og síðast en ekki síst norska þáttaröðin Exit sem hefur slegið rækilega í gegn fyrir margar sakir. Einnig voru á dagskrá þáttaraðir frá Bretlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Póllandi. Mætti þar nefna Framúrskarandi vinkona: Saga af nýju ættarnafni (My Brilliant Friend: Story of a New Name), Kennarinn (Belfer), Martin læknir (Doc Martin), Viktoría (Victoria) og Svarti baróninn (Baron Noir).
RÚV var einnig með þema-vikur allt árið 2020. Á finnskum, pólskum, frönskum, norrænum og evrópskum bíódögum voru sýndar helstu myndir frá viðkomandi löndum á undanförnum árum, kvikmyndir á borð við Hævnen, Pahan Kukat, Hymylevä mies, Simna Wojna, Twarz og Krigen. Þá héldu úrvalsbíómyndir undir yfirskriftinni Bíóást áfram að gleðja.
Spilarinn
Notkun á sjónvarpsspilaranum á RÚV.is hefur aukist undanfarnin ár. Þar getur fólk nálgast gæðaefni eftir áhugasviði sínu á þeim tíma sem því hentar. Þar er að finna fjölbreytt efni til dægrastyttingar, fræðslu, innblásturs og kennslu. Á hátíðum var boðið upp á svokallað hámhorf þar sem nýtt efni og eldra var gert aðgengilegt í spilara til að njóta í fríi. Um jólin var boðið upp á ellefu nýjar leiknar norrænar þáttaraðir í hæsta gæðaflokki í spilaranum. Þar má nefna spennu- og sakamálaþætti á borð við dönsku þættina DNA, um lögreglumanninn Rolf Larsen sem finnur vísbendingu sem gefur honum von um að finna týnda dóttur sína á lífi; sænsku þættirna Leit að morðingja (Jakten på en mördare), um sannsögulega atburði, morð á ungri stúlku sem skók sænskt samfélag á sínum tíma. Í flokki spennuefnis má líka nefna dönsku þættina Úlfur, úlfur (Ulven kommer) sem fjalla um flókið fjölskyldumál þar sem upp koma ásakanir um alvarlegt ofbeldi og finnsku spennuþættirna Sáttasemjarann (Peacemaker), um sáttamiðlara hjá Sameinuðu þjóðunum sem vinnur að sátt milli Tyrkja og Kúrda. Einnig má nefna sænsku þættina Gösta í leikstjórn Lukas Moodysons um ungan barnasálfræðing sem er helst til góður og hjálpsamur. Auk þess var fjöldi leikinna sjónvarpsþátta, heimildarmynda og innlends efnis aðgengilegt í spilara yfir hátíðarnar.
Vegna COVID-19 var dagskrá sjónvarps á daginn lengd með sýningum á gömlu efni úr safni sjónvarpsins í bland við endursýningar á erlendu efni. Með því jókst úrval heimildarmynda, dægurþátta og menningarumfjallana frá fyrri tíð í spilara. Með tilkomu MenntaRÚV var aðgengi að efni til kennslu og fræðslu fyrir börn og ungmenni aukið til muna. Hefur það nýst bæði kennurum og foreldrum vel. Ásamt því hefur áhersla verið aukin á efni fyrir ungt fólk í spilara og var kynheilbrigði sérstakt þema fyrir þann hóp þetta haustið. Þar má nefna norska þætti um kynþroskann, sænska þætti um líkamsvitund og þáttaröð um gott kynlíf.
Breytt Rás 1, sterkari staða
Tvær breytingar voru gerðar á Rás 1 árið 2020. Hádegið heitir nýr fréttatengdur þáttur sem hóf göngu sína 1. desember. Þátturinn er á dagskrá alla virka daga milli kl. 12:03 og 13:00. Í þættinum eru fréttaskýringar, viðtöl og umræður um það sem er efst á baugi hverju sinni. Fréttatíminn er áfram á sínum stað kl. 12:20 og sömuleiðis síðasta lag fyrir fréttir. Strax að loknum fréttum er farið yfir veðrið. Umsjón með Hádeginu hafa Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Katrín Ásmundsdóttir. Þátturinn er aðgengilegur í spilaranum og öllum helstu hlaðvarpsveitum að lokinni útsendingu. Þátturinn hefur styrkt dagskrá Rásar 1 á besta hlustunartíma og sækir enn í sig veðrið. Breytingar voru einnig gerðar á störfum þula Rásar 1 í byrjun desember. Með breytingunum er hlutverkum þula skipt í tvennt, annars vegar er auglýsingaþulur sem les tilkynningar og auglýsingar eins og starfsheitið gefur til kynna og hins vegar er dagskrárþulur sem hefur það hlutverk að kynna dagskrána og halda utan um hana, sinna dagskrárgerð með tónlist, innslögum og viðtölum og almennt vera góður félagsskapur fyrir hlustendur. Með þessu fyrirkomulagi er dagskrárþul skapað svigrúm til að sinna þessu mikilvæga hlutverki í dagskrá Rásar 1. Auglýsinga- og tilkynningalestur hefur verið fyrirferðarmikill í starfi þula hingað til og þeir hafa ekki haft nægjanlega mikið svigrúm til að sinna kynningu dagskrár, vali á tónlist og annarri dagskrárgerð. Með breytingunni fær dagskrárþulur sömuleiðis svigrúm til þess að vera persónulegri í tali í útvarpinu og þannig meiri félagsskapur fyrir hlustendur. Þetta hefur gert Rás 1 áheyrilegri og dagskrána þéttari.
Endurnýjun og breytt miðlun
Rás 1 hefur verið á mikilli siglingu undanfarin ár eftir að breytingar hafa verið gerðar á dagskrárramma og dagskrárframboði. Sömuleiðis hefur orðið talsverð endurnýjun í starfsmannahópnum þar sem hópur af ungu dagskrárgerðarfólki hefur verið ráðinn til starfa. Þessar breytingar hafa skilað sér í því að hlustun á línulega dagskrá hefur aukist um þriðjung og Rás 1 á iðulega nokkur af vinsælustu hlaðvörpum landsins í hverri viku. Þáttur Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, hefur reyndar verið vinsælasta hlaðvarp landsins síðustu 4-5 ár. Heimskviður juku vinsældir sínar á árinu en meðal annarra útvarpsþátta Rásar 1 sem hafa gert það gott á árinu, bæði í línulegri dagskrá og ólínulegri, má nefna Glans í umsjá Önnu Gyðu Sigurgísladóttur og Katrínar Ásmundsdóttur, Segðu mér í umsjá Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur og Frjálsar hendur í umsjá Illuga Jökulssonar. Allir þessir þættir eru dæmi um dagskrárgerð sem sérstaklega er hugsuð með ólínulega hlustun í huga. Þeir eru sértækir að efni og byggjast margir á spennandi og fjölbreyttri hljóðmynd. Hið sama má segja um ýmsar þáttaraðir sem framleiddar voru á árinu, svo sem Ástarsögur Önnu Marsibilar Clausen, Loftslagsdæmið eftir Arnhildi Hálfdanardóttur, Íslensku mannflóuna II eftir Chanel Björk Sturludóttur, Raunir, víti og happ: Þætti um spilafíkn eftir Dag Gunnarsson, Hringinn eftir Huldar Breiðfjörð, Hnit eftir Brynju Þorgeirsdóttur, Kínverska drauminn eftir Öldu Elísu Anderson og Guðbjörgu Ríkey Thoroddsen Hauksdóttur, Miðju og jaðar eftir Tómas Ævar Ólafsson, Það sem breytingaskeiðið kenndi mér eftir Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur, Kjarna málsins eftir Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, Bleikmáninn rís: Líf og list Nicks Drake og Flugslysið í Ljósufjöllum eftir Höllu Ólafsdóttur. Tvær þáttaraðir um tónlist vöktu svo sérstaka athygli, annars vegar Píanógoðsagnir Víkings Heiðars Ólafssonar og Beethoven – byltingarmaður tónlistarinnar, sem var tíu þátta röð eftir Árna Heimi Ingólfsson, gerð í tilefni af 250 ára afmæli tónskáldsins.
Bókmenntir og barnaefni
Bókmenntalestrar sem sendir voru út á árinu voru lestur Steinunnar Sigurðardóttur á skáldsögu sinni, Hjartastað, lestur Kristínar Eiríksdóttur á bók sinni, Elín, ýmislegt og Konan við þúsund gráður sem höfundurinn, Hallgrímur Helgason, las. Einnig var boðið upp á nýjan lestur Ármanns Jakobssonar á Brennu-Njáls sögu. Lestrinum fylgdu sex hlaðvarpsþættir þar sem Eiríkur Guðmundsson ræddi við Ármann um söguna, einkenni hennar og túlkun. Allir lestrarnir voru aðgengilegir í spilara RÚV og helstu hlaðvarpsveitum.
Mikil og markviss vinna var lögð í að gera hátíðardagskrá Rásar 1 sem veglegasta enda gegnir þessi útvarpsstöð sjaldan jafn stóru hlutverki í lífi landsmanna og um hátíðir. Hlustun á Rás 1 er aldrei meiri en um páska og jól. Gætt hefur verið að því að gera hátíðarþætti aðgengilega í spilara RÚV og hlaðvarpi, meðal annars með því að setja þá alla í eitt og sama hlaðvarpið, sem gengur undir nafninu Fríhöfn Rásar 1, en það er einnig aðgengilegt í spilaranum.
Barnaefni á Rás 1 tók svolitlum breytingum á árinu. Boðið var upp á fjóra þætti í viku í umsjá starfsfólks KrakkaRÚV. Þetta eru þættirnir Krakkakiljan, Krakkakastið, Hlustaðu nú og Hljómboxið, spurningaþáttur fyrir alla fjölskylduna. Um sumarmánuðina var svo boðið upp á fræðsluþætti sem ætlaðir voru sérstaklega til hlustunar á ferðalögum um landið og hét þáttaröðin Hvar erum við núna?
Dagskrárrammar Rásar 1
Ekki voru gerðar miklar breytingar á dagskrárramma Rásar 1 á árinu. Innra starf miðaði meira að því að styrkja dagskrárgerð, efni og efnistök í þeim þáttum sem eru á dagskrá. Í daglegri dagskrá var efni sem höfðar til breiðs hóps hlustenda. Samfélagslegri og fréttatengdri umræðu er sinnt í daglegum þáttum á borð við Morgunvaktina, Mannlega þáttinn, Hádegið, Samfélagið og Spegilinn. Menningarlegu efni er sinnt í Víðsjá, Lestinni, Lestarklefanum, Hátalaranum, Á tónsviðinu, Orðum um bækur og Flakki, sem nú heldur úti sérhæfðari ummræðu um byggingarlist en áður, og fleiri þáttum. Og mannlífstengt efni er í Segðu mér, Gestaboði og Mannlega þættinum svo dæmi séu nefnd. Og þótt finna megi efni tengt landsbyggðinni í flestum föstu þáttunum er þeim sérstaklega sinnt í Sögum af landi. Um helgar eru fleiri sértækir þættir, svo sem Tónlist frá a-ö, Bók vikunnar, Orð af orði, sem fjallar um íslenska tungu, Frjálsar hendur og Úr tónlistarlífinu þar sem heyra má nýjar upptökur úr íslensku tónlistarlífi. Á árinu hóf svo göngu sína þátturinn Svona er þetta í umsjá Þrastar Helgasonar. Þar er rætt við forvitnilegt fólk um reynslu þess og viðhorf. Þátturinn er sendur út á sama tíma og Samtal, þáttur Ævars Kjartanssonar, var til margra ára en Ævar lét af störfum eftir um hálfrar aldar starf á Rás 1 í ágúst.
Heimsfaraldur og 90 ára afmæli
Heimsfaraldur COVID-19 hafði mikil áhrif á vinnu dagskrárgerðarfólks á Rás 1. Í faraldrinum sinnti það dagskrárgerð sinni heima að mestu leyti og það reyndi verulega á útsjónarsemi þess við að taka viðtöl, taka upp efni í góðum hljómgæðum utan stúdíóa, setja saman þætti í fjarvinnu o.s.frv. Sýndi dagskrárgerðarfólk mikla þrautseigju og útsjónarsemi við þessar aðstæður og sá til þess, ásamt tæknifólki og fleirum, að hlustendur fengju fyrsta flokks útvarpsefni til að hlusta á í faraldrinum. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir hafði faraldurinn ekki teljandi áhrif á dagskrá Rásar 1 og enginn starfsmaður sýktist af veirunni.
Í desember var haldið upp á 90 ára afmæli Rásar 1 sem er auðvitað jafngömul Ríkisútvarpinu. Efnt var til dagskrárgerðar sem meðal annars rifjaði upp sögu Ríkisútvarpsins en í byrjun mánaðarins urðu einnig breytingar á áferð og hádegisdagskrá útvarpsins. Í tilefni af afmælinu færðu dætur nóbelsskáldsins, Halldórs Laxness, Ríkisútvarpinu að gjöf allar upptökur sem til eru í safni þess með lestri skáldsins á eigin efni og annarra. Var það sannarlega stórmannleg gjöf sem Rás 1 og hlustendur hennar munu lengi njóta. Öllu efninu var komið fyrir í spilaranum á RÚV.is og er það sömuleiðis aðgengilegt í helstu hlaðvarpsveitum. Að auki var gerður þáttur þar sem Halldór Guðmundsson bókmenntafræðingur fjallaði um samskipti Halldórs Laxness og Ríkisútvarpsins í gegnum tíðina.
Útvarpsleikhúsið
Útvarpsleikhúsið framleiðir útvarpsleikrit og heimildaleikhúsverk. Á árinu 2020 voru frumflutt sex verk, stök verk, framhaldsverk og heimildaseríur. Má þar nefna Ferðalög, framhaldsleikrit í fjórum hlutum eftir Jón Gnarr og annað framhaldsleikrit, jólaleikritið Með tík á heiði eftir Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Einnig var flutt ný útvarpsgerð leikritsins Velkomin heim eftir Maríu Thelmu Smáradóttur, Andreu Vihjálmsdóttur og Köru Hergils og Mikilvægur maður, nýtt verk eftir Bjarna Jónsson, svo eitthvað sé nefnt. Þar sem ekki tókst að halda upptökuáætlun vegna kórónuveirufaraldursins og aðgengismála tengdum faraldrinum tókst ekki að framleiða nægilega mörg verk á leikárinu til að fylla í flokkinn Útvarpsverk ársins á Grímuverðlaunahátíðinni 2020.
Heimildarþættir
Tvær viðamiklar heimildarþáttaraðir voru á dagskrá á árinu. Í þáttaröðinni Beethoven – byltingarmaður tónlistarinnar sagði Árni Heimir Ingólfsson tónlistarfræðingur frá lífshlaupi og list Ludwigs van Beethovens á 250 ára afmælisári tónskáldsins og í tengslum við þáttaröðina var einnig boðið upp á sérstaka spilunarþætti þar sem tónlist Beethovens fékk að hljóma. Í þáttaröðinni Píanógoðsögnum fjallaði Víkingur Heiðar Ólafsson á persónulegum nótum um átta píanista sem hrifið hafa hann í gegnum tíðina og lék valdar, oft sjaldheyrðar, upptökur með þeim.
Tónlistin er líka félagi og skemmtun og miða vinsælustu þættir Rásar 1 að því að skapa þægilega nærveru með góðri tónlist sem oft heyrist ekki annars staðar. Má þar nefna þættina Á reki með KK þar sem Kristján Kristjánsson leikur tónlist af ýmsu tagi, Óskastund Svanhildar Jakobsdóttur og Flugur Jónatans Garðarssonar.
Fjölbreytt tónlistardagskrá
Tónlist er mikilvægur hluti af dagskrá Rásar 1 og kemur við sögu í flestum dagskrárliðum. Á árinu 2020 voru á dagskrá Rásar 1 tónlistarþættir, þar sem umsjónarmenn kynntu tónlist af ýmsu tagi, nýjar tónleikahljóðritanir, bæði innlendar og erlendar, og hljóðrit gerð sérstaklega fyrir Ríkisútvarpið, bæði ný og úr safni.
Einn mikilvægasti liðurinn í tónlistardagskrá Rásar 1 er hljóðritun á tónlist og með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útsendingum frá ýmsum tónlistarhátíðum og öðrum tónleikum gegnir Rás 1 lykilhlutverki í miðlun tónlistar til allra landsmanna. Auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands var Rás 1 í samstarfi um hljóðritanir við Íslensku óperuna, Stórsveit Reykjavíkur, Listahátíð í Reykjavík og tónlistarhátíðirnar Myrka músikdaga, Jazzhátíð Reykjavíkur, Reykholtshátíð og Sumartónleika í Skálholti.
Eins og gefur að skilja höfðu samkomutakmarkanir vegna COVID-19 mikil áhrif á tónleikahald ársins þar sem hefðbundið tónleikahald, með gestum í sal, lá niðri um margra mánaða skeið. Þrátt fyrir samkomubann var lifandi tónlistarflutningi áfram miðlað á Rás 1 í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hörpu. Í mars og apríl voru sendir út, bæði í útvarpi og sjónvarpi, sérvaldir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá fyrri árum undir yfirskriftinni Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands sem var vel við hæfi á þessu 70 ára afmælisári hljómsveitarinnar. Í lok maí og fram í júni tóku beinar útsendingar við. Þá voru þrennir tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar sendir út beint, bæði í útvarpi og sjónvarpi, með tónlistarmfólkið Hallveigu Rúnarsdóttur, Pál Óskari Hjálmtýsson og Víking Heiðar Ólafsson í forgrunni. Fleiri samsendingar frá Sinfóníutónleikum voru á síðari hluta ársins í útvarpi og sjónvarpi. Í Klassíkinni okkar 4. september var 90 ára afmæli Ríkisútvarpsins og 70 ára afmæli Sinfóníuhljómsveitar Íslands fagnað með glæsilegum tónleikum, 250 ára afmælis Beethovens var minnst með tónleikum í september þar sem Víkingur Heiðar lék einleik í þriðja píanókonserti tónskáldsins og sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir þreytti frumraun sína með hljómsveitinni á aðventutónleikum í desember. Á vormánuðum var Rás 1 einnig í samstarfi við streymis-tónleikaröðina Heima í Hörpu en úrval hljóðritana úr röðinni var sent út á sunnudögum í apríl og maí.
Af öðrum tónleikahljóðritunum má nefna hjóðritun frá tónleikum í Hallgrímskirkju í mars þar sem Benedikt Kristjánsson tenórsöngvari flutti Jóhannesarpassíu Bachs á einstæðan hátt með með tveimur hljóðfæraleikurum og þáttöku tónleikagesta, stórtónleika Möggu Stínu í Eldborg í febrúar þar sem hún flutti lög Megasar með hljómsveit og ýmsum gestum og tónleika Gyðu Valtýsdóttur sem haldnir voru undir merkjum Listahátíðar í Reykjavík í september. Einnig voru sendir út afmælistónleikar Hauks Tómassonar, tónleikar í Salnum í Kópavogi, söngtónleikar Íslensku óperunnar og ýmsir tónleikar í tónleikaröð Hörpu, Sígildum sunnudögum.
Samtímatónlist og alþjóðlegt samstarf
Sígild og samtímatónlist er í öndvegi í tónlistardagskrá Rásar 1 en einnig djass og dægurlög fyrri tíðar og það sem skarar fram úr í nýrri tónlist af öllum gerðum hérlendis sem erlendis. Rás 1 leitast við að upplýsa og fræða hlustendur um sögu tónlistar og strauma og stefnur í samtímanum og þar skipta miklu þættir á borð við Hátalarann í umsjón Péturs Grétarssonar, Á tónsviðinu í umsjón Unu Margrétar Jónsdóttur, Lofthelgina í umsjón Friðriks Margrétar Guðmundssonar og þætti Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur, Tónlistin frá A-Ö, auk þess sem þættir á borð við Víðsjá og Lestina gegna þar mikilvægu hlutverki. Arndís Björk Ásgeirsdóttir sá einnig um þriggja þátta röð þar sem farið var yfir sögu Listahátíðar í Reykjavík sem fagnaði 50 ára afmæli á árinu og í þáttaröðinni Skáld hlusta ræddi hún við skáld og rithöfunda um hvernig þeir nota tónlist við störf sín. Í páskadagskránni brá Elísabet Indra Ragnarsdóttir upp svipmynd af söngkonunni Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sem hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020, Páll Ragnar Pálsson sagði frá rússneska tónskáldinu Sofiu Gubaidulinu og helstu verkum hennar og Guðni Tómasson sótti Víking Heiðar Ólafsson heim og ræddi við hann um nýja hljómplötu hans með verkum Debussys og Rameaus.
Tónlistin er líka félagi og skemmtun og miða vinsælustu þættir Rásar 1 að því að skapa þægilega nærveru með góðri tónlist sem oft heyrist ekki annars staðar. Má þar nefna þættina Á reki með KK þar sem Kristján Kristjánsson leikur tónlist af ýmsu tagi, Óskastund Svanhildar Jakobsdóttur og Flugur Jónatans Garðarssonar.
Rás 1 styður við íslenska samtímatónlist með ýmsum hætti, m.a. upptökum og tónleikahljóðritunum ýmis konar. Í nóvember stóð Rás 1 í fjórða sinn fyrir sinni eigin tónlistarhátíð, í þetta sinn undir listrænni stjórn Önnu Þorvaldsdóttur. Þema hátíðarinnar var Þræðir og hverfðist um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Þar frumflutti tónlistarhópurinn Elektra Ensemble fjögur ný kammerverk sem pöntuð voru sérstaklega af þessu tilefni og styrkt af Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs. Tónskáldin fjögur komu úr nokkuð ólíkum áttum en þau eru Haukur Þór Harðarson, Högni Egilsson, Sóley Stefánsdóttir og Veronique Vaka. Hátíðin var í samstarfi við Hörpu og voru tónleikarnir sendir út beint úr Hörpu á Rás 1 og á RÚV 2 auk þess sem þeir voru í beinu streymi á menningarvefnum. Frumflutningur á Jólalagi Ríkisútvarpsins sem Rás 1 pantar á hverju ári af íslensku tónskáldi er löngu orðin að skemmtilegri hefð í jóladagskránni. Jólalagið 2020 var eftir tónlistarhópinn Umbru og var frumflutt af hópnum á Rás 1 jóladag.
Rás 1 hefur tekið þátt í Alþjóðlega tónskáldaþinginu (International Rostrum of Composers) um áratuga skeið en þingið er einn öflugasti vettvangurinn til kynningar á íslenskri samtímatónlist. Þinginu 2020, sem til stóð að halda í Belgrad í Serbíu, var frestað vegna aðstæðna, en í staðinn var ákveðið að útbúa streymis-spilunarlista með verkum eftir konur, samin frá því þingið var haldið í fyrsta sinn árið 1955 og fram til ársins 2021. Framlag Rásar 1 til verkefnisins var kammeróperan Blóðhófnir eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur, samin á árunum 2016-2018, við verðlaunaljóðverk Gerðar Kristnýjar og flutt af tónlistarhópnum Umbru. Verkið var jafnframt flutt á Rás 1 á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars.
Samstarf við Samband evrópskra útvarpsstöðva (EBU) er þýðingarmikill þáttur í tónlistardagskrá Rásar 1. Hlustendur hafa notið þessa samstarfs í reglulegum útsendingum og Ríkisútvarpið og íslenskt tónlistarlíf hafa með þessu samstarfi verið virkir þátttakendur í frjóu samfélagi evrópsks tónlistarlífs. Tónleikahljóðritunum frá helstu tónlistarhúsum Evrópu var útvarpað í þáttunum Endurómi úr Evrópu og Sumartónleikum evrópskra útvarpsstöðva en líkt og hér á landi hafði heimsfaraldurinn mikil áhrif á tónleikahald um alla álfuna, sumartónlistarhátíðum var víðast hvar aflýst og tónleikar ýmist felldir niður eða haldnir án áheyrenda í sal.
Ríkisútvarpið var einnig í samstarfi við BBC 4 um vikulegar beinar útsendingar úr Hörpu í þættinum Front Row en Víkingur Heiðar Ólafsson var þar staðarlistamaður í 11 föstudagsþáttum, frá marslokum og fram í miðjan júní.
Líklega hefur aldrei reynt jafn rækilega á öryggishlutverk Rásar 2 og árið 2020. Slæmt veður í upphafi árs og veira sem setti samfélagið á hliðina voru eðlilega áberandi á stöðinni. Hlustun var með mesta móti enda allt kapp lagt á að nauðsynlegar upplýsingar kæmust til skila í rauntíma. Stóra áskorunin var að sinna áfram öðru hlutverki Rásar 2 sem er miðlun á íslenskri tónlist. Hlutfall hennar var aukið og fjöldi frumfluttra laga hefur líklega aldrei verið meiri á sama tíma og íslenskur tónlistariðnaður gekk í gegnum stærri kreppu en nokkru sinni fyrr.
Fólk hlustar þegar stór áföll ríða yfir
Strax í lok árs 2019 kom í ljós hveru veigamiklu hlutverki Rás 2 gegnir þegar kemur að almannavörnum og öryggishlutverki RÚV. Slæmt veður og rafmagnsleysi hafði víðtæk áhrif á landinu en dagskrárgerðarfólk Rásar 2 lagði allt kapp á að miðla upplýsingum um leið og þær bárust. Allir þættir Rásar 2 taka þátt í þessari vinnu, hvort heldur sem er fréttatengdir dægurmálaþættir, tónlistarþættir í daglegri dagskrá eða léttir helgarþættir. Árið hófst með sama hætti þar sem reglulegar upplýsingar um veður og færð voru áberandi í dagskránni auk þess sem samvinna við fréttastofu um miðlun upplýsinga var mikil.
Þegar kórónuveirufaraldurinn hófst varð fljótt ljóst að grípa þyrfti til ráðstafana til þess að koma upplýsingum til almennings. Strax frá fyrsta fundi almannavarna voru þeir í beinni útsendingu á Rás 2 og hafa verið síðan. Mikil hlustun var á fundina sjálfa, fréttahlustun var í hæstu hæðum en þar fyrir utan var mikil hlustun á aðra dagskrá. Greinilegt er að bæði hefur áherslubreyting í dagskrá skilað aukinni hlustun eins og kom í ljós árið 2019 og upplýsingamiðlun utan frétta hefur fallið í kramið.
Breytt skipulag vegna fjarvinnu
Fjölmiðlar um allan heim tókust á við nýjar áskoranir sem tengdust fjarvinnu, sóttvarnaráðstöfunum og brottfalli starfsfólks vegna sóttkvíar. Í byrjun mars, þegar lítið var vitað um veiruna eða útbreiðslu hennar, var gerð áætlun til að tryggja órofna útsendingu Rásar 2. Meðal annars voru gerðar ráðstafanir til að einangra lítinn hóp starfsmanna sem gæti sent út allan sólarhringinn ef allt færi á versta veg. Sem betur fer þurfti ekki að grípa til þess en hins vegar var starfsfólk látið vinna heima eins og kostur var auk þess sem gestakomur í stúdíó voru stöðvaðar. Hluti af dagskrá Rásar 2 var sendur út úr heimahúsum vorið 2020 auk þess sem nýjar tæknilausnir voru notaðar til að taka upp og senda út viðtöl.
Hlustun með mesta móti
Hlustun á Rás 2 tók mikinn kipp í lok árs 2019 og varð enn meiri árið 2020. Í lok árs kom í ljós að meira var hlustað á Rás 2 en nokkra aðra útvarpsstöð á landinu auk þess sem hlustun hefur aukist mikið meðal yngri hlustenda. Auðvitað er ekki hægt að líta framhjá því að alvarlegt ástand í þjóðfélaginu beinir fólki að stöðinni. Hins vegar voru skýr merki um það strax árinu áður að áherslubreytingar í dagskrá voru farnar að skila aukinni hlustun. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka hlut kvenna í dagskránni, bæði í hópi þáttastjórnenda og flytjenda. Í dægurmálaþáttum stöðvarinnar er hlutfall kynjanna jafnt í hópi þáttastjórnenda og hugað er að því í uppsetningu allrar annarrar dagskrár að hlutfallið sé sem jafnast.
Tónlistarárið 2020
Rás 2 hefur ávallt verið leiðandi í umfjöllun um íslenska tónlist og síðasta ár var engin undantekning. Þegar samfélagið fór á hliðina vegna COVID-19 var hlutfall íslenskrar tónlistar aukið mikið og um langt skeið spilaði Poppland einungis íslenska tónlist. Eðlilega var lítið um tónleika auk þess sem flestar hátíðir féllu niður svo upptökur á tónlist voru í lágmarki. Hins vegar var ákveðið snemma árs að Rás 2 þyrfti að létta landsmönnum lundina og því voru lögð drög að því sem síðar varð Tónaflóð um landið strax á vormánuðum. Í samstarfi við sjónvarpið voru svo fimm sveitarfélög um allt land heimsótt um sumarið auk þess sem tónleikar voru haldnir í Gamla bíói á Menningarnótt. Í þáttunum kom fram fjöldi tónlistarfólks sem flutti dægurlög sem tengdust hverjum landshluta. Verkefnið var svo vel heppnað að ákveðið var að endurtaka það 2021 í einhverri mynd.
Frumflutningur tónlistar og fjölbreytt efnisval
Hlutfall íslenskrar tónlistar hefur líklega aldrei verið hærra á Rás 2 en 2020 enda var hávært kall frá bæði listafólki og almenningi um að sýna þessum hópi stuðning við erfiðar aðstæður. Árið 2020 voru 60-65% af allri tónlist íslensk. Þá má þess geta að hlutfall tónlistar þar sem konur eru í aðalhlutverki fór yfir 40% og er líklega nálægt 44% þótt erfitt sé að segja nákvæmlega til um það. Mest spilaða lagið var Think About Things með Daða og Gagnamagninu en þess má geta að af 100 mest spiluðu lögum ársins voru 68 íslensk.
Rúmlega 800 ný íslensk lög voru frumflutt í Undiröldunni og Popplandi og 50 nýjar íslenskar plötur voru fluttar í heild sinni í Plötu vikunnar. Þar af voru 42% plötur þar sem konur eru í aðalhlutverki eða verk eftir konur. Þess má geta að safn RÚV skráði 2.197 ný íslensk lög á síðasta ári og 132 nýjar íslenskar plötur þannig að útgáfa var með miklum blóma á annars undarlegu ári. Að lokum má geta þess að 90 ný íslensk jólalög voru send inn í jólalagakeppni Rásar 2 en voru 40 árið 2019.
RÚV.is
Áhrif COVID-19 á vef RÚV voru mikil á árinu enda hefur lestur aldrei verið meiri. Þá jókst notkun á ólínulegu efni í bæði sjónvarpi og útvarpi mikið enda eftirspurnin mikil þegar fólk varði löngum stundum heima við. Þá var ráðist í nokkur stór verkefni á hugbúnaðarsviði, bæði til að bregðast sérstaklega við ástandinu og til að bæta þjónustu RÚV í ólínulegum heimi.
Vefur RÚV mikið sóttur í heimsfaraldri
Ljóst er að fjölmiðlanotkun landsmanna náði nýjum hæðum í faraldrinum og áhrifanna gætti einnig á vefsíðu RÚV. Notendum fjölgaði um tæp 32% milli ára og voru ríflega 6,2 milljónir. Flettingum fjölgaði um 49% og voru tæpar 234 milljónir auk þess sem fólk varði lengri tíma á vefnum í hvert sinn og skoðaði fleiri síður að meðaltali. Mest var notkunin að meðaltali í mars og apríl en sjá má aðra toppa tengda stórum fréttaviðburðum eins og forsetakosningum í Bandaríkjunum. Þá er greinilegt að landsmenn sækja sér nú ólínulegt efni í meira mæli en áður hefur þekkst. Þannig jókst notkun á ólínulegu sjónvarpsefni á vefnum um 20% milli ára en um 90% á ólínulegu útvarpsefni. Um 16.500 dagskrárliðir úr útvarpi voru aðgengilegir á vef RÚV árið 2020 og tæplega 10.000 úr sjónvarpi. Framboðið jókst í faraldrinum enda mikil krafa um aukna dagskrá í útvarpi og sjónvarpi sem miðla þurfti ólínulega.
Þetta endurspeglar nauðsyn þess að huga að vefnum sem einni meginstoðinni í efnisdreifingu RÚV. Almenningur velur nú hvenær hann vill neyta efnisins og ljóst að almannaþjónustumiðill þarf að bregðast við þeirri kröfu með markvissari ólínulegri dreifingu. Einnig sýnir þetta nauðsyn þess að vefurinn sé skilgreindur sem hluti af almannavarnahlutverki RÚV enda oft fyrsta stopp fólks þegar hætta steðjar að.
Númiðlasvið
Fjölmargar áskoranir komu upp á árinu auk þess sem kórónuveirufaraldurinn hafði fordæmalaus áhrif á allt starf RÚV. Þegar hann hófst kom fram skýr ósk frá menntamálayfirvöldum um að RÚV tæki að sér veigamikið hlutverk í utanumhaldi um grunnskólabörn. RÚV brást við þessari ósk með því að útbúa nýja þjónustu á vefnum, MenntaRÚV, þar sem gríðarlegt magn af efni fyrir börn og ungt fólk var gert aðgengilegt. Vinnan við nýja spilarann tók aðeins nokkrar vikur og vann hugbúnaðardeildin þar þrekvirki. Um leið voru gerðar tilraunir með nýjan vefspilara, LUDO, frá NRK sem tók við af annarri aðkeyptri þjónustu. MenntaRÚV hlaut afar góðar viðtökur en ljóst er að taka þarf ákvörðun um framhald þjónustunnar fljótlega. Á til að mynda að loka vefsvæðinu og hafa það aðeins aðgengilegt fyrir nemendur og kennara og þá með efni sem einkum nýtist við kennslu?
RÚV spilarinn
Síðar á árinu var vefspilara RÚV skipt út og um leið voru spilarar útarps og sjónvarps endurskrifaðir frá grunni. LUDO-spilarinn frá NRK er nú notaður á vef RÚV. Systurstöðvar okkar á Norðurlöndum sýndu þarna einu sinni sem oftar hversu reiðubúnar þær eru að miðla tækni og þekkingu til RÚV. Nýir spilarar voru meðal annars hannaðir með strangari aðgengiskröfur en fyrri spilari og hafa komið vel út í rýningu.
RÚV-app og uppfærsla á vef
Annað stórt verkefni sneri að uppfærslu forsíðu rúv.is. Hún var hönnuð með það í huga að bæta upplifun þeirra sem nota vefinn í farsíma auk þess sem hún endurspeglar betur en áður það efni sem framleitt er í öllu húsinu. Betur má ef duga skal og ljóst er að hanna þarf nýjan vef frá grunni til að fullnægja þörfum nýrra tíma, jafnt þeim sem notendur hafa og þau sem vinna við að setja inn efni á vefinn.
Öpp RÚV voru einnig í stöðugri þróun og ráðist var í stóra uppfærslu á iOs appi á árinu. Í stuttu máli sagt var bætt við ýmiss konar þjónustu sem notendur höfðu kallað eftir auk þess sem hönnun og forritun á öppum fyrir ólíka miðla er nú einfaldari en áður.
Samfélagsmiðlar
Notkun á samfélagsmiðlum RÚV jókst mikið á árinu 2020 hvernig sem á það er litið. Mest áhersla er lögð á þá miðla sem mest eru notaðir, Facebook og Instagram. Mjög mikið áhorf er á myndbandsklippur úr efni RÚV á Facebook, sem er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að það er eiginlega aldrei greitt fyrir dreifingu þeirra. Sem dæmi um gott gengi jókst áhorf á myndbandsklippur á Facebook um rúmlega 220% milli ára og fóru áhorfin yfir tíu og hálfa milljón. Viðbrögð fólks jukust í takt við áhorfið um 210% en þar er átt við fjölda læka, kommenta og deilinga á myndböndum á Facebook-síðu RÚV. Loks rauk fjöldi fylgjenda RÚV á Facebook upp um rúmlega 17 þúsund, sem er aukning upp á 364% milli ára. Í september árið 2019 fylgdu um 26 þúsund manns RÚV á Facebook en eru nú að komast í 50 þúsund.
Sögulegt fréttaár
Umfangsmesta fréttamál ársins var heimsfaraldurinn sem barst til Íslands snemma árs 2020. Viðbrögðin við honum og afleiðingarnar voru án fordæma og hver fréttatíminn á fætur öðrum var lagður undir tíðindi af faraldrinum, sóttvarnaráðstöfunum, viðbrögðum og samfélagslegum breytingum. Fréttastofa RÚV miðlaði upplýsingum til almennings í öllum fréttatímum og með því að senda út upplýsingafundi almannavarna. Auk þess var fjallað ítarlega um faraldurinn í fréttaskýringaþáttum fréttastofunnar, Kastljósi, Kveik, Heimskviðum og Speglinum.
Haustið 2019 tók fréttastofan við Instagram-reikningi fréttastofunnar sem hafði verið í fóstri hjá vefútgáfunni, með það að markmiði að dreifa fleiri fréttum þar, ná til breiðari hóps og vekja athygli á helstu fréttamálum líðandi stundar.
Fjöldi flettinga frétta á vef RÚV jókst um ríflega átta prósent á milli ára. Fjöldi flettinga notenda sem komu af samfélagsmiðlum jókst hins vegar um tæplega 14 prósent á milli ára. Notendur dvöldu að jafnaði fjórum prósentum lengur á vefnum en árið 2018.
Enn er lögð áhersla á fleiri myndskeið sem framleidd eru fyrir vefinn og beinar útsendingar. Stefnumótun fyrir myndskeið og beinar útsendingar hefur verið unnin og kemur til framkvæmda á næsta ári.
Áhrif COVID á starfsemina
Heimsfaraldurinn hafði fordæmalaus áhrif á allt samfélagið og aldrei fyrr hefur fréttastofan gripið til viðlíka ráðstafana og sóttvarna og árið 2020. Í mars var starfsemi RÚV hólfuð niður vegna fjöldatakmarkana og til að draga úr smithættu. Fréttastofan var beinlínis einangruð frá öðrum deildum með plastveggjum og engum utanaðkomandi hleypt þar inn á meðan ströngustu reglur giltu. Útbúin var förðunaraðstaða fyrir fréttastofuna á sóttvarnasvæði hennar og einu gestirnir sem fengu að koma í myndver fréttastofunnar komu í Kastljós og þá aðeins einn í einu en ekki tveir eins og venja er.
Öllum starfsmönnum fréttastofunnar var skipt í tvo hópa sem aldrei hittust. Hóparnir voru vaktsettir hvor á móti öðrum með það í huga að kæmi upp smit í öðrum hópnum sem kallaði á sóttkví vaktarinnar, gæti hinn hópurinn hlaupið í skarðið og haldið uppi útsendingum og fréttavinnslu fyrir útvarp, sjónvarp og vef. Þar með væri tryggður ótruflaður fréttaflutningur RÚV.
Svokallaðar neyðarvaktatöflur voru innleiddar og þótt tekist hafi að taka aftur upp hefðbundnar vaktatöflur þegar nær dró sumri þurfti að taka þær aftur upp í október þegar staðan versnaði á ný. Allan tímann voru strangar umgengnisreglur á fréttastofunni og grímuskylda um margra mánaða skeið.
Heimavinna, sem ekki tíðkaðist fyrir COVID-19, var tekin upp í sóttvarnaskyni og allir fréttamenn og nokkrir tæknimenn unnu til skiptis heima og í Efstaleiti. Sú nýjung, og sveigjanleiki sem henni fylgdi, nýtist fréttastofunni án efa til lengri tíma litið.
Náttúruvá og forsetakosningar
Náttúran lét að sér kveða á árinu og þá reyndi á almannavarnahlutverk RÚV. Snjóflóð féll á Flateyri seint að kvöldi 14. janúar. Fréttastofan hafði fjallað um snjóflóðahættu dagana á undan og var virkjuð aðfaranótt 15. janúar til að flytja landsmönnum tíðindin í útvarpi. Daginn eftir var aukafréttatími í sjónvarpi þar sem fyrstu sjónvarpsmyndir bárust frá Flateyri. Myndatökumaður RÚV kom fyrstur fjölmiðlamanna á staðinn. Við tók umfangsmikil umfjöllun um björgunaraðgerðir, tjón, áhrif á líf og lífsviðurværi fólks og samfélagið í heild. Þessu var fylgt eftir með umfjöllun um langtímaáhrif á atvinnulíf í bænum. Umfjöllunin var vönduð og viðbrögðin hröð. Margir starfsmenn fréttastofu RÚV stóðu vaktina við fréttaflutning af hamförunum en hitann og þungann af þeim báru fréttamaður og myndatökumaður RÚV á Vesturlandi og Vestfjörðum.
Jarðskjálftar voru tíðir á árinu. Á Reykjanesskaga voru öflugir skjálftar í mars og október. Í júní hófst jarðskjálftahrina úti fyrir Norðurlandi og var lýst yfir óvissustigi. Fréttateymi úr Reykjavík og af RÚVAk stóðu vaktina og fjölluðu um skjálftana í öllum miðlum RÚV.
Miklar náttúruhamfarir gengu yfir Seyðisfjörð um miðjan desember þar sem aurskriður féllu á bæinn. Fréttamenn RÚV voru á staðnum frá því að fyrstu skriðurnar féllu þann 15. desember. Stór skriða féll á bæinn 18. desember og hafði mikil áhrif á líf bæjarbúa. Fréttastofa flutti fréttir af björgunaraðgerðum, hreinsunarstarfi og áhrifum á íbúa og mannlíf í bænum. Umfjöllunin var ítarleg með áherslu á áhrif á líðan íbúa sem urðu að yfirgefa heimili sín rétt fyrir jól. Þetta voru einstæðar náttúruhamfarir og starfsfólk fréttastofu lagði mikið á sig við flytja landsmönnum fréttir, myndir og viðtöl af vettvangi.
Forsetakosningar á Íslandi og í Bandaríkjunum
Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson buðu sig fram til forseta Íslands í júní. Þrír viðtalsþættir voru í sjónvarpi í aðdraganda kosninganna. Auk þess var rætt við frambjóðendur í útvarpi og á vefnum. Kosningavaka var í sjónvarpi að kvöldi kjördags og kosningarvefur settur upp á RÚV.is. Ítarlegur aukafréttatími var í sjónvarpi daginn eftir kjördag.
Í Bandaríkjunum var gengið að kjörborðinu í sögulegum kosningum í nóvember. Langan tíma tók að fá niðurstöður og var krafist endurtalningar í nokkrum ríkjum. Fréttamaður og pródúsent fóru til Washington og fjölluðu ítarlega um stöðu mála, andrúmsloftið í skugga heimsfaraldurs og pólitískan óstöðugleika sem setti mark sitt á Bandaríkin á árinu. Fréttastofan var með sérstaka kosningavöku í sjónvarpi og yfirgripsmikla umfjöllun á vefnum. Þá var aukafréttatími í sjónvarpi daginn eftir kjördag.
Aukinn lestur, hlustun og áhorf á fréttir
Fréttastofa RÚV er mikilvægur hluti af almannavörnum og forgangsmál að fréttaþjónusta raskist ekki. Það markmið náðist og þótt heimsfaraldurinn hafi sannarlega haft mikil áhrif á starfsemina stóran hluta árs tókst starfsfólki fréttastofunnar að halda úti afbragðsþjónustu.
Þegar á reynir leitar þjóðin til fréttastofu RÚV og það sést glöggt á niðurstöðum áhorfs- og hlustunarmælinga. Meðaláhorf á sjónvarpsfréttir klukkan 19 var um 28% árið 2020 samanborið við 22% árið 2019. Meðaláhorf á fréttir klukkan 22 jókst lítillega, var tæp 19% árið 2020 en tæp 18% árið áður.
Hlustun á hádegisfréttir í útvarpi og Spegilinn jókst líka. Meðalhlustun á hádegisfréttir RÚV var 13,5% sem er töluverð aukning frá 2019 þegar meðalhlustun var 10,6%.
Traust er öllum fjölmiðlum nauðsynlegt en það er hvorki sjálfgefið né sjálfsagt og fréttastofan er þakklát fyrir það aukna traust sem almenningur ber til hennar. Í nóvember 2020 sögðust 75% aðspurðra bera mjög mikið traust til fréttastofunnar. Traustið jókst um sex prósentustig á milli ára og hefur sjaldan verið jafn mikið. Því þarf að viðhalda með faglegum og góðum vinnubrögðum alla daga ársins.
Kastljós
Heimfaraldur og forsetakosningar hér á landi og í Bandaríkjunum settu mark sitt á Kastljós á árinu. Í þættinum gefst færi á lengri og ítarlegri viðtölum en í fréttatímum og þau verða gjarnan sjálfstætt fréttaefni. Stjórnmál, heilbrigðismál og ýmis samfélagsmál eru rædd í viðtölum sem ætlað er að komast að kjarna málsins með beittum spurningum. Nokkur þeirra vöktu meiri athygli en önnur. Þar á meðal viðtal við formann farsóttarnefndar Landspítalans um hópsýkingu á Landakoti. Viðtalið vakti miklar umræður, meðal annars um hlutverk spyrla og fréttamennsku og það setti umræðuna um alvarleika Landakotsmálsins í nýtt samhengi.
Kastljós er fyrst og fremst viðtalsþáttur í beinni útsendingu úr myndveri fréttastofunnar fjögur kvöld vikunnar. Þar voru þó einnig sýnd nokkur unnin innslög svo sem áhrifaríkt viðtal við unga konu sem komst lífs af en alvarlega slösuð úr eldsvoða í Mávahlíð í Reykjavík og var mánuð í dái.
Spegillinn
Fréttaskýringaþátturinn Spegillinn er vinsælasti útvarpsþáttur RÚV. Daglega geta hlustendur Rásar 1 og 2 leitað þangað eftir djúpri og umfangsmikilli umræðu um öll helstu samfélagsmál. Ofarlega á baugi á árinu voru farsóttin og áhrif hennar, kjaramál, umhverfis- og loftslagsmál og erlend málefni, þar á meðal Brexit. Spegillinn nýtur liðsinnis pistlahöfunda í nágrannalöndunum sem fjalla um helstu mál í sínum löndum. Þar á meðal í Bretlandi og Noregi. Vandaðar fréttaskýringar umsjónarmanna og pistlahöfunda og viðtöl í beinni útsendingu gera Spegilinn ómissandi hluta af fréttaþjónustu RÚV.
Hinn þrautreyndi ritstjóri Spegilsins, Arnar Páll Hauksson, hlaut Blaðamannaverðlaun ársins fyrir umfjöllun um kjaramál. Í tilnefningu sagði: „Arnar Páll hefur af djúpri þekkingu og áralangri yfirsýn fjallað um kjaramál með afar vönduðum hætti í ótal fréttum og fréttaskýringum á tímum mikils umróts á vinnumarkaði. Hann hefur fjallað ítarlega um hugmyndir og tillögur sem lagðar hafa verið fram í kjaraviðræðum og flytur iðulega fyrstu fréttir af þróun mála.“
Kveikur
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur leitaði víða fanga á árinu. Sagðar voru áhrifaríkar sögur flóttamanna sem leitað hafa hælis á Íslandi og skoðaði Kveikur meðal annars ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum á Grikklandi þangað sem mörgum hælisleitendum er vísað héðan. Fátækt á Íslandi var tekin til umfjöllunar í ítarlegum þætti sem veitti einstaka innsýn í líf fólks sem býr við fátækt. Í tvöföldum þætti um COVID-19 fór Kveikur meðal annars til Ítalíu þar sem heimsfaraldurinn olli miklu tjóni strax á fyrri hluta ársins. Þá var upplýst um leynilegar greiðslur til framkvæmdastjóra Upphafs, fasteignafélags Gamma, frá byggingaverktaka sem í kjölfarið voru kærðar til lögreglu.
Fjórða þáttaröð Kveiks hófst á umfjöllun um hvernig Eimskipafélag Íslands losaði sig við tvö af stærstu gámaskipum landsins með umdeildum hætti. Förgun skipanna á Indlandi í gegnum millilið vakti mikla athygli og umræðu. Vestræn fyrirtæki hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að fara þessa leið þar sem öryggi starfsmanna og umhverfisvernd er virt að vettugi.
Íslensk menningarverðmæti liggja víða undir skemmdum, samkvæmt rannsókn Kveiks. Aðstæður á sumum af stærstu söfnum landsins eru algerlega óviðunandi. Vegakerfið á Íslandi var skoðað ítarlega og leitað svara við því af hverju malbik og vegklæðningar skapa endurtekið hættu. Kveikur skoðaði einnig þróun verk- og iðnnáms sem er nú loks orðinn spennandi valkostur í hugum margra.
Ofantalin umfjöllunarefni lýsa vel fjölbreyttu efnisvali Kveiks sem allt á það sameiginlegt að fá dýpri og ítarlegri umfjöllun en unnt er að veita í daglegum fréttum. Fréttaskýringar Kveiks eru ýmist nokkrar vikur eða nokkra mánuði í vinnslu. Þær vekja verðskuldaða athygli og nauðsynleg samfélagsleg umræða fer iðulega af stað í kjölfar þeirra.
Þriðja árið í röð hlaut Kveikur Edduverðlaunin sem besti frétta- og viðtalsþáttur ársins. Þá var Helgi Seljan kjörinn sjónvarpsmaður ársins. Fyrr á árinu fengu Aðalsteinn Kjartansson, Helgi Seljan og Stefán Drengsson verðlaun Blaðamannafélagsins fyrir rannsóknarblaðamennsku fyrir umfjöllun Kveiks um Samherjamálið.
Heimskviður
Heimskviður er eini fréttaskýringaþáttur landsins sem setur erlend málefni í brennidepil. Á árinu sem heimsbyggðin tókst á við heimsfaraldur rýndu þáttastjórnendur í stöðuna þar sem kastljósinu er sjaldan beint, til dæmis í Afríku og Suður-Ameríku. Samhliða því að skýra helstu erlendu fréttirnar hverju sinni með ítarlegum hætti og hjálp sérfróðra viðmælenda er fjallað um erlend málefni sem sjaldnar rata í fréttir hér heima. Má þar nefna umskurð kvenna í heiminum, heimilisofbeldi í Rússlandi, uppgang nýnasista í Þýskalandi, arfleifð Maradona, ástæður fyrir áhuga á frásögnum af sönnum glæpum, öryggi fréttamanna í heiminum og fleira. Þátturinn er unninn í samstarfi fréttastofu og Rásar 1.
Tíu prósenta niðurskurður
Mikið mæddi á fréttastofunni á árinu og starfsumhverfið var krefjandi í faraldrinum. Því var mætt með fagmennsku og metnaði í fréttaþjónustu í öllum miðlum RÚV. Ef marka má stóraukið áhorf, hlustun og lestur náðu fréttir RÚV til fleiri notenda en áður. Sú staða er sérstaklega mikilvæg fyrir almannaútvarp í eigu þjóðarinnar.
Það var því mikið áfall þegar í ljós kom undir árslok að þær hagræðingaraðgerðir sem gripið var til fyrr á árinu myndu ekki duga til að mæta tekjumissi fyrirtækisins. Niðurskurðarkrafa á fréttastofuna varð á endanum 10% og ókleift að mæta henni án þess að fækka starfsmönnum. Stöðugildum fækkaði um níu á milli ára en svo mikill hefur niðurskurður ekki verið á fréttastofunni síðan 2013. Fréttastofan er með sólarhringsþjónustu í útvarpi og á vefnum auk ellefu sjónvarpsfréttatíma í hverri viku og fréttaþáttanna Kastljóss, Spegilsins, Kveiks og Heimskviða. Samdráttur í rekstri hefur áhrif á þjónustu fréttastofunnar en markmiðið verður áfram það sama, að tryggja öflugan fréttaflutning; að upplýsa, greina og setja í samhengi. Fjölmiðlar hafa tekið miklum breytingum síðustu ár og sú þróun hefur gerbreytt vinnslu og verkefnum starfsmanna. Til framtíðar er mikilvægt að hafa að leiðarljósi að almenningur þarf traustar og áreiðanlegar fréttir og fréttaskýringar sem aldrei fyrr og að starfsfólk þarf svigrúm til að vinna þær.
Íþróttadeild RÚV
RÚV fylgir eftir afreksfólki Íslands og birtir íþróttaefni sem sameinar íslensku þjóðina. Við fjöllum um fjölbreyttar íþróttagreinar og allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. RÚV leggur mikla áherslu á að fjalla um íþróttaiðkun beggja kynja og ólíkra hópa. Með þessu varðveitum við íþróttasögu Íslands og hvetjum til aukinnar íþróttaiðkunar meðal þjóðarinnar.
EM karla og kvenna í handbolta
Við Íslendingar erum orðin góðu vön með að eiga lið á stórmótum karla í handbolta í janúar og var mótið á RÚV. Ísland keppti á EM í byrjun árs, sem var ellefta Evrópumót Íslands í röð. Einbeitingin var mikil í aðdraganda fyrsta leiksins enda voru mótherjarnir heims- og Ólympíumeistararnir í danska landsliðinu. Aron Pálmarsson átti frábæran leik fyrir Ísland og skoraði 10 mörk í öllum regnbogans litum. Ísland vann Dani með eins marks mun 31-30. Svo sannarlega frábær byrjun á mótinu. Það sem eftir lifði móts var gengi liðsins upp og ofan og niðurstaðan var ellefta sæti. RÚV sýndi einnig frá EM kvenna í handbolta í desember en því miður komst íslenska kvennalandsliðið ekki á mótið.
Undankeppni EM kvenna í fótbolta
Undankeppni fyrir EM kvenna í fótbolta 2021 breyttist skyndilega í undankeppni fyrir EM 2022 þegar ákveðið var að fresta mótinu í vor um eitt ár svo mótið yrði ekki spilað ofan í EM karla og Ólympíuleika sem þegar hafði verið frestað til 2021.
Eftir glæsilegan sigur á Ungverjalandi tryggði íslenska kvennalandsliðið sér þátttökurétt á sínu fjórða stórmóti og verður spennandi fylgjast með „stelpunum okkar“ á EM í Englandi 2022 en mótið verður í beinni útsendingu á RÚV. Það voru fleiri fótboltalandslið sem tryggðu sér sæti í lokakeppni EM á árinu. 21 árs-landslið karla lék í riðlakeppni EM í mars og keppnin var í beinni útsendingu á RÚV.
Bikarúrslit, Skólahreysti og aðrir viðburðir
RÚV hélt áfram að sýna frá Íslandsmótum og bikarúrslitum í hinu ýmsu íþróttagreinum í veglegri umgjörð. Íþróttaárið 2020 var hins vegar frábrugðið flestum öðrum árum af augljósri ástæðu. Engu að síður náðist að klára nokkra skemmtilega viðburði eins og bikarúrslit kvenna og karla í handbolta, Reykjavíkurleika, Íslandsmótið í golfi og Skólahreysti sem var með öðru sniði vegna ástandsins en útkoman var mjög sjónvarpsvæn og stefnan að halda áfram á sömu braut.
Íþróttamaður ársins
Íþróttamaður ársins var útnefndur sextugasta og fimmta árið í röð af Samtökum íþróttafréttamanna í beinni útsendingu RÚV í lok árs. Knattspyrnukonan Sara Björk Gunnarsdóttir hlaut titilinn, en hún vann kjörið með fullt hús stiga. Það er í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem sigurvegari kjörsins er efstur á öllum atkvæðaseðlum. Elísabet Gunnarsdóttir knattspyrnuþjálfari hjá Kristianstad í Svíþjóð var valin þjálfari ársins og kvennalandsliðið í fótbolta var kjörið lið ársins.
Ólympíukvöld
Íþróttadeildin gerði sextán þátta þáttaröð um sögu Ólympíuleikana og Ólympíumóts fatlaðra á haustmánuðum. Í þáttunum var rifjuð upp saga mótanna allt frá upphafi til 2016. Sýnd voru ógleymanleg augnablik með keppendum, sérfræðingum og íþróttafréttamönnum. Þættirnir vöktu mikla athygli hjá Íþróttasambandi Íslands og Íþróttafélagi fatlaðra og eru hluti af því að varðveita íþróttasögu landsins.
Edduverðlaun
Íþróttadeild RÚV er afar þakklát og stolt yfir því að HM stofan hafi hlotið Edduverðlaunin fyrir íþróttaefni ársins. Við settum okkur einfalt markmið, að gera mótinu jafn hátt undir höfði og HM karla, enda er vegferð okkar komin þangað.
Mótið sjálft var frábær skemmtun sem endurspeglaðist í miðasölu og áhorfi, sem og ríkulegri umfjöllun um allan heim. Svo margar sögur, svo margar stjörnur, svo margar fyrirmyndir. Það er einmitt svo mikilvægt að ungar konur eigi sér kvenfyrirmyndir, láti sig dreyma og sjái sig á stóra sviðinu.
Því er þeim mun ánægjulegra að sjá hvernig sjónvarpsstöðvar á Íslandi hafa ekki aðeins aukið umfjöllun um íþróttir kvenna heldur einnig stóraukið vægi kvenna í starfi íþróttafréttamanna og þáttarstjórnenda í íþróttaþáttum. Til marks um það hefur hlutur kvenna vaxið úr 10% í 50% þáttastjórnenda hjá RÚV á síðustu fjórum árum. Þá var hlutfallið í beinum útsendingum hjá RÚV árið 2019 45% konur og 55% karlar. Aldrei áður hefur verið eins mjótt á munum. Hvort sem það er Skólahreysti, Íslandsmótið í fimleikum, bikarúrslit boltagreina eða Ólympíuleikarnir þá er það okkar stefna að jafna hlutfall kvenna og karla í beinum útsendingum.
Í allri umfjöllun um íþróttir er líka afar þýðingarmikið að hópurinn sem leggur línur um nálgun og efnistök sé kynjablandaður. Íþróttadeild RÚV nýtur krafta sterkra, ólíkra og afgerandi radda sem fá að njóta sín.
Við viljum sjá fleiri konur í stjórnum íþróttafélaga, fleiri kvenþjálfara, fleiri kvendómara og ekki síst fleiri áhorfendur á leikjum kvenna. Við viljum sjá aukningu hjá kveniðkendum og skapa fyrirmyndir. Verðlaunin eru okkur hvatning til að gera enn betur og það ætlum við að gera.
Fræðandi og fjölbreytt þjónusta við börn og unglinga.
Framboð efnis fyrir börn og ungmenni var fjölbreytt á öllum miðlum RÚV árið 2020. Árið var litað af breyttum áherslum vegna faraldursins og lögð var ríkuleg áhersla á að bregðast við breyttum raunveruleika með því að bjóða upp á fræðslu og félagsskap fyrir grunn- og framhaldsskólanema á tímum samkomubanns og skerts skóla- og frístundastarfs. MenntaRÚV var kynnt til sögunnar en það er nýr vefur með spilaraviðmóti þar sem nálgast má fræðandi og upplýsandi dagskrárefni RÚV fyrir öll skólastig, allt frá yngstu grunnskólastigum upp í háskóla, efni sem nýtast kann við fjarnám, kennslu eða einfaldlega til fræðslu og skemmtunar.
KrakkaRÚV
KrakkaRÚV sinnir börnum að 12 ára aldri. KrakkaRÚV.is er kjarninn í starfsemi þjónustunnar fyrir yngstu áhorfendurna. Þar má nálgast allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn. Jafnframt er lögð mikið áhersla á samstarf við stofnanir sem vinna í þágu barna.
Krakkafréttir
Krakkafréttir halda áfram að festa sig í sessi. Þar eru fluttar skýrar og hnitmiðaðar fréttir af því helsta sem gerist í íslensku samfélagi og heiminum öllum. Í fréttatímum má meðal annars finna fréttir af vísindum, íþróttum, menningu og krökkum sem gera garðinn frægan. Krakkasvarið hélt áfram göngu sinni, vikulegt innslag þar sem grunnskólar um allt land fá sendar laufléttar spurningar og senda svör á myndbandi og skora á annan skóla að gera það sama.
Stundin okkar
Krakkar stýrðu áfram Stundinni okkar við góðan orðstýr. Þátturinn er byggður upp í smáseríuformi þar sem íslenskt mál, sköpun, vísindi, umhverfisvernd og líkamlegt og andlegt heilbrigði er í forgrunni. Við fræðumst um ævaforna víkinga, förum í jóga, semjum tónlist, keppum í skemmtilegum þrautum, lærum að elda mat og hlæjum saman.
Húllumhæ
Húllumhæ er nýr þáttur sem hóf göngu sína haustið 2020. Iðunn Ösp Hlynsdóttir, sem er 19 ára, stýrir þættinum en þar er sjónum beint að barnamenningu og skemmtilegu fræðsluefni. Stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason fjallar um heillandi heimi vísindanna, fjallað er um barnabókmenntir, viðburði fyrir börn og svo fræða þeir Snorri Másson og Jakob Birgisson okkur um handritin frá miðöldum á sinn einstaka hátt í Miðaldafréttum sem unnar eru í samstarfi við Árnastofnun.
Krakkaskaupið
Krakkaskaupið var sýnt að kvöldi á besta mögulega sýningartíma þann 30. desember 2020. Áhorfið á þáttinn var frábært og viðtökur góðar, bæði hvað varðar áhorfstölur og viðbrögð á samfélagsmiðlum. Þátturinn var, eins og árið 2019, byggður upp á innsendum myndböndum frá krökkum í bland við atriði sem Berglind Alda Ásþórsdóttir og Mikael Kaaber, þáttastjórnendur, skrifuðu og léku ásamt þekktum leikurum.
Útvarp KrakkaRÚV
KrakkaRÚV framleiðir fjóra útvarpsþætti í hverri viku. Þættirnir eru frumfluttir á Rás 1 kl. 18.30 alla mánudaga til fimmtudaga. Krakkakiljan hóf göngu sína í útvarpi haustið 2020. Bókaumfjöllun fyrir börn hefur því aldrei verið meiri. Spurningaþátturinn Hljómboxið, þar sem fjölskyldur keppa, hélt áfram og tveir nýir þættir hófu göngu sína: Krakkakastið og Hlustaðu nú! Í Krakkakastinu spjallar hin 11 ára Fríða María Ásbergsdóttir við þjóðþekkt fólk og í Hlustaðu nú! ræðir Ingibjörg Fríða Helgadóttir meðal annars við krakka um tónlist og tilveruna ásamt því að rýna í íslenskar þjóðsögur. Upptakturinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna, fékk líka sinn sess í útvarpsdagskrá KrakkaRÚV en þar gefst börnum á höfuðborgarsvæðinu kostur á að senda inn tónsmíð sem síðan er flutt af fagfólki.
Bókaormaráð og KrakkaKiljan
Bókaormaráð KrakkaRÚV og Krakkakiljan héldu áfram. Bókaormar fjölluðu um uppáhaldsbækurnar sína og aðrar nýútkomnar bækur. Höfundar, þýðendur og myndhöfundar bókanna voru boðaðir í hljóðver og krakkarnir, með aðstoð dagskrárgerðafólks, tóku viðtöl og fengu hjá þeim góð ráð. Viðtölin voru birt á vef KrakkaRÚV.
Sögur – verðlaunahátíð barnanna
Sögur er stórt samstarfsverkefni margra stofnana sem allar vinna að barnamenningu og sköpun. Verkefnið hófst árið 2017 og hefur stækkað ár hvert. Markmið verkefnisins er að auka læsi og áhuga á íslenskum barnabókum og sögum og upphefja í leiðinni barnamenningu á Íslandi. Sögu verkefnið hófst í byrjun október þegar KrakkaRÚV skoraði á krakka að senda inn smásögu, lag og texta, stuttmyndahandrit eða leikrit. Höfundar þeirra sagna sem voru valdar tóku svo þátt í skapandi smiðjum þar sem fagfólk leiðbeindi og ævintýrin lifnuðu við. Sumar sögur enduðu í rafbók á vegum Menntamálastofnunnar, aðrar í útvarpsleikhúsinu, í stuttmynd, nokkur lög lifnuðu við og leikrit litu dagsins ljós á þjölum Borgarleikhússins. Það eru nefnilega engin takmörk á því hvar góð saga getur endað.
Sögur – verðlaunahátíð barnanna var haldin 6. júní og var lokapunktur þessa stóra samstarfsverkefnis en þar voru verk barnanna verðlaunuð auk þess sem þau fengu tækifæri til að verðlauna það menningarefni sem þeim fannst hafa skarað fram úr. Hátíðin var í beinni útsendingu frá Borgarleikhúsinu og þrjú lög eftir krakka voru útsett og flutt á lokahátíðinni. Ingvar Alfreðasson sá um útsetningar og Salka Sól, Valdimar Guðmundsson og Króli fluttu lögin. Önnur skemmtiatriði og afhending verðlauna voru í höndum barnanna. Að verkefninu standa Borgarbókasafnið, Reykjavík bókmenntaborg UNESCO, menntamálaráðuneytið, Menntamálastofnun, skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar, Borgarleikhúsið og fleiri.
Stuttmyndir – Sögur
KrakkaRÚV framleiddi sex stuttmyndir eftir handritum krakka í tengslum við Sögu verkefnið. Í ár voru það myndirnar Tinna 365, Telma og Konráð, Ævintýri í Egyptalandi, Töfrapúslið, Kötturinn sem talaði og Ritsmiðjan. Þessi handrit voru valin úr hópi margra innsendra handrita og hlutu verðlaun á Sögum. Leikstjórn var í höndum nýútskrifaðra leikstjóra: Önnu Karínar Lárusdóttur, Signýjar Rósar Ólafsdóttur og Bergs Árnasonar.
Söguspilið
Óhætt er að segja að Söguspilið, sem er ævintýralegur spurninga- og þrautaþáttur sem varð til í tengslum við Sögur, hafi slegið í gegn. Þættirnir eru settir upp sem ævintýraspil þar sem krakkar keppa og þurfa að svara spurningum og leysa þrautir sem tengjast barnabókum og sögum fyrir börn. Átta lið hefja keppni og eitt stendur uppi sem sigurvegari. Viskubrunnur reynir að villa um fyrir þeim, galdraseiði kemur við sögu og alls kyns verur og furðuverk líta dagsins ljós. Þættirnir voru framleiddir í samstarfi við Menntamálastofnun.
Heimavist
Í apríl, á tímum samkomubanns og skerts skóla- og frístundastarfs, bauð KrakkaRÚV upp á tveggja tíma fræðslu- og samveruþátt milli 9 og 11 alla virka morgna. Í þættinum var fræðst um Ísland og nánasta umhverfi, vísindin voru krufin, rýnt í menningu og listir og hugað að hreysti og góðri andlegri líðan.
Tónmenntakennarar buðu upp á samsöng með innsendum myndböndum, Íslenski dansflokkurinn og dansskólar landsins suðu saman morgunteygjur og -hreyfingar og í samstarfi við Þjóðleikhúsið var unnin smáserían Leiksýning verður til. Þar var fylgst með undirbúningi að gerð leiksýningarinnar Kardemommubærinn. Mikið af myndböndum bárust frá krökkum víðs vegar á landinu sem gaf innsýn inn í líf barna í gjörbreyttri heimsmynd á tímum faraldurs. Umsjónarmenn voru Sævar Helgi Bragason, Sigyn Blöndal og Hafsteinn Vilhelmsson.
UngRÚV
UngRÚV er þjónusta fyrir ungmenni í áttunda, níunda og tíunda bekk grunnskóla. Lögð er áhersla á dagskrárefni fyrir unglinga, eftir unglinga, og beinar útsendingar frá viðburðum og vandað efni sem framleitt er af RÚV. UngRÚV er með starfandi ungmennaráð sem sér um hugmyndavinnu, framleiðslu og aðrar dagskrártengdar ákvarðanir. UngRÚV er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og RÚV.
UngRÚV skólinn
UngRÚV skólinn er starfræktur í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur og gengur út á að vekja áhuga ungs fólks á fréttum, menningu, miðlun og samfélagsrýni. Krökkum á unglingastigi grunnskólanna gefst kostur á að sækja skólann og læra undirstöðuatriði við mynd- og hljóðupptöku, öðlast innsýn í dagskrárgerð og fréttamennsku. Árið 2020 spreyttu ungmennin sig á framleiðslu, þáttastjórn, kvikmyndatöku, hljóðupptöku og leikstjórn ásamt því að fá innsýn inn í starfið á RÚV. Í framhaldinu urðu ungmennin svo hluti af UngRÚV-ráðinu sem hefur lagt lóð sín á vogarskálarnar í stefnumótun samfélagsmiðla UngRÚV.
Upptakturinn
UngRÚV sá um undirbúning og umföllum um Upptaktinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna, sem er samstarfsverkefni RÚV, Hörpu, Barnamenningarhátíðar í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Ungmenni á aldrinum 10-15 ára senda inn hugmyndir sínar í Upptaktinn og valdar hugmyndir eru fullunnar með liðsinni atvinnufólks í tónlist. Að lokum eru haldnir stórir uppskerutónleikar í Hörpu þar sem 12 ný verk eru frumflutt. Sex útvarpsþættir voru framleiddir, þar sem tónsmið og tónskáldi var fylgt í tali og tónum frá hugmyndastigi til frumflutnings. Þættirnir voru fluttir á Rás 1 og gerðir aðgengilegir á vef UngRÚV, ásamt myndböndum með viðtölum við krakkana og lokaflutningi verksins. Sýnt var beint frá viðburðinum á vef UngRÚV.
Viðburðir ungmenna
Sökum COVID-19 frestuðust þó nokkrir viðburðir og ber þar hæst að nefna Skrekk hæfileikakeppni grunnskólanema í Reykjavík. Sýnt var frá Söngkeppni Samfés, Rímnaflæði, og Danskeppni Samfés en allt fór þetta fram rafrænt þar sem keppendur sendu inn atriði sín. DWC-keppnin, eða Dance World Cup, var haldin í annað sinn á Íslandi og fór fram í Borgarleikhúsinu. Sýnt var frá keppninni í beinu streymi á UngRÚV.is en þar tóku þátt 276 dansarar ýmist sem einstaklingar eða hluti af litlum eða stórum hópum. Mikilvægur liður í stefnu UngRÚV er að hvetja ungmenni til þátttöku í dagskrárgerð. Heimsfaraldur setti strik í reikninginn en áhorfendur fengu þó að fylgjast með Söru Maríu Sæþórsdóttur fjalla um keppendur og framkvæmd Söngvakeppninnar. Virkt samtal var milli Söru Maríu og áhorfenda í gegnum samfélagsmiðla sem leiddi af sér frumlegar spurningar.
Átaksverkefni UngRÚV
Vika sex nefndist átak sem unnið var í samstarfi við Reykjavíkurborg en þar beindi UngRÚV sjónum sínum að kynheilbrigði. UngRÚV framleiddi fimm þætti þar sem Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra jafnréttisskóla Reykjavíkur, fór í saumana á kynvitund og yndisleika kynlífs. Leitast var við að tala opinskátt um viðfangsefnið og opna og efla samtalið um kynlífsmenningu nútímans.
Kastljósinu var beint að jákvæðri karlmennsku í samstarfi við Þorstein V. Einarsson sem heldur úti Karlmennsku-samfélaginu. Framleiddir voru fjórir þættir þar sem lögð var áhersla á að sýna tilfinningalíf drengja á eðlilegan hátt og karla og varpa ljósi á ofbeldi, stalmyndir og misrétti. Þættirnir hlutu mikið lof og hefur verkefnið lifað sjálfstæðu lífi síðan.
Vakin var athygli á andlegu- og líkamlegu ofbeldi unglinga í samstarfi við Ungmennaráðs Samfés. Myndskeið voru framleidd af Samfés og birt á UngRÚV.is. Auk þess kom UngRÚV að hugmyndavinnu verkefnisins #HvaðFinnstOkkur en markmið þess er að skapa vettvang þar sem ungt fólk getur alltaf komið sínum spurningum, áskorunum og tilvitnunum er varða málefni ungs fólks á framfæri.
Útvarp UngRÚV
Þáttur fyrir ungt fólk þar sem unglingar köfuðu ofan í allt milli himins og jarðar. Rætt var meðal annars um vistvænan lífsstíl, agavandamál í skólum, líkamsvirðingu, fjármál, geðheilbrigði, svefn og samfélagsmiðla.
RÚV núll sinnir 16-29 ára fólki en þriðja starfsár þjónustunnar var litað af breyttum áherslum vegna COVID-19 en einnig af róttækum skipulagsbreytingum sem gerðar voru á þjónustunni fyrir lok ársins. Fjórar vefþáttaraðir komu út á vegum deildarinnar en jafnframt hélt deildin úti spjallþætti, tveggja klukkustunda löngum, alla virka daga á meðan skólastarf var verulega skert í framhaldsskólum á vormánuðum. Seglin voru dregin saman í útgáfu hlaðvarpa eftir því sem leið á árið en hlaðvarpsþættirnir Já OK! héldu áfram að vaxa í vinsældum hjá hlustendum.
Vefþáttaseríur
Árið hófst með framleiðslu og sýningum á sketsaþáttunum Vandró. Grínsketsarnir voru byggðir á nýrri aðferð við að sækja efnivið en óskað var eftir því að áhorfendur sendu inn vandræðalegustu reynslusögur sínar og síðar yrði unnið atriði úr sögunni. Hátt í 300 sögur bárust inn og tíu voru valdar til að vera skrifaðar upp sem sketsar og leiknar. Í tengslum við Vandró hélt RÚV núll jafnframt prufur fyrir leikara þáttaraðarinnar en á þriðja hundrað ungmenna sendu inn umsókn. Verkefnið tókst vel og tíu sketsar litu dagsins ljós og nutu sumir mikilla vinsælda.
RÚV núll framleiddi leiknu þáttaröðina SPRITT sem var áhugaverð og spennandi tilraun til að taka upp og leika þáttaröð í gegnum samfélagsmiðilinn Instagram. Til landsins var fenginn ungur þýskur leikstjóri með reynslu af samfélagsmiðlaþáttaröðum en snemma í ferlinu urðu miklar sviptingar vegna faraldursins og þáttaröðin tók miklum breytingum. Metnaðarfullt handrit með fjölda leikara varð því að lúta í lægra haldi fyrir einfaldari framleiðslu leikara sem ekki máttu hittast nema að gæta að fjarlægðartakmörkunum. Þáttaröðin spannaði allan aprílmánuð og efnistök hennar voru mjög lituð af faraldrinum og þeirri stöðu sem íslensk ungmenni voru í vorið 2020.
Leikna þáttaröðin Bömmer var frumsýnd í maí en hún kom til RÚV núll í gegnum Hugmyndadaga. Bömmer er fimm þátta sería um tvo unga vini en annar glímir við mikinn kvíða ásamt öðrum félagslegum vandamálum sem ungmenni glíma mörg hver við í dag.
Í lok árs frumsýndi RÚV þáttaröðina Undirtóna en hún fjallaði um jaðarrokksenuna á Íslandi. Sex upprennandi tónlistarmönnum og hljómsveitum var fylgt eftir en jafnframt voru tónleikar með hljómsveitunum teknir upp. Þá var fjallað um sögu og menningu sex smærri tónleikastaða sem hýst hafa jaðarrokksenuna í áranna rás. Þættirnir voru unnir í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík.
Núllstillingin
Vegna samkomutakmarkana var ákveðið að RÚV núll héldi úti tveggja klukkustunda löngum spjallþætti alla virka daga, í beinni útsendingu, með það að markmiði að stytta framhaldsskólanemum stundirnar þegar skólar voru lokaðir. Núllstillingin var send út frá sviði Eldborgar í Hörpu og spannaði sex vikna tímabil með fjórum þáttastjórnendum sem skiptu þáttunum á milli sín. Markmið þáttanna var að vera fræðandi og skemmtileg, gefa áhorfendum góð ráð um hvernig halda mætti út samkomutakmarkanirnar og vera uppbyggileg á erfiðum tímum. Upp úr þáttunum voru unnar hátt í hundrað veffærslur ásamt miklu magni efnis fyrir samfélagsmiðla.
Að lokum má nefna að RÚV núll setti mark sitt á bæði útvarp og sjónvarp með öðrum hætti árið 2020. Deildin kom með ríkum hætti að skipulagi og innslögum Gettu betur snemma árs en var jafnframt áberandi í dagskrá Rásar 2 á árinu, og þá sérstaklega á sumarmánuðum. Þá hélt deildin uppi virkum vef og samfélagsmiðlum og fjallaði þar um allt það sem varðar ungt fólk í dag ásamt hugðarefnum þeirra. Í lok árs voru gerðar breytingar á þjónustunni með það að leiðarljósi að einfalda miðlun á þjónustunni og gera efni fyrir ungt fólk enn aðgengilegra og sýnilegra á öllum miðlum RÚV. Allt sjónvarpsefni fyrir 16 ára og eldri verður framvegis framleitt undir formerkjum RÚV