REKSTRARYFIRLIT 2020

AFKOMA RÚV NEIKVÆÐ Í FYRSTA SINN FRÁ 2014 VEGNA COVID-19

Á árinu 2020 var  tap á rekstri RÚV samstæðunnar  209 m.kr. eftir skatta og er það í fyrsta sinn frá árinu 2014 sem halli er á rekstri RÚV. RÚV er fjármagnað með þjónustutekjum og tekjum af samkeppnisrekstri skv. lögum um Ríkisútvarpið. Ástæður hallareksturs nú eru afleiðingar heimsfaraldursins á atvinnulífið og auglýsingamarkaðinn, en um þriðjungur tekna RÚV er hjá dótturfélaginu RÚV Sölu vegna sölu auglýsinga. Auglýsingamarkaðurinn hefur dregist saman á undanförnum árum og var samdrátturinn mun meiri á árinu 2020, samanborið við þróun fyrri ára, sem rekja má til áhrifa  COVID-19. Dreifing tekna hefur einnig breyst töluvert þar sem sífellt stærri hluti auglýsingatekna fer til erlendra aðila með sölu auglýsinga á netinu og samfélagsmiðlum samkvæmt greiningum Hagstofunnar. Óvissa ríkir um þróun á næstu árum. Ljóst er að frekari þrengingar á auglýsingamarkaði hafi áhrif á tekjur RÚV og möguleika þess til að sinna þjónustuhlutverki sínu.

 

Strax í upphafi faraldursins settu stjórn og stjórnendur af stað viðbragðsáætlun þar sem lögð var áhersla á öryggi starfsmanna og að RÚV gæti sinnt hlutverki sínu sem almannaþjónustumiðill. Jafnframt var gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða til þess að bregðast við tekjufallinu. Markmiðið með þeim var að draga úr kostnaði og auka rekstrarhagkvæmni, án þess að það hefði veruleg áhrif á lögbundið hlutverk RÚV á tímum heimsfaraldurs. Með þessum aðgerðunum náðist að lágmarka neikvæð áhrif á reksturinn.

 

Þessu til viðbótar hafði veiking á gengi íslensku krónunnar neikvæð áhrif á afkomu RÚV.

 

Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að því að koma á góðu jafnvægi í rekstri RÚV og hefur eiginfjárstaðan batnað verulega frá 2014, en eigingjárhlutfallið í lok ársins 2020 var 23,1% en var 5,5% árið 2014. Markmið allra aðgerða sem hefur verið gripið til er að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja eins miklum fjármunum í dagskrá kostur er. RÚV seldi byggingarrétt á lóð sinni við Efstaleiti árið 2015 og var ábata af sölunni ráðstafað til niðurgreiðslu skulda. Þá er stór hluti Útvarpshússins nú leigður út.

Hagnaður/tap, regluleg starfsemi: 2014-2020

Þróun eiginfjárhlutfalls: 2014-2020

FRAMTÍÐARHORFUR OG EFNAHAGUR

Faraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á efnahags- og markaðsaðstæður á Íslandi eins og á heimsvísu og enn ríkir töluverð óvissa um endanleg áhrif hans. Það sem af er árinu 2021 lítur út fyrir að áhrif COVID-19 á rekstur RÚV fari minnkandi, þó svo að rekstrarumhverfið geti breyst hratt í þeirri óvissu sem nú er. Möguleikar RÚV til tekjuöflunar eru þó takmarkaðir vegna ákvæða í lögum, auk þess sem auglýsingamarkaðurinn hefur á síðustu árum dregist saman og óvissa ríkir um frekari þróun. Í áætlunum RÚV fyrir árið 2021 er gert ráð fyrir meiri tekjusamdrætti, bæði vegna minni auglýsingatekna og minni þjónustutekna og því er nauðsynlegt að sýna áfram aðhald í rekstri til að markmið stjórnenda um hallalausan rekstur á árinu náist.

 

Nýr þjónustusamingur við mennta- og menningarmálaráðuneytið var undirritaður á árinu og gildir frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2023. Með samningnum er RÚV tryggður nauðsynlegur stöðugleiki hvað varðar þjónustutekjur, sem gerir félaginu betur kleift að gera áætlanir til lengri tíma.

 

Vaxtaberandi skuldir RÚV hafa lækkað mikið vegna sölu á byggingarrétti á árinu 2015. Skuldir RÚV hafa um árabil verið háar, meðal annars vegna uppgjörs á eldri lífeyrisskuldbindingum. Með sölu á byggingarrétti við Efstaleiti tókst að greiða niður vaxtaberandi skuldir umtalsvert. Allt frá stofnun Ríkisútvarpsins ohf. hefur RÚV átt í erfiðleikum með að standa undir greiðslum af skuldabréfi við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem er tilkomið vegna eldri lífeyrisskuldbindinga, en á árinu 2018 var samið um skilmálabreytingu á skuldabréfinu, lánstími skuldabréfsins var lengdur og samið um ný vaxtakjör. Þrátt fyrir þessar aðgerðir býr félagið enn við háa skuldsetningu vegna skulda frá fyrri tíð og skuldir eru þungur baggi á starfseminni.

 

Trygg og fyrirsjáanleg fjármögnun er grunnforsenda þess að almannafjölmiðill geti rækt lýðræðis- menningar- og samfélagshlutverk sitt af kostgæfni. Fjölmargar áskoranir blasa við, ekki síst auknar kröfur um nýjar miðlunarleiðir og þjónustu sem breytt fjölmiðlalandslag á heimsvísu krefst.

RÚV SALA – AUGLÝSINGAR OG KOSTUN

Tekjur RÚV Sölu á rekstrarárinu 2020 af sölu auglýsinga og kostana námu 1.623 m.kr.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu:

Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, Brot,  undankeppni EM í knattspyrnu, Eurovision og Söngvakeppnin, Hestaíþróttir, EM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum,  HM í íshokkí, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í golfi, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Ráðherran, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavík Crossfit mótið,  Skólahreysti, Tónaflóð.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru rofnir með auglýsingahléum á árinu:

Alla leið, Eurovision, Árið með Gísla Marteini, Gettu betur,  Iceland Airwaves, Klassíkin okkar, Kósíheit í Hveradölum, Heima um jólin, Reykjavíkurleikarnir, Silfrið, Skólahreysti, Söngvakeppnin, Söngkeppni framhaldsskólanna, Söfnunarþáttur SÁÁ, Tónaflóð,

 

Í upphafi ársins tók dótturfélag RÚV, RÚV Sala, til starfa og heldur utan um sölu auglýsinga og kostana.