Í upphafi ársins 2020....
10.01.2020

Menningarviðurkenningar RÚV veittar

Menningarviðurkenningar RÚV voru veittar við hátíðlega athöfn þann 10. janúar. Guðrún Eva Mínervudóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Bubbi Morthens hlaut Krókinn, viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri góðir gestir voru við athöfnina sem útvarpað var í beinni útsendingu á Rás 1 og streymt á rúv.is. Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og tilkynnt um styrki úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs á árinu. Alls var 71 styrkur veittur úr sameinuðum Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins og STEFs árið 2019. Sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. Sjóðurinn veitir höfundum fjárstuðning fyrir tónsmíði og heildstæð verk og er sérstaklega horft til fagþekkingar auk þess sem metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni hljóta forgang. Niðurstöður kosningar um orð ársins voru einnig kynntar. Orðið hamfarahlýnun hlaut flest atkvæði. Það var einnig orð ársins að mati Stofnunar Árna Magnússonar sem byggði valið á upplýsingum í textasöfnum sínum. https://www.ruv.is/i-umraedunni/menningarvidurkenningar-ruv-2019

14.01.2020

Gríðarlegt áhorf á EM í handbolta

Ísland tók þátt í úrslitakeppni EM í handbolta karla 2020. Fyrstu tveir leikir Íslands fengu gríðarlegt áhorf á RÚV.  Fyrsti leikur Íslands var gegn Dönum og samkvæmt rafrænum mælingum Gallup mældist meðaláhorfið á þann leik 40% og uppsafnað áhorf 57%.  Leikurinn gegn Rússum í gær gerði svo enn betur en 62% þjóðarinnar horfði eitthvað á þann leik, meðaláhorf á hverja mínútu var 45%. Met var einnig sett á RÚV 2 þegar rúmlega 40% landsmanna horfði á leik Dana og Ungverja. https://www.ruv.is/i-umraedunni/gridarlegt-ahorf-a-em-i-handbolta

20.01.2020

Lögin í Söngvakeppni sjónvarpsins tilkynnt

Í kynningarþætti Söngvakeppninnar sem sýndur var á RÚV þann 20. janúar var kunngjört hvaða lög munu taka þátt og keppast um að verða framlag Íslands í Eurovision árið 2020. Lögin voru tíu talsins. Í reglum keppninnar segir að í undanúrslitum verði lagið að vera flutt á íslensku en í úrslitunum megi höfundur ráða hvort það verði flutt á íslensku eða á öðru tungumáli. Í keppninni árið 2020 ákváðu 4 höfundar að hafa lögin sín áfram á íslensku ef þau kæmust í úrslit, en hinir 6 höfundarnir vildu láta flytja sín lög á ensku. Flytjendur árið 2020 voru: Kid Isak Brynja Mary DIMMA Elísabet Ormslev Ísold og Helga Daði og Gagnamagnið Hildur Vala Íva Marín Adrichem Matti Matt Nína https://www.ruv.is/i-umraedunni/login-i-songvakeppni-sjonvarpsins-tilkynnt

28.01.2020

Stefán Eiríksson ráðinn útvarpsstjóri

Stefán Ei­ríks­son var ráðinn út­varps­stjóri Rík­is­út­varps­ins til næstu fimm ára. Staða út­varps­stjóra var aug­lýst 15. nóvember 2019 í kjöl­far þess að Magnús Geir Þórðarson lét af störf­um. Alls barst 41 um­sókn­ um stöðuna. Stjórn Ríkisútvarpsins ræður útvarpsstjóra, ber ábyrgð á ráðningarferlinu og öllum ákvörðunum því tengdu. Stjórnin lagði áherslu á fag­legt og vandað ráðning­ar­ferli og naut liðsinnis ráðgjafa Capacent. Í ráðningarferlinu var lögð áhersla á meta umsækjendur út frá þeim hæfniskröfum sem fram voru sett­ar í aug­lýs­ing­unni um starfið.  Þar var rík áhersla lögð á þekkingu, reynslu og færni í stjórnun og rekstri og leitað eftir öflugum leiðtoga til að stýra RÚV inn í nýja tíma miðlunar. https://www.ruv.is/i-umraedunni/stefan-eiriksson-nyr-utvarpsstjori  

07.02.2020

Gott jafnvægi milli kynjanna í dagskrá RÚV árið 2019

Skráning á kynjahlutfalli viðmælenda er birt opinberlega á þriggja mánaða fresti til samræmis við stefnu RÚV í jafnréttismálum. Tölur fyrir allt árið 2019 voru birtar þann 7. febrúar 2020. Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum og í reglubundnum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af því hver birtingarmynd karla og kvenna er í dagskránni en hún er mikilvægur liður í því að mæla hver staðan og þróunin eru. RÚV hefur markvisst staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að hvetja konur til þátttöku á sviðum þar sem þær hafa ekki verið jafnar körlum m.a. námskeiði í íþróttafréttamennsku fyrir konur, námskeiðum í spurningatækni fyrir Gettu betur og kynjakvóta í liðum í Gettu betur. Þessar aðgerðir hafa borið góðan árangur. Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV árið 2019, utan frétta, var alveg jafnt, 50% karlar og 50% konur. Með kynjajafnvægi í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 63% karlar og 37% konur. Það skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu, sem fluttar eru fréttir af.  Tölurnar hafa þróast í átt til jafnvægis frá því að mælingar hófust. https://www.ruv.is/i-umraedunni/gott-jafnvaegi-milli-kynjanna-i-dagskra-ruv

11.02.2020

Dagur íslenska táknmálsins á RÚV

Haldið var upp á dag íslenska táknmálsins með ýmsum hætti á RÚV. Krakkafréttir voru táknmálstúlkaðar, Stundin okkar var einnig táknmálstúlkuð sunnudaginn 16. febrúar. Fréttir klukkan 19 voru með táknmálstúlkun á RÚV 2 og rúv.is þann 11. febrúar. Valið útvarpsefni var einnig túlkað á táknmáli í samstarfi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, efnið var aðgengilegt á rúv.is og á vef SHH. https://www.ruv.is/i-umraedunni/dagur-islenska-taknmalsins-a-ruv-0

12.02.2020

Fjölmiðlaþjálfun FKA og RÚV

Konur úr fjölbreyttum greinum atvinnulífsins komu saman og lærðu að takast á við helstu áskoranir í fjölmiðlaheiminum helgina 8. - 9. febrúar. Leiðbeinendur voru Þórhallur Gunnarsson, fjölmiðlamaður og Andrés Jónsson almannatengill. Einnig komu Sirrý Arnardóttir og Eva Laufey Kjaran, að þjálfuninni. https://www.ruv.is/i-umraedunni/fjolmidlathjalfun-fka-og-ruv

06.03.2020

RÚV hlaut 44 tilnefningar til Eddunnar

RÚV hlaut (sem framleiðandi eða meðframleiðandi) 44 tilnefningar alls fyrir sjónvarpsefni árið 2019. Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason hlaut flestar tilnefningar til Edduverðlauna eða 12 talsins. Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur og Pabbahelgar eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttir fengu tíu tilnefningar hvor.

06.03.2020

Kveikur og Spegillinn hlutu Blaðamannaverðlaunin

Arnar Páll Hauksson, fréttamaður í Speglinum, hlaut í dag blaðamannaverðlaun ársins fyrir umfjöllun um kjaramál. Þá hlutu fréttamenn RÚV í Kveik og blaðamaður Stundarinnar verðlaun fyrir umfjöllun um Samherjamálið. https://www.ruv.is/frett/kveikur-og-spegillinn-medal-verdlaunahafa

16.03.2020

Morgunþættir Rásar 1 og 2 sameinaðir

Morgunþættir Rásar 1 og 2 sameinuðu krafta sína tímabundið í einum útvarpsþætti sem sendur var út á samtengdum rásum útvarps, í sjónvarpi og á rúv.is. Þetta var gert til að efla þjónustu við landsmenn og tryggja markvissa miðlun upplýsinga í upphafi kórónuveirufaraldursins á Íslandi.

16.03.2020

Viðbúnaður hjá RÚV vegna Covid-19

Gripið var til viðamikilla aðgerða hjá RÚV þegar samkomubann var sett á í fyrsta sinn á Íslandi þann 16. mars 2020. Ríkisútvarpið hefur mikilvægu hlutverki að gegna í slíku almannavarnaástandi og vinnur í samræmi við gildandi áætlun um órofinn rekstur. Allt starfsfólk sem ekki þurfti nauðsynlega að vera í Efstaleiti sinnti störfum sínum að heiman. Aðstöðu RÚV á Akureyri var lokað að mestu. Þar vann aðeins einn í einu eftir ströngu verklagi, í ljósi þess að varaáætlun var að senda þaðan út ef starfsemin í Efstaleiti myndi detta út að hluta eða í heild. Starfsstöðin í Efstaleiti var skipt upp í tíu sóttvarnarsvæði.

18.03.2020

RÚV á tímum COVID-19

RÚV hefur mikilvægu og skýru hlutverki að gegna í almannavarnaástandi eins og hefur ríkt á tímum COVID-19 faraldursins. Það á við um miðlun frétta, upplýsinga og ekki síður afþreyingarefnis af ýmsu tagi. Öllum þeim fjölbreyttu verkefnum sem þessu fylgja hefur starfsfólk RÚV sinnt af mikilli fagmennsku og elju. Í upphafi faraldursins þurfti að tryggja órofna starfsemi RÚV og skipuleggja og undirbúa hvernig við gætum enn bætt og styrkt okkar upplýsingamiðlun, fræðslu, skemmtun og afþreyingu. MenntaRÚV hóf göngu sína, framleiðsla á örmyndböndum með lykil-fræðsluatriðum varðandi COVID-19, fréttir og upplýsingar þýddar á pólsku auk ensku og COVID-19 umræðuþættir voru settir á dagskrá. Dagskrá í sjónvarpi var aukin til muna þar á meðal endursýningar á eldra efni sem sýnt var á daginn. Heimaleikfimi í sjónvarpi hóf göngu sína og svo mætti lengi telja. https://www.ruv.is/frett/ruv-a-timum-covid-19  

25.03.2020

MenntaRÚV

MenntaRÚV hefur verið í undibúningi um nokkurt skeið en ákveðið var að hraða þeirri vinnu í ljósi kórónaveirufaraldursins. Hugmyndin með MenntaRÚV er að bjóða með aðgengilegum hætti upp á dagskrárefni RÚV sem nýta má við fræðslu, upplýsingaöflun, nám og kennslu. Hryggjarstykkið í MenntaRÚV er nýr vefur með spilaraviðmóti þar sem nálgast má fræðandi og upplýsandi dagskrárefni RÚV. Til að byrja með verður þar efni fyrir grunn- og framhaldsskóla, en stefnt er að því að hann verði fyrir öll skólastig með efni sem nýtast kann við fjarnám, kennslu eða fræðslu. Efninu í spilaranum er skipt þrjá flokka af efni sem tekur mið af þörfum og námsstigi mismunandi aldurshópa, 6-12 ára, 13-16 ára og 16 ára og eldri. Vefurinn fór í loftið mánudaginn 25. mars 2020. https://www.menntaruv.is  

27.03.2020

Heimavist og Núllstilling

Í ljósi þess að skóla- og frístundastarf var með skertu móti vegna kórónaveirufaraldurins í mars ákvað RÚV að bjóða upp á tvo nýja daglega sjónvarpsþætti sem báðir voru ætlaðir ungu fólki. Annars vegar var það þátturinn Heimavist og hins vegar þátturinn Núllstilling. Heimavist er þáttur fyrir grunnskólabörn og er þátturinn beint úr smiðju KrakkaRÚV og UngRÚV. Þátturinn var á dagskrá RÚV alla virka morgna frá 9-11 og því frábær byrjun á deginum fyrir alla krakka. Núllstilling er þáttur úr smiðju RÚV núll og hann var í beinni útsendingu frá Eldborg í Hörpu alla virka daga frá 14-16 á meðan samkomubannið var í gildi. Í þættinum var fjallað um allt sem viðkemur ungu fólki og góðir gestir mættu í settið. https://www.ruv.is/frett/tveir-nyir-daglegir-sjonvarpsthaettir-hefja-gongu-sina  

08.04.2020

Páskadagskráin á RÚV

Að vanda var boðið upp á fjölbreytta og vandaða dagskrá á öllum miðlum RÚV um páskana. Nýtt íslenskt efni og skemmtun fyrir alla fjölskylduna var þar í öndvegi. Við frumsýndum nýja sjónvarpsmynd, Sveinsstykki. Einnig sjónvarpsútgáfu í tveimur hlutum af spennumyndinni vinsælu Ég man þig, sem byggð er á samnefndri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Þá voru tvær íslenskar úrvalsmyndir frumsýndar í sjónvarpi, Héraðið og Goðheimar, ásamt nýrri íslenskri heimildarmynd í tveimur þáttum þar sem rakin var saga Þursaflokksins. Ferðalög, nýtt útvarpsleikrit í fjórum hlutum eftir Jón Gnarr var frumflutt  á Rás 1 um páskana. Á Rás 2 fór nýr spurningaþáttur í loftið, Heilahristingur í umsjón Jóhanns Alfreðs Kristinssonar. https://www.ruv.is/frett/2020/04/08/paskadagskrain-a-ruv

22.04.2020

Anna Þorvaldsdóttir ráðin listrænn stjórnandi Tónlistarhátíðar Rásar 1

Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, var ráðinn listrænn stjórnandi Tónlistarhátíðar Rásar 1 árið 2020. Anna er eitt af forvitnilegustu tónskáldum samtímans og hefur hlotið fjölda viðurkenninga á undanförnum árum, þar á meðal Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 2012. Fyrri listrænir stjórnendur hátíðarinnar eru Berglind María Tómasdóttir, Halla Oddný Magnúsdóttir og Daníel Bjarnason. https://www.ruv.is/i-umraedunni/anna-thorvaldsdottir-radin-listraenn-stjornandi-tonlistarhatidar-rasar-1  

22.04.2020

Heimaleikfimi í sjónvarpinu

Í samkomubanninu í apríl var ákveðið að setja á dagskrá Heimaleikfimi í sjónvarpinu. Íris Rut Garðarsdóttir sjúkraþjálfari hefur umsjón með leikfiminni.  

22.04.2020

Hallalaus rekstur fimmta árið í röð

Fimmta árið í röð er rekstur RÚV hallalaus. Á árinu 2019 var hagnaður fyrir skatta samkvæmt rekstrarreikningi 8,2 m.kr. en eftir skatta 6,6 m.kr. Í  árslok námu heildareignir félagsins 8.137 m.kr. og eigið fé var 2.133 m.kr. Eiginfjárhlutfall var 26,2% í árslok og hefur hækkað mikið frá árinu 2014 en þá nam það einungis 5,5%. Fjöldi ársverka á árinu 2019 var 271.

08.05.2020

Jafnt hlutfall í dagskrá RÚV á fyrsta ársfjórðungi 2020

Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV á fyrsta ársfjórðungi 2020, utan frétta, var jafnt, 50% karlar og 50% konur. Með kynjajafnvægi í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 65% karlar og 35% konur. Það skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu, sem fluttar eru fréttir af. https://www.ruv.is/i-umraedunni/kynjahlutfall-vidmaelenda-ruv-2020

08.05.2020

Fjölbreytt Eurovision-gleði á RÚV

Það var sannkölluð Eurovision gleði á RÚV í maí þrátt fyrir að Eurovision keppninni sjálfri hafi verið aflýst vegna kórónuveirufaraldursins. Áhorfendum var boðið upp á fjölbreytta dagskrá af nýjum þáttum sem fjölluðu um keppnina auk þess sem gamlar perlur voru endursýndar. Eftirminnilegustu keppnir liðinna ára voru rifjaðar upp, landsmenn kusu 12-stiga lagið í símakosningu, Daði flutti uppáhaldslögin sín úr Eurovision á heimatónleikum og keppendur komu saman í skemmtidagskrá frá Hollandi. Partý var einnig haldið í Hörpu með Eurobandinu og góðum gestum.

03.06.2020

Aukið traust á fréttastofu RÚV

Samkvæmt könnun MMR sem gerð var í maí treystir meirihluti landsmanna fréttaflutningi RÚV í kórónuveirufaraldrinum. Traust landsmanna á fréttaflutningi er mælt tvisvar á ári, í maí og nóvember, í samræmi við þjónustusamning RÚV og menntamálaráðuneytisins. Könnun MMR, sem var gerð í byrjun maí, sýnir að 72% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofu RÚV. Það hefur aukist frá árinu áður því það mældist að meðaltali 68% í könnunum árið 2019. Í sömu könnun var einnig spurt um upplýsingagjöf vegna COVID-19.  Tæplega 85% svarenda voru sammála þeirri fullyrðingu að RÚV væri mikilvægur hlekkur í upplýsingagjöf í kórónuveirufaraldrinum. https://www.ruv.is/i-umraedunni/aukid-traust-a-frettastofu-ruv

05.06.2020

Barnalæsing í Spilara RÚV

Í júní var tekin í gagnið barnalæsing í Spilara RÚV. Með barnalæsingunni er hægt að gera efni óaðgengilegt börnum undir ákveðnum aldri. Þegar dagskrárefni er valið sem þykir ekki við hæfi barna undir ákveðnum aldri þá birtast skilaboð þess efnis í Spilaranum áður en dagskrárliður byrjar að spilast. https://www.ruv.is/frett/2020/06/05/barnalaesing-i-spilara-ruv

06.06.2020

Sögur verðlaunahátíð haldin í þriðja sinn

Sögur, verðlaunahátíð barnanna var haldin í þriðja sinn þann 6. júní í Borgarleikhúsinu. Veitt voru verðlaun fyrir það sem vel var gert á sviði barnamenningar á Íslandi á árinu. Salka Sól, Króli, Valdimar, Ræningjarnir úr Kardemommubænum og fleiri listamenn komu fram á hátíðinni.

21.06.2020

Sumarlandinn

Sumarlandinn var á dagskrá RÚV á sunnudagskvöldum sumarið 2020 kl. 19.40. Gísli Einarsson, Guðríður Helgadóttir, Hafsteinn Vilhelmsson, Helga Margrét Höskuldsdóttir og fleiri dagskrárgerðarmenn voru á flakki og hittu landann fyrir uppi á fjöllum, úti í garði, á tjaldsvæðinu, vinnustaðnum, hjólastígnum og víðar. Tónlistin ómaði líka í þættinum, því að tónlistarmaðurinn KK var með í för og tók sérvalin sumarlög, svona eins og honum einum er lagið.

03.07.2020

Tónaflóð um landið 2020

Sumartónleikaröð RÚV og Rásar 2, Tónaflóð um landið heppnaðist afar vel. Tónleikarnir voru í beinni útsendingu í sjónvarpi og útvarpi alla föstudaga í júlí. Hljómsveitin Albatross ásamt söngkonunni Elísabetu Ormslev og dagskrárgerðar- og tæknimönnum RÚV, ferðuðust vítt og breitt um landið og blésu til stórtóleika í hverjum landshluta, þar sem áhersla var lögð á tónlist og tónlistarfólk frá viðkomandi stað. Á hverjum tónleikum komu fram fjöldi gestasöngvara og lagalistinn samanstóð af þekktustu lögum landshlutans. Gefin var út söngbók með öllum tónleikalögunum, hún var aðgengileg á vef RÚV svo áhorfendur gætu sungið með hvar sem er á landinu.  

11.08.2020

Yfirlýsing RÚV vegna ásakana á hendur Helga Seljan

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV sendu frá sér yfirlýsingu vegna myndbands sem útgerðarfyrirtækið Samherji birti á Youtube-rás sinni þann 11. ágúst og forsíðufréttar Fréttablaðsins sem byggir á efni myndbandsins. Í yfirlýsingunni segir að RÚV fordæmi þá aðför sem gerð sé að Helga Seljan, fréttamanni RÚV, með tilhæfulausum ásökunum. Í myndbandinu er því haldið fram að Helgi og Ríkisútvarpið hafi falsað gögn við gerð Kastljóssþáttar árið 2012, fyrir átta árum, um rannsókn Seðlabankans á Samherja, og að skýrsla Verðlagsstofu, sem umfjöllunin byggðist meðal annars á, hafi aldrei verið til. RÚV hafnar þessu sem röngu. https://www.ruv.is/frett/2020/08/11/yfirlysing-ruv-vegna-asakana-a-hendur-helga-seljan

03.09.2020

Spennandi vetrardagskrá í sjónvarpinu

Haustinu er tekið fagnandi á RÚV með fjölbreyttri og vandaðri dagskrá. Ýmsar nýjungar voru kynntar til sögunnar í bland við þekkta dagskrárliði. Að venju var áhersla lögð á vandaða innlenda dagskrá, nýtt íslenskt leikið efni og fjölbreytt menningarefni ásamt góðum skammti af skemmtun, fræðslu, íþróttum og barnaefni. Um miðjan september hófust sýningar á Ráðherranum, nýrri þáttaröð sem segir frá baráttu forsætisráðherra við geðhvarfasýki og tilraunum samstarfsfólks hans til að halda sjúkdómnum leyndum fyrir þjóðinni, jafnvel þó það ógni stöðugleika ríkisins. Þá var sérstök sjónvarpsútgáfa af kvikmyndinni Gullregn sýnd í þremur hlutum, en kvikmyndin er byggð á samnefndu leikriti sem sló í gegn árið 2012. https://www.ruv.is/frett/2020/09/03/hapunktar-vetrardagskrar

04.09.2020

Klassíkin okkar: Afmælisveisla

Tónleikarnir Klassíkin okkar hafa vakið geysimikla athygli undanfarin ár en þeir voru haldnir í fimmta sinn föstudagskvöldið 4. september. Í Klassíkinni okkar: Afmælisveislu, var boðið upp á sannkallaða tónlistarveislu. Í ár eru 70 ár liðin frá því að Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt sína fyrstu tónleika og 90 ár frá því að Ríkisútvarpið tók til starfa. Rifjaðar voru upp stórar stundir í tónlistarsögu Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sannkallað einvalalið söngvara, einleikara og kóra komu fram á tónleikunum, meðal annars Emilíana Torrini, Sigríður Thorlacius og Dísella Lárusdóttir. https://www.ruv.is/i-umraedunni/klassikin-okkar-afmaelisveisla

04.09.2020

Höfundar Áramótaskaupsins opinberaðir

Höfundar Áramótaskaupsins 2020 eru Hugleikur Dagsson, Lóa Hjálmtýsdóttir, Vala Kristín Eiríksdóttir, Þorsteinn Guðmundsson, Bragi Valdimar Skúlason og Katla Margrét Þorgeirsdóttir. Reynir Lyngdal leikstýrir Skaupinu líkt og árið 2019. Tökur hefjast í nóvember og Republik sér um framleiðsluna. https://www.ruv.is/frett/2020/09/04/thetta-eru-hofundar-aramotaskaupsins-i-ar

09.09.2020

Viðmælendagreining RÚV

Skráning á kynjahlutfalli viðmælenda er birt til samræmis við stefnu RÚV í jafnréttismálum. Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum og í reglubundnum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af því hver birtingarmynd karla og kvenna er í dagskránni en hún er mikilvægur liður í því að mæla hver staðan og þróunin eru. Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV á fyrri helmingi 2020, utan frétta, var alveg jafnt, 50% karlar og 50% konur. Með kynjajafnvægi í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis. Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda 64% karlar og 36% konur. Það skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu, sem fluttar eru fréttir af.  Tölurnar hafa þróast í átt til jafnvægis frá því að mælingar hófust. https://www.ruv.is/i-umraedunni/vidmaelendagreining-ruv

09.09.2020

Tilnefnd til fjölmiðlaverðlauna umhverfisráðuneytisins

Umhverfis og auðlindaráðuneyti gaf þann 9. september út tilnefningar til fjölmiðlaverðlauna ráðuneytisins. Verðlaunin verða veitt 16.september á Degi íslenskrar náttúru. Verðlaunin eru veitt fjölmiðlafólki sem vekur sérstaka áherslu á umhverfismál. Tveir dagskrárgerðarmenn hjá RÚV fengu tilnefningu. Arnhildur Hálfdánardóttir, fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapían og Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður á fréttastofu RÚV, fyrir umfjöllun um náttúru Íslands. Aðrir tilnefndir voru Axel Bjarkar Sigurjónsson, Hálfdán Helgi Matthíasson, Sunna Ósk Logadóttir og Sölvi Bjartur Ingólfsson. https://www.ruv.is/i-umraedunni/tilnefnd-til-fjolmidlaverdlauna-umhverfisraduneytisins

18.09.2020

Arnhildur verðlaunuð fyrir Loftslagsþerapíuna

Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður á fréttastofu RÚV, hlaut fjölmiðlaverðlaun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins á Degi íslenskrar náttúru þann 16. september. Verðlaunin fékk hún fyrir þáttaröðina Loftslagsþerapíuna sem var á dagskrá Rásar 1 haustið 2019. Í rökstuðningi dómnefndar segir að með þáttum Arnhildar hafi hún skoðað ýmsa snertifleti loftslagsbreytinga við hið mannlega, meðal annars pólitík og siðferði. Í fréttatilkynningunni um verðlaunin segir að Arnhildi hafi tekist með bæði orðum og tónum að nálgast staðreyndir um eitt mest aðkallandi umfjöllunarefni samtímans á hlýjan og listrænan hátt. https://www.ruv.is/i-umraedunni/arnhildur-hlaut-fjolmidlaverdlaun-umhverfis-og-audlindaraduneytisins

08.10.2020

Dagskrárgerðarfólk RÚV sigursælt á Eddunni

Edduverðlaunin 2020, uppskeruhátíð íslenska sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðarins, voru veitt þriðjudaginn 6. október. Dagskrárgerðarfólk RÚV var sigursælt á hátíðinni og efni meðframleitt af RÚV var áberandi á meðal verðlaunahafa. Kveikur er frétta- eða viðtalsþáttur ársins og Kiljan menningarþáttur ársins. Áramótaskaupið 2019 er skemmtiþáttur ársins og HM stofan – HM kvenna í fótbolta fékk Edduna sem íþróttaefni ársins. Helgi Seljan var valinn sjónvarpsmaður ársins. Salóme Þorkelsdóttir og Gísli Berg fengu verðlaun fyrir upptöku- eða útsendingarstjórn ársins í Söngvakeppninni 2019. Árleg heiðursverðlaun Eddunnar hlaut Spaugstofan að þessu sinni. Kvikmyndirnar Agnes Joy eftir Silju Hauksdóttur og Hvítur, hvítur dagur eftir Hlyn Pálmason sópuðu að sér Edduverðlaunum og enduðu með sex verðlaun hvor. Báðar myndirnar voru sýndar á RÚV. https://www.ruv.is/i-umraedunni/dagskrargerdarfolk-ruv-sigursaelt-a-eddunni  

22.10.2020

Árshlutauppgjör RÚV ohf.

Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. samþykkti á fundi sínum í september árshlutauppgjör fyrir samstæðu RÚV fyrir fyrri hluta yfirstandandi árs. Þetta er fyrsta árið sem samstæðuuppgjör er gert, þar sem dótturfélagið RÚV Sala ehf. tók til starfa í ársbyrjun 2020. Tap var á rekstri samstæðunnar sem nam 281 m.kr. fyrir skatta, en 242 m.kr. eftir skattalega færslu, samanborið við 112 m.kr. tap á sama tíma í fyrra. Helsta ástæða aukins taps eru áhrif COVID-19, en breytingar koma fram í tekjufalli vegna sölu auglýsinga, kostnaðar við dagskrárgerð vegna faraldursins og sóttvarna.  Einnig hefur lækkun á gengi krónunnar haft neikvæð áhrif á afkomu RÚV. Þegar hefur verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða til þess að takast á við þessa breyttu stöðu innan ársins. Á sama tíma hefur einnig verið lögð áhersla á það mikilvæga hlutverk sem RÚV gegnir, ekki síst í því ástandi sem nú er. Það hefur verið gert með ítarlegri miðlun frétta og upplýsinga um stöðu og þróun mála, opinni og lýðræðislegri umræðu um helstu álitaefni, fræðslu til fólks bæði almennt og ákveðinna hópa og með afþreyingarefni af öllu tagi. https://www.ruv.is/i-umraedunni/arshlutauppgjor-ruv-ohf

23.10.2020

Hugmyndadagar haldnir í sjötta sinn

Hugmyndadagar voru haldnir í sjötta sinn dagana 22.-23. október og fóru þeir fram rafrænt í þetta skiptið vegna kórónuveirufaraldursins. Á hugmyndadögum er kallað eftir hugmyndum að dagskrárefni fyrir RÚV. Markmiðið er að auka enn fjölbreytni í dagskrárframboði RÚV, opna hugmyndaþróunina og styrkja samtalið á milli RÚV og sjálfstæðra framleiðenda. Er þetta gert að hluta til að erlendri fyrirmynd svokallaðra Pitch-daga.

13.11.2020

Traust á fréttastofu jókst í faraldrinum

Traust landsmanna á fréttastofu RÚV er mælt tvisvar á ári, í maí og nóvember, í samræmi við þjónustusamning RÚV og menntamálaráðuneytisins. Könnun MMR, sem var gerð í byrjun nóvember, sýnir að 75% aðspurðra bera mikið traust til fréttastofu RÚV. Traustið hafði aukist frá árinu áður því það mældist að meðaltali 68% í könnunum árið 2019. Í sömu könnun var einnig spurt um traust almennings til RÚV í heild.  Rúmlega 74% svarenda báru frekar eða mjög mikið traust til RÚV. https://www.ruv.is/i-umraedunni/traust-a-frettastofu-hefur-aukist-i-faraldrinum

16.11.2020

RÚV hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

RÚV hlaut í nóvember 2020 viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni FKA sem RÚV tekur þátt í um að jafna hlutfall karla og kvenna í efsta lagi stjórnunar fyrirtækja á Íslandi. „Við erum afar þakklát fyrir þessa mikilvægu viðurkenningu. Hún staðfestir að við erum á réttri leið og hvetur okkur sömuleiðis til að halda áfram.“ Segir Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. https://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-hlytur-vidurkenningu-jafnvaegisvogar-fka

25.11.2020

Tónlistarhátíð Rásar 1 - Þræðir

Tónlistarhátíð Rásar 1 var haldin í fjórða sinn þann 25. nóvember 2020 í Hörpu. Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, var listrænn stjórnandi að þessu sinni. Þema hátíðarinnar, Þræðir, hverfist um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Pöntuð voru fjögur ný tónverk sem tónlistarhópurinn Elektra flutti á tónleikum. Tónskáldin fjögur komu úr nokkuð ólíkum áttum. Þau voru Haukur Þór Harðarson, Högni Egilsson, Sóley Stefánsdóttir og Veronique Vaka. Þau unnu með þema hátíðarinnar hvert á sinn hátt og tengingin við tímann birtist á ólíkan hátt í verkum þeirra. Engir áhorfendur voru á tónleikunum en þeir voru sendir út í beinni útsendingu á Rás 1 og í mynd á RÚV 2 og RÚV.is. https://www.ruv.is/i-umraedunni/tonlistarhatid-rasar-1-thraedir

30.11.2020

Viðmælendagreining RÚV - 3. ársfjórðungur

Viðmælendaskráning á þriðja ársfjórðungi 2020 sýna að hlutfall viðmælenda var 52% karlar og 48% konur í sjónvarps og útvarpdagskrá RÚV, að undanskildum fréttum.  Sem fyrr er ójafnvægi meðal viðmælenda í fréttum en það ræðst að stærstum hluta af samfélagsaðstæðum. Talningin bendir þó til mun sterkari stöðu hjá RÚV en almennt hjá öðrum miðlum hérlendis og erlendis. https://www.ruv.is/i-umraedunni/vidmaelendagreining-ruv-3-arsfj-2020

01.12.2020

Jónatan Garðarsson heiðraður á degi íslenskrar tónlistar

Jónatan Garðarsson fjölmiðlamaður fékk Heiðursverðlaun Dags íslenskrar tónlistar sem kennd eru við Lítinn fugl. Viðurkenninguna fær Jónatan fyrir framúrskarandi störf í þágu íslenskrar tónlistar í gegnum tíðina, meðal annars fyrir vandaða og metnaðarfulla dagskrárgerð í útvarpi og sjónvarpi. https://www.ruv.is/i-umraedunni/jonatan-gardarsson-heidradur-a-degi-islenskrar-tonlistar  

04.12.2020

Aðventugleði Rásar 2

Hin árlega Aðventugleði Rásar 2 fór fram með óhefðbundnu sniði þann 4. desember. Vegna kórónuveirufaraldursins var ekki stöðugur straumur af tónlistarfólki inn og út úr Efstaleitinu eins og venja er á Aðventugleði Rásar 2.  Engu að síður var mikil jólastemning á Rás 2 allan daginn í umsjón Atla Márs Steinarssonar, Huldu Geirsdóttur, Andra Freys og Lovísu Rutar.

04.12.2020

Fyrir fjölskylduna

Fyrir fjölskylduna, söfnunarþáttur fyrir SÁÁ, Samtök áhugafólks um áfengis og vímuefnavandann var á dagská RÚV þann 4. desember. Málefni SÁÁ og staða málaflokksins í þjóðfélaginu voru rædd og fé safnað til styrktar samtökunum. Boðið var upp á tónlistar- og skemmtiatriði.

14.12.2020

Slökkt á útsendingum Rondó á FM í Reykjavík

Þegar útvarpssendir Ríkisútvarpsins var færður af Vatnsenda og á Úlfarsfell í desember var slökkt á útsendingum Rondó á FM í Reykjavík (87,7mHz). Útvarpsstöðin verður áfram aðgengileg á vefnum. https://www.ruv.is/i-umraedunni/slokkt-a-utsendingum-rondo-a-fm-i-reykjavik

19.12.2020

Kósíheit í Hveradölum heppnuðust vel

Baggalútur bauð til jólatónlistarveislu í Skíðaskálanum í Hveradölum á laugardögum á aðventunni. Góðir gestir komu í heimsókn og fluttu gömul og ný jólalög sem komu landsmönnum í sannkallaðan „jólafíling “. Þættirnir þóttu heppnast afar vel og fengu mikið áhorf.

21.12.2020

Ríkisútvarpið og Rás 1 fagna 90 ára afmæli

Fyrstu útsendingar Ríkisútvarpsins voru dagana 20. og 21. desember 1930.  Ríkisútvarpið og Rás 1 fögnuðu því 90 ára afmæli árið 2020, af því tilefni var fjölbreytt afmælisdagskrá á Rás 1 í desember. Þar á meðal var 21 örþáttur undir yfirskriftinni, Það sem skiptir máli, þar sem jafnmargir einstaklingar sögðu hvað þeim þótti skipta máli. Anna Sigríður Þráinsdóttir og Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir sáu um þrjá þætti um stöðu íslenskrar tungu á 90 ára afmælinu. Á afmælisdeginum sjálfum, 21. desember, var sent út beint úr öllum þeim húsum sem Ríkisútvarpið hefur átt samastað á í þessi 90 ár; Hafnarstræti 12, Landsímahúsinu, Skúlagötu 4, Klapparstíg 26 og auðvitað úr Efstaleiti. Í þessum útsendingum voru meðal annars rifjaðir upp nokkrir atburðir og einstaklingar sem komið hafa við sögu Ríkisútvarpsins. Allir lestrar Halldórs Laxness sem til eru í safni RÚV voru gerðir aðgengilegir almenningi í tilefni af 90 ára afmælinu. Lestrarnir voru færðir þjóðinni að gjöf í samstarfi við Guðnýju Halldórsdóttur og Sigríði Halldórsdóttur, dætur skáldsins. Af sama tilefni var gerður nýr þáttur um skáldið og samskitpti hans við Ríkisútvarpið, Dyravörður hjá víðvarpinu. https://www.ruv.is/i-umraedunni/ras-1-heldur-upp-a-90-ara-afmaeli-rikisutvarpsins  

24.12.2020

Nýtt útvarpsleikrit frumflutt á aðfangadag

Á aðfangadag var frumflutt í Útvarpsleikhúsinu á Rás 1 glænýtt útvarpsleikrit í fjórum hlutum eftir Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur, Með tík á heiði. Í verkinu fléttast saman sögur tveggja kvenna, Erlu og Þorgerðar. Erla er nútímakona sem býr í Hveragerði. Þorgerður var uppi fyrir 100 árum. Sagan er einskonar frjósemissaga þessarra kvenna, brot úr æviskeiðum þeirra. Leikstjóri er Silja Hauksdóttir og með aðalhlutverk fara María Heba Þorkelsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir. https://www.ruv.is/i-umraedunni/nytt-utvarpsleikrit-frumflutt-a-adfangadag

25.12.2020

Jólalag Ríkisútvarpsins

Jólalag Ríkisútvarpsins árið 2020 er eftir tónlistarhópinn Umbru og heitir Himnablessun, ljóðið er eftir Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Umbru skipa þær Alexandra Kjeld, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir, Lilja Dögg Gunnarsdóttir og Arngerður María Árnadóttir. Hljóðritun fór fram í Guðríðarkirkju í Grafarholti. https://www.ruv.is/frett/2020/12/25/jolalag-rikisutvarpsins

30.12.2020

Áhersla á fræðslu í nýjum þjónustusamningi við RÚV

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur gert nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf. Samningurinn var undirritaður þann 30. desember. Samkvæmt samningnum verður lögð aukin áhersla á fræðsluhlutverk Ríkisútvarpsins og rækt við íslenska tungu. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að það sé í takti við áherslu Ríkisútvarpsins síðustu mánuði þegar skólastarf hefur verið takmarkað vegna COVID-19. https://www.ruv.is/i-umraedunni/ahersla-a-fraedslu-i-nyjum-thjonustusamningi-vid-ruv

31.12.2020

Þríeykið er manneskja ársins á Rás 2

Þríeykið, Alma D. Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, eru manneskjur ársins 2020 á Rás 2. Víðir Reynisson segir frábært að fá viðurkenningu fyrir þá vinnu sem teymið hefur unnið allt árið. Hann segir ljóst að verkefnið sé ekki aðeins í höndum þeirra þriggja. „Þetta er gríðarlega stórt verkefni sem þurfti alla til að taka þátt í,“ segir hann. Því taki þau við viðurkenningunni fyrir hönd stórs hóps. https://www.ruv.is/frett/2021/01/03/thrieykid-er-manneskja-arsins-a-ras-2  

... árið á enda.