STEFNA RÚV SKERPIR Á HLUTVERKI OG SÉRSTÖÐU

HLUTVERK

Kjarninn í tilvist RÚV og tilgangur – að vekja fólk til umhugsunar, virkja til athafna og efla til sköpunar og aðgerða

FRAMTÍÐARSÝN

Lýsir þeirri stöðu sem RÚV stefnir að, þeim áhrifum sem það vill hafa – að hafa hlutverki að gegna svo hér á landi megi búa vakandi og víðsýn þjóð

GILDI

Leggja grunn að menningu RÚV og einkenna vinnubrögð, viðhorf og framkomu starfsfólks – heilindi, gæði, hugrekki og samvinna

STEFNUÁHERSLUR

Leiðarljós RÚV næstu árin og um leið loforð RÚV til samfélagsins – fyrir þig, fyrir menninguna, fyrir framtíðina, fyrir sjálfstæði, fyrir framtíðina

Hlustendur og áhorfendur eru í fyrsta sæti og starfsfólk kappkostar að þjóna þeim af kostgæfni með fjölbreyttu dagskrárefni í hæsta gæðaflokki.

Innleiðingu stefnu miðar vel

Allt frá því ný stefna var kynnt vorið 2017 hefur verið unnið hefur verið ötullega unnið að því að hrinda henni í framkvæmd. Til viðbótar við stefnuskjalið sjálft var gefin út ítarleg aðgerðaáætlun til tveggja ára, með 86 tímasettum aðgerðum og ábyrgðarmönnum. Innleiðing þessarar áætlunar gengur vel. Af 86 aðgerðum er 67 alveg lokið eða í framkvæmd, 14 eru hafnar, aðeins 4 aðgerðir eru ekki hafnar enn.

FYRIR ÞIG: Að mæta þörfum og auka aðgengi fólksins í landinu

RÚV er íslenskur fjölmiðill í þjónustu almennings og hjartað í starfseminni er fólkið í landinu. RÚV hlustar og tekur mark á almenningi með markvissri notkun gagna og kannanna. Það endurspeglast bæði í þjónustunni og skipulagðri leit að hugmyndum frá almenningi með Hugmyndadögum sem haldnir voru í fyrsta sinn í október 2017 og eru nú fastur liður í starfsemi RÚV vor og haust ár hvert. Alls hafa um 600 tillögur borist Hugmyndadögum og hartnær 50 hafa þegar orðið að veruleika eða eru í þróun. Áherslur í dagskrá endurspegla íslenskt mannlíf á víðtækan og fjölbreyttan hátt, stöðugt er unnið að kynjajafnrétti í starfsemi og dagskrá og á árinu 2018 var því markmiði um jafnt kynjahlutfall í dagskrá RÚV náð. Þjónusta við nýja Íslendinga, RÚV english, sem veitir aðgang að fréttum og öðru dagskrárefni á ensku. Á vormánuðum var settur í loftið nýr og vandaður spilari, og rétt fyrir ármót leit nýtt og stórbætt RÚV app fyrir snjalltæki dagsins ljós. Með aukinni áherslu á ólínulega miðlun, vef- og samfélagsmiðlun er leitast við að auka aðgengi að efni RÚV og mæta þörfum notenda.

FYRIR MENNINGU: Að efla sköpun og miðlun íslenskrar menningar

RÚV er stærsta menningarstofnun þjóðarinnar; lífæð lista, menningar og íþrótta í landinu. RÚV varðveitir og miðlar menningu, vinnur að frumsköpun verka og framleiðslu leikins efnis úr íslenskum veruleika. Innlend dagskrárgerð og menning var sem endranær í öndvegi í öllum miðlum RÚV og áberandi voru á árinu viðburðir, þættir eða þáttaraðir sem tengdust fullveldisafmæli Íslands. Þrjár íslenskar leiknar þáttaraðir voru frumsýndar á árinu – Ófærð – 2. þáttaröð, Mannasiðir og Flateyjargátan og þróun stórra leikinna verkefna hélt áfram, m.a. við Valhalla murders, Fanga 2, Sjálfstætt fólk Verbúðina og Pabbahelgar. Veittir voru styrkir til tónsmíða úr Tónskáldasjóði RÚV og STEFs og Menningarverðlaun RÚV afhent að venju á þrettándanum. Klassíkinni okkar var sjónvarpað beint úr Eldborgarsal, Tónlistarhátíð Rásar 1 var haldin í annað sinn. Rás 2 tók þátt í nær öllum tónlistarhátíðum á landinu. Sjónvarpsefni framleitt eða sýnt á RÚV með 25 tilnefningar á Eddunni. Þrír íslenskir útvarpsþættir úr dagskrá Rásar 1 voru tilnefndir til Prix Europa-ljósvakaverðlaunanna og Krakkafréttamaðurinn Sævar Helgi fékk Vorvinda-viðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar.

FYRIR FRAMTÍÐINA: Að þjóna betur ungu fólki

Almannaþjónusta á að ná til allra aldurshópa. Til að RÚV uppfylli grunnhlutverk sitt er mikilvægt að unga fólkið hafi þörf fyrir, finni og noti þjónustu þess, eins og þeir sem eldri eru. KrakkaRÚV var enn frekar eflt og fest í sess á árinu m.a. með því að færa til fjármagn á milli kynslóða. Verðlaunahátíð KrakkaRÚV og samtaka um barnamenningu, Sögur, fór fram í fyrsta sinn en þar kusu börn á aldrinum 6-12 ára það besta á sviði tónlistar, bókmennta, sjónvarps og leikhúss, auk þess sem skapandi börn voru verðlaunuð. RÚV núll ný þjónusta fyrir 15-29 ára tók til starfa á vormánuðum og UngRÚV, þjónusta ætluð fólki á aldrinum 13-16 ára kynnt til sögunnar í haust. Börn, ungt fólk og miðlun til framtíðar var í brennidepli á fjölmennu málþingi RÚV, Næst á dagskrá, sem haldið var í aðalmyndveri RÚV í byrjun nóvember. Fjallað var um lífsstíl og miðlanotkun yngri kynslóða, stefnu og þjónustu RÚV auk þess sem framúrskarandi erlendir gestir miðluðu af reynslu sinni.

FYRIR SJÁLFSTÆÐI: Að vera snarpari og dýpri í umfjöllun

RÚV er ein mikilvægasta og traustasta veita upplýsinga út í samfélagið. RÚV starfar í þágu almannahagsmuna. Sjálfstæði, traust og óhlutdrægni eru lykilhugtök í því hvernig RÚV nálgast lýðræðishlutverk sitt. RÚV gætir jafnvægis milli hraðrar símiðlunar og dýpri umfjöllunnar og krafan um hraða má aldrei vera á kostnað áreiðanleika og gæða. Á árinu varð langþráður draumur að veruleika þegar tekið var í notkun nýtt fréttamyndver sem skilar snarpari og hagkvæmari fréttaþjónustu. Kveikur, nýr vikulegur fréttaskýringaþáttur með áherslu á rannsóknarblaðamennsku, festi sig í sessi. Umfjöllun um neytendamál var aukin, beinar útsendingar af fréttum á erlendum vettvangi og borgarafundir um brýn samfélagsmál voru haldnir og sýndir í beinni útsendingu vor og haust. Frétta- og dagskrárgerðarmenn á RÚV hlutu í ár tvenn Blaðamannaverðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku og viðtal ársins. Kveikur hlaut Edduverðlaunin sem frétta- og viðtalsþáttur ársins, sjónvarpsefni ársins og Sigríður Halldórsdóttir var valin sjónvarpsmaður ársins.

FYRIR SAMFÉLAGIÐ: Að virkja og hvetja samfélagið

RÚV er uppbyggilegt hreyfiafl og leitar eftir samvinnu og samtali við ólíka aðila í samfélaginu í samræmi við hlutverk sitt, stefnu og framtíðarsýn. Allt starf RÚV miðar að því að skila auknu virði út í samfélagið. RÚV er opinn og aðgengilegur vettvangur hugmyndaþróunar og lifandi samstarfs sem kappkostar að sameina þjóðina, í hversdeginum sem og á stórum stundum. Á árinu var samstarf við aðrar stofnanir og félög um dagskrárgerð og miðlun aukið, s.s. með Klassíkinni okkar, Sögum og Kóðanum á KrakkaRÚV. Kaup af sjálfstæðum framleiðendum voru aukin, þeim boðið að nýta sér þjónustu RÚV sölu (í samstarfi við RÚV sales) og búnaður, aðstaða og þjónusta RÚV gerð aðgengileg öðrum framleiðendum. Á vormánuðum kynntu útvarpsstjórar norrænu almannaþjónustumiðlanna til sögunnar nýtt samstarf og stóraukna framleiðslu og framboð á leiknu, norrænu sjónvarpsefni, Nordic 12. Þjóðin sameinaðist í áhorfi á fjölda stórviðburða í útsendingu RÚV, s.s. Söngvakeppnina, Áramótaskaupið og Ófærð – og metáhorf var á HM karla í fótbolta.

Stjórn RÚV

Janúar – maí 2018

Maí – desember 2018

Aðalmenn

  • Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður
  • Guðlaugur G. Sverrisson
  • Jón Ólafsson
  • Brynjólfur Stefánsson
  • Friðrik Rafnsson
  • Lára Hanna Einarsdóttir
  • Mörður Árnason
  • Jón Jónsson
  • Birna Þórarinnsdóttir
  • Valgeir Vilhjálmsson
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Árni Gunnarsson
  • Pétur Gunnarsson
  • Sjöfn Þórðardóttir
  • Andrea Hjálmarsdóttir
  • Ólöf Hugrún Valdimarsdóttir
  • Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson
  • Eva Hrönn Jónsdóttir
  • Líneik Anna Sævarsdóttir
  • Björn Ólafsson
  • Birna Ósk Hansdóttir
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Aðalmenn

  • Kári Jónasson, formaður
  • Ragnheiður Ríkaharðsdóttir
  • Jón Ólafsson
  • Brynjólfur Stefánsson
  • Lára Hanna Einarsdóttir
  • Gunnlaugur G. Sverrisson
  • Birna Þórarinsdóttir
  • Mörður Árnason
  • Elísabet Indra Ragnarsdóttir
  • Valgeir Vilhjálmsson
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Varamenn

  • Sjöfn Þórðardóttir
  • Björn Ólafsson
  • Jóhanna Hreiðarsdóttir
  • Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir
  • Erlingur Sigurðarson
  • Sigríður Valdís Bergvinsdóttir
  • Marta Guðrún Jóhannesdóttir
  • Mörður Ingólfsson
  • Jón Jónsson
  • Birna Ósk Hansdóttir
    (áheyrnarfulltrúi starfsmanna)

Nýtt skipurit

Uppfært stjórnskipulag RÚV tók gildi 1. janúar 2018. Breytingarnar styrkja dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar.

Markmið breytinganna var fyrst og fremst að gera RÚV betur í stakk búið til að efla stafræna og ólínulega þjónustu við nútímafólk. Stafræn þróun og þjónusta er byggð inn í kjarnastarfsemi allra dagskrársviða í stað þess að vera í sérdeild eins og verið hefur.

Kraftmikið teymi dagskrárgerðarfólks varð til á nýju sviði, „Númiðlun – Rás 2“, sem sinnir jöfnum höndum síkvikri dagskrárgerð á vef, í útvarpi og á samfélagsmiðlum. Áherslan er á unga fólkið og á að vera alltaf á staðnum með fólki í dagsins önn. RÚV núll, ný þjónusta fyrir ungt fólk, og samfélagsmiðlar eru einnig á þessu sviði. Baldvin Þór Bergsson var ráðinn dagskrárstjóri sviðsins.

Þá varð til nýtt framleiðslusvið þar sem byggð er upp einföld og sterk framleiðslueining til að framleiða hágæðadagskrárefni fyrir RÚV og bæta þjónustu við sjálfstæða framleiðlendur og aðra fjölmiðla með samframleiðslu og útleigu til þeirra í auknum mæli. Hingað til hafa framleiðsludeildir verið á ólíkum sviðum inni í starfsemi RÚV. Steinunn Þórhallsdóttir var ráðin framkvæmdastjóri sviðsins.

Dagskrársviðin eru styrkt með nýrri stöðu, framkvæmdastjóra miðla, sem veitir liðsstyrk við samninga- og áætlanagerð, birgðastýringu og daglegan rekstur enda hefur RÚV stóraukið þátttöku sína í framleiðslu stórra leikinna sjónvarpsverkefna sem kallar á lengri þróunarferli og flóknari samningagerð en áður. Birgir Sigfússon var ráðinn framkvæmdastjóri miðla.

Sjálfstæði fréttastofunnar var einnig formfest með enn skýrari hætti í nýju skipuriti sem og skilin milli dagskrárstjórnar og framkvæmdastjórnar RÚV. Formföst dagskrárstjórn fer með óumdeilt dagskrárvald og samhliða var fækkað í framkvæmdastjórninni sjálfri. Kynjajafnvægi er í yfirstjórn RÚV eins og verið hefur frá árinu 2014.

Innri áherslur í nýrri stefnu

Kosningasjónvarp 2018

Uppbygging hæfni og mannauðs

Þjálfun starfsfólks er lykilatriði í síbreytilegum heimi fjölmiðlunar. Örar breytingar tækni og samfélags gefa til kynna að störf í fjölmiðlun breytist ört á næstu árum. Samþætting tækni- og dagskrárvinnu krefst þjálfunar dagskrárgerðarfólks í að vinna með nýja tækni og ábyrgð teymis í dagskrárgerð og tækni er samofin. RÚV sinnir faglegri móttöku og þjálfun starfsfólks með RÚV skólanum. Ráðningar starfsfólks til RÚV fylgja skýru og metnaðarfullu ráðningarferli þar sem miðað er að því að hæfasti starfsmaðurinn er ráðinn. Ráðningin skal jafnframt uppfylla kröfur um fjölbreytni hópsins.

Skipulagsveggur

Vinnubrögð uppfærð og teymisvinna efld

RÚV setur skýr viðmið um fagmennsku og nútímaleg vinnubrögð. Markviss miðlun upplýsinga hefur aukist mikið og áhersla á sýnileika verkefna og frumkvæði í starfi. Samsetning starfsmannahópsins á að endurspegla íslenskt samfélag auk þess sem fjölbreytileiki starfsfólks styrkir starfsemina. Öflug liðsheild og bætt leiðtogafærni eru markmið hjá RÚV sem unnið er að með markvissum hætti. Jafnrétti er RÚV hugleikið og hefur verið unnið að því með margvíslegum hætti. Jafnlaunakerfi sem byggt var upp árið 2018 ber þar hæst. Markmið jafnlaunastefnu RÚV er að tryggja launajafnrétti kynjanna. RÚV tók jafnframt raddir #metoo-hreyfingarinnar alvarlega og fór í ítarlegar aðgerðir á árinu. Framkvæmt var áhættumat á vinnustaðnum, fræðslufundir voru haldnir og viðbragðsáætlanir voru uppfærðar.

Fréttir

Uppfærð kerfi

Stór skref voru tekin í uppfærslu kerfa og samræmingu vinnubragða á árinu. Fjárhags- og mannauðskerfi RÚV voru endurnýjuð sem skila mun bættri upplýsingagjöf og nútímalegra vinnuumhverfi. Rafræn skjalavistun og sveigjanlegt vinnuumhverfi var innleitt, skjalastefna RÚV var skráð og rafræn málastýring innleidd með nýju kerfi. Rafræn gæða- og öryggishandbók var innleidd og skráning verklags og vinnulýsinga var stöðluð þvert á fyrirtækið og stöðug þjálfun fest í sessi í gegnum RÚV skólann.

Varðveisla og miðlun íslenskrar tungu og menningar

Safnadeild RÚV 

Í safni Ríkisútvarpsins er mikið magn sjónvarps- og útvarpsefnis frá upphafi útsendinga árið 1930. Óhætt er að segja að Ríkisútvarpið hafi skráð nútímasögu þjóðarinnar og að mikilvægur hluti þeirrar sögu sé geymdur í söfnum Ríkisútvarpsins. Þar á meðal eru sannkallaðar þjóðargersemar, þar sem efni af öllu tagi er varðveitt: upptökur af daglegu lífi Íslendinga á þessum tíma, upptökur frá stærstu viðburðum í sögu þjóðarinnar, ómetanlegar heimildir af merku fólki og merkum listviðburðum. Umfang þessa safnaefnis er mikið og hluti þess liggur undir skemmdum. Því hefur verið stefnan um nokkra hríð að ráðast í yfirfærslu efnisins á stafrænt form, skráningu og að endingu að gera efnið aðgengilegt almenningi. Þannig verði tryggt að safnaefnið glatist ekki og þessi mál komist í ásættanlegt horf, sambærilegt því sem tíðkast hjá nágrannaþjóðum.
Í þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðherra og Ríkisútvarpsins frá apríl 2016 er kveðið á um að safnaefni skuli fært yfir á stafrænt form á tíma samningsins, sem lýkur í lok árs 2019 og að RÚV skuli framkvæma kostnaðarmat og kynna ráðuneytinu. Í framhaldinu verði tekin ákvörðun um framhaldið. Kostnaðarmat og aðgerðaráætlun var unnið á síðasta starfsári og eru bundnar vonir við að fjárveiting fáist til verkefnisins.

Málfar

RÚV hefur ríkar skyldur gagnvart íslensku máli. Málstefna RÚV var endurskoðuð í upphafi ársins og var áherslum í henni breytt nokkuð. Málrækt er þar í fyrirrúmi auk þess sem í fyrsta sinn var settur inn kafli um jafnrétti sem felur í sér að tungumálið megi ekki nota til að mismuna fólki. Málfarsráðgjafar sinna yfirlestri og ráðgjöf og stuðla þannig að því bæta íslenskukunnáttu og auðga málfar starfsfólks. Umfang yfirlestrar hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum. Málfarsráðunautur og málfarsráðgjafar sinna líka upplýsingagjöf og fræðslu um íslenskt mál fyrir almenning og koma reglulega fram í útvarpsþáttum á Rás 1 og 2 í þeim tilgangi.

Bætt aðgengi

RÚV vinnur að því að bæta aðgengi fatlaðs fólks að miðlum sínum enda ber því samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 að stuðla að því að heyrnar- og sjónskertir fái upplýsingar og geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu. Allt íslenskt sjónvarpsefni sem ekki er sýnt í beinni útsendingu er með skjátexta á síðu 888 í textavarpinu og það sama gildir um aðalfréttatíma og íþróttir í sjónvarpi. Skjátexti með innlendu sjónvarpsefni er nú einnig aðgengilegur í spilara á RÚV.is og þar má einnig finna enskan texta þegar völ er á honum. Í stefnu RÚV til 2021 er kveðið á um að bæta skuli aðgengi innflytjenda að miðlum RÚV og á árinu tók til starfa verkefnastjóri, sem stýrir RÚV English, í þeim tilgangi og birtir hann fréttir á ensku auk þess að halda úti vikulegum spjallþætti á ensku um fréttir liðinnar viku á Íslandi auk þess að vinna að því að þróa þessa þjónustu enn frekar.

Fjölbreyttur, samstilltur starfsmannahópur

270

Meðalfjöldi stöðugilda

44ár

Meðalaldur starfsfólks

9ár

Meðalstarfsaldur starfsfólks

45%

Hlutfall kvenna í hópi starfsmanna

Jafnréttisátak RÚV og sýnilegur árangur

Eftirfarandi texti birtist í skýrslu félagsmála- og jafnréttisráðherra 2015-2017:

Á undanförnum misserum hefur RÚV haft jafnréttismál í forgrunni í allri sinni starfsemi og náð marktækum árangri. Á árunum 2014 og 2015 voru hlutföll karla og kvenna jöfnuð í yfirstjórn RÚV, í hópi millistjórnenda og umsjónarmanna í allri dagskrá RÚV, í útvarpi og sjónvarpi.

 

Skýr markmið og nákvæm greining
Liður í jafnréttisvinnu RÚV er samræmd skráning á kynjahlutfalli viðmælenda sem tekin var upp 1. desember 2015 birt er opinberlega á þriggja mánaða fresti. Skráðir eru viðmælendur í fréttum og fréttatengdum þáttum og í reglubundnum innlendum þáttum í útvarpi og sjónvarpi. Talning sem þessi gefur ekki heildarmynd af því hver birtingarmynd karla og kvenna er í dagskránni en hún er mikilvægur liður í því að mæla hver staðan og þróunin er. RÚV hefur markvisst staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að hvetja konur til þátttöku á sviðum sem þær hafa ekki verið jafnar körlum m.a. námskeiði í íþróttafréttamennsku fyrir konur, námskeiðum í spurningatækni fyrir Gettu betur og kynjakvóta í liðum í Gettu betur. Þessar aðgerðir báru góðan árangur.
RÚV setti sér skýr markmið um að ná jafnvægi milli kynja í hópi viðmælenda. Markmiðið er að það séu algerlega jöfn kynjahlutföll í allri dagskrá allra miðla, að tekin séu viðtöl við jafnmargar konur og karla. Fréttir endurspegla samfélagið sem við búum í og í því samfélagi er því miður ekki enn jafnvægi á milli kynja í valdastöðum, t.a.m. í stjórnmálum og stjórnunarstöðum í atvinnulífinu. Því þótti óraunsætt að setja jafn ströng viðmið fyrir fréttir og aðra dagskrá. Sett var það viðmið að hlutfall kvenna sem viðmælenda í fréttum á ársgrundvelli yrði yfir 35% á árinu 2017 og myndi svo vaxa jafnt og þétt á næstu árum.

Algert jafnvægi milli kynja í dagskrá RÚV 2018

Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV, utan frétta, var betri árið 2018 en árið á undan og var nú í fyrsta sinn alveg jafnt, þ.e. 50% karlar og 50% konur. Með jafnvægi milli kynja í dagskrá sker RÚV sig frá flestum miðlum hérlendis og erlendis þar sem sjaldan er jafnvægi milli kynja.
Séu eingöngu fréttatímar og fréttatengdir þættir teknir saman er hlutfall viðmælenda enn ójafnt 63% karlar og 37% konur, þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða til að fjölga viðmælendum í hópi kvenna, t.d. með því að fjölga álitsgjöfum úr hópi kvenna. Það skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu, sem fluttar eru fréttir af.

Jafnlaunavottun
Stjórnendur hafa einnig unnið markvisst að því að eyða út kynbundnum launamun sem er nú kominn vel undir 2% og hlaut RÚV gullmerki jafnlaunaúttektar PwC vorið 2016, fyrst fjölmiðla. Jafnlaunakerfi var byggt upp á árinu og RÚV hefur í kjölfarið hlotið jafnlaunavottun og heimild Jafnréttisstofu til að nota jafnlaunamerkið. RÚV tók jafnframt raddir #metoo-hreyfingarinnar alvarlega og fór í ítarlegar aðgerðir á árinu 2018.