Sjónvarpsárið 2018
Sjónvarpsárið 2018 var viðburðaríkt í meira lagi og einkenndist af stórum viðburðum á borð við HM í fótbolta og 100 ára fullveldisafmæli Íslands. Fjölbreyttum viðburðum, menningar- og íþróttatengdum, var einnit gert sérlega hátt undir höfði, hvort sem var í beinum útsendingum frá leiksýningum, tónleikum, verðlaunahátíðum og íþróttamótum, innlendum og erlendum, þar sem fremsta afreksfólki okkar var sérstaklega fylgt eftir.
Gæði, styrkur og erindi þess sjónvarpsefnis sem RÚV bauð þjóðinni upp á á árinu endurspeglaðist í fjölda Edduverðlauna og jöfnu og góðu áhorfi. Stórir viðburðir á borð Söngvakeppnina og Eurovision, Áramótaskaupið, beinar útsendingar frá þýðingarmiklum leikjum landsliðanna á stórmótum og í undankeppn njóta mikilla vinsælda og það sama á við um leikið innlent efni sem áhorfendur sækja mjög í og telja greinilega til stærri sjónvarpsviðburða.
Enn var aukin áherslan á að sinna sem breiðustum hópi landsmanna, á öllum aldri, í öllum miðlum, með áframhaldandi innleiðingu á sértækri þjónustu. KrakkaRÚV, þjónusta fyrir börn yngri en sextán ára, festi sig í sessi með auknu framboði af vönduðu innlendu efni sem gjarnan er skapað af börnum. Á árinu var kynnt til sögunnar UngRúv, þjónusta ætluð krökkum á aldrinum 13-16 ára, og tekin í gagnið vefsíða undir þeim merkjum. Þá var mikill kraftur í RÚV núll sem er þjónusta ætluð ungu fólki á aldrinum 16-29 ára, drifin áfram af dagskrárgerðarfólki á þeim sama aldri.
Sjónvarpsáhorf hélt áfram að breytast á árinu og merkja mátti nokkra aukningu á svokölluðu hliðruðu áhorfi. Það er allt áhorf eftir frumsýningu í línulegri tímasettri dagskrá á sérstakri sjónvarpsrás, endursýningar og áhorf í spilara á RÚV.is og efnisveitum símafélaga. Þannig hefur heildaráhorf lítið breyst en dreifingin er orðin meiri, efnið sótt víðar og yfir lengra tímabil. Nýr spilari er dagskrársettur sérstaklega þannig að efni RÚV er miðlað þar með öðrum hætti og öðrum áherslum en í línulegri dagskrársetningu.
Fyrir fáeinum árum var tekin stefnumótandi ákvörðun um að auka markvisst, jafnt og þétt, áherslur og þar af leiðandi framboð á leiknu íslensku efni. Kallast það með beinum hætti á við yfirlýsta dagskrárstefnu RÚV um aukna áherslu á frumskapað íslenskt dagskrárefni; leiknar sögur sagðar á íslensku fyrir íslenska áhorfendur. Það var jafnframt svar við augljósri eftirspurn því að leikið íslenskt efni reynist nær undantekningalaust vera meðal þess efnis sem allra mest er horft á. Fjögur stór leikin verkefni voru á dagskrá á árinu. Um páskana var sýnd einkar áleitin og þýðingarmikil sjónvarpsmynd í tveimur hlutum, Mannasiðir, eftir Maríu Reyndal. Myndin er byggð á samnefndu sviðsverki og útvarpsleikriti Maríu og segir áhrifamikla samtímasögu af tveimur reykvískum ungmennum og afleiðingarnar sem það hefur fyrir þau bæði og samfélag þeirra þegar hún ásakar hann um að hafa beitt hana kynferðislegu ofbeldi.
Sjónvarpsútgáfa af kvikmyndinni Víti í Vestmannaeyjum var sýnd í september í sex þáttum. Bragi Þór Hinriksson leikstýrði þáttunum sem byggðir eru á samnefndri metsölubók Gunnars Helgasonar. Í þáttaröðinni er veitt betri innsýn í heim ungu knattspyrnuhetjanna sem taka þátt í Pollamótinu í Vestmannaeyjum og lenda þar í óvæntum og spennandi ævintýrum. Í nóvember og desember var Flateyjargáta sýnd. Það er dramatísk spennuþáttaröð í fjórum hlutum eftir Björn Brynjúlf Björnsson, framleidd af Sagafilm. Margrét Örnólfsdóttir skrifaði handritið sem byggt er á samnefndri glæpasögu eftir Viktor Arnar Ingólfsson. Í árslok var síðan heimsfrumsýnd önnur þáttaröðin af hinum geysivinsælu glæpaþáttum Ófærð eftir Baltasar Kormák með þeim Ólafi Darra Ólafssyni, Ilmi Kristjánsdóttur og Ingvari E. Sigurðssyni í aðalhlutverkum. Tveir fyrstu þættirnir voru sýndir á öðrum degi jóla og næstsíðasta degi ársins og slógu áhorfsmet. Auk þess hafa engir dagskrárliðir, hvorki fyrr né síðar, fengið jafnmikið hliðrað áhorf. Sem endranær var boðið upp á fjölda frumsýninga á íslenskum leiknum bíómyndum á árinu. Eiðurinn eftir Baltasar Kormák var burðarmynd í dagskránni að kvöldi nýársdags og verðlaunamyndin Undir trénu eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson var páskafrumsýning ársins á föstudaginn langa. Meðal annarra íslenskra bíómynda sem frumsýndar voru á árinu má nefna Borgríki 2 – Blóð hraustra manna eftir Ólaf de Fleur og teiknimyndina Lói – þú flýgur aldrei einn í leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar sem byggð er á handriti Friðriks Erlingssonar og var sýnd á jóladag.
Menningartengd dagskrárgerð var í hávegum höfð sem fyrr segir og þá gjarnan viðburðir, þættir eða þáttaraðir sem á einn eða annan hátt mátti tengja við hið merka fullveldisafmæli landsins. Hátíðarhöldum voru gerð skil í viðamiklum beinum útsendingum frá hápunktum hátíðardagskrárinnar, sérstökum hátíðarþingfundi á Þingvöllum í júní og hátíðarsýningu í Eldborgarsal Hörpu að kvöldi sjálfs fullveldisdagsins, 1. desember. Sýningin, sem kallaðist Íslendingasögur – sinfónísk sagnaskemmtun, reyndist vera stórbrotið sjónarspil, nýstárleg sýning í tali og tónum, byggð á sögum Íslendinga fyrr og nú, ofin í myndrænan ljósagjörning. Sinfóníuhljómsveit Íslands, leikarar, söngvarar og einleikarar ásamt Schola cantorum og Kór Menntaskólans við Hamrahlíð spunnu þar sinfónískan sagnavef. Við upphaf sýningarinnar fluttu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Margrét Þórhildur Danadrottning stutt ávörp. Sagafilm framleiddi af þessu stóra tilefni 10 þátta röð fyrir RÚV sem nefndist Fullveldisöldin og var sýnd í aðdraganda afmælisins 1. desember. Aðrar menningar- og mannlífstengdar þáttaraðir voru sýndar á árinu sem snertu sögu hinnar nýfullvalda þjóðar. Í sex þátta röð, Kaupmannahöfn – Höfuðborg Íslands sem sýnd var í ársbyrjun, gengu þeir Egill Helgason og Guðjón Friðriksson um slóðir merkra Íslendinga sem bjuggu í Kaupmannahöfn, sóttu þangað menntun, þekkingu, vinnu eða andargift og settu mark sitt á borgina. Í febrúar hófu göngu sína þættirnir Unga Ísland þar sem Björn Brynjúlfur Björnsson rakti sögu íslenskrar unglingamenningar frá því fyrir 1950 og til aldamóta. Í Veröld sem var litu þau Felix Bergsson, Margrét Blöndal og Ragnhildur Thorsteinsson um öxl og rifjuðu upp gamlar og góðar stundir frá 20. öldinni og beindu gjarnan sjónum sínum að hvers kyns spaugilegum dellum, kenjum, æði og tískufyrirbærum sem gripið hafa landann. Heimildarmyndin Varnarliðið eftir Guðberg Davíðsson og Konráð Gylfason var sýnd í fjórum hlutum í ársbyrjun. Þar er rakin saga bandaríska varnarliðsins á Íslandi allt frá komu þess til landsins í seinni heimstyrjöldinni þar til það hvarf á braut 2006.
Því til viðbótar var boðið upp á nýjar íslenskar þáttaraðir sem fjölluðu með einum eða öðrum hætti um íslenskt mannlíf og samtíma, þáttaraðir sem eiga það sammerkt að hafa breiða og almenna skírskotun og eiga brýnt erindi. Heimur samfélagsmiðlanna, tækifærin og áskoranirnar sem þeir fela í sér og hið risastóra hlutverk sem þeir leika orðið í lífi fólks, sérstaklega ungmenna, var viðfangsefnið í Sítengd, sex þátta röð eftir Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur, Viktoríu Hermannsdóttur og Eirík Inga Böðvarsson, sem hóf göngu sína í október. Unga fólkið var enn fremur í brennidepli fjögurra þátta af Hæpinu sem sýndur var í janúar.
Viðkvæm málefni, raddir, sjónarmið og lífshlaup þeirra sem hingað til hafa ekki átt greiðan aðgang að fjölmiðlum var viðfangsefnið í sex þátta röð af Paradísarheimt sem sýnd var í febrúar og mars. Þar ræddu Jón Ársæll Þórðarson og Steingrímur Jón Þórðarson við fólk sem hefur afplánað fangelsisvist. Þessar sögur vöktu mikla eftirtekt og áhorf. Útivist í ósnortinni íslenskri hálendisfegurð var viðfangsefni fyrstu þáttaraðar Róberts Marshall og Brynhildar Ólafsdóttur, Úti, sex þátta sem sýndir voru í mars og apríl. Þættirnir mæltust vel fyrir og verða gerðar fleiri þáttarraðir. Útivist, tómstundir og fjölskyldusamvera var megininntakið í Veiðikofanum, sex þáttum þar sem tvíburabræðurnir Gunnar og Ásmundur Helgasynir leituðu uppi áhugaverða og fjölskylduvæna veiðistaði á landinu. Í menningarþættinum Djók í Reykjavík kynntu Dóri DNA og Gaukur Úlfarsson sér nýtilkomna og blómlega uppistandssenu í Reykjavík og ræddu við ýmsa uppistandara, allt frá nýgræðingum í faginu til þeirra sem náð hafa allra lengst og hafa jafnvel getið sér gott orð erlendis, eins og Ara Eldjárn.
Af föstum dagskrárliðum og áframhaldandi þáttaröðum ber að nefna Landann, sem enn ber höfuð og herðar yfir alla sambærilega þætti hvað áhorf varðar. Fréttaskýringaþátturinn Kveikur sótti í sig veðrið og festi sig í sessi sem ómissandi þriðjudagsþáttur. Kiljan í umsjón Egils Helgasonar fjallaði sem fyrr um bókaútgáfu, sagnahefð og menningarsögu þjóðarinnar á miðvikudögum og mannlífs- og menningarþátturinn Með okkar augum hélt áfram að heilla þjóðina á síðsumarmánuðum. Jón Ólafsson sneri aftur eftir alllangt hlé og ræddi við fleiri sérvalda íslenska tónlistarmenn í þættinum Af fingrum fram. Bergsteinn Sigurðsson og Guðrún Sóley Gestsdóttir gerðu helstu menningarfréttum og því sem almennt bar hæst í lista- og menningarlífi þjóðarinnar góð skil fjóra daga vikunnar í Menningunni.
Af afþreyingar- og skemmtiefni er helst að nefna að tólfta þáttaröð Útsvars hófst í september og er sú síðasta, í það minnsta að sinni. Vikan með Gísla Marteini festi sig enn frekar í sessi sem ómissandi partur af föstudagskvöldum þjóðarinnar. Jón Jónsson hreif fjölskyldur landsins með sér í fölskvalaust fjör í skemmtiþáttunum Fjörskyldan sem voru á dagskrá á laugardagskvöldum. Glassriver framleiddi Áramótaskaup ársins fyrir RÚV leikstjóri annað árið í röð var Arnór Pálmi Arnórsson. Áhorfið reynist með besta móti og viðtökur almennt jákvæðar af bæði viðhorfskönnunum og viðbrögðum á samfélagsmiðlum að dæma. Það innsiglaði svo endanlega hversu vel heppnað Skaupið var að það var valið skemmtiþáttur ársins á Edduverðlaunahátíðinni 2019, annað árið í röð. Af öðrum skemmtiþáttum á árinu má nefna Alla leið, sem sýndur var í aðdraganda Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, og Heimilistónajól, sérstök jólaþáttaröð Heimilistóna í leikstjórn Kristófers Dignusar, sem þjóðin skemmti sér yfir á laugardögum í desember og komst í rækilegt jólaskap. Fjölmiðlamaðurinn Frímann Gunnarsson tók að sér það hlutverk að setja sveitastjórnarkosningar í maímánuði í skýrt og glöggt samhengi í þáttunum Borgarsýn Frímanns en þáttaröðin er samin og unnin af bræðrunum Gunnari og Ragnari Hanssonum.
Söngvakeppnin 2018 fangaði sem fyrr hug og hjörtu þjóðarinnar og eftir æsispennandi undankeppni í Háskólabíói í febrúar söng hinn ungi og efnilegi söngvari Ari Ólafsson til sigurs í glæsilegri úrslitakeppni í Laugardalshöll. Sigurlagið Our Choice, eftir Þórunni Ernu Clausen, keppti fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Lissabon í Portúgal. Lagið komst því miður ekki upp úr fyrri undankeppninni.
Íslenskar heimildarmyndir voru að vanda fyrirferðarmiklar í dagskrá RÚV og gekk eftir sú stefna að frumsýna vel valdar íslenskar heimildarmyndir í hverjum mánuði. Reynir Sterki eftir Baldvin Z, sem sýnd var á nýársdag, fékk afburðargott áhorf og reyndist þegar upp var staðið vera sú heimildamynd sem fékk mest áhorf á árinu og skipar sér meðal vinsælustu heimildarmynda síðari ára.
Erlent leikið efni
Fjölbreytt leikið erlent efni var í fyrirrúmi í dagskrá RÚV árið 2018, seríur frá Skandinavíu, Englandi, Þýskalandi, Frakklandi og Ítalíu. Norrænar seríur á borð við lokaseríu Brúarinnar (Broen IV) sem mældist vinsælasta erlenda efnið á árinu, Löwander fjölskyldan (Vår tid är nu), Heimavöllur (Heimebane) og Frelsi (Liberty) voru einnig vinsælar meðal áhorfenda.
Leikið breskt efni er alltaf vinsælt og þriðjudagsglæpaserían er orðin fastur liður í dagskrá RÚV. Foster læknir (Doctor Foster II) var á þriðjudögum og fjórðu þáttaröð Skylduverka (Line of Duty IV) svo eitthvað sé nefnt. Einnig óx hlutfall efnis frá Þýskalandi og sýndar voru margverðlaunaðar þáttaraðir á borð við Stríðskynslóðina (Unsere Mütter, unsere Väter), NSU: Hatur frá hægri (German History X) og Bræður munu berjast (Die Dasslers). Síðast en ekki síst var sjónum beint til Ítalíu á árinu með sýningum á Gómorru (Gomorrah) og í lok árs hófust sýningar á Framúrskarandi vinkonu (My Brilliant Friend) sem byggð er á metsölubókum Elenu Ferrante.
Á laugardögum voru sýndar valdar kvikmyndir sem hafa valdið straumhvörfum í kvikmyndasögunni undir yfirskriftinni Bíóást. Má þar nefna myndir á borð við Thelmu og Louise, E.T., Sakborninga (The Accused), Fargo, Morgunverð hjá Tiffany (Breakfast at Tiffanys) og Bréfberann (Il Postino).
Erlendar heimildarmyndir og fræðsluþættir
Í einni af stærstu heimildarþáttaröðum hafsins, Hafið, bláa hafið (Blue Planet II), fór David Attenborough á kostum. Skýjaborg (City in the Sky) var feikivinsæl meðal áhorfenda og mældist næstvinsælasta erlenda efnið á árinu. Saga Danmerkur (Historien om Danmark) var sýnd á haustdögum. Þar leiddi stórleikarinn Lars Mikkelsen áhorfendum í gegnum sögu Danmerkur á nýstárlegan hátt. Aðrir þættir, svo sem Víetnamstríðið (Vietnam War), Tímamótauppgötvanir (Breakthrough) og Hljóðupptaka í tímans rás (Soundbreaking) vöktu verðskuldaða athygli. Þættir Louis Theroux og Stacey Dooley voru áhugaverðir fyrir efnistök og nálgun á viðkvæm málefni sem snerta alla, hvort sem það var alkóhólismi, anorexía, vígamenn Íslamska ríkisins eða vændiskaup. Minning Ingmars Bergman, Martins Luthers King og Nelsons Mandela var heiðruð með sýningu heimildarmynda um þá.
Breytt Rás 1, sterkari staða
Tvær breytingar voru gerðar á Rás 1 árið 2020. Hádegið heitir nýr fréttatengdur þáttur sem hóf göngu sína 1. desember. Þátturinn er á dagskrá alla virka daga milli kl. 12:03 og 13:00. Í þættinum eru fréttaskýringar, viðtöl og umræður um það sem er efst á baugi hverju sinni. Fréttatíminn er áfram á sínum stað kl. 12:20 og sömuleiðis síðasta lag fyrir fréttir. Strax að loknum fréttum er farið yfir veðrið. Umsjón með Hádeginu hafa Guðmundur Björn Þorbjörnsson og Katrín Ásmundsdóttir. Þátturinn er aðgengilegur í Spilaranum og öllum helstu hlaðvarpsveitum að lokinni útsendingu. Þátturinn hefur styrkt dagskrá Rásar 1 á besta hlustunartíma og sækir enn í sig veðrið. Breytingar voru sömuleiðis gerðar á störfum þula Rásar 1 í byrjun desember. Með breytingunum er hlutverkum þula skipt í tvennt, annars vegar er auglýsingaþulur sem les tilkynningar og auglýsingar eins og starfsheitið gefur til kynna og hins vegar er dagskrárþulur sem hefur það hlutverk að kynna dagskrána og halda utan um hana, sinna dagskrárgerð með tónlist, innslögum og viðtölum og almennt vera góður félagsskapur fyrir hlustendur. Með þessu fyrirkomulagi er dagskrárþul skapað svigrúm til þess að sinna þessu mikilvæga hlutverki í dagskrá Rásar 1. Auglýsinga- og tilkynningalestur hefur verið fyrirferðarmikill í starfi þula hingað til og þeir hafa ekki haft nægjanlega mikið svigrúm til þess að sinna kynningu dagskrár, vali á tónlist og annarri dagskrárgerð. Við það að losna undan tilkynninga- og auglýsingalestri fær dagskrárþulur sömuleiðis svigrúm til þess að vera persónulegri í tali í útvarpinu og þannig meiri félagsskapur fyrir hlustendur. Þetta hefur gert Rás 1 áheyrilegri og dagskrána þéttari.
Nýjar hugmyndir
Rás 1 hefur verið á mikilli siglingu undanfarin ár eftir að breytingar hafa verið gerðar á dagskrárramma og dagskrárframboði. Sömuleiðis hefur orðið talsverð endurnýjun í starfsmannahópnum þar sem hópur af ungu dagskrárgerðarfólki hefur verið ráðinn til starfa. Þessar breytingar hafa skilað sér í því að hlustun hefur aukist um þriðjung á línulega dagskrá og Rás 1 á iðulega nokkur af vinsælustu hlaðvörpum landsins í hverri viku. Þáttur Veru Illugadóttur, Í ljósi sögunnar, hefur reyndar verið vinsælasta hlaðvarp landsins síðustu 4-5 ár. Heimskviður juku vinsældir sínar á árinu en meðal annarra útvarpsþátta Rásar 1 sem hafa gert það gott á árinu, bæði í línulegri dagskrá og ólínulegri, má nefna Glans í umsjá Önnu Gyðu Sigurgísladóttur og Katrínar Ásmundsdóttur, Segðu mér í umsjá Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur og Frjálsar hendur í umsjá Illuga Jökulssonsar. Allir þessir þættir eru dæmi um dagskrárgerð sem sérstaklega er hugsuð með ólínulega hlustun í huga. Þeir eru sértækir að efni og byggja margir á spennandi og fjölbreyttri hljóðmynd. Hið sama má segja um ýmsar þáttaraðir sem framleiddar voru á árinu, svo sem Ástarsögur Önnu Marsibiljar Clausen, Loftslagsdæmið eftir Arnhildi Hálfdanardóttur, Íslenska mannflóran II eftir Chanel Björk Sturludóttur, Raunir, víti og happ: Þættir um spilafíkn eftir Dag Gunnarsson, Hringurinn eftir Huldar Breiðfjörð, Hnit eftir Brynju Þorgeirsdóttur, Kínverski draumurinn eftir Öldu Elísu Anderso og Guðbjörgu Ríkey Thoroddsen Hauksdóttur, Miðja og jaðar eftir Tómas Ævar Ólafsson, Það sem breytingaskeiðið kenndi mér eftir Ólöfu Gerði Sigfúsdóttur, Íslenskar mállýskur eftir Önnu Sigríði Þráinsdóttur og Jóhönnu Vigdísi Guðmundsdóttur, Bleikmánin rís: Líf og list Nicks Drake og Flugslysið í lljósufjöllum eftir Höllu Míu Ólafsdóttur. Tvær þáttaraðir um tónlist vöktu svo sérstaka athygli en það var annars vegar Píanógoðsagnir Víkings Heiðars Ólafssonar og Beethoven – byltingarmaður tónlistarinnar sem var tíu þátta röð eftir Árna Heimi Ingólfsson, gerð í tilefni af 250 ára afmæli tónskáldsins. Víkið verður nánar að þeim hér að aftan.
Bókmenntir, hátíðardagskrá og barnaefni
Bókmenntalestrar sem sendir voru út á árinu voru lestur Steinunnar Sigurðardóttur á skáldsögu sinni, Hjartastað, lestur Kristínar Eiríksdóttur á bók sinni, Elín, ýmislegt, og Konan við þúsund gráður sem höfundurinn, Hallgrímur Helgason, las sjálfur. Sömuleiðis var boðið upp á nýjan lestur Ármanns Jakobssonar á Njálssögu. Lestrinum fylgdu sex hlaðvarpsþættir þar sem Eiríkur Guðmundsson ræddi við Ármann um söguna, einkenni hennar og túlkun. Allir lestrarnir voru sömuleiðis aðgengilegir í Spilara RÚV og í helstu hlaðvarpsveitum.
Mikil og markviss vinna var lögð í að gera hátíðardagskrá Rásar 1 sem veglegasta enda gegnir þessi útvarpsstöð sjaldan jafn stóru hlutverki í lífi landsmanna og um hátíðir. Hlustun á Rás 1 er aldrei meiri en um páska og jól. Gætt hefur verið að því að gera hátíðarþætti aðgengilega í Spilara RÚV og á hlaðvarpi, meðal annars með því að setja þá alla í eitt og sama Hlaðvarpið, sem gengur undir nafninu Fríhöfn Rásar 1, en það er einnig aðgengilegt í Spilaranum.
Barnaefni á Rás 1 tók svolitlum breytingum á árinu en boðið var upp á fjóra þætt í viku í umsjá starfsfólks KrakkaRÚV. Þetta eru þættirnir Krakkakiljan, Krakkakastið, Hlustaðu nú og Hljómboxið, spurningaþáttur fyrir alla fjölskylduna. Um sumarmánuðina var svo boðið upp á fræðsluþætti sem ætlaðir voru sérstaklega til hlustunar á ferðalögum um landið en þáttaröðin hét Hvar erum við núna?
Dagskrárrammi Rásar 1
Ekki voru gerðar miklar breytingar á dagskrárramma Rásar 1 á árinu. Innra starf miðaði meira að því að styrkja dagskrárgerðina, efni og efnistök í þeim þáttum sem eru á dagskránni. Í daglegri dagskrá var miðað að því að hafa efni sem höfðar til breiðs hóps hlustenda. Samfélagslegri og fréttatengdri umræðu er sinnt í daglegum þáttum á borð við Morgunvaktina, Mannlega þáttinn, Hádegið, Samfélagið og Spegilinn. Menningarlegu efni er sinnt í Víðsjá, Lestinni, Lestarklefanum, Hátalaranum, Á tónsviðinu, Orðum um bækur, Flakki, sem nú heldur úti sérhæfðari ummræðu um byggingarlist en áður og fleiri þáttum. Og mannlífstengt efni er í Segðu mér, Gestaboði og Mannlega þættinum svo dæmi séu nefnd. Og þótt finna megi efni tengt landsbyggðinni í flestum föstu þáttunum er þeim sérstaklega sinnt í Sögum af landi. Um helgar eru fleiri sértækir þættir, svo sem Tónlist frá a-ö, Bók vikunnar, Orð af orði, sem fjallar um íslenska tungu, Frjálsar hendur og Úr tónlistarlífinu þar sem heyra má nýjar upptökur úr íslensku tónlistarlífi. Á árinu hóf svo göngu sína þátturinn Svona er þetta í umsjá Þrastar Helgasonar en þar er rætt við forvitnilegt fólk um reynslu þess og viðhorf. Þátturinn er sendur út á sama tíma og þáttur Ævars Kjartanssonar, Samtal, var fluttur í til margra ára en Ævar lét af störfum eftir um hálfrar aldar starf á Rás 1 í ágúst.
Covid og 90 ára afmæli
Heimsfaraldur Covid 19 hafði mikil áhrif á vinnu dagskrárgerðarfólks á Rás 1. Í faraldrinum sinntu þeir dagskrárgerð sinni heima, að mestu leyti, en það reyndi verulega á útsjónarsemi þeirra við að taka viðtöl, taka upp efni í góðum hljómgæðum utan stúdíóa, setja saman þætti í fjarvinnu o.s.frv. Sýndi dagskrárgerðarfólk mikla þrautseigju og útsjónarsemi við þessar aðstæður og sá til þess ásamt tæknifólki og fleirum að hlustendur fengju fyrsta flokks útvarpsefni til að hlusta á í faraldrinum. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir hafði faraldurinn ekki teljandi áhrif á dagskrár Rásar 1 og enginn starfsmaður sýktist af veirunni.
Í desember var haldið upp á 90 ára afmæli Rásar 1 sem er auðvitað jafngömul Ríkisútvarpinu. Efnt var til dagskrárgerðar sem meðal annars rifjaði upp sögu Ríkisútvarpsins en í byrjun mánaðarins urðu einnig þær breytingar á áferð og hádegisdagskrá útvarpsins sem nefndar voru hér að framan. Í tilefni af afmælinu færðu dætur nóbelsskáldsins, Halldórs Laxnes, Ríkisútvarpinu að gjöf allar upptökur sem til eru í safni þess með lestri skáldsins á eigin efni og annarra. Var það sannarlega stórmannleg gjöf sem Rás 1 og hlustendur hennar munu lengi njóta. Öllu efninu var komið fyrir á Spilara RÚV og er sömuleiðis aðgengilegt í helstu hlaðvarpsveitum. Að auki var framleiddur þáttur þar sem Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur, fjallaði um samskipti Halldórs Laxness og Ríkisútvarpsins í gegnum tíðina.
Útvarpsleikhús
Útvarpsleikhúsið framleiðir útvarpsleikrit og heimildaleikhúsverk. Á árinu 2020 voru frumflutt sex verk, stök verk, framhaldsverk og heimildaseríur. Má þar nefna Ferðalög, framhaldsleikrit í fjórum hlutum eftir Jón Gnarr og annað framhaldsleikrit, jólaleikritið Með tík á heiði eftir Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur. Einnig var flutt ný útvarpsgerð leikritsins Velkomin heim eftir Maríu Thelmu Smáradóttur, Andreu Vihjálmsdóttur og Köru Hergils og Mikilvægur maður, nýtt verk eftir Bjarna Jónsson, svo eitthvað sé nefnt. Þar sem ekki tókst að halda upptökuáætlun vegna Covid-19 veirunnar og aðgengismála tengdum faraldrinum tókst ekki að framleiða nægilega mörg verk á leikárinu til að fylla í flokkinn Útvarpsverk ársins á Grímuverðlaunahátíðinni 2020.
Fjölbreytt tónlistardagskrá á Rás 1
Tónlist er mikilvægur hluti af dagskrá Rásar 1 og kemur við sögu í flestum dagskrárliðum rásarinnar. Á árinu 2020 voru á dagskrá Rásar 1 tónlistarþættir, þar sem umsjónarmenn kynntu tónlist af ýmsu tagi, nýjar tónleikahljóðritanir, bæði innlendar og erlendar og hljóðrit gerð sérstaklega fyrir Ríkisútvarpið, bæði ný og úr safni.
Einn mikilvægasti liðurinn í tónlistardagskrá Rásar 1 er hljóðritun á tónlist, en með beinum útsendingum frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og útsendingum frá ýmsum tónlistarhátíðum og öðrum tónleikum gegnir Rás 1 lykilatriði við miðlun tónlistar til allra landsmanna. Auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands var Rás 1 í samstarfi um hljóðritanir við Íslensku óperuna, Stórsveit Reykjavíkur, Listahátíð í Reykjavík og tónlistarhátíðirnar Myrka músikdaga, Jazzhátíð Reykjavíkur, Reykholtshátíð og Sumartónleika í Skálholti.
Eins og gefur að skilja höfðu samkomutakmarkanir vegna Covid-19 mikil áhrif á tónleikahald ársins þar sem hefðbundið tónleikahald, með gestum í sal, lá niðri um margra mánaða skeið. Þrátt fyrir samkomubann var lifandi tónlistarflutningi áfram miðlað á Rás 1 í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hörpu. Í mars og apríl voru sendir út, bæði í útvarpi og sjónvarpi, sérvaldir tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá fyrri árum undir yfirskriftinni „Heimsending frá Sinfóníuhljómsveit Íslands“ sem var vel við hæfi á þessu 70 ára afmælisári hljómsveitarinnar. Í lok maí og fram í júni tóku beinar útsendingar við en þá voru þrennir tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar sendir út beint, bæði í útvarpi og sjónvarpi, með tónlistarmönnunum Hallveigu Rúnarsdóttur, Páli Óskari Hjálmtýssyni og Víkingi Heiðari Ólafssyni í forgrunni. Fleiri samsendingar í útvarpi og sjónvarpi frá Sinfóníutónleikum voru á síðari hluta ársins. Á Klassíkinni okkar 4. september var 90 ára afmæli Ríkisútvarpsins og 70 ára afmælis Sinfóníuhljómsveitar Íslands minnst með glæsilegum tónleikum, 250 ára afmælis Beethovens var minnst með tónleikum í september þar sem Víkingur Heiðar lék einleik í þriðja píanókonserti tónskáldsins og sópransöngkonan Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, þreytti frumraun sína með hljómsveitinni á aðventutónleikum í desember. Á vormánuðum var Rás 1 einnig í samstarfi við streymis-tónleikaröðina „Heima í Hörpu“, en úrval hljóðritana úr röðinni var sent út á sunnudögum í apríl og maí.
Af öðrum tónleikahljóðritunum má nefna hjóðritun frá tónleikum í Hallgrímskirkju í mars þar sem tenórsöngvarinn Benedikt Kristjánsson flutti Jóhannesarpassíu Bachs á einstæðan hátt með með tveimur hljóðfæraleikurum og þáttöku tónleikagesta, stórtónleika Möggu Stínu í Eldborg í febrúar þar sem hún flutti lög Megasar með hljómsveit og ýmsum gestum og tónleika Gyðu Valtýsdóttur sem haldnir voru undir merkjum Listahátíðar í Reykjavík í september. Einnig voru afmælistónleikar Hauks Tómassonar, tónleikar í Salnum í Kópavogi, söngtónleikar Íslensku óperunnar og ýmsir tónleikar í tónleikaröð Hörpu „Sígildum sunnudögum“.
Sígild- og samtímatónlist er í öndvegi í tónlistardagskrá Rásar 1, en einnig djass og dægurlög fyrri tíðar og það sem skarar fram úr í nýrri tónlist af öllum gerðum hérlendis sem erlendis. Rás 1 leitast við að upplýsa og fræða hlustendur um sögu tónlistar og strauma og stefnur í samtímanum og þar skipta miklu þættir á borð við Hátalarann í umsjón Péturs Grétarssonar, Á tónsviðinu í umsjón Unu Margrétar Jónsdóttur, Lofthelgina í umsjón Friðriks Margrétar Guðmundssonar og þætti Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur Tónlistin frá A – Ö, auk þess sem þættir á borð við Víðsjá og Lestina gegna þar mikilvægu hlutverki. Arndís Björk Ásgeirsdóttir sá einnig um þriggja þátta röð þar sem farið var yfir sögu Listahátíðar í Reykjavík sem fagnaði 50 ára afmæli á árinu og í þáttaröðinni Skáld hlusta ræddi hún við skáld og rithöfunda um hvernig þeir nota tónlist við störf sín. Í páskadagskránni brá Elísabet Indra Ragnarsdóttir upp svipmynd af söngkonunni Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sem hlaut heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020, Páll Ragnar Pálsson sagði frá rússneska tónskáldinu Sofiu Gubaidulinu og helstu verkum hennar og Guðni Tómasson sótti Víking Heiðar Ólafsson heim og ræddi við hann um nýja hljómplötu hans með verkum Debussy og Rameau.
Tvær viðamiklar heimildaþáttaraðir voru á dagskrá á árinu. Í þáttaröðinni Beethoven – byltingarmaður tónlistarinnar sagði tónlistarfræðingurinn Árni Heimir Ingólfsson frá lífshlaupi og list Ludwigs van Beethovens á 250 ára afmælisári tónskáldsins og í tengslum við þáttaröðina var einnig boðið upp á sérstaka spilunarþætti þar sem tónlist Beethovens fékk að hljóma. Í þáttaröðinni Píanógoðsögnum fjallaði Víkingur Heiðar Ólafsson, á persónulegum nótum, um átta píanista sem hrifið hafa hann í gegn um tíðina og lék valdar, oft sjaldheyrðar, upptökur með þeim.
Tónlistin er líka félagi og skemmtun og miða vinsælustu þættir Rásar 1 að því að skapa þægilega nærveru með góðri tónlist sem oft heyrist ekki annars staðar. Má þar nefna þættina Á reki með KK þar sem Kristján Kristjánsson leikur tónlist af ýmsu tagi, Óskastund Svanhildar Jakobsdóttur og Flugur Jónatans Garðarssonar.
Rás 1 styður við íslenska samtímatónlist með ýmsum hætti, m.a. með upptökum og tónleikahljóðritunum ýmis konar. Í nóvember stóð Rás 1 í fjórða sinn fyrir sinni eigin tónlistarhátíð, í þetta sinn undir listrænni stjórn Önnu Þorvaldsdóttur. Þema hátíðarinnar var Þræðir og hverfðist um hugleiðingar um tímann með sérstöku tilliti til 90 ára afmælis RÚV og 250 ára fæðingarafmælis Beethovens. Þar frumflutti tónlistarhópurinn Elektra Ensemble fjögur ný kammerverk sem pöntuð voru sérstaklega af þessu tilefni og styrkt af Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs. Tónskáldin fjögur komu úr nokkuð ólíkum áttum en þau eru Haukur Þór Harðarson, Högni Egilsson, Sóley Stefánsdóttir og Veronique Vaka. Hátíðin var í samstarfi við Hörpu og voru tónleikarnir sendir út beint úr Hörpu á Rás 1 og á RÚV2 auk þess sem þeir voru í beinu streymi á menningarvefnum. Frumflutningur á Jólalagi Ríkisútvarpsins sem Rás 1 pantar á hverju ári af íslensku tónskáldi er löngu orðin að skemmtilegri hefð í jóladagskránni, en jólalagið 2020 var eftir tónlistarhópinn Umbru og var frumflutt af hópnum á Rás 1 jóladag.
Rás 1 hefur tekið þátt í Alþjóðlega tónskáldaþinginu (International Rostrum of Composers) um áratuga skeið en þingið er einn öflugasti vettvangur til kynningar á íslenskri samtímatónlist. Þinginu 2020, sem til stóð að halda í Belgrad í Serbíu, var frestað vegna aðstæðna, en í staðinn var ákveðið að útbúa streymis-spilunarlista með verkum eftir konur, samin frá því þingið var haldið í fyrsta sinn árið 1955 og fram til ársins 2021. Framlag Rásar 1 til verkefnisins var kammeróperan Blóðhófnir eftir Kristínu Þóru Haraldsdóttur, samin á árunum 2016-2018 við verðlaunaljóðverk Gerðar Kristnýjar og flutt af tónlistarhópnum Umbru. Verkið var jafnframt flutt á Rás 1 á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars.
Samstarf við Samband evrópskra útvarpsstöðva (EBU) er þýðingarmikill þáttur í tónlistardagskrá Rásar 1. Hlustendur hafa notið þessa samstarfs í reglulegum útsendingum og Ríkisútvarpið og íslenskt tónlistarlíf hafa með þessu samstarfi verið virkir þátttakendur í frjóu samfélagi evrópsks tónlistarlífs. Tónleikahljóðritunum frá helstu tónlistarhúsum Evrópu var útvarpað í þáttunum Endurómi úr Evrópu og Sumartónleikum evrópskra útvarpsstöðva en líkt og hér á landi hafði heimsfaraldurinn mikil áhrif á tónleikahald um alla álfuna, sumartónlistarhátíðum var víðast hvar aflýst og tónleikar ýmist felldir niður eða haldnir án áheyrenda í sal.
Ríkisútvarpið var einnig í samstarfi við BBC 4 um vikulegar beinar útsendingar úr Hörpu í þættinum Front Row en Víkingur Heiðar Ólafsson var þar staðarlistamaður í 11 föstudagsþáttum, frá marslokum og fram í miðjan júní.
Afgerandi skref voru tekin í átt að jafnrétti kynja í starfi Rásar 2 á síðasta ári. Markvisst var unnið að því að fjölga konum í hópi dagskrárgerðarfólks og þá var sérstakt átak gert til að auka hlut tónlistarkvenna í dagskránni. Eftir sem áður var íslensk tónlist þungamiðja starfsins enda yfirlýst markmið að hún sé helmingur þeirrar tónlistar sem leikin er á stöðinni. Fjölmargar tónleikaupptökur, útsendingar frá tónlistarhátíðum og sérþættir helgaðir íslenskri plötuútgáfu undirstrika þessa sérstöðu enn frekar. Eins og venjulega var hápunktur ársins Tónaflóð Rásar 2 á Menningarnótt, en umgjörðin var glæsilegri en nokkru sinni fyrr.
Konur í stærra hlutverki en áður
Rás 2 hefur sett sér markmið um jafnt vægi kynja í dagskrárgerð. Eitt þessara skrefa snýr að því að fleiri konur stýra nú tónlistarþáttum á stöðinni en nokkru sinni fyrr. Bæði er um að ræða sérþætti en einnig reglulega þætti á borð við Poppland og Kvöldvaktina. Einnig hefur verið leitað eftir aukinni þátttöku kvenna á tónlistarfundum en þar er ákveðið hvaða tónlist er spiluð hverju sinni. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að hlutur tónlistarkvenna fer vaxandi á stöðinni og reynt er að hafa lista yfir nýja tónlist í spilun eins jafna og mögulegt er. Staðreyndin er þó sú að kynjahalli í tónlistarheiminum veldur því að erfitt er að hafa hlutföllin alveg jöfn eins og stefnt er að.
Íslensk tónlist á heimili á Rás 2
Sérstaða rásarinnar felst í hlutfalli íslenskrar tónlistar en hún er helmingur þeirrar tónlistar sem leikin er. Þar fyrir utan er ítarlega fjallað um tónlistina og viðtöl við tónlistarfólk eru eitt leiðarstefið í allri dagskrá. Vert er að minnast á þrjá þætti sem undirstrika þetta hlutverk. Í Undiröldunni er spiluð ný íslensk tónlist sem oftar en ekki fær ekki mikla spilun annars staðar. Þátturinn er birtur fyrirfram á netinu með upplýsingum um lög og flytjendur og sinnir því nýsköpun í íslenskri tónlist vel. Stúdíó 12 og Plata vikunnar hafa svo fyrir löngu fest sig í sessi. Í fyrri þættinum kemur tónlistarfólk í upptöku í Stúdíó 12 en í þeim síðari er ein nýleg plata tekin fyrir og lögin spiluð með reglubundnum hætti alla vikuna. Á þessum tímum þar sem plötuútgáfa á undir högg að sækja er mikilvægt að hlúa að þessum hluta tónlistariðnaðarins.
Lifandi tónlistarflutningur frá öllum landshornum
Rás 2 tekur upp fjöldan allan af tónleikum sem ýmist eru sendir út í heilu lagi eða gert skil í þættinum Konsert. Þar fyrir utan voru fjölmargar beinar útsendingar frá tónlistarhátíðum um allt land. Má þar nefna Bræðsluna, Aldrei fór ég suður, Blúshátíð í Reykjavík, Heima í Hafnarfirði og Iceland Airwaves.
Fréttir og fróðleikur
Enn ein stoðin í dagskránni er fréttaflutningur á klukkutíma fresti og regluleg umfjöllun um fréttir og dægurmál. Rás 2 hefur stóru hlutverki að gegna í almannavarnar hlutverki RÚV og fréttastofa hefur greiða aðkomu að dagskrá þegar mikið liggur við. Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar voru sendir út kosningaþættir á rásinni og reglulega er leitað eftir viðbrögðum almennings við málefnum liðandi stundar.
Spennandi tímar framundan
Rás 2 tekst nú á við spennandi verkefni í breyttum heimi. Verkefnið felst í því að laða til sín yngri hlustendur í heimi þar sem hart er barist um athyglina. Dagskráin þarf að taka mið af neyslu- og tæknibreytingum og því er mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu að mæta hlustendum á þeirra forsendum, á hvaða tíma eða stað sem er. Gera má ráð fyrir að ný snjalltæki og raddstýring leiki þar lykilhlutverk þegar fram í sækir. Það verður helsta áskorun næstu ára.
RÚV stórbætti þjónustu sína í ólínulegum heimi árið 2018. Nýir spilarar fyrir sjónvarp og útvarp voru settir í lofið í janúar og undir lok árs bættust ný öpp fyrir snjalltæki í hópinn. Nýtt Íslandsmet var svo sett í kringum HM í fótbolta í sumar þegar landsmenn streymdu meira efni í gegnum netið en nokkru sinni fyrr. Þjónusta RÚV á vefnum byggir sem fyrr á því markmiði að miðla dagskránni þar sem fólk vill nota hana.
Öryggi og rekstur
2018 voru stór skref stigin til að bæta rekstraröryggi vefsins. Nokkrar árásir voru gerðar á vefinn og þótt fæstar þeirra hafi haft áhrif sýndi það þó nauðsyn þess að taka öryggismálin til endurskoðunar. Vefurinn var færður í skýið árið 2018 og varð hann mun hraðari við þá breytingu.
Nýir spilarar og öpp
Í janúar setti RÚV í loftið nýja spilara sem gjörbylta þjónustu okkar á þessu sviði. Nú er auðveldara en áður að draga fram ákveðna þætti í dagskránni og gefa þeim sérstakt vægi. Það hefur til að mynda verið gert í kringum heimildamyndir, Gullkistuna og sérstaka jóla- og páskapakka. Líklegt er að spilararnir verði enn meira nýttir til að frumsýna efni sem ekki hefur ratað í sjónarp eða útvarp, enda er það leið sem systurstöðvar okkar á Norðurlöndum hafa farið í auknum mæli. Á árinu var einnig lögð töluverð vinna í að fá símafélögin til að breyta birtingarmynd RÚV-efnis í sínum kerfum og nota sama fyrirkomulag og í spilurunum.
Í haust var svo ráðist í að skrifa nýtt app fyrir RÚV. Nýtt app fyrir iOS og Android fór í loftið í nóvember og er gríðarleg bæting frá því sem áður var. Um leið og það var búið var hafist handa við nýtt KrakkaRÚV app og fór það í loftið í byrjun febrúar. Þessi smáforrit byggja á sömu hugsun og spilarinn hvað varðar framsetningu og miðlun efnis. Öll bakvinnsla hefur einnig verið einfölduð því nú er nóg að gera breytingu á einum stað til þess að hún skili sér þvert á öll miðlunartæki.
HM, kosningar og stórviðburðir.
Fyrir HM í fótbolta voru allar gagnaleiðir milli stóru símafélaganna stækkaðar vegna fyrirséðs áhuga landans á keppninni. Enda kom það glögglega í ljós hversu miklu máli það skiptir að vefurinn virki hratt og örugglega undir álagi. Mest áhorf á vefnum var yfir lokaleik Íslands í keppninni en hinn leikur riðilsins fór fram á sama tíma. Þegar mest var náði streymið 87,6 Gbps sem eru um 54 þúsund samtímastraumar.
Sveitastjórnarkosningar fóru fram vorið 2018 og var kosningavefur RÚV einn veigamesti þátturinn í allri umfjöllun. Gögn frá Hagstofunni voru nýtt til að bera saman sveitarfélög og mikið var lagt upp úr kynningum á bæði flokkum og frambjóðendum. Vefurinn er enn aðgengilegur enda birtast þar gagnlegar upplýsingar um sveitarfélög landsins sem nýta má fyrir utan hefðbundna kosningaumfjöllun.
Umferð á vefinn tekur alltaf kipp í kringum stóra viðburði. Þetta sýnir hversu miklu máli hann skiptir sem ein af helstu miðlunarleiðum RÚV.
Sveitastjórnarkosningar
Vorið 2018 var kosið til sveitarstjórna í öllum 72 sveitarfélögum landsins. Fréttastofa fjallaði um kosningarnar með ýmsum hætti. Mest áhersla var lögð á umfjöllun á sérstökum kosningavef. Þangað var safnað upplýsingum um öll sveitarfélög landsins, meðal annars með því að tengja saman gagnabanka opinberra stofnana eins og Hagstofunnar og gagnabanka Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þannig var hægt að finna grunnupplýsingar um öll sveitarfélög og bera þau saman á kosningavef RÚV. Á síðunni var einnig hægt að finna upplýsingar um öll framboð í sveitarfélögum landsins, framboðslista þeirra og stefnumál, auk kosningaprófs sem kjósendur í hverju sveitarfélagi gátu tekið til að fá vísbendingar um það hvaða frambjóðendur pössuðu best við þeirra svör. Fimm efstu frambjóðendum á öllum framboðslistum landsins (10 efstu í Reykjavík) var boðið að svara spurningunum fyrst og leggja til grundvallar. Nærri 1000 frambjóðendur tóku þátt. Þá fóru fréttamenn RÚV hring um landið og ræddu við kjósendur um kosningamálin. Samtals voru nærri 40 sveitarfélög heimsótt og myndbönd frá hverju þeirra sett á síðu sveitarfélagsins á kosningavefnum.
Með þessu umfangsmikla verkefni gátu kjósendur, hvar sem þeir bjuggu, fengið góða mynd af stöðu sveitarfélagsins, framboðum og kosningamálum í sínu sveitarfélagi eins og mikilvægt er fyrir kosningar í lýðræðisríki. Þá var fjallað um kosningarnar með skipulögðum hætti í fréttum allra miðla. Þremur vikum fyrir kjördag hófust sýningar á sjónvarpsseríu um málefni sveitarfélaga. Þetta voru fjórir þættir þar sem fjallað var um fjármál þeirra, skipulags- og samgöngumál, félagsþjónustu og skólamál. Daginn fyrir kjördag mættust oddvitar framboða í Reykjavík í beinni útsendingu í sjónvarpi. Oddvitar framboða í tíu stórum sveitarfélögum mættust í útvarpi. Það voru oddvitar í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Akureyri, Reykjanesbæ, Árborg, Arkanesi, Fjarðarbyggð, Fljótsdalshéraði og á Ísafirði.
Eins og venja er var svo öflug kosningavaka á öllum miðlum RÚV að kvöldi kjördags.
Fréttastúdíó
Mikil tímamót urðu í starfsemi fréttastofunnar þegar nýtt fréttastúdíó, sjónvarpsmyndver, var tekið í notkun 21.september 2018 réttum átján árum eftir að fréttastofa sjónvarps flutti starfsemi sína í Efstaleiti. Þar til í ágúst 2000 höfðu sjónvarpsfréttir verið sendar út frá sérstöku sjónvarpsmyndveri í húsakynnum fréttastofunnar á Laugavegi 177. Nýja myndverið er m.a. útbúið tölvustýrðum myndavélum auk annarrar tækni sem einfaldar mjög útsendingu. Mun færri tæknimenn þarf í útsendingu eða tvo í stað 6-7 þegar útsendingar voru í aðalmyndveri RÚV.
Fréttastúdíóið gerir fréttastofunni kleift að fara í sjónvarpsútsendingu með skemmri fyrirvara en áður og möguleikar til að vera með beinar útsendingar eru fleiri og ferlið auðveldara en áður. Þetta gerir fréttastofunni kleift að veita hraðari og betri þjónustu en áður. Myndverið er notað fyrir fréttir, veður, íþróttir, Kastljós, Menninguna, aukafréttatíma og fréttatengdar upptökur.
Mikil hagræðing er af nýja fréttastúdíóinu og áætlaður árlegur sparnaður fréttastofunnar við útsendingar er um tuttugu milljónir króna.
Innanlands sem utan
Fréttastofan var á faraldsfæti innanlands með landsbyggðarfréttamenn á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum í fararbroddi sem, ásamt fréttamönnum á höfuðborgarsvæðinu, fóru í reglulegar fréttaferðir um alla fjórðunga. Lögð er áhersla á að segja fréttir af öllum landsmönnum, fyrir alla landsmenn, af byggðamálum, stjórnmálum, umhverfismálum, efnahagsmálum og samfélagsmálum af öllum toga.
Teymi fréttastofunnar fóru einnig utan á árinu. Fréttateymi fóru meðal annars til Rússlands á heimsmeistaramótið í Rússlandi og flutti þaðan fréttir, sóttu Norðurlandaráðsþing í Ósló og fóru til Bandaríkjanna til að fjalla um spennandi þingkosningar þar í landi, svo eitthvað sé nefnt.
Kveikur
Fyrsta heila starfsár fréttaskýringaþáttarins Kveiks gekk vonum framar. Þaulvanir frétta- og dagskrárgerðarmenn héldu áfram að svara ákalli almennings um rannsóknarblaðamennsku og dýpri umfjöllun um samfélagsmál af ýmsum toga. Umfjöllunarefni þáttarins hafa hreyft við almenningi, stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Áhorfið fór strax fram úr björtustu vonum og Kveikur fékk Edduverðlaunin 2018 í flokki frétta- og viðtalsþátta.
Umfjöllunarefni Kveiks hafa verið allt frá sláandi vettvangsfregnum af stríðinu í Jemen og hjálparstarfi í Bangladesh til afhjúpana um vopnaflutninga íslensks flugfélags með leyfi íslenskra stjórnvalda. Umfjöllun um spilafíkn vakti mikla athygli sem og úttekt Kveiks á starfsmannaleigum. Athyglin beindist ekki síst að umhverfi og náttúru haustið 2018, þegar fjallað var um hlýnun jarðar og plast í sláandi í þáttum sem vöktu verðskuldaða athygli. Og steranotkun ungra karla og drengja svipti hulunni af vanda sem flestum var dulinn. Í kjölfar margra þátta Kveiks og umræðunnar í samfélaginu hafa stjórnvöld og fleiri gripið til aðgerða, bætt úr og stöðvað brot.
Spegillinn
Þessi rótgróni fréttaskýringaþáttur í útvarpi, sem upplýsir hlustendur Rásar 1 og 2 alla virka daga, kom víða við í umfjöllun sinni 2018. Spegillinn var meðal annars leiðandi í umfjöllun um kjaramál, fjallaði ítarlega um hugmyndir og tillögur sem viðraðar voru í kjaraviðræðum og var iðulega fyrstur með fréttir og skýringar þegar blikur voru á lofti. Þátturinn beindi einnig sjónum að umhverfismálum og fjallaði t.d. ítarlega um brýn verkefni þegar kemur að loftslagsmálum. Þá er ótalin umfjöllun um stjórnmál og efnahagsmál á innlendum og erlendum vettvangi, heilbrigðismál og samfélagsmál hvers konar.
Kastljós
Beittur fréttatengdur viðtalsþáttur fjóra daga vikunnar þar sem málefni líðandi stundar eru rædd í beinni útsendingu. Viðtöl sem vekja athygli og umræðu í samfélaginu. Áhorf Kastljóss hefur haldist jafnt og gott þrátt fyrir töluverða breytingu á þættinum með tilkomu Kveiks. Skeleggir og þrautreyndir spyrlar krefja ráðamenn, forstjóra og aðra valdahafa svara við spurningum sem brenna á þjóðinni.
Íþróttadeild RÚV
RÚV fylgir eftir afreksfólki Íslands og birtir íþróttaefni sem sameinar íslensku þjóðina. Við fjöllum um fjölbreyttar íþróttagreinar og allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. RÚV leggur mikla áherslu á að fjalla um íþróttaiðkun beggja kynja og ólíkra hópa. Með þessu varðveitum við íþróttasögu Íslands og hvetjum til aukinnar íþróttaiðkunar meðal þjóðarinnar.
Heimsmeistaramótið í knattspyrnu
Stærsta verkefni RÚV á árinu var án efa Heimsmeistaramótið í knattspyrnu í sumar. 64 leikir í beinni útsendingu auk umfjöllunar í kringum alla leiki og oft var íþróttadeildin í beinni útsendingu í allt að tíu klukkustundir á dag. Umgjörð íþróttadeildar bæði hér heima og í Rússlandi var til fyrirmyndar og vakti verskuldaða ánægju landsmanna. Íþróttadeild og starfsfólk RÚV sannaði enn og aftur styrk sinn til að sinna stórmóti á við HM í knattspyrnu. Í aðdraganda keppninnar sýndi RÚV þættina Draumurinn um HM þar sem landslið Íslands var til umfjöllunar og þættina Andstæðingar Ísland þar sem Eiður Smári Guðjohnsen heimsótti andstæðinga Íslands á HM, Nígeríu, Króatíu og Argentínu.
Vetrarólymíuleikar
Vetrarólympíuleikarnir í PyeongChang í Suður-Kóreu voru á dagskrá RÚV í febrúar með fjölbreyttum íþróttagreinum og stöðugum beinum útsendingum og samantektarþáttum í 3 vikur. Fimm íslenskir keppendur voru meðal þáttakenda. Elsa Guðrún Jónsdóttir varð fyrst íslenskra kvenna til að keppa í skíðagöngu á Ólympíuleikum þegar hún mætti til leiks í 10 kílómetra göngu með frjálsri aðferð. Ólympíumót fatlaðra var svo einnig haldið í Pyeongchang skömmu eftir að Ólympíuleikunum lauk. Hilmar Snær Örvarsson var eini keppandi Íslands á Ólympíumótinu. Hann keppti í alpagreinum og náði fínum árangri í svigkeppninni.
Meistaramót Evrópu
Meistaramót Evrópu var á dagskrá RÚV í ágúst með fjölda beinna útsendinga. Keppt var í sjö keppnisgreinum en markmið mótsins er að auka áhuga og umfjöllun um íþróttirnar sem um ræðir. Þónokkrir íslenskir keppendur tóku þátt á mótinu. Ísland varð Evrópumeistari í blandaðri liðakeppni í golfi eftir frábæra spilamennsku íslensku kylfinganna á Gleneagles golfsvæðinu í Skotlandi. Íslenska liðið var skipað þeim Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur og Axel Bóassyni annars vegar og Birgi Leif Hafþórssyni og Valdísi Þóru Jónsdóttur hins vegar. Valgarð Reinharðsson varð fyrsti Íslendingurinn í fjórtán ár til að komast í úrslit á einstöku áhaldi á stórmóti í áhaldafimleikum. Valgarð lenti í fimmta sæti í undankeppninni og var því einn átta keppenda sem kepptu í úrslitum stökksins.
Landsliðin okkar og bikarúrslit
RÚV hélt áfram að sýna frá landsliðum Íslands í kvenna og karlaflokki auk þess að sýna frá bikarúrslitum í hinu ýmsu íþróttagreinum í veglegri umgjörð. Þá var Skólahreysti og Meistaradagar á sínum stað á dagskrá RÚV.
Íþróttafólkið okkar
Á haustdögum hóf göngu sína nýr vikulegur íþróttaþáttur, Íþróttafólkið okkar, sem veitir nýja og áhugaverða innsýn í allar mögulegar hliðar á íslensku íþróttalífi. Viðtökur hafa verið mjög góðar hjá áhorfendum auk þess sem mörg sérsambönd ÍSÍ hrósuðu RUV sérstaklega fyrir þáttinn.
STÓRAUKIN ÞJÓNUSTA RÚV VIÐ BÖRN OG UNGLINGA
Mikil áhersla er lögð á framleiðslu innlends barnaefnis. Gæði og framboð innlends barnaefnis endurspeglast ekki síst í KrakkaRÚV sem er yfirheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn. Kjarninn í starfseminni er www.krakkarúv.is þar sem nálgast má allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir ásamt vönduðum útvarpsþáttum fyrir börn. Jafnframt er lögð mikið áhersla á samstarf við stofnanir sem vinna í þágu barna.
Stundin okkar
Í Stundinni okkar ferðumst við um landið og hittum skemmtilega krakka. Stundin okkar hefur nú stoppað á 52 stöðum á landinu og kynnst lífinu og tilverunni hjá krökkum á aldrinum 6-12 ára. Stórhættuleg spurningakeppni, grænar slímgusur, furðuverur og ævintýri, stórfurðulegar íþróttagreinar, skapandi þrautir og sögur eftir krakka sem lifna við. Sögu samkeppnin er góðvinur Stundarinnar okkar og völdum við 8 sögur til að kvikmynda og urðu til 8 stuttmyndir m.a. um tröll, undarlega töksu, talandi hamstra og draugaveröld. Um 1000 börn hafa komið fram í Stundinni okkar í vetur.
KRAKKAFRÉTTIR
Krakkafréttir héldu áfram að fræða börn landsins um málefni líðandi stundar. Þá stóð KrakkaRÚV í samstarfi við umboðsmann barna fyrir umfangsmikilli umfjöllun fyrir krakka í tengslum við sveitastjórnarkosningarnar. Við leituðum til skóla um allt land og fengum viðbrögð krakka við stjórnmálum síns hverfis og sveitarfélags. Í stuttum myndböndum fengu þau tækifæri til að tjá sína skoðun á því sem betur mætti fara í samfélaginu og koma því áleiðis til stjórnmálamanna.
Markmiðið var að gefa börnum í grunnskóla kost á því að taka þátt í stjórnmálaumræðunni og leyfa þeirra rödd að heyrast um það sem stendur þeim nærri. Um leið fengu þau fræðslu um lýðræðislegar kosningar og ýmislegt um það hvernig samfélög eru uppbyggð.
Í Krakkafréttaannál á gamlárskvöld fórum við yfir fréttir ársins. Þar fengum við í fyrsta sinn aðstoð krakka sem horfðu á þær fréttir sem hæst báru á árinu og brugðust við þeim.
Krakkaskýringar voru kynntar til leiks á árinu. Í stuttum innslögum einu sinni í viku voru flókin mál, fyrirbæri eða orð útskýrð ofan í kjölinn.
Útvarp KrakkaRÚV
KrakkaRÚV framleiðir fjóra útvarpsþætti í hverri viku. Mánudaga til fimmtudaga klukkan 18:30 á Rás 1 fjalla þau Ingibjörg Fríða Helgadóttir, Jóhannes Ólafsson og Sævar Helgi Bragason um vísindi, menningu, krakkafréttir vikunnar og málefni líðandi stundar. Á fimmtudögum var fjallað um sögur frá öllum mögulegum sjónarhornum og er upphitun fyrir Sögur – verðlaunahátíð barnanna, sem fer fram í annað sinn vorið 2019. Þættina má einnig finna á hlaðvarpinu og á vef KrakkaRÚV.
Upptakturinn
KrakkaRÚV sá um heimildaskráningu, viðtöl og þáttagerð fyrir Upptaktinn, tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna sem er samstarfsverkefni með Hörpu tónlistarhúsi, Barnamenningarhátíð í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Ungmenni á aldrinum 10-15 ára senda inn hugmyndir sínar í Upptaktinn og þær hugmyndir sem eru valdar eru fullunnar með liðsinni atvinnufólks í tónlist. Að lokum eru haldnir stórir uppskerutónleikar í Hörpu þar sem 12 ný verk eru frumflutt. KrakkaRÚV framleiddi 6 útvarpsþætti, þar sem tónsmíð og tónskáldi var fylgt í tali og tónum frá hugmyndastigi og til frumflutnings. Þættirnir voru fluttir á Rás 1 og gerðir aðgengilegir á vef KrakkaRÚV, ásamt myndböndum með viðtölum við krakkana og lokaflutningi verksins.
Verksmiðjan
Verksmiðjan er nýsköpunarkeppni ungs fólks á aldrinum 13-16 ára, þar sem hugmyndir og uppfinningar geta orðið að veruleika. Undirbúningur og skipulag verkefnisins hófst haustið 2018 en keppnin hófst í byrjun janúar 2019. Þátttakendur fá að vinna frumgerðir að hugmyndum/uppfinningum sínum í Fab Lab smiðjunum á Íslandi og þeir myndaðir af framleiðsluteymi RÚV. Fimm sjónvarpsþættir um Verksmiðjuna, iðngreinar og nýsköpun verða síðan sýndir á RÚV vor 2019. Tónlistarmaðurinn Daði Freyr tekur virkan þátt í Verksmiðjunni og mun þróa hljóðfæri í samstarfi við Fab Lab. Fylgst verður með ferlinu á ungruv.is og í sjónvarpsþáttunum.
Að verkefninu standa Samtök iðnaðarins, Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Listasafn Reykjavíkur, Fab Lab á Íslandi og RÚV.
Bókaormaráð og KrakkaKiljan
Í haust héldum við áfram með Bókaormaráð KrakkaRÚV þar sem við báðum krakka um að lesa nýútkomnar barnabækur. Fjallað var um 14 bækur og 12 bókaormar tóku þátt. Höfundarnir, þýðendur og myndhöfundar bókanna voru boðaðir hingað í hljóðver og krakkarnir, með aðstoð dagskrárgerðafólks okkar, tóku viðtöl við höfundana um bækurnar þeirra, skapandi skrif og fengu hjá þeim góð ráð. Viðtölin voru birt á vef KrakkaRÚV og í fimmtudagsþáttum Útvarps KrakkaRÚV. Krakkarnir fjölluðu svo stuttlega um bækurnar sem þau lásu í Krakka-Kiljunni sem sýndar voru í Krakkafréttum. Þar tóku bókaormarnir viðtöl hvert við annað.
Söguboltinn
Þættirnir Söguboltinn tengdu saman fótbolta og barnabækur í aðdraganda HM 2018. Í þessum fjórum þáttum eru viðtöl við landsliðsfólk í fótbolta og landslið barnabókarithöfunda fjallar um barnabækur á fjölbreyttan og leikandi hátt. Í þáttunum er auk þess fylgst með æsispennandi keppni þar sem tíu krakkar keppast um að fá að vera boltaberi Íslands á leik Íslands og Argentínu, með því að leysa ýmsar boltaþrautir.
Sögur – verðlaunahátíð barnanna
Risa-verkefni um læsi og sköpun barna. Hófst haustið 2017 þar sem KrakkaRÚV auglýsti eftir innsendum sögum og handritum frá krökkum.
Við framleiðum stuttmyndir, Borgarleikhúsið sviðsverk, útvarpsleikhúsið útvarpsverk, Borgarbókasafnið heldur námskeið í skapandi skrifum og svo mætti lengi telja. Risa-samstarfs-verkefni sem endar á Sögum-verðlaunahátíð barnanna í apríl 2018 þar sem þessar sögur verða verðlaunaðar sem og sögur sem ætlaðar eru börnum. Fagnefndir verðlauna börnin og börnin verðlauna þau verk sem framleidd eru fyrir þau. Þarna er barnamenningu sl. árs gerð góð skil, krakkar sjá um öll skemmtiatriði og kynna verðlaunin ásamt fyrirmyndum sínum úr menningarlífinu. Að verkefninu standa m.a. Borgarbókasafnið, Ibby á Íslandi, Reykjavík bókmenntaborg Unesco, Menntamálaráðuneytið, SÍUNG, Miðstöð máls og læsis við HA og fleiri.
Sögur – þættir um sköpun, skrif og lestur
5 þættir um skapandi skrif og lestur sem framleiddir voru til stuðnings verðlaunahátíð barnanna og Sögu samkeppninni. Fyrirmyndir krakkanna segja frá uppáhalds bókunum sínum og hvernig lestur nýtist þeim í þeirra daglega lífi í dag. Meðal viðmælenda voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Unnsteinn Manuel fjölmiðla- og tónlistarmaður, Salka Sól söngkona, Arnar Freyr rappari, Ragnhildur Steinunn aðstoðar dagskrárstjóri sjónvarpsins og Vilborg Anna pól- og Everestfari. Við fengum svo þessar fyrirmyndir (og fleiri til) til að taka þátt í spurningakeppni þar sem allar spurningarnar voru úr barnabókum, nýjum sem gömlum. Helstu rithöfundar þjóðarninnar komu með góð ráð til að skrifa sögu og hvað lestur skiptir miklu máli hvað skrif varðar. Þar má t.d. nefna: Þorgrím Þráinsson, Gunnar Helgason, Ævar Þór Benediktsson, Sigrúnu Eldjárn, Evu Rún Þorgeirsdóttur og Kristínu Rögnu Gunnarsdóttur. Kristín Helga Gunnarsdóttir, Ísold Uggadóttir, Markús Már Efraím og Gunnar Theodór settust svo niður með krökkum og skrifðuðu með þeim beinagrind af sögu. Til urðu ein hryllingssaga, ein vampýrusaga, eitt stuttmyndahandrit um einelti og vináttu og ein saga um huldufólk. Að sjálfsögðu sáu krakkar um viðtölin, spurningarnar og sagnagerðina. Þættirnir voru styrktir af Menntamálastofnun
Úti í umferðinni
Úti í umferðinni er leikið fræðsluefni um umferðaröryggi, unnið í samstarfi við Samgöngustofu. Í þáttunum er farið yfir helstu atriðin sem krakkar þurfa að kunna til að vera örugg í umferðinni.
Þættirnir eru átta, þar sem Erlen umferðarsnillingur er á ferðinni og fer yfir helstu öryggisatriðin: Hvernig á að fara yfir götu, hvernig á að nota endurskinsmerki, hvernig á að ferðast með strætó, öryggi á hjólinu, öryggi í bílnum, hvernig á að finna öruggustu leiðina í skólann, hvernig á að ferðast með strætó, hvar er öruggast að leika sér úti og merkin í umferðinni.
Þættirnir eru notaðir sem fræðsluefni fyrir börn í umferðarfræðslu Samgöngustofu.
UngRÚV er ný þjónusta fyrir fólk í 8., 9. og 10. bekk grunnskóla. Lögð er áhersla á dagskrárefni fyrir unglinga, eftir unglinga, beinar útsendingar frá viðburðum og vandað efni sem framleitt er af RÚV. UngRÚV er með starfandi ungmennaráð sem sér um hugmyndavinnu, framleiðslu og aðrar dagskrártengdar ákvarðanir. UngRÚV er samstarfsverkefni skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og RÚV.
Hluti af samstarfinu eru skólaheimsóknir 10. bekkinga. Vikulega koma unglingar úr skólum í Reykjavík og fræðast um sögu, starfsemi og hlutverk RÚV. Áhersla er lögð á að gera heimsóknirnar spennandi og ungmennin þátt í að framleiða dagskrárliðinn Orðið á götunni í samstarfi við ungmennaráð UngRÚV. Í tengslum við verkefnið var haldið sumarnámskeið fyrir unglinga á RÚV í dagskrárgerð. Námskeiðið var haldið í samstarfi við Vinnskóla Reykjavíkur.
Fyrsta heila starfsár RÚV núll var árið 2018 og segja má að það hafi farið fram úr björtustu vonum. Um vorið voru haldnar opnar prufur og komu um 100 manns í þær, bæði í Efstaleiti og fyrir norðan. Úr þeim hópi voru bæði ráðnir fastir starfsmenn og fólk til að gera styttri þætti. Stóru vefseríurnar gengu mjög vel og þá hafa fjölmargir hlaðvarpsþættir náð miklum vinsældum.
Fyrsta stóra sería ársins var Hinseginleikinn þar sem fjallað var um hinseginleikann frá ýmsum hliðum. Þættirnir vöktu mikla athygli og fengu góðar móttökur. Rabbabari var næstur á dagskrá en þar var rætt við þekkt ungt tónlistarfólk um tónlistarsköpun og sýn þeirra á lifið. Í sumarþættinum Sjoppur, fjöll og fegurð fór ungt fólk um landið og fyrir jól birtust 24 þættir af jóladagatali núllsins. Á haustmánuðum birtust svo stuttir vefþættir þar sem Kanarí hópurinn sló heldur betur í gegn. Þessir leiknu sketsar fengu gríðarlega góðar móttökur á vef og samfélagsmiðlum enda ekki á hverjum degi sem nýr grínhópur kemur fram.
Hlaðvörp frá Núllinu hafa svo mörg hver fengið gríðarlega góðarmóttökur. Í Smá plássi var rætt um reynsluheim ungra kvenna, Ástin fjallaði eins og nafnið gefur til kynna um ástina, í Veistu hvað er nýtt efni tekið fyrir í hverri viku og það krufið til mergjar og vona mætti lengi telja. Augljóst er að ungt fólk hefur tekið hlaðvörpum opnum örmum og því mikilvægt að bjóða upp á metnaðarfulla dagskrá í því umhverfi.