Í upphafi ársins 2018....
04.01.2018

Menningarviðurkenningar RÚV veittar

Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2017 voru veittar. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri góðir gestir voru við athöfnina sem útvarpað var á Rás 1. Hallgrímur Helgason hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Hljómsveitin Mammút hlaut Krókinn 2017 - viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi flutning á árinu. Epalhommi var þá valið orð ársins 2017. Alls voru 92 styrkir veittir úr sameinuðum Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs árið 2017, en sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/menningarvidurkenningar-ruv-veittar-vid-hatidlega-athofn

23.01.2018

Ragnhildur Steinunn ráðin aðstoðardagskrárstjóri

Ragnhildur Steinunn Jónsdottir var ráðin aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps samkvæmt nýju skipuriti RÚV. Ragnhildur Steinunn vinnur við hlið Skarphéðins Guðmundssonar dagskrárstjóra og dagskrárdeildar að dagskrártengdum málum Sjónvarps. Þá kemur hún að ytri og innri samskiptum dagskrárdeildar sjónvarps og er alhliða stuðningur við dagskrárstjóra meðfram því að sinna áfram dagskrárgerð fyrir sjónvarp. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ragnhildur-steinunn-verdur-adstodardagskrarstjori

09.02.2018

Nýr RÚV spilari í opnar prófanir

Mikilvægur prófsteinn í þróun nýs spilara RÚV náðist með því að setja hann í opnar prófanir í febrúar. Með nýjum spilara er verið að svara þörfum nútímans um hraða og örugga miðlun efnis auk þess sem færi gefst á að miðla meira efni en áður. http://www.ruv.is/i-umraedunni/nyr-ruv-spilari-i-opnum-profunum

12.02.2018

Leiðin á EM verðlaunuð af KSÍ

Íþróttadeild RÚV hlaut fjölmiðlaviðurkenningu KSÍ fyrir árið 2017 fyrir heimildarþættina „Leiðin á EM“ sem voru í umsjón Eddu Sifjar Pálsdóttur og Maríu Bjarkar Guðmundsdóttur. „Leiðin á EM“ var gerð í undirbúningnum fyrir EM kvenna í Hollandi. http://www.ruv.is/frett/leidin-a-em-faer-fjolmidlavidurkenningu-ksi

12.02.2018

Sjónvarpsefni framleitt eða sýnt á RÚV með 25 tilnefningar

Tilkynnt var um tilnefningar til Edduverðlaunanna. RÚV hlaut, sem framleiðandi eða meðframleiðandi, 25 tilnefningar fyrir sjónvarpsefni, auk þess eiga dagskrárgerðarmenn RÚV 4 af 5 tilnefningum í flokknum sjónvarpsmaður ársins, þau Guðrún Sóley Gestsdóttir, Sigríður Halldórsdóttir, Sigyn Blöndal og Unnsteinn Manúel Stefánsson. http://www.ruv.is/i-umraedunni/eddan-2018-sjonvarpsefni-framleitt-eda-synt-a-ruv-hlytur-alls-25-tilnefningar

19.02.2018

Jafnt kynjahlutfall í dagskrá RÚV

Í lok árs 2015 voru teknar upp markvissar mælingar á hlutfalli karla og kvenna í hópi viðmælenda í föstum þáttum og fréttum. Nýtt verklag var innleitt, aðgengilegt skráningarkerfi var forritað og starfsmenn þjálfaðir. Hlutfall kynjanna í dagskrá RÚV, utan frétta, árið 2017 var 3% jafnara en árið á undan og nánast jöfn, eða 51% karlar og 49% konur. Séu fréttatímar og fréttatengdir þættir eingöngu teknir saman er hlutfall kynjanna 64% karlar og 36% konur, sem skýrist af hærra hlutfalli karla í leiðandi stöðum í stjórnmálum og samfélaginu sem fluttar eru fréttir af. http://www.ruv.is/i-umraedunni/jafnt-kynjahlutfall-i-dagskra-ruv

22.02.2018

Þættir um kvótakerfið verðlaunaðir á Berlinale

Handrit að þáttaröð Vesturports, Verbúð eða Black Port, sem fjallar um afleiðingar kvótakerfisins fyrir lítið þorp á Íslandi, var í gær valið það áhugaverðasta á CoPro Series samframleiðslumarkaðnum á Berlinale-kvikmyndahátíðinni í Þýskalandi. RÚV er meðframleiðandi Verbúðar og hefur tekið þátt í að þróa og fjármagna verkefnið með Vesturporti. http://www.ruv.is/i-umraedunni/thaettir-um-kvotakerfid-verdlaunadir-a-berlinale

24.02.2018

Prufur fyrir dagskrárgerðarfólk framtíðarinnar

Laugardaginn 24. febrúar opnaði RÚV dyr sínar fyrir fólki á aldrinum 18-30 ára sem hefur brennandi áhuga á dagskrárgerð. Haldnar voru prufur í hljóð- og myndveri fyrir framleiðslu þátta fyrir ungt fólk. Haldnar voru prufur á Norðurlandi á RÚV á Akureyri þann 5. mars. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-heldur-prufur-fyrir-dagskrargerdarfolk-framtidarinnar

26.02.2018

Fangar hlutu 10 Edduverðlaun

Sjónvarpsefni framleitt eða sýnt á RÚV var sigursælt á Edduverðlaunahátíðinni. Alls hlaut þáttaröðin Fangar 10 verðlaun. Þá var Kveikur valinn frétta- og viðtalsþáttur ársins, Framapot menningarþáttur ársins og Áramótaskaupið 2017 skemmtiþáttur ársins. http://www.ruv.is/frett/fangar-fengu-tiu-edduverdlaun

28.02.2018

Sindri Bergmann tilnefndur til stjórnendaverðlauna

Sindri Bergmann Þórarinsson, KrakkaRÚVstjóri, var tilnefndur til stjórnunarverðlauna Stjórnvísi 2018. Sindri kom til starfa hjá RÚV árið 2015. Verkefni hans var að efla þjónustu RÚV við börn með áherslu á íslenskt gæðaefni. http://www.ruv.is/i-umraedunni/krakkaruvstjori-tilefndur-til-stjornunarverdlauna

06.03.2018

RÚV hlaut tvenn blaðamannaverðlaun

Alma Ómarsdóttir fréttamaður á RÚV hlaut Blaðamannaverðlaun ársins 2017 fyrir rannsóknarblaðamennsku fyrir upplýsandi umfjöllun sína um uppreist æru. Viktoría Hermannsdóttir, dagskrárgerðarmaður á RÚV, hlaut verðlaun fyrir viðtal ársins. Hún talaði við Árna Jón Árnason í þættinum Á ég bróður á Íslandi? http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-hlaut-tvenn-bladamannaverdlaun

06.03.2018

Auglýst eftir starfsmanni til að sinna þjónustu á öðrum málum en íslensku

Í samræmi við stefnu RÚV til 2021 um að efla þjónustu við landsmenn með annað móðurmál en íslensku auglýsti RÚV eftir verkefnastjóra í fullt starf. Markmiðið er að þjónusta RÚV endurspegli íslenskt samfélag sem best. Starfsmaðurinn á að leiða þjónustuna þvert á miðla og hafa umsjón með miðlun efnis á ensku á sérstökum vef og auknu aðgengi að efni í dagskrá RÚV sem gæti höfðað til þessa hóps. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-auglysir-eftir-starfsmanni-til-ad-sinna-thjonustu-a-odrum-malum-en-islensku

12.03.2018

Útvarpsstjórar í Norður-Evrópu funduðu á Íslandi

Tafelspitz, árlegur fundur útvarpsstjóra Norður-Evrópu, var haldin hér á landi 8.-9. mars. Fundinn sóttu útvarpsstjórar, stjórnendur og fulltrúar DR, YLE, NRK, SVT, SR, UR, BBC, ZDF, ORF, SRG/SSR og ARD. http://www.ruv.is/i-umraedunni/utvarpsstjorar-i-nordur-evropu-funda-a-islandi

26.03.2018

Jákvæð rekstrarafkoma eins og síðustu ár

Helstu niðurstöður ársuppgjörs RÚV eru þær að regluleg starfsemi RÚV er áfram hallalaus og skilar rekstrarafgangi upp á 201 milljón króna. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-skilar-jakvaedri-rekstrarafkomu-2017-eins-og-sidustu-ar

26.03.2018

Vönduð páskadagskrá RÚV

Páskadagskrá RÚV var vönduð og fjölbreytt. Nýtt íslenskt efni var í öndvegi. http://www.ruv.is/i-umraedunni/paskadagskra-2018

01.04.2018

Mannasiðir frumsýndir

Mannasiðir, ný íslensk sjónvarpsmynd í tveimur hlutum, voru frumsýndir á RÚV um páskana. Fyrri hlutinn á páskadag, sunnudaginn 1. apríl og sá síðari annan í páskum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/mannasidir-ny-islensk-sjonvarpsmynd-frumsynd-a-ruv-um-paskana

05.04.2018

Djók í Reykjavík hefur göngu sína

Dóri DNA skyggnist inn í líf helstu grínista Íslands í nýrri sex þátta seríu. Hann spjallaði við þá um grín frá öllum hliðum og spurði ýmissa spurninga. Eru einhverjar reglur í gríni? Má gera grín að öllu? Er hægt að lifa á gríninu einu saman? http://www.ruv.is/i-umraedunni/djok-i-reykjavik-ny-islensk-heimildathattarod-um-grin-hefur-gongu-sina

13.04.2018

RÚV stóð fyrir borgarafundi um menntamál í beinni.

RÚV stóð fyrir borgarafundi í beinni útsendingu um menntamál. Fundurinn bar yfirskriftina: Er menntakerfið í molum? Meðal þeirra sem sátu fyrir svörum voru Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, Ragnar Þór Pétursson, formaður Kennarasambandsins og Skúli Helgason, formaður Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/borgarafundur-er-menntakerfid-i-molum

15.04.2018

RÚV með um 15% auglýsingamarkaði

Hagstofan birti skýrslu sína um tekjur fjölmiðla árið 2016. Þar kom margt áhugavert fram. Þar á meðal að hlutdeild RÚV í heildarauglýsingatekjum íslenskra fjölmiðla er 15% en það er umtalsvert lægra en stundum hefur verið haldið fram í opinberri umræðu. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-med-15-af-islenskum-auglysingamarkadi

20.04.2018

Norrænt samstarf um framleiðslu leikins efnis kynnt

Útvarpsstjórar norrænu almannaþjónustumiðlanna fimm hafa kynnt „Nordic12“ sem er nýtt samstarf um framleiðslu leikins efnis. Vegna samningsins um norrænt leikið efni, sem var kynntur í tónleikahúsi DR, geta notendur nálgast tólf nýjar leiknar þáttaraðir framleiddar af sjónvarpsstöðvum í almannaþjónustu, þær verða einnig aðgengilegar notendum mun lengur en áður. http://www.ruv.is/i-umraedunni/norraent-samstarf-um-framleidslu-leikins-efnis-veitir-ahorfendum-adgang-ad-tolf-nyjum

22.04.2018

Sögur – verðlaunahátíð barnanna í fyrsta sinn

Verðlaunahátíðin Sögur var haldin í fyrsta sinn sunnudagskvöldið 22. apríl og var send út beint á RÚV. Hátíðin var í Eldborgarsal Hörpu og var öll hin glæsilegasta. Um 2.000 börn á aldrinum 6-12 ára kusu það besta á sviði tónlistar, bókmennta, sjónvarps og leikhúss, auk þess sem skapandi börn voru verðlaunuð. KrakkaRÚV var einn samstarfsaðila hátíðarinna í samvinu við Sögur– samtök um barnamenningu. http://www.ruv.is/i-umraedunni/vel-heppnud-fyrsta-verdlaunahatid-barnanna

26.04.2018

RÚV opnar fyrir sjálfstæðum framleiðendum

Í nýrri stefnu RÚV sem kynnt var á vordögum 2017 og unnin með aðkomu á annað þúsund landsmanna og hagaðila víða að úr samfélaginu, er dregið upp hvernig þjónusta RÚV þróast á næstu árum í takt við þarfir nútímafólks. Sérhæfð sjónvarps- og kvikmyndaver, hljóðver og önnur tækniaðstaða hefur nú verið gerð aðgengileg til leigu fyrir sjálfstæða framleiðendur sjónvarps- og kvikmyndaefnis, hvort sem það er framleiðsla fyrir RÚV eða aðra. http://www.ruv.is/i-umraedunni/opid-efstaleiti-utleiga-a-adstodum-og-taekjum-til-sjalfstaedrar-framleidslu

08.05.2018

Ari komst ekki áfram – Ísrael sigraði Eurovision

Ari Ólafsson var ekki meðal þeirra tíu sem komust upp úr fyrri undanúrslitum Eurovision. Þetta er fjórða skiptið í röð sem Ísland kemst ekki í úrslitin. Síðast komust Íslendingar áfram 2014 þegar Pollapönk komst í úrslit þar sem sveitin hafnaði í 15. sæti. http://www.ruv.is/frett/ari-komst-ekki-afram

09.05.2018

Kosningavefur RÚV opnaður

Nýr kosningavefur RÚV var opnaður. Þar var hægt að nálgast upplýsingar um alla framboðslista, fylgiskannanir í aðdraganda kosninga og kosningaprófið, og þar með finna sinn frambjóðanda. Hátt í 200 listar buðu fram í sveitarfélögunum 72. Kosningaritstjórn RÚV safnaði saman upplýsingum um þá alla og birti á kosningavefnum ásamt ýmsu fleiru. http://www.ruv.is/frett/nyr-kosningavefur-ruv-farinn-i-loftid

15.05.2018

Sævar hlýtur Vorvindaviðurkenningu IBBY

Sævar Helgi Bragason umsjónarmaður Krakkafrétta hlaut á dögunum viðurkenningu Vorvinda fyrir að miðla fróðleik til barna- og unglinga af mikilli eljusemi, ástríðu og fórnfýsi. Sævar Helgi hóf störf fyrir KrakkaRÚV haustið 2017 og er umsjónarmaður Krakkafrétta. Hann er einnig með vikulegan útvarpsþátt í Útvarpi KrakkaRÚV á Rás 1 þar sem hann fjallar um ýmislegt en þó mestmegnis um vísindi. http://www.ruv.is/i-umraedunni/saevar-helgi-hlytur-vorvindavidurkenningu-ibby

17.05.2018

Hugmyndadagar haldnir í annað sinn

Hugmyndadagar heppnuðust afar vel þegar þeir voru haldnir í fyrsta sinn haustið 2017 og var því ákveðið að hefja samtalið við þjóðina á ný. Dagana 15.-17. maí tókum við á móti þeim hópum og einstaklingum sem valdir voru til að kynna sínar hugmyndir fyrir dagskrárstjórum. Að þessu sinni bárust um 160 hugmyndir úr öllum áttum, frá atvinnu- og áhugamönnum og tæplega 70 þeirra hlutu áheyrn dagskrárstjóra RÚV, Rásar 1 og 2, KrakkaRÚV og RÚV núll. http://www.ruv.is/i-umraedunni/vel-heppnadir-hugmyndadagar

18.05.2018

Páll hlaut aðalverðlaun á Alþjóða tónaskáldaþinginu

Tónskáldið Páll Ragnar Pálsson hlaut aðalverðlaunin á Alþjóða tónskáldaþinginu, International Rostrum of Composers, í Búdapest 15.-19. maí, fyrir tónverkið Quake. Verk eftir tónskáldin Pál Ragnar Pálsson og Hildi Guðnadóttur voru tilnefnd af Ríkisútvarpinu til að taka þátt í Alþjóðlega tónskáldaþinginu. http://www.ruv.is/frett/pall-hlytur-adalverdlaun-a-tonskaldathinginu

18.05.2018

RÚV núll – þjónusta við ungt fólk sett á laggirnar

RÚV núll tók til starfa, ný þjónusta fyrir 15-29 ára þar sem ungt dagskrárgerðarfólk er í aðalhlutverki. Almannaþjónusta á að ná til allra aldurshópa og RÚV er meðvitað um að þarfir og kröfur yngri kynslóða breytast ört. Í stefnu RÚV til 2021 var sérstaklega tekið fram að mikilvægt sé að þróa stafræna miðla til að bæta þjónustuna í breyttum heimi. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-null-er-ny-thjonusta-fyrir-15-29-ara

06.06.2018

Fákafen hlaut Grímuverðlaunin

Uppfærsla Útvarpsleikhússins á leikritinu Fákafen eftir Kristínu Eiríksdóttur hlaut Grímuverðlaunin í flokki Útvarpsverka á Grímuhátíðinni. Kolfinna Nikulásdóttir leikstýrði verkinu. http://www.ruv.is/i-umraedunni/fakafen-valid-utvarpsverk-arsins-a-grimunni

12.06.2018

Mesta hlustun á Rás 1 frá upphafi mælinga

Hlustun á Rás 1 mældist nýverið sú mesta í einum mánuði frá því að rafrænar mælingar hófust fyrir 10 árum. Hlustunin á Rás 1 hefur verið að aukast jafnt og þétt síðustu þrjú ár og var hlutdeild rásarinnar 25,8% af heildarhlustun landsmanna í maímánuði. http://www.ruv.is/i-umraedunni/mesta-hlustun-a-ras-1-fra-upphafi-maelinga

15.06.2018

Yfirburðartraust til fréttastofu RÚV

Yfirburðatraust landsmanna til fréttastofu RÚV var enn og aftur staðfest í nýrri könnun MMR sem gerð var í maí. Alls báru 70% aðspurðra mikið traust til fréttastofu RÚV en traustið mældist að meðaltali 67,5% í könnunum MMR fyrir RÚV 2017. Aðrir miðlar standa RÚV langt að baki. http://www.ruv.is/i-umraedunni/yfirburdatraust-til-frettastofu-ruv

18.06.2018

Metáhorf á leik Íslands og Argentínu á HM

Áhorfið á leik Íslands og Argentínu, 63% meðaláhorf, er það mesta sem mælst hefur á íþróttaviðburð. Eldra metið var 58,8% áhorf á leik Íslands og Englands á EM í fótbolta 2016 en sá leikur var sýndur í beinni samtímis á RÚV og í Sjónvarpi Símans. Hlutdeild RÚV á meðan á leik stóð var 99.6% - sem í stuttu máli sýnir að nánast ALLIR sem voru á annað borð með kveikt á sjónvarpi á þessum tíma voru að horfa á leikinn. http://www.ruv.is/i-umraedunni/metahorf-a-leik-islands-og-argentinu-a-hm-2018

19.06.2018

Viðhorf til RÚV ekki jákvæðara í 12 ár

Ný viðhorfskönnun Gallups sem gerð var í maí sýnir að jákvæðni þjóðarinnar gagnvart RÚV og þjónustu þess hefur ekki verið meiri frá árinu 2006. Rúmlega 74% aðspurðra eru mjög eða frekar jákvæð gagnvart Ríkisútvarpinu sem er betri niðurstaða en á sama tíma í fyrra. Um 17% svara „hvorki né“ og 9% eru mjög eða frekar neikvæðir gagnvart RÚV, sem hafa ekki verið færri frá upphafi mælinga. http://www.ruv.is/i-umraedunni/jakvaett-vidhorf-til-ruv-ekki-verid-meira-i-12-ar

26.07.2018

Metáhorf á Heimsmeistaramótið í knattspyrnu

Áhorf á Heismeistaramótið í knattspyrnu á RÚV var með allra mesta móti. 94,5 landsmanna horfðu eitthvað á mótið og skipting milli kynja var nánast jöfn. Af heildaráhorfi á keppnina voru konur um 47% áhorfenda. http://www.ruv.is/i-umraedunni/hm-2018-metahorf

22.08.2018

Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2 á Menningarnótt.

Stórtónleikar Rásar 2, Tónaflóð, fóru fram í 21. sinn við Arnarhól á Menningarnótt í blíðskaparveðri. RÚV núll hóf leik og komu fram á dagskrá á þeirra vegum mikið af frambærilegasta unga tónlistafólki landsins. Söngkonurnar GDRN og Bríet, Herra Hnetusmjör og Huginn, Flóni, Birnir og tvíeykið Jói Pé og Króli. Að því loknu tók Rás 2 við dagskránni og fyrst á svið var samstarfsverkefni Prins Póló og Hjálma. Þá tóku við Írafár sem fögnuðu 20 ára afmæli sínu og stórhljómsveitin Todmobile var svo síðust á svið. http://www.ruv.is/i-umraedunni/tonaflod-stortonleikar-a-menningarnott-i-21-sinn

31.08.2018

Klassíkin okkar í þriðja sinn

Klassíkin okkar var send út beint í þriðja sinn föstudagskvöldið 31. ágúst. Tónleikarnir hafa markað upphaf menningarvetursins á RÚV undanfarin ár. Að þessu sinni var þemað Uppáhalds íslenskt og tóku RÚV og Sinfóníuhljómsveit Íslands saman höndum og leyfðu landsmönnum að velja efnisskrána á þessum fyrstu tónleikum sveitarinnar á starfsárinu. Það lag sem reyndist efst í kosningu þjóðarinnar á RÚV.is var lagið Heyr himna smiður eftir Þorkel Sigurbjörnsson við sálm Kolbeins Tumasonar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/klassikin-okkar-i-thridja-sinn

07.09.2018

Þrír þættir Rásar 1 tilnefndir til Prix Europa

Tilnefningar til Prix Europa-ljósvakaverðlaunanna voru kunngjörðar í vikunni og eru þrír íslenskir útvarpsþættir úr dagskrá Rásar 1 tilnefndir að þessu sinni. Upptaka útvarpsleikhússins á Mannasiðum var tilnefnd í flokknum besta útvarpsleikritið, Á ég bróður á Íslandi? var tilnefnd í flokknum besti heimildarþáttur í útvarpi, og R1918 fékk tilnefningu í flokknum stafræn miðlun. http://www.ruv.is/i-umraedunni/thrir-dagskrarlidir-a-ras-1-tilnefndir-til-prix-europa

13.09.2018

Þátttaka RÚV í Ísrael staðfest

RÚV tók ákvörðun að taka enn á ný þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, sem verður næst haldin í borginni Tel Aviv í Ísrael í maí 2019. Hvatning hafði borist stofnuninni um að sniðganga keppnina að þessu sinni vegna ástandsins á Gaza og átaka milli Ísraela og Palestínumanna. RÚV fór vandlega yfir málið og ákvað að ganga í takt við aðra almannaþjónustumiðla á Norðurlöndum. Vó þar þyngst að ekki er um pólitískan viðburð að ræða, heldur samkomu ólíkra þjóða sem allt frá stofnun hefur haft að megintilgangi og leiðarljósi að breiða út boðskap sameiningar- og friðar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/thatttaka-i-eurovision-2019-i-tel-aviv

21.09.2018

Nýtt fréttamyndver tekið í notkun

Nýtt fréttamyndver var tekið í notkun þegar kvöldfréttir voru í fyrsta sinn sendar þaðan út. Myndverið gjörbreytir aðstöðu fréttastofunnar. Sérhæft, sjálfstætt myndver gefur fréttastofunni færi á snarpari viðbrögðum, eykur hagkvæmni í rekstri og möguleika í framleiðslu. http://www.ruv.is/i-umraedunni/nytt-frettamyndver-ruv

16.10.2018

Höfundar áramótaskaupsins opinberaðir

Höfundar Áramótaskaupsins 2018 voru þau Ilmur Kristjánsdóttir, Jón Gnarr, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Sveppi og Arnór Pálmi Arnarson sem einnig leikstýrði, annað árið í röð. http://www.ruv.is/i-umraedunni/hofundar-aramotaskaupsins-opinberadir

01.11.2018

Málþing RÚV - Næst á dagskrá

Börn, ungt fólk og miðlun til framtíðar var í brennidepli á fjölmennu málþingi RÚV, Næst á dagskrá, sem haldið var í aðalmyndveri RÚV í byrjun nóvember. Fjallað var um lífsstíl og miðlanotkun yngri kynslóða, stefnu og þjónustu RÚV auk þess sem framúrskarandi erlendir gestir miðluðu af reynslu sinni. http://www.ruv.is/i-umraedunni/naest-a-dagskra

03.11.2018

Með gat í hjartanu í laginu eins og Guð

Glænýtt íslenskt heimildaverk eftir Jón Atla Jónasson í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar var flutt á Rás 1. Fjallað um var atburði sem farið höfðu leynt innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi. Verkið var unnið í samstarfi við Borgarleikhúsið og var tekið upp með áhorfendum á Nýja sviði Borgarleikhússins. http://www.ruv.is/i-umraedunni/med-gat-a-hjartanu-i-laginu-eins-og-gud

18.11.2018

Flateyjargátan frumsýnd

Flateyjargátan er ný, íslensk spennuþáttaröð í fjórum hlutum sem frumsýnd var á RÚV sunnudaginn 18. nóvember. Árið 1971 snýr Jóhanna aftur til Íslands, eftir 10 ára dvöl í París, til að jarða föður sinn sem helgað hafði líf sitt rannsóknum á hinni óleystu Flateyjargátu. Flateyjargátan var framleidd af Reykjavik Films og Sagafilm í samstarfi við RÚV. http://www.ruv.is/i-umraedunni/flateyjargatan-ny-islensk-spennuthattarod-hefst-sunnudaginn-18-november-a-ruv

07.12.2018

Aðventugleði Rásar 2

Rás 2 bauð landsmönnum til aðventugleði föstudaginn 7. desember. Þétt jóladagskrá var í loftinu frá klukkan 9 til 16, þar sem fjöldi landsþekktra tónlistarmanna kom við og tók lagið í beinni útsendingu á Rás 2 og í hljóði og mynd á RÚV.is. http://www.ruv.is/i-umraedunni/adventugledi-rasar-2-fostudaginn-7-desember

23.12.2018

Vegleg hátíðardagskrá í öllum miðlum

Boðið var upp á veglega dagskrá á öllum miðlum RÚV yfir hátíðarnar. Lögð var sérstök áhersla á vandað og skemmtilegt dagskrárefni fyrir alla fjölskylduna, framúrskarandi erlendar kvikmyndir og metnaðarfullt menningarefni. http://www.ruv.is/i-umraedunni/hatidardagskra-rikisutvarpsins-yfir-jol-og-aramot

26.12.2018

Ófærð II frumsýnd

Önnur þáttaröð Ófærðar hóf göngu sína á RÚV annan í jólum. Íslendingar fengu fyrstir allra að berja nýju þættina augum en þeir fóru ekki í sýningu í öðrum löndum fyrr en eftir áramót. Þættirnir, sem eru tíu talsins, voru sýndir á sunnudagskvöldum fram í febrúar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ofaerd-ii-frumsynd-a-annan-i-jolum

31.12.2018

Bára Halldórsdóttir, manneskja ársins á Rás 2

Hlustendur Rásar 2 völdu Báru Halldórsdóttur manneskju ársins. Bára tók upp samtal sex þingmanna á barnum Klaustri 20. nóvember 2018. Tilkynnt var um niðurstöðu kosningar á manneskju ársins í þættinum Á síðustu stundu á Rás 2 á gamlársdag. http://www.ruv.is/i-umraedunni/bara-halldorsdottir-manneskja-arsins-a-ras-2

.. árið á enda.