Rekstraryfirlit 2017: Áfram jákvæð afkoma af reglulegri starfsemi og endanlegt uppgjör á söluhagnaði vegna sölu á byggingarrétti

 

Á árinu 2017 var hagnaður af reglulegri starfsemi RÚV 201 m.kr. fyrir skatta og er það þriðja árið í röð sem afkoma RÚV er jákvæð. Samið var um sölu á byggingarrétti á lóð við Efstaleiti í október 2015 og á árinu 2017 fór fram endanlegt uppgjör á söluhagnaðinum, sem nam 174 m.kr. Lokagreiðsla vegna sölunnar barst í ársbyrjun 2018. Ábata af sölu byggingarréttarins ráðstafaði Ríkisútvarpið til niðurgreiðslu skulda. Heildarsöluverð byggingarréttarins byggðist á endanlegu byggingamagni.

 

Hagnaður fyrir skatta var 375 m.kr. en 321 m.kr. eftir skatta. Félagið mun ekki greiða skatta af hagnaðinum vegna uppsafnaðs taps frá fyrri tíð. Eiginfjárhlutfall félagsins hefur batnað umtalsvert á síðustu árum en það er nú 26,1% en var 6,2% í lok ársins 2015.

 

Breytingar í starfsemi og stefnu RÚV á síðustu fjórum árum hafa skilað sér í umtalsverðri hagræðingu og jafnvægi er komið á í rekstri félagsins. Markmiðið var að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er og er stór hluti Útvarpshússins nú leigður út. Stöðugildi voru að meðaltali 260 á árinu 2017 en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.

Hagnaður/tap, regluleg starfsemi: 2010 - 2017

Þróun eiginfjárhlutfalls: 2012 - 2017

Framtíðarhorfur og efnahagur

 

Þrátt fyrir jákvæðan viðsnúning í rekstri að undanförnu, þarf að gæta aðhalds til að tryggja áframhaldandi hallalausan rekstur þar sem opinberar tekjur félagsins hafa ekki hækkað í samræmi við launabreytingar samkvæmt kjarasamningum. Auk þess hafa möguleikar félagsins á öflun auglýsingatekna verið takmarkaðir umtalsvert með lagasetningum. Þá ríkir enn óvissa um framtíðarhorfur vegna mikillar skuldsetningar og skuldir eru þungur baggi á starfseminni. Hagnaður af sölu byggingarréttar á lóðinni við Efstaleiti er færður í ársreikningi 2016 og 2017 og leiðir til mestu skuldalækkunar í sögu félagsins.

 

Nýr þjónustusamningur til ársins 2020 tryggir stöðugleika í fjárveitingum og gerir félaginu kleift að gera eðlilegar langtímaáætlanir. Trygg og fyrirsjáanleg opinber fjármögnun er grunnforsenda þess að almannafjölmiðill geti rækt lýðræðis-, menningar- og samfélagshlutverk sitt af kostgæfni.

 

Hér má sækja ársreikning RÚV ohf fyrir árið 2017

Auglýsingar og kostun á RÚV

 

Tekjur RÚV á rekstarárinu 2017 af sölu auglýsinga og kostana nam 2.038.006.306 kr

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru kostaðir á árinu:

Alla leið, Álfukeppnin í fótbolta, Bikarkeppni í handbolta, Bikarkeppni í körfubolta, Bikarkeppni í blaki, EM í frjálsum íþróttum, EM kvenna í fótbolta, HM í sundi, Eurovision, Fangar, Hestaíþróttir, HM í frjálsum íþróttum, HM í handbolta, HM félagsliða, HM og heimsbikarmót í skíðaíþróttum, Íslandsmótið í fimleikum, Íslandsmótið í keilu, Íslandsmótið í golfi og golfmótaröðin, Íslandsmótið í handbolta, Íþróttamaður ársins, Landsleikir í fótbolta, Landsleikir í handbolta, Landsleikir í körfubolta, Meistaradagar í íþróttum, Menningarnótt, Mótorsport, Reykjavíkurleikarnir, Reykjavíkurmaraþon, Skólahreysti, Söfnunarútsending og Söngvakeppnin.

 

Eftirtaldir dagskrárliðir voru rofnir með auglýsingahléum á árinu:

Alla leið, Eurovision, Eddan, Gettu betur, Gríman, Íþróttamaður ársins, Menningarnótt, Meistaradagar, Reykjavíkurleikarnir, Skólahreysti, Söfnunarútsending, Söngvakeppnin, Tónlistarverðlaunin og Útsvar.