Menningarviðurkenningar RÚV voru afhentar á þrettándanum við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins, tilkynnt um orð ársins og Krókinn á Rás 2. Sölvi Björn Sigurðsson hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs, Emmsjé Gauti hlaut Krókinn 2016 og hrútskýring var valið orð ársins. Alls voru 46 styrkir veittir úr Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins árið 2016 og okkar ástsæla tónskáld Jón Nordal heiðraður fyrir starf sitt í þágu tónskálda, en hann lét af störfum hjá Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins, eftir 48 ára samfellda setu í stjórn. http://www.ruv.is/i-umraedunni/menningarvidurkenningar-ruv-afhentar-a-threttandanum
Kóðinn 1.0 og Micro:bit vöktu mikla athygli á BETT sýningunni í London sem er ein stærsta árlega sýningin í tengslum við upplýsingatækni í skólastarfi í Evrópu. KrakkaRÚV vann verkefnin í samstarfi við Samtök iðnaðarins og fleiri og snerust þau um forritanlegar smátölvur sem nemendur í 6. og 7. bekk í grunnskólum landsins fengu til að læra forritun. Framgangur Micro:bit-verkefnisins hér á landi hefur vakið mikla athygli í öðrum löndum Evrópu og hafa margar fyrirspurnir borist um fyrirkomulag og árangur. http://www.vb.is/frettir/smatolvur-til-forritunarnams/135045/?q=London
Þann 23. febrúar voru Fjölmiðlaverðlaun götunnar afhent við formlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni, og var blaða-, frétta- og dagskrárgerðarfólki, alls ellefu manns, veitt viðurkenning fyrir framlög sín til málefnalegrar umfjöllunar um fátækt á Íslandi á árinu 2016. Þeirra á meðal voru Þórhildur Ólafsdóttir (Rás 1), Lísa Pálsdóttir (Rás 1), Kristín Sigurðardóttir (fréttastofa RÚV) og Viktoría Hermannsdóttir (fréttastofa RÚV). http://www.ruv.is/i-umraedunni/thorhildur-lisa-kristin-og-viktoria-fengu-fjolmidlaverdlaun-gotunnar-i-dag
Sjónvarpsefni RÚV var þar sigursælt á Eddunni en sex af þeim sjö verðlaunum sem í boði voru fyrir sjónvarpsefni fóru til þátta á vegum RÚV. Helgi Seljan, þáttagerðarmaður í Kastljósi, hlaut Edduna sem sjónvarpsmaður ársins. Ævar Þór Benediktsson sigraði í flokki barna- og unglingaefnis þriðja árið í röð fyrir þætti sína um Ævar vísindamann. Leitin að upprunanum á Stöð 2 var valinn frétta- eða viðtalsþáttur ársins, Rætur var lífsstílsþáttur ársins, Með okkar augum menningarþáttur ársins og Orðbragð skemmtiþáttur ársins. Fjórir síðastnefndu þættirnir voru sýndir á RÚV, sem og Ófærð sem var valin sjónvarpsefni ársins af almenningi. Heiðursverðlaunin í ár hlaut ástsæll leikmyndahönnuður RÚV Gunnar H. Baldursson fyrir áratugastörf við leikmyndagerð í sjónvarpi og kvikmyndum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/eddan-2017-sjonvarpsefni-ruv-sigursaelt
Söngvakeppnin var einstaklega vönduð og glæsileg. Gríðarleg stemning var í troðfullri Laugardalshöll og hafa aldrei veirð fleiri áhorfendur í sal. Viðburðurinn hefur stækkað jafnt og þétt og er orðin að sannkallaðri þjóðarhátíð. 73% þjóðarinnar fylgdust með Söngvakeppninni á RÚV. Af þeim sem horfðu á sjónvarp á þessum tíma fylgdust 97% með Söngvakeppninni. Lagið Paper, í flutningi Svölu Björgvinsdóttur, bar sigur úr býtum í keppninni. Metþátttaka var í símaatkvæðagreiðslu Söngvakeppninnar og voru greidd um 243 þúsund atkvæði. http://www.ruv.is/frett/73-sau-svolu-sigra-i-songvakeppninni
Í mars hélt KrakkaRÚV námskeið fyrir krakka í upptöku- og útvarpsþáttagerð, í samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs. Námskeiðinu stjórnaði Sigyn Blöndal og efnið sem varð til á námskeiðinu var notað til flutnings í Útvarpsstundinni okkar á Rás 1. Um 30 krakkar tóku þátt í námskeiðinu en meðal þess sem heyra má eftir ungu útvarpsmennina er frumsamin útvarpssaga með leikhljóðum, menningarumfjöllun, viðtalsþáttur og samklipptir viðtalsbútar við fólk á ferli. http://www.ruv.is/i-umraedunni/krakkar-bua-til-efni-fyrir-utvarps-stundina-okkar
RÚV hlaut Gullmerki jafnlaunaúttektar PricewaterhouseCoopers (PwC) í mars 2017. Úttektin greinir hvort fyrirtæki greiðir starfsmönnum, óháð kyni, sömu laun fyrir sambærileg störf. RÚV fékk engar athugasemdir og þurfti ekki að koma til neinna breytinga eða lagfæringa til að fyrirtækið uppfyllti skilyrði, sem Gullmerkið byggir á. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-hlytur-gullmerki-jafnlaunauttektar-pwc
Stofnskrá nýs sjóðs, Tónskáldasjóðs RÚV og STEFs var undirritaður í aprílbyrjun og leysir tvo eldri sjóði af hólmi; Tónskáldasjóð RÚV og Tónskáldasjóð Rásar 2. Markmið sjóðsins er að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar, m.a. með því að veita fjárstuðning til höfunda fyrir tónsmíði og heildstæð verk. Sjóðurinn er fjármagnaður með framlagi frá RÚV og með hluta þeirra greiðslna sem RÚV greiðir í höfundarréttargjöld. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn styrki u.þ.b. 45 verkefni á ári. http://www.ruv.is/i-umraedunni/tonskaldasjodur-ruv-og-stefs-stofnadur
Hátíðardagskrá RÚV um páskana var fjölbreytt og vönduð og hlaut góðar viðtökur. Íslenskt efni var í öndvegi í sjónvarpinu og var sérstakur fókus á íslenskar konur í kvikmyndagerð og tónlist með sýningu leikinna sjónvarpsmynda, kvikmynda, heimildarmynda og tónverka eftir kvenhöfunda. Á Rás 1 var boðið upp á fjölmargar metnaðarfullar heimildarþáttaraðir, útvarpað var beint frá Aidu í Metrópólitan-óperunni og fjölskylduleikritið Skepnan eftir Hildi Knútsdóttur frumflutt. Rás 2 var í beinni útsendingu á Aldrei fór ég suður. http://www.ruv.is/i-umraedunni/paskadagskrain-a-ruv
RÚV vinnur markvisst að jafnréttismálum, jafnt í dagskrá sem og annarri starfsemi. Liður í þeirri vinnu er samræmd skráning á kynjahlutfalli viðmælenda sem tekin var upp 1. desember 2015 og er birt opinberlega á þriggja mánaða fresti. Tölur fyrir fyrsta ársfjórðung, 1. janúar – 31. mars 2017, staðfestu áframhaldandi jákvæða þróun í átt að jöfnuði karla og kvenna. Hlutfall karla og kvenna í dagskrá Rásar 1, Rásar 2 og RÚV fyrstu þrjá mánuði ársins er nánast jafnt, 51% karlar og 49% konur, og hlutfall fyrir dagskrá og fréttir samanlagt er 57% karlar og 43%. http://www.ruv.is/i-umraedunni/kynjabilid-minnkar-stodugt-i-dagskra-ruv
Á aðalfundi Ríkisútvarpsins 28. apríl var ný ársskýrsla var kynnt. Jákvæðar fréttir einkenndu árið, hallalaus rekstur, merkir áfangar og viðurkenningar í dagskrár-, frétta- og jafnréttismálum og viðhorf almennings til RÚV ohf. hafði aldrei verið jákvæðara. Leitast hefur verið við að skerpa á hlutverki almannaþjónustunnar með áherslubreytingum í dagskrá. Fjárhagsleg endurskipulagning skilaði viðsnúningi í rekstri og sala byggingarréttar skilaði mestu skuldalækkun í sögu félagsins. Ný stjórn var kjörin á fundinum: Ragnheiður Ríkharðsdóttir (formaður), Mörður Árnason, Guðlaugur G. Sverrisson, Jón Ólafsson, Friðrik Rafnsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Brynjólfur Stefánsson, Jón Jónsson, Birna Þórarinsdóttir og Valgeir Vilhjálmsson (áheyrnarfulltrúi starfsmanna). http://www.ruv.is/i-umraedunni/jakvaedur-rekstur-arid-2016 http://www.ruv.is/i-umraedunni/arsskyrsla-ruv-2016-sterk-stada http://www.ruv.is/i-umraedunni/nykjorin-stjorn-rikisutvarpsins-ohf
KrakkaRÚV og Reykjavíkurborg og buðu tíu ungmennum úr 8. til 10. bekk að gerast fréttamenn á Barnamenningarhátíð í Reykjavík 25.-30. apríl. KrakkaRÚV hélt í þriðja skiptið námskeið þar sem margir reynsluboltar innanhúss miðluðu af reynslu sinni og farið var yfir fréttaskrif, framsögn, viðtalstækni, internetið og tækni. Hópurinn fékk svo tækifæri til að fjalla um hátíðina í máli og myndum og birtust fréttirnar á KrakkaRÚV, RÚV.is og í Krakkafréttum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ungir-frettamenn-a-barnamenningarhatid
Þáttaröðin Með okkar augum hlaut mannréttindaverðlaun Reykjavíkurborgar. Þau eru veitt þeim einstaklingum, félagasamtökum eða stofnunum sem hafa á eftirtektarverðan hátt staðið vörð um mannréttindi tiltekinna hópa. Þáttarstjórnendur voru verðlaunuð fyrir að stuðla að vitundarvakningu um stöðu fólks með þroskahömlun, getu þess, skoðanir og langanir. Þættirnir hafa verið á dagskrá Ríkisútvarpsins síðastliðin sex ár og áætlar hópurinn að ráðast í framleiðslu á sjöundu þáttaröðinni innan tíðar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/thattarodin-med-okkar-augum-hlytur-mannrettindaverdlaun
RÚV og RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, gerðu með sér samkomulag um þróun og undirbúning sex til átta sjónvarpsþátta og kvikmyndar sem byggja á skáldverki Halldórs Laxness, Sjálfstæðu fólki. Um er að ræða eina umfangsmestu framleiðslu í íslenskri kvikmynda- og sjónvarpssögu. Gert er ráð fyrir að tökur hefjist síðla árs 2018. Baltasar Kormákur leikstýrir og skrifar handrit í samstarfi við fleiri höfunda. http://www.ruv.is/i-umraedunni/baltasar-kormakur-rvk-studios-og-ruv-gera-sjonvarpsthattarodina-sjalfstaett-folk http://www.ruv.is/i-umraedunni/ahugi-erlendis-a-framleidslu-thattaradarinnar-sjalfstaett-folk
Bætt þjónusta fyrir ungt fólk, aukið samstarf við skapandi greinar, opnari hugmyndaþróun, dýpri fréttaskýringar og stórsókn í leiknu íslensku efni er meðal þess sem RÚV leggur áherslu á í nýrri stefnu. Stefnan var kynnt 18. maí á vel sóttri ráðstefnu um fjölmiðlun til framtíðar í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Framúrskarandi erlendir fyrirlesarar tóku þátt í ráðstefnunni, fluttu erindi, miðluðu af reynslu sinni og brugðust við nýrri stefnu RÚV. Öll hafa þau öðlast viðamikla þekkingu í störfum sínum fyrir almannaþjónustumiðla víða um Evrópu. Nýja stefnan er afrakstur umfangsmikilla rannsókna, rýni á stefnu annarra almannaþjónustumiðla og samtals við starfsfólk, almenning og hagaðila. Stefnan verður leiðarljós Ríkisútvarpsins næstu ár og er uppskriftin að því hvernig RÚV ætlar að halda traustu sambandi við allan almenning til framtíðar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/2021 http://www.ruv.is/i-umraedunni/2021-en http://www.ruv.is/i-umraedunni/ny-stefna-ruv-til-2021-fjarfestir-i-framtidinni http://www.ruv.is/i-umraedunni/press-release-ruv-strategy-until-2021-presented http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-fjolmidlun-til-framtidar
Sunnudaginn 21. maí veitti Íslandsdeild IBBY (félagasamtök áhugafólks um barnabókmenntir og barnamenningu á Íslandi) sínar árlegu Vorvinda-viðurkenningar fyrir framlög til barnamenningar við athöfn í Gunnarshúsi. Vorvindaþegar voru fjórir í ár, en KrakkaRÚV hlaut viðurkenninguna fyrir framleiðslu efnis fyrir börn og með börnum, einkum fréttaefnis fyrir börn, og fyrir að gera eldra efni aðgengilegt. http://www.ruv.is/i-umraedunni/krakkaruv-faer-vorvinda-vidurkenningu-ibby
Ólafur Egill Egilsson var ráðinn úr hópi 79 umsækjenda í stöðu handritaráðgjafa hjá dagskrárdeild sjónvarps. Handritaráðgjafi gegnir þýðingarmiklu hlutverki í þróun leikins efnis. Í starfinu felst móttaka hugmynda, mat á verkefnum, þátttaka í verkefnavali og þróun handrita og framleiðslu á verkum sem RÚV er meðframleiðandi að. Samhliða ráðningu handritaráðgjafa tók til starfa fagráð um leikið efni sem fær til reglubundinnar meðferðar öll leikin verkefni á vegum RÚV. Þau leiknu verkefni sem RÚV tekur þátt í sem meðframleiðandi, aðalframleiðandi eða kaupandi sýningarréttar verða undir merkjum RÚV mynda. http://www.ruv.is/i-umraedunni/olafur-egilsson-til-lids-vid-ruv
Útvarpshúsið í Efstaleiti fylltist af fjörugum og kraftmiklum krökkum. Stundin okkar stóð fyrir áheyrnarprufum meðal barna sem áhuga höfðu á að taka þátt í gerð Stundarinnar okkar. Um 500 börn skráðu sig til leiks. Öllum 6-12 ára krökkum var boðið að koma og óhætt er að segja að áhuginn hafi verið gríðarlegur en löng röð myndaðist fyrir utan Efstaleitið strax og opnað var fyrir prufurnar. http://www.ruv.is/frett/barnaskari-hertekur-utvarpshusid
Kaupstefnan Scandinavian screening var haldin í Hörpu 6.-8. júní. Þar komu saman stærstu kaupendur sjónvarpsefnis og kvikmynda í heiminum til að kynna sér og festa kaup á norrænu sjónvarpsefni. Kaupstefnan var haldin hérlendis vegna rammasamnings RÚV og DR Sales um samstarf við kynningu, sölu og dreifingu á efni RÚV og annarra innlendra framleiðenda á alþjóðamarkaði. Kynntar voru 30 leiknar þáttaraðir og heimildarmyndir og var íslenskt efni í öndvegi. Með þessu skapaðist einstakt tækifæri fyrir það íslenska sjónvarpsefni sem DR-Sales hefur tekið að sér að kynna og selja og var þannig stuðlað að auknum samskiptum við áhrifamikla erlenda kaupendur í 60-70 löndum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/scandinavian-screening-heppnadist-vel
Yfirburðatraust á fréttastofu RÚV var enn á ný staðfest í könnun MMR. Alls báru 69,3% þátttakenda mikið traust til fréttastofunnar. Næstu fréttamiðlar á eftir RÚV, fréttastofa Stöðvar 2 og mbl.is, nutu trausts 41% svarenda. Viðhorfskönnun Gallup sýndi að mikill meirihluti landsmanna, rúmlega 72% aðspurðra, taldi að RÚV væri sá íslenski fjölmiðill sem væri mikilvægastur fyrir þjóðina. Þetta er stökk upp um 4,4 prósentustig frá fyrra ári og mest afgerandi útkoma þessarar könnunar í 15 ár, eða frá árinu 2002. Könnunin leiddi enn fremur í ljós að jákvæðni þjóðarinnar í garð RÚV og þjónustu miðilsins hefur ekki verið meiri frá 2006. Tæp 72% aðspurðra voru mjög eða frekar jákvæð. http://www.ruv.is/i-umraedunni/yfirburdatraust-til-ruv-traustid-styrkist-milli-ara http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-er-langmikilvaegasti-fjolmidillinn-ad-mati-thjodarinnar
Snærós Sindradótti var ráðin verkefnastjóri UngRÚV úr hópi 100 umsækjenda ágúst og leiðir uppbyggingu á þjónustu RÚV fyrir ungt fólk þvert á miðla. Ráðningin var meðal aðgerða í nýrri stefnu RÚV. http://www.ruv.is/i-umraedunni/snaeros-sindradottir-hefur-verid-radin-verkefnastjori-ungruv
RÚV stóð fyrir umfangsmestu umfjöllun um kvennaíþróttir frá upphafi í tengslum við EM kvenna í knattspyrnu. Allir miðlar studdu við umfjöllunina og áhorfsmet var slegið í fyrsta leik landsliðsins en þá var mesta áhorf á landsleik kvenna frá því að mælingar hófust 2008. Umfjöllun RÚV og stuðningur þjóðarinnar vakti athygli á erlendri grundu. http://www.ruv.is/frett/islensku-studningsmennirnir-stodu-upp-ur
Íslenska sprotaverkefnið Kóðinn var eitt af fjórum verkefnum sem kynnt voru í flokknum Proud to present, fyrir fullum sal stjórnenda útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu, á aðalfundi EBU sem haldinn var í ráðhúsinu í Dublin á Írlandi. Verkefnið þótti afar áhugavert, ekki síst hvernig fjölbreytt samstarf hins opinbera og einkaaðila getur skilað miklum árangri. Óskað var eftir frekari kynningu á verkefninu svo að fleiri almannaþjónustumiðlar Evrópu gætu sett af stað sams konar verkefni í sínu heimalandi. http://www.ruv.is/i-umraedunni/kodinn-er-eitt-fjogurra-verkefna-i-proud-to-present-hja-ebu-evropusambandi
Kóðinn 1.0 var meðal þeirra sprotaverkefna sem tilnefnd voru til verðlauna norrænna sprotafyrirtækja, Nordic Startup Awards. Kóðinn var tilnefndur í flokki verkefna sem þóttu hafa haft mest samfélagsleg áhrif. http://www.ruv.is/i-umraedunni/kodinn-tilnefndur-til-norraenna-sprotaverdlauna
RÚV stóð fyrir þriðja hægvarpi sínu með 24 klukkustunda útsendingu úr Hljóðrita. Þar gátu áhrofendur fylgst með Ásgeiri ásamt öðrum tónlistarmönnum, í samstarfi við RÚV og Rás 2, taka upp eins margar 7” vínylplötur og mögulegt var. Fyrri hægvörp voru Beint frá burði og Hringferð Sigur Rósar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/asgeir-beint-a-vinyl-haegvarp-i-hljodrita
Tónaflóð, stórtónleikar Rásar 2, voru á sínum stað á Menningarnótt í beinni útsendingu á Rás 2 og RÚV og að þessu sinni voru það Reykjavíkurdætur, Friðrik Dór, Svala og Síðan skein sól sem tróðu upp á þessum stærstu og fjölsóttustu tónleikum ársins. http://www.ruv.is/i-umraedunni/tonaflod-stortonleikar-rasar-2-a-menningarnott
Markvissar mælingar á hlutfalli karla og kvenna í hópi viðmælenda í föstum þáttum og fréttum voru teknar upp 2015. Tölur fyrir annan ársfjórðung 2017, 1. apríl til 30. júní 2017 sýndu að hlutfall viðmælenda var 51% karlar og 49% konur í sjónvarps- og útvarpdagskrá að undanskildum fréttum. Það er töluvert jafnara en á sama tímabili 2016. Sem fyrr er ójafnvægi meðal viðmælenda í fréttum en það ræðst að stærstum hluta af samfélagsaðstæðum. Talningin bendir til mun sterkari stöðu hjá RÚV en almennt hjá öðrum miðlum hérlendis. http://www.ruv.is/i-umraedunni/gott-kynjajafnvaegi-medal-vidmaelenda-ruv
KrakkaRÚV fékk góðan liðsstyrk fyrir haustið. Sævar Helgi Bragason, Jóhannes Ólafsson og Ingibjörg Fríða Helgadóttir bættust í hóp dagskrárgerðarmanna í útvarpi KrakkaRÚV og Krakkafréttum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/nyir-starfsmenn-hja-krakkaruv
Helstu rekstrarniðurstöður fyrstu sex mánaða ársins sýndu áframhaldandi jafnvægi í rekstri RÚV og niðurgreiðslu skulda. Skerpt hefur verið á sérstöðu RÚV og samstarf við sjálfstæða framleiðendur og aðra miðla aukið. http://www.ruv.is/i-umraedunni/rikisutvarpid-ohf-birtir-arshlutauppgjor-0
Spennuþáttaröðin Ófærð hreppti Prix Europa verðlaunin 2016 og var það í fyrsta sinn sem þau féllu íslenskri þáttaröð í skaut. Tilnefningin þykir mikill heiður enda eru verðlaunin ein þau stærstu sinnar tegundar í Evrópu. Meðal fyrri sigurvegara er danska sjónvarpsþáttaröðin Brúin. http://www.ruv.is/frett/fangar-tilnefndir-sem-besta-leikna-thattarodin
Á vormánuðum gafst almenningi færi á að kjósa sér draumaóperutónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands á vef RÚV. Þann 1. september lék Sinfóníuhljómsveit Íslands verkin sem flest atkvæði hlutu í sannkallaðri óperuveislu í beinni útsendingu úr Eldborgarsal Hörpu í samstarfi við Íslensku óperuna. Þetta er annað árið í röð sem RÚV sýnir beint frá Sinfóníutónleikum þar sem almenningur hefur fengið að setja saman efnisskrána. http://www.ruv.is/i-umraedunni/klassikin-okkar-heimur-operunnar-operuveisla-i-beinni-utsendingu-ur-eldborgarsal-horpu
RÚV hélt áfram að efla menningarumfjöllun sína og fór nýr menningarvefur í loftið 1. september. Þar sameinast menningarumfjöllun RÚV í öllum miðlum á einum stað. Stór og öflugur hópur dagskrárgerðarmanna og fréttamanna sem sinnir menningarumfjöllun í öllum miðlum sameinar krafta sína á nýja vefnum með menningarfréttir, gagnrýni, viðtöl og ítarlega umfjöllun af ýmsu tagi. http://www.ruv.is/i-umraedunni/ruv-heldur-afram-ad-efla-menningarumfjollun-sina
Afar góð viðbrögð voru við nýrri leikinni þáttaröð, Loforði, samstarfsverkefni Hreyfimyndasmiðjunnar og RÚV, sem var sýnd á sunnudagskvöldum í september. Athyglisvert var að mikið áhorf var á þættina í ólínulegri dreifingu. Eftir lokaþáttinn sátu aðalleikararnir, Andrea og Lúkas, fyrir svörum ásamt Góa handritshöfundi í beinni útsendingu á Facebook-síðu RÚV við góðar undirtektir. http://www.ruv.is/i-umraedunni/loford-ny-islensk-thattarod-fyrir-alla-fjolskylduna
Vetrardagskrá var kynnt í öllum miðlum RÚV og með tilkynningum til annarra fjölmiðla og á samfélagsmiðlum. Dagskrá allra miðla var gerð aðgengileg á sérsniðnum haustkynningarvef samhliða því sem auglýsingar voru birtar í útvarpi, sjónvarpi, á vef og samfélagsmiðlum. Menningarefni var í öndvegi í vetrardagskrá allra miðla með áherslu á innlent gæðaefni, þjónusta við börn og ungmenni var efld og umfjöllun um fréttir og samfélag dýpkuð. http://www.ruv.is/kynning http://www.ruv.is/i-umraedunni/fjolbreytt-og-spennandi-vetrardagskra-ruv-2017-2018
Yfir 80 milljónir króna söfnuðust í átakinu Á allra vörum, í samnefndum söfnunarþáttum á Rás 2, í söfnunarútsendingu sjónvarpsins og með sölu á varalitum. Ágóðinn rann til byggingar nýs húsnæðis fyrir Kvennaathvarfið, fyrir þolendur heimilisofbeldis sem ekki hafa í nein hús að venda. http://www.ruv.is/frett/a-allra-vorum-yfir-80-milljonir-sofnudust
Þjóðleikhúsið og RÚV lögðu saman krafta sína í lok sumars með leiksýningunni Með fulla vasa af grjóti. Lokasýningin var send út beint á RÚV 1. október. Líkt og fyrr fóru Hilmir Snær Guðnason og Stefán Karl Stefánsson með öll hlutverkin í þessu fyndna og hugljúfa verki. http://www.ruv.is/i-umraedunni/med-fulla-vasa-af-grjoti-i-beinni-a-ruv
Útvarpsstjórar norrænu sjónvarpsstöðvanna undirrituðu samkomulag á fundi í Stokkhólmi um aukið samstarf og stóraukna framleiðslu og framboð á leiknu, norrænu sjónvarpsefni. Áætlunin kveður á um aukin gagnkvæm skipti í formi samframleiðslu og sýningu á leiknu sjónvarpsefni. Þessi nýja áætlun styrkir mjög samstarf sjónvarpsstöðvanna. Markmiðið er að framleiða og bjóða upp á meira og vandaðra leikið, norrænt sjónvarpsefni. Samhliða verður lögð aukin áhersla á framboð slíks efnis í ólínulegri dagskrá í vefspilurum og efnisveitum sjónvarpsstöðvanna sem njóta síaukinna vinsælda. http://www.ruv.is/i-umraedunni/samnorraen-framleidsla-mun-storaukast
Á haustmánuðum slitnaði upp úr samstarfi ríkisstjórnarflokka og óvænt var boðað til kostinga 28. október. Kosningaumfjöllun RÚV hófst 8. október og var yfirgripsmikil og metnaðarfull að vanda, á vef, í útvarpi, sjónvarpi og samfélagsmiðlum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/kosningaumfjollun-ruv-hefst-8-oktober
Hugmyndadagar RÚV voru haldnir í fyrsta sinn dagana 10.-11. október og var kallað eftir hugmyndum og tillögum að dagskrárefni fyrir ungt fólk. Hugmyndadagar eru í samræmi við nýja stefnu RÚV or er markmiðið að auka enn fjölbreytni í dagskrá, opna hugmyndaþróunina og styrkja samtalið á milli RÚV og sjálfstæðra framleiðenda. Viðbrögðin fóru fram úr björtustu vonum, 217 hugmyndir bárust og 90 hópar og einstaklingar voru valdir til að kynna dagskrárstjórum RÚV hugmyndir sínar nánar. Á fjórða tug þessara hugmynda hafa nú þegar skilað sér í dagskrá eða eru í þróun. http://www.ruv.is/i-umraedunni/fjolbreyttar-og-frumlegar-tillogur-a-fyrstu-hugmyndadogum-ruv
Tökur á Ófærð 2 hófust á Siglufirði um miðjan október, en hún verður á dagskrá RÚV haustið 2018. „Þetta er eins og að fá fjölskylduna saman aftur,“ segir Ólafur Darri Ólafsson leikari og Sigurjón Kjartansson handritshöfundur lofaði nóg af hörmungum, dauða og skelfingu. Fyrri þáttaröð Ófærðar naut gífurlegra vinsælda, innanlands sem utan. Þættirnir voru meðal annars sýndir í Skandinavíu, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi, við góðar undirtektir. http://www.ruv.is/i-umraedunni/tokur-hafnar-a-ofaerd-2
Uppsetning Útvarpsleikhússins á framhaldsleikritinu Lifun eftir Jón Atla Jónasson hlaut þriðju verðlaun í flokki leikinna framhaldsverka fyrir útvarp á ljósvakahátíðinni Prix Europa, einni virtustu verðlaunahátíðinni á sviði fjölmiðlunar í Evrópu. Lifun fjallar um alræmdasta sakamál Íslandssögunnar; rannsóknina á hvarfi Guðmundar og Geirfinns Einarssona. Þetta er í þriðja sinn sem verk Útvarpsleikhússins hreppir þriðja sæti á hátíðinni og í annað sinn sem verk eftir Jón Atla hlýtur þann heiður því að verk hans, Djúpið, var í þriðja sæti árið 2011. http://www.ruv.is/i-umraedunni/lifun-faer-verdlaun-a-prix-europa
Uppfært stjórnskipulag RÚV var kynnt í lok október en það styrkir dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar. Nýmiðlasvið, Rás 2 og RÚVnúll sameinast í nýmiðlasviði, sem sinnir jöfnum höndum síkvikri dagskrárgerð á vef, í útvarpi og á samfélagsmiðlum. Þá verður til nýtt framleiðslusvið með aukinni áherslu á samstarf og útleigu. Dagskrársviðin eru styrkt með nýrri stöðu, framkvæmdastjóra miðla, sem veita mun liðsstyrk við samninga- og áætlanagerð, birgðastýringu og daglegan rekstur. Sjálfstæði fréttastofunnar er einnig formfest með enn skýrari hætti í nýju skipuriti sem og skilin milli dagskrárstjórnar og framkvæmdastjórnar RÚV. Formföst dagskrárstjórn fer með óumdeilt dagskrárvald og samhliða fækkum við í framkvæmdastjórn. http://www.ruv.is/i-umraedunni/oflugra-og-skarpara-ruv-til-framtidar
Deilt með tveimur Tónlistarhátíð Rásar 1 í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Tónskáldasjóð Ríkisútvarpsins var haldin í fyrsta sinn í Hafnarhúsinu laugardaginn 28. október. Fjórir rómaðir tónlistarhöfundar völdu sér tvo listamenn hver til samstarfs og afraksturinn var tónleikar með frumfluttum verkum eftir íslensk tónskáld. Tónleikarnir voru sendir út í beinni á Rás 1 og í myndstreymi á RÚV.is. Stefnt er að því að hátíðin verði árviss viðburður. http://www.ruv.is/frett/deila-tonleikum-med-tveimur
Kveikur er nýr vikulegur fréttaskýringaþáttur sem hóf göngu sína á RÚV þriðjudaginn 7. nóvember. Kveikur er svar við auknum kröfum um rannsóknarblaðamennsku og ítarlegar fréttaskýringar, innlendar sem erlendar í umsjón þaulreyndra fréttamanna RÚV. http://www.ruv.is/i-umraedunni/nyr-frettaskyringathattur-med-aherslu-a-rannsoknarbladamennsku
KrakkaRÚV var með bókaumfjöllun í beinni útsendingu 24. nóvember. Útsendingin markaði upphaf verkefnisins Sögur sem er víðtækt samstarf aðila sem starfa að barnabókmenntum, læsi barna og barnamenningu. Átta krakkar skipa svokallað bókaormaráð á vegum KrakkaRÚV og hafa lesið 12 bækur eftir og undirbúið viðtöl um þær með umsjónarmönnum KrakkaRÚV. Sögum fyrir börn verður miðlað á fjölbreyttan hátt; í bókum, leikverkum, tónverkum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum og verða verðlaun í ýmsum flokkum á Söguverðlaununum sem verða veitt við hátíðlega athöfn í lok apríl. Krakkar kjósa flesta verðlaunahafana sjálf, fagverðlaun verða veitt og krakkarnir verðlaunaðir. Hátíðin verður í beinni útsendingu á RÚV og verður án efa ein skemmtilegasta verðlaunahátíð á Íslandi. http://www.ruv.is/i-umraedunni/krakkar-raeda-barnabokmenntir-vid-hofunda
Fyrir rúmum mánuði var kynnt uppfært stjórnskipulag RÚV en það styður við nýja stefnu RÚV til 2021. Skipulagsbreytingarnar styrkja dagskrárþróun, framleiðslu og miðlun til stafrænnar framtíðar. Þá voru auglýst þrjú mikilvæg stjórnunarstörf laus til umsóknar. Alls bárust 76 umsóknir um störfin þrjú og eftir markvisst og vandað ráðningarferli hjá Capacent var niðurstaðan sú að Baldvin Þór Bergsson er dagskrárstjóri númiðla og Rásar 2, Birgir Sigfússon framkvæmdastjóri miðla og Steinunn Þórhallsdóttir framkvæmdastjóri framleiðslu og ferla. Öll hafa þau víðtæka menntun og reynslu sem mun nýtast vel í nýjum störfum. http://www.ruv.is/i-umraedunni/thrju-radin-i-stjornunarstodur-hja-ruv
RÚV hlaut hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands fyrir að sýna þættina Með okkar augum á besta áhorfstíma. Verndari verðlaunanna, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, afhenti þau á Hildon Nordica hótelinu 4. desember. http://www.ruv.is/i-umraedunni/med-okkar-augum-faer-verdlaun-obi
Boðið var upp á vandaða hátíðardagskrá fyrir alla aldurshópa í öllum miðlum RÚV um jól og áramót. Fjölbreytt tónleikadagskrá var á báðum útvarpsrásum ásamt vönduðum sérunnum þáttaröðum. Tvö framhaldsverk voru flutt í Útvarpsleikhúsinu. Í sjónvarpi var lögð sérstök áhersla á vandað og skemmtilegt dagskrárefni fyrir alla fjölskylduna, framúrskarandi erlendar kvikmyndir og metnaðarfullt menningarefni. Tvær íslenskar kvikmyndir voru frumsýndar; Hjartasteinn og Eiðurinn, frumsýnd var ný mynd um Reyni sterka og vönduð heimildarmynd um Sigurð Pálsson. Sjónvarpað var beint frá stórtónleikum Sigur Rósar í Hörpu og boðið upp á mikið úrval efnis í spilaranum RÚV yfir hátíðarnar. http://www.ruv.is/i-umraedunni/hatidardagskra-ruv
Una Margrét Jónsdóttir fékk í gær viðurkenningu frá Félagi fyrrverandi þjónandi presta fyrir útvarpsþáttaröð sína um sálmana í íslensku sálmabókinni.