22 Oct Árshlutauppgjör RÚV ohf.
Stjórn Ríkisútvarpsins ohf. samþykkti á fundi sínum í september árshlutauppgjör fyrir samstæðu RÚV fyrir fyrri hluta yfirstandandi árs. Þetta er fyrsta árið sem samstæðuuppgjör er gert, þar sem dótturfélagið RÚV Sala ehf. tók til starfa í ársbyrjun 2020. Tap var á rekstri samstæðunnar sem nam 281 m.kr. fyrir skatta, en 242 m.kr. eftir skattalega færslu, samanborið við 112 m.kr. tap á sama tíma í fyrra. Helsta ástæða aukins taps eru áhrif COVID-19, en breytingar koma fram í tekjufalli vegna sölu auglýsinga, kostnaðar við dagskrárgerð vegna faraldursins og sóttvarna. Einnig hefur lækkun á gengi krónunnar haft neikvæð áhrif á afkomu RÚV. Þegar hefur verið gripið til ýmissa hagræðingaraðgerða til þess að takast á við þessa breyttu stöðu innan ársins. Á sama tíma hefur einnig verið lögð áhersla á það mikilvæga hlutverk sem RÚV gegnir, ekki síst í því ástandi sem nú er. Það hefur verið gert með ítarlegri miðlun frétta og upplýsinga um stöðu og þróun mála, opinni og lýðræðislegri umræðu um helstu álitaefni, fræðslu til fólks bæði almennt og ákveðinna hópa og með afþreyingarefni af öllu tagi.
Sorry, the comment form is closed at this time.