21 Dec Nýr samningur um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu
Áhersla á íslenska tungu, miðlun á eldra efni, þjónustu við börn og ungmenni og aðgengi allra að miðlum RÚV eru meðal áhersluatriða í nýjum þjónustusamningi menningar- og viðskiptaráðherra við Ríkisútvarpið ohf. sem var undirritaður 21. desember og gildir frá 1. janúar 2024 til 31. desember 2027. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sagði við það tækifæri: “Í nýjum samningi er lögð áhersla á íslensku sem er í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar og aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu, sem ég mælti fyrir á Alþingi fyrr í mánuðinum. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu menningar- og félagslegu hlutverki og skiptir miklu máli að tryggja aðgengi allra þjóðfélagshópa að þeirra þjónustu.“ Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði um nýja samninginn að “Áherslurnar sem þar eru lagðar eru skýrar og í sterkum tengslum við þá stefnu RÚV sem mörkuð var á síðasta ári. Öflugt Ríkisútvarp auðgar íslenska fjölmiðlaflóru og samfélagið í heild sinni, enda starfar það dag hvern í þágu fjölbreytts íslensks samfélags. Þeir fjármunir sem varið er til rekstrar RÚV fara beint í framleiðslu og miðlun á fjölbreyttu efni af öllu tagi í sjónvarpi, útvarpi og vef. Slík framleiðsla og miðlun á gæðaefni á íslensku er mikilvæg til að styrkja og efla íslenska tungu á tímum þegar að henni er sótt úr mörgum áttum.“
Sorry, the comment form is closed at this time.