Haustið 2015 breyttist menningarumfjöllun talsvert og framboðið var aukið. Djöflaeyjan var tekin af dagskrá og menningu sinnt með reglubundnari hætti í Kastljósi undir heitinu Menningin Í Kiljunni var að venju fjallað um bókmenntir, sígild tónlist fékk sinn sess í þáttunum Útúrdúr, sýndar voru upptökur frá viðburðum á Listahátíð og hljómsveitir og tónlistarmenn fluttu nýja popptónlist í myndveri RÚV í þættinum Stúdíó A. Þá voru teknir til sýninga einstakir heimildaþættir um sögu og þróun rokk- og popptónlistar á Íslandi í þáttunum Popp- og rokksaga Íslands. Þáttaröðin Stóra sviðið afhjúpar töfraheim leikhússins og sköpunarferlið frá handriti til frumsýningar. Sýningar á þeirri þáttaröð hefjast í byrjun árs 2016. Rík áhersla var lögð á útsendingar og upptökur á hvers konar menningartengdum viðburðum. Þar bar hæst fyrstu beinu sjónvarpsútsendinguna frá opnunartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpu í september þar sem Kristinn Sigmundsson flutti eftirlætis aríur sínar
Sérstakur viðburður var í beinni útsendingu um miðjan maí. Þá var í fyrsta sinn ráðist í meira en sólarhrings langa útsendingu frá sauðburði, beint frá fjárhúsunum á Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Óhætt er að segja að útsendingin hafi vakið mikla athygli, umtal og ánægjum hjá áhorfendum.
Unga fullorðna fólkið í áhorfendahópi RÚV fékk eitthvað við sitt hæfi með Edduverðlaunaþættinum Hæpinu sem sló í gegn haustið 2014. Þar eru ýmis óvenjuleg en aðkallandi málefni skoðuð frá skemmtilegu og áleitnu sjónarhorni og leitað svara við spurningum sem brenna á ungu fólki. Önnur þáttaröðin var sýnd 2015 og von er nýjum þáttum vorið og haustið 2016.
Leikið íslenskt efni var á dagskrá alla sunnudaga frá og með haustinu 2015. Nýjar metnaðarfullar sjónvarpsþáttaraðir á borð við Drekasvæðið og Frímínútur voru frumsýndar auk þess sem sýningar á Ófærð, viðamestu og um leið farsælustu sjónvarpsþáttaröð sem framleidd hefur verið á Íslandi, hófust í lok árs. Fjölmargar nýjar íslenskar kvikmyndir voru frumsýndar ásamt verðlaunastuttmyndum og sígildum kvikmyndum í endurbættri útgáfu.
Leikið efni skipaði stóran sess í dagskrá RÚV á tímabilinu. Áhersla var lögð á að bjóða uppá á úrval af allra frambærilegasta sjónvarpsefni frá Evrópu og heiminum öllum, einkum frá Norðurlöndum, Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi en þó sem víðast hvar að til að tryggja sem mesta fjölbreytni og gefa innsýn í framandi menningarheima.
Dregið hefur verið úr sýningum á bandarísku efni á kjörtíma en norrænt efni aukið.
Ísland og íslenskir leikarar hafa komið við sögu í stórum erlendum sjónvarpsþáttaröðum á RÚV. Má þar nefna Fortitude þar sem Björn Hlynur Haraldsson leikur lögreglumann og Poldark þar sem Heiða Rún Sigurðardóttir leikur eitt af aðalhlutverkunum.
Stóraukin áhersla og metnaður er nú lagður í framleiðslu barnaefnis. Gæði og framboð innlends barnaefnis endurspeglast ekki síst í KrakkaRÚV sem sett var á fót sumarið 2015 og er yfirheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn í sjónvarpi, útvarpi eða á vefnum. Kjarninn í starfseminni er www.krakkarúv.is þar sem nálgast má allt innlent barnaefni RÚV, gamalt og nýtt, fjölda myndskeiða úr safni sjónvarps og talsettar teiknimyndir. Jafnframt má hlusta á íslenska tónlist og úrval vandaðra útvarpsþátta og fara í fjölbreytta tölvuleiki sem reyna á rökhugsun og ímyndunarafl. Haustið 2015 fór í loftið vandaður fréttaþáttur fyrir börn, Krakkafréttir. Þar er fjallað um málefni líðandi stundar á auðskilinn og greinargóðan hátt og heimsfréttirnar settar í samhengi við veruleika íslenskra barna.
RÚV sýndi fjölbreyttar erlendar heimildarmyndir og fræðsluþætti á mánudags- þriðjudags- og miðvikudagskvöldum. Þar á meðal myndir um sögulega atburði á borð við fyrri heimstyrjöldina, flóttamannastrauminn til Evrópu, og útrýmingarbúðirnar í seinni heimstyrjöldinni. Einnig myndir um málefni líðandi stundar svo sem náttúru- og umhverfisvernd, heilsufar og lífstíl og helstu fréttir úr heimi vísindanna .
Stundin okkar og Ævar vísindamaður eru stoltir Edduverðlaunahafar. Fyrir jólin var framleidd og sýnd sjónvarpsmynd í þremur hlutum, Klukkur um jól, þar sem börn fóru með krefjandi aðalhlutverk. Myndin tók sæti Jólastundarinnar þetta árið og fjallar um vandamál, afleiðingar og ekki síst farsælar lausnir í eineltismálum hjá börnum á grunnskólaaldri.
Sumarið einkenndist af Sumardögum RÚV. Dagskrárgerðarfólk lagði land undir fót, sótti heim fjölda bæjarfélaga og fangaði bæjarlífið í beinni útsendingu auk þess sem fréttir voru sendar út frá völdum stöðum við góðar undirtektir landsmanna.
Nýr dagskrárrammi haustið 2014
Haustið 2014 var dagskrárrammanum breytt talsvert. Morgunútgáfan var nýr þáttur að morgni kl. 7-9 á samtengdum rásum. Hann var í umsjá Óðins Jónssonar, Hrafnhildar Halldórsdóttur og Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur. Þá hófu einnig göngu sína á virkum morgnum þátturinn Bergmál, léttur tónlistarþáttur undir stjórn Kjartans Guðmundssonar með dægurlögum frá fyrri tíð og mannlífsþáttur í umsjón Guðrúnar Gunnarsdóttur og Magnúsar R. Einarssonar sem nefnist Mannlegi þátturinn. Þeir skapa ásamt viðtalsþætti Sigurlaugar M. Jónasdóttur, Segðu mér, léttleikandi stemmningu á morgnana með sögum af fólki og almennri og upplýsandi umfjöllun um mannlíf í sögu og samtíð.
Strax eftir hádegi var nýr fréttatengdur þáttur um samfélagsmál, Samfélagið, í umsjón Leifs Haukssonar og Hönnu G. Sigurðardóttur. Síðdegis var nýr tónlistarþáttur, Hátalarinn í stjórn Péturs Grétarssonar, einkum um djass og nýja tónlist af ýmsu tagi. Hátalarinn myndar sterka og áhugaverða menningarþáttatvennu með Víðsjá sem hélt sínu striki kl. 17 alla virka daga.
Í október 2014 fór fyrsti þáttur Bókar vikunnar í loftið á laugardögum en hann er nú sendur út á sunnudögum. Maður á mann nefnist þáttur í umsjá Kjartans Guðmundssonar sem ræðir við íþróttahetjur fyrri tíðar. Hann byrjaði einnig á laugardögum en færðist yfir á sunnudaga sl. haust. Veturinn 2014-2015 var á dagskrá á sunnudagsmorgnum þáttaröðin Áhrifavaldar þar sem listamenn sögðu frá áhrifavöldum sínum.
Styrking heildarmyndar haustið 2015
Breytingar gerðu dagskrá virkra daga markvissari. Þeim var fylgt eftir haustið 2015 með það að stefnumiði að styrkja heildarmynd dagskrárinnar og auka gerð samsettra þátta og heimildaþátta. Þáttaröðinni Þráðum var komið á fót á laugardagsmorgnum í september 2015. Þar er fjallað um ýmis efni frá fjölbreyttu sjónarhorni og mikið lagt upp úr efnisöflun, rannsóknarvinnu, hljóðmynd og samsetningu. Eftir hádegi á laugardögum eru þættirnir Sögur af landi sem eru að mestu leyti unnir af dagskrárgerðarfólki RÚV á landsbyggðinni. Þar er sömuleiðis lagt mikið upp úr hljóðmynd. Síðdegis á laugardögum voru þematískar tónlistarþáttaraðir um stærri og minni efni úr heimi tónlistarinnar, bæði söguleg og samtímaleg. Fyrsta röðin stóð til desemberloka 2015 og hét Þar sem orðunum sleppir, umsjónarmenn voru Guðni Tómasson og Helgi Jónsson. Þar var fjallað um vestræna tónlistarsögu í sögulegu og hugmyndalegu samhengi. Í þáttunum var rætt við leika sem lærða og flutt hljóðdæmi. Í systurþættinum, Þá tekur tónlistin við, síðdegis á mánudögum voru verkin sem til umfjöllunar voru leikin í heild sinni.
Aukning á barnaefni
Haustið 2015 voru einnig gerðar breytingar á barnaefni Rásar 1. Leynifélagið, sem hafði verið á dagskrá fjögur kvöld í viku, hætti. Í staðinn komu fjórir nýir þættir, Vísindavarp Ævars í umsjá Ævars Þórs Benediktssonar, Inn í heim tónlistarinnar með Möggu Stínu í umsjá Margrétar Kristínar Blöndal og Saga hugmyndanna og Saga hlutanna í umsjá Sigynjar Blöndal. Allt eru þetta þættir þar sem mikið er lagt upp úr samsetningu, textagerð og hljóðmynd. Einnig voru sendar út gamlar upptökur af lestri þjóðsagna.
Tónlist á Rás 1
Tónlist og tónlistartengdir þættir hafa ætíð verið stór hluti af dagskrá Rásar 1. Klassísk tónlist og nútímatónlist er í brennidepli en einnig djass, dægurlög fyrri tíðar, heimstónlist og það sem skarar fram úr í nýrri tónlist af öllum gerðum, hérlendis sem erlendis. Af nýjum tónlistarþáttum á Rás 1 má nefna Á reki sem Kristján Kristjánsson sér um á laugardagsmorgnum og Hálfnótuna í umsjón Arndísar Bjarkar Ásgeirsdóttur alla virka morgna. Sveifludansar hófu göngu sína haustið 2015. Þar er leikin létt sveiflutónlist á laugardagskvöldum.
Útvarpsleikhúsið
Útvarpsleikhúsið bryddar stöðugt upp á ýmsum nýjungum þar sem m.a. eru kannaðir möguleikar hljóðheimsins. Jafnframt flytur það perlur fortíðar úr safni sínu. Leikhúsið er margverðlaunað heima og heiman og er talið meðal þeirra bestu í heiminum í dag. Frá september 2014 til desember 2015 voru ellefu leikrit frumflutt í Útvarpsleikhúsinu þar af tvö framhaldsleikritið fyrir fjölskylduna, Elsku Míó minn sem var flutt um páskana 2015 og Leifur óheppni sem var flutt um jólin 2015.
Í lok árs 2015 lét Viðar Eggertsson af störfum eftir að hafa verið útvarpsleikhússtjóri í átta ár. Þorgerður E. Sigurðardóttir var ráðin í hans stað og hóf störf 1. desember 2015.
Íslenskt tónlistarútvarp
Rás 2 er fyrst og fremst íslenskt tónlistarútvarp. Hlustendum er kynnt ný tónlist og sérstaklega ný íslensk tónlist. Af hundrað mest spiluðu lögum ársins 2015 voru fimmtíu og sex íslensk. Rúmlega helmingur tónlistarinnar á Rás 2 er því íslensk og þar á grasrótin í íslensku tónlistarlífi sér athvarf. Vegna þessa ábyrgðarhlutverks var ákveðið haustið 2015 að auka áherslu á gagnrýni. Andrea Jónsdóttir og Arnar Eggert Thoroddsen ásamt umsjónarmönnum Popplands taka fyrir eina íslenska plötu í viku hverri. Arnar skrifar auk þess gagnrýni um plötuna á rúv.is. Hlutverk Rásar 2 er líka að viðhalda menningararfinum. Það er haft að leiðarljósi í þáttunum Árið er. Þeir hafa vakið mikla athygli og fengu t.a.m. verðlaun Samtóns fyrir framúrskarandi vinnu í þágu íslenskrar tónlistar árið 2014. Þættirnir voru á dagskrá haustið 2014 og veturinn 2015.
Rás 2 í beinni útsendingu
Rás 2 er mikilvægur hluti af menningarlífi landsmanna, tónlist, fréttum, dægurmálum og ekki síst viðburðum – Rás 2 leggur áheyrslu á að vera á staðnum, fyrir hlustendur. Dagskrárgerðarmenn Rásar 2 eru í beinni útsendingu frá Reykjavík á 17. Júní, á Ísafirði á Aldrei fór ég suður, á landsleiknum á Laugardalsvelli, á bræðslunni á Borgarfirði. Þetta er ekki einungis gott útvarp heldur ómetanleg heimild um Íslendinga og íslenska tónlist samtímans. Rás 2 leggur aukna áherslu á viðburðarútvarp, t.a.m. aldrei verið jafn viðriðin Iceland Airwaves hátíðina og árið 2015 en það ár var einnig metár í tónleikaupptökum og viðburðum með beinum útsendingum í útvarpi, á vef og í sjónvarpi.
Fréttir og dægurmál á Rás 2
Í frétta- og dægurmálaþáttum upplýsum við landsmenn um málefni líðandi stundar hvort sem um er að ræða stórar fréttir eða litlar, þungavigt eða léttmeti. Haustið 2014 hóf nýtt Síðdegisútvarp göngu sína undir stjórn Bergsteins Sigurðssonar og Bjargar Magnúsdóttur. Guðmundur Pálsson tók svo við af Bergsteini í janúar 2016. Haustið 2015 fór nýtt Morgunútvarp í loftið undir stjórn Guðrúnar Sóleyjar Gestsdóttur og Sigmars Guðmundssonar. Helgarútgáfan í umsjón Hallgríms Thorsteinssonar hóf göngu sína veturinn 2015.
Á kvöldin ræður tónlistin ríkjum
Margir bestu tónlistargrúskarar landsins hjálpa okkur víkka út sjóndeildarhringinn. Við kynnumst og fræðumst um tónlist sem hefði sennilega aldrei fangað athygli okkar, gamla og nýja, innlenda og erlenda.
Áttunda útgáfa RÚV.is var vígð 2015, nítján árum eftir að RÚV steig sín fyrstu skref á vefnum. Nýi vefurinn var afrakstur mikillar greiningarvinnu, þar sem m.a. var stuðst við spurningavagn Gallups, vefkönnun þar sem yfir 9000 svör bárust. Þá voru hönnunarskissur bornar undir rýnihópa. Um leið var ákveðið að endurforrita vefinn frá grunni.
Afraksturinn var vefur sem er aðlaðandi, sjónrænn og aðgengilegur í öllum tækjum, frá borðtölvu til snjallsíma. Áttunda útgáfa vefsins endurspeglar breitt efnisframboð RÚV betur en áður hefur verið gert.
Þjónusta við notendur var stórbætt, með ítarlegu „spurt og svarað“-svæði þar sem auðvelt er að sækja upplýsingar um fyrirtækið og margs konar tæknilega aðstoð.
Sarpurinn var jafnframt endurhannaður frá grunni og byggt á sömu hönnun í snjalltækjaappi.
RÚV á að vera aðgengilegt öllum landsmönnum, líka þeim sem eru t.a.m. lesblindir, blindir eða heyrnarlausir. Mikil vinna fór í að tryggja að RÚV.is væri aðgengilegur. Í samvinnu við sérfræðing í aðgengismálum voru útbúnar leiðir fyrir blinda til að notfæra sér allt efnisframboð á vefnum, t.d. Sarpinn. Þá er vefþula tengd öllum texta og þarf einn músarsmell til að fá upplestur. Þá var lögð áhersla á að Vefvarpið, þjónusta Blindrafélagsins, væri tengd RÚV.is.
Endurbætt viðmót vefsins tryggir að allt það besta sem RÚV hefur upp á að bjóða rati til lesenda, hlustenda og áhorfenda. Hönnunin hefur reynst um margt áhrifarík, með aukinni áherslu á myndræna framsetningu og ritrýnt efni.
Allar leiðir að vinsælustu efnisþáttum vefsins voru einfaldaðar með það fyrir augum að einungis þyrfti 1-2 músasmelli til að komast á áfangastað.
Notendum vefsins fjölgaði lítillega á milli ára en heimsóknum fjölgaði og hver þeirra var lengri en árið áður.
Auk hefðbundinna viðfangsefna fréttastofunnar á árinu voru nokkur stór alþjóðleg mál á meðal þeirra sem RÚV fjallaði um í návígi. Fréttateymi RÚV voru m.a. send til Hvíta-Rússlands þar sem flóttamenn frá Úkraínu hafast við, til Parísar vegna hryðjuverkaárásar í nóvember og aftur í desember á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Stærsta fréttamál ársins var án efa flóttamannastraumurinn til Evrópu og þær áskoranir sem honum fylgdu. Fréttastofan og dagskrárdeild sjónvarps sendu teymi til Evrópu (Ungverjalands, Austurríkis og Þýskalands) og svo undir árslok til Líbanons. Afraksturinn var vandaður fréttaflutningur í útvarpi, sjónvarpi og á vef beint frá vettvangi, umfjöllun sem færði landsmenn nær sögulegum viðburðum.
Hér heima var óveður fyrirferðarmikið og fréttastofan var ítrekað á hamfaravakt enda treystir almenningur á að Ríkisútvarpið flytji jafnharðan traustar fréttir af veðri, færð og almannavá. Áður var útvarpið í aðalhlutverki í hamförum en breytt tækni og samfélag gera aðrar og víðtækari kröfur um símiðlun í sjónvarpi og á vef. Í mars og tvígang í desember var fréttastofan með sérstakan viðbúnað t.d. með aukafréttatímum og beinum innkomum af landsbyggðinni jafnt sem höfuðborgarsvæðinu.
Eldgosinu í Holuhrauni lauk í febrúar og í sömu viku var sýndur í sjónvarpinu heimildarþáttur sem fréttastofan og dagskrárdeild sjónvarps framleiddu.
Viðtals- og fréttaskýringarþátturinn Kastljós var efldur haustið 2015. Þóra Arnórsdóttir var ráðin ritstjóri. Nýr dagskrárliður, Menningin, bættist við þrisvar sinnum í viku undir stjórn Brynju Þorgeirsdóttur.
Áætlanir RÚV um að efla starfsemi á landsbyggðinni gengu eftir og fjórir frétta- og dagskrárgerðarmenn voru ráðnir. Fréttamaður er í fullu starfi á Ísafirði og dagskrárgerðarmaður á Akureyri auk þess sem ráðið var í hálft starf á Austurlandi og hálft starf á Suðurlandi.
Íþróttadeildin framleiddi þættina Handboltalið Íslands í ársbyrjun 2015. Hópur sérfræðinga valdi sjö bestu handboltalið Íslandssögunnar í kvenna- og karlaflokki. Markmiðið var að rifja upp bestu handboltaliðin á skemmtilegan og fræðandi hátt og varðveita um leið sögu handboltans á Íslandi. Í þáttunum var íslenskt samfélag tvinnað inn í handboltasöguna – sagt frá því sem var áberandi í tónlist, tísku eða pólitík hverju sinni. Besta liðið var valið í beinni útsendingu úr sjónvarpssal og vakti það mikla athygli, ekki síst í öðrum fjölmiðlum.
Íþróttalífið hóf göngu sína haustið 2015. Í þáttunum var fjallað um íþróttalíf Íslendinga, jafnt vinsælar greinar sem minna þekktar. Hvaða börn skara fram úr og hverjir sitja eftir? Er hægt að ná góðum árangri án þess að hafa alltaf verið hreystimenni? Hver er ástæðan fyrir frábærum árangri okkar í íþróttum? Þessar spurningar voru til umfjöllunar einstaklega vel gerðum þáttum. Oftar en ekki var umfjöllunarefnið ólíkt því sem við eigum að venjast í daglegri íþróttaumfjöllun fjölmiðla á Íslandi.o.
Stærsta verkefni íþróttadeildar var án efa sýningar á heimaleikjum íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM í knattspyrnu. Knattspyrnusamband Evrópu gerðu miklar kröfur til þeirra sjónvarpsstöðva sem sýndu leikina í beinni útsendingu. 50-70 manns á vegum RÚV komu að útsendingu á hverjum leik og umsögn UEFA um frammistöðu RÚV var mjög góð. Knattspyrnusamband Íslands veitti íþróttadeild RÚV sérstök fjölmiðlaverðlaun fyrir færni og fagmennsku á sviði sjónvarpsútsendinga frá knattspyrnuleikjum á hæsta þrepi íþróttarinnar.
Árið 2015 var KrakkaRÚV kynnt til sögunnar. KrakkaRÚV er liður í því að stórauka þjónustu RÚV við börn. Það er ævintýraheimur þar sem börn geta nálgast fjölbreytt úrval af framúrskarandi efni af ólíku tagi og allt á íslensku.
KrakkaRÚV er yfirheiti yfir alla þjónustu RÚV við börn; hvort sem er í sjónvarpi, útvarpi eða á vefnum. Kjarninn í starfseminni er splunkunýr vefur, www.krakkaruv.is. Jafnframt fór stafræn útvarpsstöð, Útvarp KrakkaRÚV, í loftið sem og vandaður fréttaþáttur fyrir börn þar sem fjallað er um málefni líðandi stundar á auðskilinn hátt og greinargóðan hátt.
.
Á KrakkaRÚV.is og í Sarps-appinu má hlusta á Útvarp KrakkaRÚV. Þar er flutt íslensk barnatónlist alla daga vikunnar í bland við vandaða barnaþætti. Fyrstu mánuðina var megináhersla lögð á að leika íslenska barnatónlist og endurflutning á barnaþáttum af Rás 1. Stefnt er að því að auka vægi nýs efnis og auka þátttöku barna í efnisgerð.
Kjarninn í starfseminni er glænýr vefur, www.krakkarúv.is. Þar er hægt að horfa á hundruð myndskeiða úr safni sjónvarps sem og nýja afþreyingu sem er sérstaklega framleidd fyrir vefinn. Úrval talsettra teiknimynda er mikið og fjölbreytt og hafa samningar náðst við rétthafa um 30 daga birtingarrétt sem fjórfalt meira en áður. Í boði verður fjölbreytt úrval tölvuleikja sem reyna bæði á rökhugsun og ímyndunarafl ásamt nægri útrás fyrir sköpunarkraftinn í fjölmmörgum áskorunum sem hvetja börn skapandi verka.
Fyrsti þátttur Krakkafrétta fór í loftið í nóvember. Í Krakkafréttum er fjallað um málefni líðandi stundar á auðskilinn og greinargóðan hátt og heimsfréttirnar settar í samhengi við veruleika íslenskra barna.
Mikil áhersla er lögð á að raddir barna heyrist í Krakkafréttum og er innsendu efni gert hátt undir höfði. Á einfaldan hátt er hægt að deila myndskeiðum og ljósmyndum og senda inn hugmyndir að umfjöllunarefni. Þannig geta allir krakkar hjálpað til við að móta fréttaþáttinn.
KrakkaRÚV hefur fengið mjög góðar viðtökur og skipað sér sess í íslensku samfélagi. Notendahópurinn er traustur og um 13.000 börn heimsækja síðuna í hverri viku. Hver notandi dvelur dágóða stund á KrakkaRÚV.is og flettir í gegnum þó nokkuð margar undirsíður. Við höfum fengið hundruð innsendra spurninga, hugmynda, ljósmynda, sagna og myndbanda frá börnum.
KrakkaRÚV og Krakkafréttir hafa fengið mikið lof frá foreldrum og hafa ófá þakkarbréf borist og mikið hrós á samfélagsmiðlunum. Þá var vefurinn krakkarúv.is tilnefndur sem besti vefmiðill ársins 2015 af samtökum vefiðnaðarins og Krakkafréttir fengu Eddu-tilnefningu fyrir besta barnaefnið.
KrakkaRÚV er sjálfstæð eining innan RÚV þar sem nýsköpun er höfð að leiðarljósi og áhersla lögð á samstarf við ungt og hæfileikaríkt fólk. Jafnframt er lögð mikil áhersla á samstarf við mennta- og fræðslustofnanir í íslensku samfélagi þar sem sameiginlegur ávinningur getur skapast. Dæmi um slíkt samstarf er við Umhverfisstofnun, Samfés, leikskóla, grunnskóla og Samtök um fjármálalæsi.