Rekstraryfirlit 2015: Viðsnúningur í rekstri frá fyrra ári og jákvæð afkoma
Viðsnúningur varð á rekstri RÚV frá fyrra ári og rekstrarafkoma var jákvæð á árinu 2015. Afkoma sextán mánaða tímabilsins var 14 m.kr. hagnaður fyrir skatta, samanborið við 339 m.kr. tap fyrir skatta á síðasta rekstarári. Á almanaksárinu 2015 var 80 m.kr. hagnaður fyrir skatta, samanborið við 232 m.kr. tap fyrir skatta á árinu 2014.
Breytingar síðustu tveggja ára hafa skilað sér í umtalsveðri hagræðingu og jafnvægi er komið á í rekstri félagsins. Markmiðið var að hagræða í ytri umgjörð og rekstri en verja dagskrá eins og kostur er og var stór hluti Útvarpshússins leigður út. Rekstrargjöld lækkuðu að raunvirði frá 2014 til 2015 þrátt fyrir að kostnaður við dreifikerfi hafi hækkað en sá kostnaður er til kominn vegna samnings um stafræna dreifingu frá 2013. Afskriftir rekstrarfjármuna lækka einnig milli sömu tímabila en fjármagnskostnaður er enn hár vegna mikillar skuldsetningar. Kostnaður við yfirstjórn lækkar milli tímabila. Tekjur félagsins hækka á milli ára. Stöðugildi voru að meðaltali 259 á tímabilinu en þeim hefur fækkað á undanförnum árum, voru 297 árið 2013 og 324 árið 2008.
Samið var um sölu á byggingarrétti á lóð við Efstaleiti í október 2015. Þegar hafa verið greiddar 800 m.kr. fyrir byggingaréttinn sem Ríkisútvarpið ráðstafaði til niðurgreiðslu skulda. Vegna fyrirvara í kaupsamningi og varúðarsjónarmiða er söluhagnaður ekki færður í ársreikningi ársins 2015.