RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Vegna fréttar RÚV af Sjanghæ á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson  -  RÚV
Vegna umræðu undanfarinna daga um fréttaflutning RÚV af grun um vinnumansal á Akureyri vill fréttastofa taka eftirfarandi fram.

Fimmtudaginn 24. ágúst sagði aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 að hann hefði fengið ábendingu um að kínverskir starfsmenn veitingastaðar hér hefðu þurft að reiða fram hundruð þúsunda króna til að koma hingað til lands að vinna og fengju borguð mánaðarlaun sem hlypu á tugum þúsunda. Athugun fréttastofu leiddi í ljós að þetta var kínverski veitingastaðurinn Sjanghæ á Akureyri.

Fréttastofa fékk staðfest, mánudaginn 28. ágúst, frá stéttarfélaginu Einingu Iðju á Akureyri að verið væri að skoða málið og leita að kínverskum túlki til þess að fara og ræða við starfsmenn. Samkvæmt verkefnisstjóra vinnustaðaeftirlits stéttarfélagsins höfðu áður borist ábendingar vegna staðarins, sú fyrsta í september 2016, áður en hann var opnaður formlega.

Næstu daga fékk fréttastofa enn frekari staðfestingar hjá stéttarfélaginu á að grunur léki á að starfsmenn staðarins fengju borgaðar 30.000 krónur á mánuði í laun, borðuðu afganga af veitingastaðnum og hefðu þurft að reiða fram háar fjárhæðir til þess að koma hingað til lands til að vinna. Á miðvikudeginum 30. ágúst klukkan 18 fóru tveir fulltrúar stéttarfélagsins á staðinn, ásamt kínverskum túlki, að ræða við starfsfólkið. Samkvæmt upplýsingum frá verkefnisstjóra vinnustaðaeftirlitsins var búið að láta lögreglu vita af heimsókninni.

Fréttastofa tók ákvörðun um að greina frá því að grunur léki á vinnumansali á staðnum, í beinni útsendingu klukkan 19 sama dag, þar sem ítrekaðar staðfestingar höfðu fengist um það frá Einingu Iðju. Verkefnisstjóri vinnustaðaeftirlits stéttarfélagsins vissi af undirbúningi og áætluðum útsendingartíma fréttarinnar enda hafði hann gefið vilyrði fyrir viðtali í útsendingunni. Af viðtali varð þó ekki þar sem hann var enn að taka viðtöl við starfsmenn þegar hún stóð yfir.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar Iðju, sagði aðspurður við mbl.is þá um kvöldið að nógu margar ábendingar hefðu borist vegna staðarins til þess að ákveðið hafði verið að fara í eftirlit.

Þriðjudaginn 5. september sendi Eining Iðja frá sér yfirlýsingu, eftir að hafa fengið gögn frá veitingastaðnum, þar sem fram kom að „þær upplýsingar sem fram koma í gögnunum standast almenna kjarasamninga og launataxta sem gilda á veitingahúsum“. Í yfirlýsingunni sagði líka að „upplýsingar sem komu fram í umfjöllun fjölmiðla um málið komu ekki frá starfsmönnum félagsins“. Af því tilefni vill fréttastofa árétta að þær upplýsingar sem komu fram í fréttinni um málið komu frá traustum heimildum innan verkalýðshreyfingarinnar og voru ítrekað staðfestar af verkefnisstjóra vinnustaðaeftirlits Einingar Iðju.

Að endingu er rétt að hnykkja á því að að sjálfsögðu ber fréttastofan ein ábyrgð á fréttinni og framsetningu hennar.

Rakel Þorbergsdóttir,
fréttastjóri RÚV