RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Sumardagurinn fyrsti á Rás 1 og Rás 2

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Rás 1 og Rás 2 fagna sumardeginum fyrsta með glæsilegri dagskrá.

Á Rás 1 verður tónlist og tungumálið í forgrunni. Ingveldur G. Ólafsdóttir ræðir við ættingja, vini og samstarfsmenn Jórunnar Viðar, tónskálds, en Jórunn, sem var brauðryðjandi á mörgum sviðum og fyrsta konan sem gekk í Tónskáldafélag Íslands, lést í febrúar síðastliðnum.  Um kvöldið verður tónlist eftir Jórunni Viðar flutt í dagskrárliðnum Vökuró. Við flytjum fjölskyldutónleikana, Skrímslið litla systir mín, tónlist eftir Eivöru Pálsdóttur við sögu Helgu Arnalds. Handhafi Nótunnar 2017, Anya Hrund Shaddock, leikur Clair de lune eftir Claude Debussy og um kvöldið flytjum við hljóðritun af tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og ungra einleikara en tónleikarnir fóru fram í Hörpu í janúar síðastliðnum.  Þar munu sigurvegarar úr einleikarakeppni Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Listaháskóla Íslands leika verk með Sinfóníuhljómsveitinni.  Eins og fyrr segir verður tungumálið sýnilegt í dagskrá rásarinnar á sumardaginn fyrsta.  Jórunn Sigurðardóttur fjallar um þýðingar og íslenska tungu. Anna Sigríður Þráinsdóttir fjallar um tungumálakennarann en oft er sagt að tungumál opni dyrnar að heiminum og að tungumálakennarinn geymi lykilinn að tungumálunum. Klukkan fimm verður síðan bein útsending frá opnun Veraldar, húsi Vigdísar.

Dagskrá Rásar 1 á sumardaginn fyrsta

Á Rás 2 verður Snæfríður Ingadóttir í sumarskapi í hljóðveri RÚV á Akureyri þar sem hún veltir fyrir sér ýmsu er viðkemur sumrinu. Jón Ólafsson ræðir við Valdimar Guðmundsson í hljómsveitinni Valdimar en síðastliðið haust var Valdimar gestur Jóns í Salnum í Kópavogi í tónleikaröðinni Af fingrum fram. Konsert verður síðan á sínum stað um kvöldið og Örugga kynslóðin, þáttur fyrir ungt fólk lokar deginum um miðnætti. 

Dagskrá Rásar 2 á sumardaginn fyrsta