RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Ríkisútvarpið ohf. birtir árshlutauppgjör

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage
Helstu rekstrarniðurstöður eftir fyrstu sex mánuði ársins sýna áframhaldandi jafnvægi í rekstri RÚV og niðurgreiðslu skulda. Skerpt hefur verið á sérstöðu RÚV og aukið samstarf við sjálfstæða framleiðendur og aðra miðla.

Helstu niðurstöður

Eftir fyrstu sex mánuði ársins var 44,3 m.kr. halli á rekstri RÚV en fjárhagsáætlanir gera, sem fyrr, ráð fyrir jákvæðri rekstrarafkomu RÚV á árinu 2017. Jákvæð afkoma hefur verið af rekstri undanfarin ár. Niðurstaðan skýrist í meginatriðum af árstíðabundinni sveiflu í rekstrinum en afkoma RÚV er að jafnaði neikvæð á fyrri hluta árs en jákvæð á hinum síðari.

Tekjur RÚV voru 3.103 m.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 3.006 m.kr. á sama tímabili ársins 2016. Rekstrargjöld án afskrifta voru 2.866 m.kr. en 2.761 á síðasta ári. Afskriftir voru 156 m.kr. en 147 m.kr. á samanburðartímabilinu. Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 126 m.kr. og lækka á milli ára vegna lækkunar skulda og vaxta. Félagið hefur haldið áfram niðurgreiðslu skulda eftir sölu á byggingarrétti við Efstaleiti 1. Stefnt er að áframhaldandi niðurgreiðslu skulda á næstu mánuðum þegar lokagreiðslur berast vegna sölunnar.

Heildareignir félagsins 30. júní 2017 námu 7.739 m.kr., eigið fé var 1.825 m.kr. og eiginfjárhlutfall 23,6% en það hækkaði mikið á síðasta rekstrarári. Fjöldi stöðugilda var að meðaltali 258 á tímabilinu.

Framtíðarhorfur

Á undanförnum árum hefur verið hagrætt í ytri umgjörð til að efla dagskrá eins og kostur er. Fjárhagsleg endurskipulagning og breytingaferli árið 2014 hefur skilað jákvæðri afkomu í rekstri frá þeim tíma.

Í vor kynnti RÚV nýja stefnu til ársins 2021. Unnið er að innleiðingu hennar og gengur sú vinna vel. Í stefnunni er enn frekar skerpt á sérstöðu RÚV sem almannaþjónustumiðils og dagskrárframboð verður þróað í samræmi við það. Meðal annarra atriða í stefnunni er að RÚV hyggst endurskipuleggja innra starf til að mæta breytingum í miðlun og auka samstarf við sjálfstæða framleiðendur og aðra miðla, m.a. með því að opna aðstöðu sína og þjónustu.

Eftir ítrekaðar lækkanir á útvarpsgjaldi á síðustu árum var í fyrra undirritaður þjónustusamningur til loka ársins 2019. Forsenda samningsins er að innheimt útvarpsgjald lækki ekki að raunvirði frá árinu 2016 og að tekjustofnar RÚV séu áfram samsettir af opinberum tekjum og auglýsingatekjum. Á þann hátt verði fjármögnun þeirrar þjónustu sem skilgreind er í samningnum tryggð. Með samningnum, sem gildir til loka ársins 2019, hefur rekstrargrundvöllur félagsins styrkst og stöðugleiki aukist að mun.

31.08.2017 kl.11:45
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, árshlutareikningur, Í umræðunni