RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Páskadagskráin á RÚV

Mynd með færslu
Hátíðardagskrá RÚV um páskana er fjölbreytt og vönduð. Íslenskt efni verður í öndvegi í sjónvarpinu okkar allra. 

Nýjar kvikmyndir, Þrestir og Bakk. Leikið íslenskt verðlaunaefni, Ungar og Regnbogabörn, heimildamyndin Innsæi. Og við sýnum splúnkunýja íslenska sjónvarpsmynd í tveimur hlutum, Líf eftir dauðann, framúrskarandi tónlist - Emiliana Torrini og Sinfó á tónleikum – kammeróperan UR eftir Önnu Þorvaldsdóttir og sérvalið efni fyrir börn og fjölskylduna frá morgni til kvölds.

Rás 1 verður í hátíðarskapi um páskana. Við kynnumst stöðu svartra í Bandaríkjum trumpismans, Ellu Fitzerald, verðlaunahöfundinum Sölva Birni Sigurðssyni, konsertmeistaranum Birni Ólafssyni, heyrum sögur ástandsbarna og farið verður áratug aftur í tímann og stemmningin árið 2007 rifjuð upp. Við förum inn í helgistundir hversdagsins með hljómsveitinni Evu, hlýðum á Víking Heiðar spila Philip Glass og fáum okkur sæti í stóra salnum í Metrópólítan óperunni í New York þegar við útvörpum beint frá óperunni Aidu eftir Verdi. Sex rithöfundar svara spurningunni: Og hvað svo? Og við frumflytjum fjölskylduleikritið Skepnuna eftir Hildi Knútsdóttur.

Á Rás 2 erum við aðallega fyrir vestan á Aldrei fór ég suður en svo fjalla þau Margrét Marteinsdóttir, Matthías Már Magnússon og Freyr Eyjólfsson um árin 1977, 1987 og 1997 í þáttaröðinni Í sjöunda himni, Andri Freyr er heilagur á páskadagsmorgni, við fjöllum um Gervigreind, förum á tónleika með Of Monsters And Men og höldum upp á afmæli með SSSól. Sérstök hátíðarútgáfa af Nei, hættu nú alveg, Talandi um það og fjölmargt fleira á Rás 2 um páskana.

Kynnið ykkur fjölbreytta, fræðandi, skemmtilega og spennandi dagskrá RÚV um páskana í öllum miðlum.

11.04.2017 kl.10:39
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni, Páskadagskrá, Páskadagskráin, Páskar 2017