RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Menningarviðurkenningar RÚV afhentar á þrettándanum

Menningarviðurkenningar RÚV voru afhentar hinn 6. janúar kl. 16 við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, og fleiri góðir gestir voru viðstaddir athöfnina sem útvarpað var beint á Rás 1.

Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins. Auk þess veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2016 og tilkynnt var um val á orði ársins. Þá var okkar ástsæla tónskáld Jón Nordal heiðraður fyrir starfs sitt í þágu tónskálda, en hann lætur nú af störfum hjá Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins, eftir 48 ára samfellda setu í stjórn.

Sölvi Björn Sigurðsson hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf.

Tónlistarmaðurinn Emmsjé Gauti hlaut Krókinn 2016 - viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi flutning á árinu. Emmsjé Gauti gaf út tvær breiðskífur á árinu og var án efa einn vinsælasti tónlistarmaður ársins. Hann kom fram á tónleikum um allt land þar sem útgáfutónleikar hans og tónleikar á Airwaves og Secret Solstice hátíðunum stóðu upp úr. Emmsjé er líflegur á sviðiá auðvelt með að ná til tónleikagesta.

Orðið hrútskýring er Orð ársins 2016. Orðið er frá 2012 og er þýðing á enska hugtakinu mansplaining. Það hefur verið á allra vörum frá því í ársbyrjun 2016 þegar væntanlegur forsetaframbjóðandi var sakaður um athæfið sem orðið á við um. Markmiðið með orði ársins er að draga fram þau orð sem einkenndu þjóðfélagsumræðuna á árinu. Orðið þarf að hafa verið áberandi eða endurspegla samfélagið á einn eða annan hátt. Það þarf að falla að málkerfinu og það mega ekki vera vandkvæði með rithátt þess, beygingu eða framburð. Áhugaverð orðmyndun getur líka komið orði á lista. Hrútskýring uppfyllir öll þessi skilyrði. Þess má geta að höfundur þess er Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður. Valið stóð um níu orð sem þóttu endurspegla umræðuna í þjóðfélaginu á liðnu ár: aflandsfélag, hatursorðræða, hrútskýring, hú!, kynsegin, panamaskjöl, skattaskjól, tjákn, víkingaklapp.

Alls voru 46 styrkir veittir úr Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins árið 2016. Styrkirnir eru veittir til að semja ný sinfónísk tónverk, kammerverk, verk fyrir einstök hljóðfæri, kórverk, hljóðritun íslenskra tónverka o.fl.

Styrkina hlutu Alexandra Chernyshova, Anna Þorvaldsdóttir, Atli Ingólfsson, Áki Ásgeirsson, Áskell Másson, Bára Grímsdóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Bjarni Frímann Bjarnason, Finnur Karlsson, Gísli Galdur Þorgeirsson, Guðmundur Pétursson, Gunnar Karel Másson, Gunnsteinn Ólafsson, Hafdís Bjarnadóttir, Haukur Þór Harðarson, Hildigunnur Rúnarsdóttir, Hildur Guðnadóttir, Hjálmar H. Ragnarsson, Hlynur A. Vilmarsson, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Jesper Pedersen, John Speight, Kolbeinn Bjarnason, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kvennakórinn Stöllurnar, Laila M.A., Lydía Grétarsdóttir, María Huld Markan, Michael Jón Clarke, Oliver Kentish, Ólafur Arnalds, Ólafur Björn Ólafsson, Ólafur Ó. Axelsson, Páll Ivan Pálsson, Ríkharður H. Friðriksson, Schola Cantorum, Sigurður Sævarsson, Úlfar Ingi Haraldsson, Úlfur Eldjárn, Valdimar Jónsson, Vignir Snær Vigfússon, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, Þórður Magnússon, Þuríður Jónsdóttir og Örnólfur Eldon Þórsson. 

Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Boðið er upp á fjölbreytt menningarefni í öllum miðlum þess og stuðlað að fjölbreyttri listumfjöllun. Að undanförnu hefur menningarefni verið sett framar í forgangsröðina hjá RÚV, m.a. með því að leggja aukna áherslu á framleiðslu á leiknu efni.

Nánari upplýsingar um einstök verðlaun á vegum RÚV

Tónskáldasjóður Ríkisútvarpsins

Styrkir til tónsmíða

Árið um kring styður RÚV tónskáld til sköpunar stærri verka, allt frá óperum til kammerverka og sinfónía með úthlutun styrkja úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins. Styrkir eru veittir til að semja ný sinfónísk tónverk, kammerverk, verk fyrir einstök hljóðfæri, kórverk, hljóðritun íslenskra tónverka o.fl. Tónskáldasjóðurinn hefur verið starfræktur í meira en 60 ár, en að honum standa Ríkisútvarpið og STEF. Tilgangurinn með sjóðnum er að stuðla að gerð og útbreiðslu tónverka með því að (1) greiða íslenskum tónskáldum kostnað og laun fyrir að semja tónverk, (2) láta teikna eða afrita vernduð íslensk tónverk til útgáfu, (3) kosta margföldun á hljóðritun verndaðra íslenskra tónverka til dreifingar og opinbers flutnings hjá erlendum útvarpsstöðvum. Sjóðurinn er gegnumstreymissjóður og því er heimilt að úthluta innistæðu hans eins og hún er á hverjum tíma.  Í stjórn sjóðsins sitja útvarpstjóri sem er formaður, eitt tónskáld sem kosið er á aðalfundi Tónskáldafélags Íslands til eins árs í senn og framkvæmdastjóri STEFs. Nú sitja í stjórn Magnús Geir Þórðarson (útvarpsstjóri), Jón Nordal (fulltrúi Tónskáldafélags Íslands) og Eiríkur Tómasson (fyrir hönd framkvæmdastjóra STEFs).

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins

Verðlaun fyrir ritstörf

Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins hefur verið starfræktur síðan 1956. Styrkir eru veittir einum eða tveimur höfundum. Í stjórn sjóðsins eiga sæti fimm menn, einn skipaður af menntamálaráðherra og er hann formaður, tveir af Ríkisútvarpinu og tveir af Rithöfundasambandi Íslands. Bergljót S. Kristjánsdóttir formaður  nefndarinnar, skipuð af menntamálaráðherra, Eiríkur Guðmundsson og Halla Þórlaug Sigurðardóttir frá RÚV, og Kristín Helga Gunnarsdóttir fyrir hönd Rithöfundasambands Íslands og Auður Jónsdóttir, verðlaunahafi síðasta árs.

Krókurinn

Framúrskarandi lifandi flutningur

Rás 2 er íslenskt tónlistarútvarp og hefur frá stofnun verið ötult við að taka upp lifandi flutning. Árið 2015 voru upptökurnar hátt í fjögur hundruð og er allt þetta efni varðveitt í safni RÚV. Þetta er ekki einungis gott útvarpsefni heldur ómetanleg heimild um íslenska tónlist samtímans. Það er eitt helsta metnaðarmál Rásar 2 að sinna þessu hlutverki eins vel og kostur er.  Krókurinn er verðlaun Rásar 2, þakklætisvottur til alls þess tónlistarfólks sem Rásin hefur átt gott samstarf við. Með Króknum vill Rás 2 verðlauna sérstaklega það sem vel er gert. Krókurinn var fyrst veitt fyrir ári síðan.

Orð ársins

RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands standa saman að því að leyfa landsmönnum að velja orð ársins í netkosningu á rúv.is. Markmiðið með því að velja orð ársins er að draga fram þau orð sem einkenndu þjóðfélagsumræðuna á árinu. Orðið þarf að hafa verið áberandi eða endurspegla samfélagið á einn eða annan hátt. Það þarf að falla að málkerfinu og það mega ekki vera vandkvæði með rithátt þess, beygingu eða framburð. Orð getur líka komist á lista ef orðmyndunin er áhugaverð.

Nánar um menningarumfjöllun á RÚV

Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Boðið er upp á fjölbreytt menningarefni í öllum miðlum þess og stuðlað að fjölbreyttri listumfjöllun. Að undanförnu hefur menningarefni verið sett framar í forgangsröðina hjá RÚV, m.a. með því að leggja aukna áherslu á framleiðslu á leiknu efni.

Landsmenn eru þegar byrjaðir að sjá afrakstur þeirrar áherslu en nú standa yfir sýningar á nýrri þáttaröð, Fangar og fjölmargt fleira spennandi er væntanlegt á næstu mánuðum og misserum.  Nýr samningur RÚV við DR um sölu á íslensku sjónvarpsefni um allan heim mun einnig styrkja stöðu okkar og stuðla að enn öflugri frumsköpun hér á landi.

Menningarumfjöllun hefur einnig verið aukin, jafnt í sjónvarpi sem útvarpi. Og á þessu ári verður menningarmiðlun og menningarumfjöllun RÚV styrkt enn frekar og með ýmsum hætti. Nú hefur allur sá hópur sem starfar að menningartengdri dagskrárgerð verið sameinaður í eina þétta menningarritstjórn sem vinnur saman þvert á miðla. Er þar saman komin stærsta og öflugasta menningarritstjórn landsins. Markmiðið er að gera menningarumfjöllun RÚV markvissari, fjölbreyttari og víðtækari. Á næstu dögum bætist nýr miðill við, menningarvefur RÚV, þar sem þessi umfjöllun birtist á einum stað en við teljum að þetta muni bæta menningarþjónustu RÚV umtalsvert.

Og notendur eiga von á ýmsum fleiri viðbótum í menningardagskrá RÚV á þessu ári. Bókmenntalestur á Rás 1 verður aukinn á árinu og unnið er að því að hann verði allur aðgengilegur á Hlaðvarpinu sem mun bæta þjónustu okkar við hlustendur verulega. Í haust verður svo Tónleikaröð Ríkisútvarpsins hleypt af stokkunum. Á árum áður stóð Ríkisútvarpið iðulega fyrir tónleikum sem sendir voru út í beinni útsendingu undir dagskrárheitinu “Gestir í útvarpssal” eða “Tónleikar í útvarpssal”. Þetta voru tónleikar sem vöktu mikla athygli og þótti heiður að því fyrir tónlistarmenn að fá slíkt tækifæri. Nú er ætlunin að stofna til árlegrar tónleikaraðar sem ber heitið Deilt með tveimur. Fjórir höfundar semja verk sérstaklega fyrir tónleikaröðina en þau verða svo frumflutt á fjórum tónleikum þar sem höfundarnir vinna með öðrum spennandi tónlistarmönnum. Ríkisútvarpið mun þannig stuðla á skemmtilegan og lifandi hátt að nýsköpun á sviði íslenskrar tónsköpunar.

RÚV hefur stóraukið útsendingar af alls lags menningar- og listaviðburðum að undanförnu. Þannig vill RÚV, í samstarfi við fjölda listamanna og menningarstofnanir, stuðla að því að gera úrvalsefni aðgengilegt allri þjóðinni. Má nefna samstarf okkar við Sinfóníuhljómsveit Íslands um viðamikla tónleika og útsendingu, Klassíkin okkar,  í upphafi vetrar þar sem þjóðin valdi uppáhalds klassísku tónverkin sín og upptökur og útsendingar á leiksýningum leikhúsanna.  Á morgun verður bein útsending á Njálu í samstarfi við Borgarleikhúsið og Íslenska dansflokkinn en sýningin sópaði til sín Grímuverðlaunum á síðasta ári.

 

07.01.2017 kl.13:07
Samskiptasvið RÚV
Birt undir: Í umræðunni, Í umræðunni