RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Fangar forsýnd í Bíó paradís

Fangar er ný íslensk þáttaröð en fyrstu tveir þættirnir voru frumsýndir í Bíó Paradís í gær. Fangar er sex þátta sería og verður á dagskrá RÚV í byrjun árs 2017.

Þáttaröðin fjallar um aðalpersónuna Lindu og hvernig líf hennar hrynur þegar hún er færð í kvennafangelsi í Kópavogi eftir að hafa ráðist á föður sinn, þekktan mann úr viðskiptalífinu og veitt honum lífshættulega áverka. Í fangelsinu hittir Linda fyrir aðrar konur sem hafa farið út af sporinu í lífinu, misharðnaða glæpamenn sem allar hafa sögu að segja úr heimi grimmdar og ofbeldis.

Fangar er byggð á hugmynd Unnar Aspar Stefánsdóttur og Nínu Daggar Filippusdóttur. Hugmyndina fengu þær fyrir um tíu árum þegar þær eignuðust frumburði sína og lásu viðtal við mæður í fangelsi.

Leikstjóri þáttanna er Ragnar Bragason og Margrét Örnólfsdóttir skrifaði handrit. Þorbjörg Helga Dýrfjörð er í hlutverki Lindu en meðal annarra leikara eru Halldóra Geirharðsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Unnur Ösp Stefánsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir og Gísli Örn Garðarsson.

Framleiðslufyrirtækin Mystery Productions og Vesturport sjá um framleiðslu þáttana í umsjón þeirra Árna Filippussonar og Davíðs Óskars Ólafssonar og er RÚV meðframleiðandi.

Meðal sjónvarpsstöðva, sem koma til með að sýna þættina, eru allar norrænu ríkisstöðvarnar, DR í Danmörku, NRK í Noregi, SVT í Svíþjóð og YLE í Finnlandi.