Zuma stóð af sér vantrauststillöguna

09.08.2017 - 00:54
epa06132434 South African president Jacob Zuma (R) after winning a vote of no confidence speaks to a crowd of his supporters outside parliament in Cape Town, South Africa 08 August 2017. The motion of no confidence voted on in parliament went in favor of
Jacob Zuma ávarpar stuðningsfólk sitt skömmu eftir að vantrauststillaga á hendur honum var felld í þinginu  Mynd: EPA
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku, stóð af sér tilraun stjórnarandstöðunnar til að koma honum frá völdum. Leynileg atkvæðagreiðsla um vantrauststillögu stærsta stjórnarandstöðuflokksins á hendur forsetanum fór fram á þriðjudag. Baleka Mbete, forseti þingsins, upplýsti að 198 hefðu greitt atkvæði gegn vantrauststillögunni, 177 greiddu tillögunni atkvæði sitt en níu sátu hjá.

Ákvörðun Mbetes um að hafa atkvæðagreiðsluna leynilega kom nokkuð á óvart. Tillagan var lögð fram af stærsta stjórnarandstöðuflokknum, Lýðræðisfylkingunni. Var gengið að því sem vísu að allmargir þingmenn Afríska þjóðarráðsins, ANC, myndu nota tækifærið til að lýsa vantrausti á Zuma, sem er afar umdeildur og flæktur í fjölda spillingarmála. Jafnframt var gengið að því sem vísu, að liðhlauparnir úr stjórnarflokknum yrðu of fáir til að fella forsetann. Báðir spádómar gengu eftir. Þingmenn Afríska þjóðarráðsins eru 249 talsins, þannig að ekki færri en 51 stjórnarþingmaður hefur hlaupist undan merkjum. Til að fella forsetann hefðu aftur á móti 201 af 400 þingmönnum þurft að samþykkja vantrauststillöguna, en nokkuð vantaði upp á það. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV