Yrsa hlakkar til að láta hræða sig

Líklega hafa fáar bækur haldið vöku fyrir jafn mörgum Íslendingum og hrollvekjan Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur. Bókin kom út árið 2010 og seldist í hátt í 30 þúsund eintökum. Kvikmynd byggð á bókinni verður frumsýnd á föstudag. Yrsa segist hafa gert sitt besta til að gleyma bókinni til að myndin komi henni sem mest á óvart.

Vekur falskar minningar um einveru í sumarbústað

Óskar Þór Axelsson leikstýrir Ég man þig. Hann sló í gegn með spennumyndinni Svartur á leik fyrir nokkrum árum og segist hafa heillast af bók Yrsu um leið og hann las hana.„Þegar ég var að rifja hana upp fannst mér eins og ég hafi verið einn í sumarbústað að lesa hana um miðja nótt og hafi þurft að leggja hana frá mér, hún var svo spennandi og hræðileg. En þetta er fölsk minning. Ég var bara heima hjá mér um miðjan dag að lesa hana. Ég held að ég sé ekki einn um þetta; það fá allir á tilfinninguna að þeir hafi verið uppi í bústað um miðja nótt að lesa hana í vondu veðri. Þegar ég fór aðlaga hana og hugsa um hvernig hún yrði að bíómynd vildi ég alltaf að þetta myndi skila sér.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óskar Þór Axelsson heillaðist strax af Ég man þig.

 En hver er lykillinn að því að yfirfæra hrollvekju úr bók yfir á hvíta tjaldið? „Það er auðvitað það sem er erfiðast í þessu, bæði að það sé dulúð og líka augnablik þar sem fólki bregður við. En þessi saga er bara að hluta til hrollvekja. Þetta er líka spennusaga og svo er þetta líka heilmikið drama.“

Hesteyri þjappaði hópnum saman

Í ég man þig fléttast í raun saman tvær sögur. Önnur sem gerist á Ísafirði en hin á Hesteyri í Jökulfjörðum.„Að fara til Hesteyrar var eftirminnilegast við þetta ferli. Aðstæður þar eru frumstæðar, þar er ekki rafmagn og við vorum ekki í símasambandi. Þetta gerði hópinn samheldinn. Að vera þarna í viku í tveimur húsum, allir í kojum, ekkert rafmagn og frekar kalt, en við reyndum að hafa húsin notaleg, það var einstök upplifun.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þótt bókin hafi slegið í gegn á sínum tíma munaði minnstu að hún kæmi ekki út. Yrsa rifjar upp að hún hafi verið orðin svo samdauna verkinu rétt fyrir útgáfu að hún óttaðist að hún væri ekkert hrollvekandi og vildi hætta við. Útgefandi hennar hafði hins vegar betur. Nú stendur Óskar í svipuðum sporum og Yrsa á sínum tíma.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Mér finnst þetta sem við erum búin að vera að taka upp ekkert vera hrollvekandi sjálfur, en það er spennandi sem kvikmyndagerðarmaður að finna þau tól og tæki sem hafa verið notuð til að segja svona sögur í gegnum tíðina og reyna að gera þau að sínum og láta þau virka þar. Það er mjög skemmtilegt.“

Yrsa reynir að gleyma bókinni

Yrsa gaf Óskari frjálsar hendur við gerð myndarinnar. „Ég treysti honum fullkomlega. Fannst ég ekki hafa neitt við það að bæta sem hann lagði til.“ Hún hefur ekki enn séð myndina en ætlar að fara á hátíðarforsýningu í kvöld. En býst hún við að myndin geti hrætt hana?

„Alveg örugglega. Ég er búinn að gera mitt besta til að gleyma bókinni þannig að hún komi mér sem mest á óvart. Ég held að enginn á Íslandi hlakki jafn mikið til að sjá þessa mynd og ég.“

Rætt var við Óskar og Yrsu í Menningunni í Kastljósi. Horfa má á innslagið hér að ofan.