Yfirlýsingar Trumps mikil stefnubreyting

10.08.2017 - 08:10
Yfirlýsingar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í garð Norður-Kóreu eru mikil stefnubreyting, segir Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, en hún var við nám í Suður-Kóreu á tíunda áratugnum. Hún fagnar því að alþjóðasamfélagið sé að herða tökin því ef styrjöld brjótist út á Kóreuskaga þá verði hún mjög mannskæð. Kínverjar gegni lykilhlutverki í að leysa þessa miklu deilu sem verður sífellt flóknari.

Alþjóðasamfélagið hefur verið að herða tökin og herti refsiaðgerðir gegn norður-kóreskum stjórnvöldum um helgina. Kínverjar tóku þátt í því og Lilja segir að það sé lykilatriði því án þátttöku Kínverja verði litlar sem engar breytingar í Norður-Kóreu. 

Hún segir að yfirlýsingar Trumps Bandaríkjaforseta séu ekki til þess fallnar að lægja öldurnar. „Þetta er stefnubreyting hjá Bandaríkjaforseta, hann er ákveðnari í sínum yfirlýsingum og skilaboðum til Norður-Kóreu en fyrri forsetar en hins vegar það sem er nokkuð ógnvekjandi er að þetta eru mjög sterkar yfirlýsingar og menn hafa líka áhyggjur af því að af því að þær eru svo sterkar að þá geta norður-kóresk yfirvöld bent á það, sjáiði hvernig bandaríkjamenn tala til okkar, við þurfum enn frekar að efla okkur her vegna þessa og hann hefur fengið vegna mikla gagnrýni vegna þessara yfirlýsinga í gær,“ segir Lilja en rætt var við hana í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun.