Yfirlögregluþjóni á Blönduósi sagt upp

19.05.2017 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson  -  RUV.IS
Öðrum yfirlögregluþjóninum hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, nánar tiltekið á Blönduósi, var sagt upp í gærmorgun án fyrirvara og staða hans lögð niður. Hann hefur starfað hjá lögreglunni á Blönduósi í rúm 36 ár. Ástæðan er hagræðing innan embættisins.

Kom honum í opna skjöldu

Kristjáni Þorbjörnssyni, fyrrverandi yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, eða lögreglunni á Blönduósi, var sagt upp störfum í gærmorgun og staða hans lögð niður. Tveir yfirlögregluþjónar voru áður hjá embættinu. Hann segir í samtali við fréttastofu að uppsögnin hafi komið honum í opna skjöldu og enginn fyrirvari hafi verið á henni. Hann hefur starfað hjá lögreglunni á Blönduósi í rúm 36 ár, en hefur verið yfirlögregluþjónn síðan árið 1991. Hann er 62 ára og á rúm tvö ár eftir í starfi þar til hann fer á eftirlaun, en hann fær greidd biðlaun í ár. Lögreglumenn fara á eftirlaun 65 ára. 

Endurskipulagning embættisins

Gunnar Örn Jónsson tók við starfi lögreglustjóra hjá embættinu á Norðurlandi vestra 1. apríl. Hann segir í samtali við fréttastofu að þetta sé endurskipulagning á embættinu síðan hann tók við og er niðurlagning stöðunnar hluti af þeirri vinnu. Að öðru leyti getur hann ekki tjáð sig um mál einstakra starfsmanna. Eins og áður segir voru tvær stöður yfirlögregluþjóna hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, en fastar stöður almennra lögreglumanna eru 14. Nú er einn starfandi yfirlögregluþjónn, auk lögreglustjóra. 

Mynd með færslu
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV