Yfirheyrður vegna gruns um íkveikju

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar íkveikju í íbúðargámi í nótt. Tvennt var í íbúðargámnum og komst fólkið með naumindum út en þó óskaddað. Lögregla handtók mann á staðnum, og er hann sagður hafa verið í annarlegu ástandi. Lögregla hefur tekið skýrslu af öðrum þeirra sem sluppu úr eldinum en á eftir að yfirheyra mann sem grunaður er um að hafa kveikt eldinn. Hann verður yfirheyrður síðar í dag og þá verður tekin ákvörðun um hvort óskað verði gæsluvarðhalds yfir honum.

 

Tilkynning um eldinn barst þegar klukkuna vantaði stundarfjórðung í tvö í nótt. Slökkviliðið sendi einn dælubíl á staðinn og gekk greiðlega að slökkva eldinn. Gámurinn var reykræstur en reyndist óíbúðarhæfur.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV