Yfir 200 millimetra rigning í Neskaupstað

13.05.2017 - 18:26
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnhildur Thorlacius  -  RÚV
Sólarhringsúrkoma í Neskaupstað mældist tæplega 204 millimetrar í dag en það jafngildir því að 204 ítrar af vatni hafi fallið á hvern fermetra lands þennan sólarhring. 

Á vef veðurstofunnar kemur fram að sólarhringsúrkoma sé mæld frá klukkan níu að morgni til sama tíma daginn eftir. Úrhellið í Neskaupstað féll hins vegar nánast allt á rúmlega hálfum sólarhring.

 

„Sjálfvirkar mælingar í Neskaupstað mældu rúmlega 200 millímetra frá því ca klukkan 18 í gær og þar til klukkan níu í morgun. Það er gríðarmikil úrkoma og á tímabili voru þetta yfir 20 millímetrar á klukkutíma. Reyndar eru þetta óstaðfestar sjálfvirkar mælingar og það á eftir að fara yfir gögnin og verður gert fljótlega eftir helgi. En þetta er óvenjumikil úrkoma,“ segir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Hann telur líklegt að þarna hafi verið slegið met en mælingar í Neskaupstað nái ekki langt aftur. 

Mesta mælda sólarhringsúrkoma hér á landi mældist í Kvískerjum tíunda janúar árið 2002, alls 293,3 millímetrar. 

Veðurstofan segir að mikið hafi rignt annars staðar á Austfjörðum en ekki nándar nærri jafn mikið og í Neskaupstað. Nokkrar stöðvar hafi náð nærri hundrað millimetra sólarhringsúrkomu.  

Hann segir að það eigi eftir að bæta í úrkomu með kvöldinu og hún verði þétt, þótt hún verði ekki jafn mikil og síðasta sólarhring. Um og eftir miðjan dag á morgun dragi verulega úr úrkomu og þá ætti að vera orðið nánast þurrt. 

Veðurstofan segir að fylgjast þurfi vel með lækjarfarvegum og ræsum. Ekki sé útilokað að aurskriður geti fallið í veðrinu eða í kjölfar þess. „Já það er klárlega alltaf möguleiki. Hluti af úrkomunni sem féll seinnipartinn í gær og fram eftir kvöldi féll sem snjókoma í fjallahæð,“ segir Óli Þór. „Það er að bráðna núna þannig að það vill ágætlega til að það skyldi draga úr úrkomunni vegna þess að það hefði getað valdið miklum vandræðum. Ef við hefðum haft þessa miklu úrkomu í dag líka þá hefði snjóbræðslan orðið hrein aukning við þá úrkomu og það hefði orðið mun verra. Það hitti ágætlega á að það dró úr úrkomunni í dag.“

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV