Wilbek hættur hjá Dönum

30.08.2016 - 09:24
epa04042963 Denmark's coach Ulrik Wilbek waits for start of the final match between Denmark and France for the Mens Handball European Championship 2014 in Herning, Denmark, 26 January 2014.  EPA/CLAUS FISKER DENMARK OUT
 Mynd: EPA
Ulrik Wilbek hefur sagt starfi sínu sem íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins lausu. Hann hefur legið undir mikilli gagnrýni fyrir að vilja segja Guðmundi Guðmundssyni upp störfum meðan á Ólympíuleikunum stóð. Danir unnu þar gull í karlaflokki.

Wilbek tjáði sig um stöðu Guðmundar við danska fjölmiðla um síðustu helgi eftir að sjónvarpsstöðin TV2 ljóstraði því upp að hann hefði viljað segja Guðmundi Guðmundssyni upp sem landsliðsþjálfari meðan á leikunum stóð.

Wilbek viðraði þá hugmynd sína við reyndustu leikmenn Dana á lokuðum fundi eftir tap Dana gegn Króötum í riðlakeppninni. Leikmenn slógu hugmyndina samstundis út af borðinu.

Skapaði óró í Ríó

Wilbek var enn við sinn keip daginn sem úrslitaleikurinn í karlaflokki fór fram í Ríó en þá sagði hann við dönsku fréttastofuna Ritzau að ef aðeins væri litið á úrslitin í leikjunum hefði verið löngu búið að reka Guðmund. Þessi ummæli féllu í grýttan jarðveg meðal leikmanna.

Daginn eftir úrslitaleikinn mun Wilbek svo hafa rætt það undir fjögur augu við Nicklas Landin, markvörð Dana, hvort ekki ætti að láta Guðmund fara. Landin mun hafa reiðst og rekið þetta ofan í Wilbek. Landin kallaði aðra leikmenn í kjölfarið á fund og heyrði þeirra sjónarmið og var þar stuðningi lýst við Guðmund.

Danskir fjölmiðlar fjalla ítarlega um mál Wilbek í dag

Langur ferill

Ulrik Wilbek hefur starfað með einum eða öðrum hætti fyrir danska handknattleikssambandið í nærri 30 ár. 

Hann tók við danska kvennalandsliðinu árið 1991 en skömmu áður hafði staðið til að leggja liðið niður vegna laks árangurs. Yngri landsliðinu þóttu hins vegar sterk og þar hafði Wilbek staðið í brúnni í nokkur ár.

Undir hans stjórn varð danska kvennalandsliðið að stórveldi. Þær urðu Evrópumeistarar 1994 og 1996, Ólympíumeistarar í Atlanta 1996 og heimsmeistarar 1997. Í kjölfarið hætti hann með liðið og sneri sér að félagsliðaþjálfun. 

2005 bauðst honum svo að taka að sér danska karlaliðið. Það var í svipaðri stöðu og kvennaliðið 15 árum fyrr; hópur sterkra, ungra leikmanna en árangurinn lítill.

Wilbek gerði karlaliðið sömuleiðis að stórveldi með Evrópumeistaratitlum 2008 og 2012. Ólympíutitlar sömu ár voru hins vegar víðs fjarri. Liðið fór í úrslit HM 2011 en tapaði gegn Frökkum. Þeir voru svo kjöldregnir í úrslitum HM 2013 og EM 2014, annars vegar af Spánverjum (35-19) á HM og hins vegar af Frökkum (41-32) á EM. Þá hafði Wilbek þegar tilkynnt að hann ætlaði að hætta og Guðmundur þegar verið ráðinn sem eftirmaður hans.

Ummæli Wilbek um Guðmund vöktu mikla athygli
Einar Örn Jónsson
íþróttafréttamaður