WikiLeaks býður fé fyrir upptöku

13.05.2017 - 15:11
President Donald Trump talks to reporters during a meeting with Dr. Henry Kissinger, former Secretary of State and National Security Advisor under President Richard Nixon, in the Oval Office of the White House, Wednesday, May 10, 2017, in Washington. (AP
 Mynd: AP
Uppljóstrarasíðan WikiLeaks hefur lofað að greiða 100 þúsund bandaríkjadala fyrir upptökur af samtali Donalds Trumps forseta Bandaríkjanna og James Comey, fyrrverandi forstjóra Alríkislögreglunnar FBI. Forsetinn rak Comey á þriðjudag og hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir.

 

Það vakti mikla athygli í gær þegar Bandaríkjaforseti beindi orðum sínum til James Comey, sem hann rak úr embætti forstjóra alríkislögreglunnar í vikunni, á Twitter-síðu sinni. Orðrétt segir í færslunni: James Comey ætti að vona að engar upptökur séu til af samtölum okkar áður en hann byrjar að leka upplýsingum til fjölmiðla.

New York Times segir að bæði forsetinn og Sean Spicer fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins hafi neitað að svara því hvort forsetinn taki upp samtöl sín við þá sem koma á hans fund. Það sé nokkuð sem Trump hafi verið grunaður um að hafa gert þegar hann átti í viðskiptum í New York. Færsla forsetans um upptökur hljóti að vísa til umfjöllunar blaðsins af kvöldverðarfundi forsetans og Comeys stuttu eftir að Trump tók við embætti forseta. 

Á viðtali á NBC í vkunni sagðist forsetinn hafa verið búinn að ákveða að reka Comey hvað svo sem ráðgjafar hans legðu til. Í uppsagnarbréfinu vísaði hann hinsvegar í ráðgjafana til stuðnings ákvörðun sinni. New York Times hefur sagst hafa heimildir fyrir því að Trump hafi yfir kvöldverði beðið Comey um að heita sér hollustu. Comey hafi sagst aðeins geta heitið hreinskilni sinni en ekki hollustu. Hvíta húsið vísaði þessu á bug í gærkvöldi. Washington Post segir að ummæli Trumps í viðtalinu á NBC hafi vakið upp spurningar um lögmæti uppsagnarinnar. 

New York Times segir að enginn forseti hafi á undanförnum 40 árum tekið upp samtöl sín hvort sem þau voru um síma eða á fundum. Það sé vegna þess að hægt væri að krefjast þess að fá þær til rannsóknar eins og gerðist í Watergate-málinu, þegar í ljós koma að þáverandi forseti Richard Nixon tók upp öll sín samtöl. Það sem kom fram á þeim upptökum varð þess að Nixon sagði af sér. 

Fjórir taldir helst koma til greina í stöðu forstjóra 

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að ellefu komi til greina í starf forstjóra FBI. Fjórir þeirra fari á fund Jeffs Sessions, dómsmálaráðherra og Rod Rosenstein aðstoðardómsmálaráðherra á næstunni. Þeirra á meðal Andrew McCabe, starfandi forstjóri og öldungadeildarþingmaðurinn John Cornyn, sem er fyrrverandi ríkissaksóknari í Texas. 

Sean Spicer tilkynnti blaðamönnum í vikunni að forsetinn hygðist skipa nýjan mann í starfið um leið og hann finni þann „sem uppfylli þau skilyrði sem hann telji nauðsynleg.“ .

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV