Vonbrigði að vegaframkvæmdum sé frestað

03.03.2017 - 08:44
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Formaður samgöngunefndar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi gagnrýnir stjórnvöld fyrir að taka ekki mark á samgönguáætlun við gerð fjárlaga. Það séu mikil vonbrigði að enn einu sinn verði malbikun á þjóðvegi eitt um Berufjarðarbotn slegið á frest.

Fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld að stjórnvöld hefðu ákveðið að fresta nokkrum framkvæmdum sem áttu að hefjast á þessu ári. Á meðal þess væru framkvæmdir á Dynjandisheiði, Uxahryggjavegi, Kjósarskarðsleið og ný leið yfir Hornafjarðarfljót. Þá yrði fé í Dettifossveg minnkað verulega og einnig fé í breikkun Suðurlandsvegar. Beðið yrði með vegabætur í Bárðardal og til Borgarfjarðar eystra og malbikun á þjóðvegi eitt um Berufjarðarbotn yrði líka frestað. Því verður enn bið á því að hægt verði að aka á malbiki í kringum landið.

Óvissa er um Vestfjarðaveg um Gufudalssveit. Jón Gunnarsson samgönguráðherra hefur sagt að sá vegur sé í forgangi þrátt fyrir að vera dýr en hann er nú í matsferli hjá Skipulagsstofnun.

Í fjárlögum vantaði um 10 milljarða til nýframkvæmda í vegamálum til að hægt yrði að standa við samgönguáætlun. Einar Már Sigurðarson, formaður samgöngunefndar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, segir að vinnubrögðin valdi mörgum vonbrigðum. „Hluti af okkar vonbrigðum er það að í októbermánuði er samþykkt ný samgönguáætlun eftir nokkurra ára bið. Síðan koma fjárlögin í desember og þá er nú ekki meira mark tekið á því plaggi frá því í október en það er skorið niður um 10 milljarða. Það er ekki eins og þetta sé að gerast í fyrsta skipti heldur er þetta þriðja árið í röð sem ekki verða neinar nýframkvæmdir á Austurlandi. Og eru þó verkefnin næg. Ég minni bara á Berufjarðarbotninn sem er búinn að bíða áratugum saman og nú loksins sáu menn samkvæmt samgönguáætlun að þar væri þessi spotti kominn inn sem er síðasti spottinn á hringleiðinni um landið sem er ekki með bundnu slitlagi. Vegur oft illyfirfarinn vegna þess að hann er gamall og raunverulega orðinn ónýtur fyrir löngu löngu síðan,“ segir Einar Már.