Volvo veðjar á rafbíla

08.07.2017 - 12:55
Það vakti heimsathygli í vikunni þegar forráðamenn Volvo bílaverksmiðjunnar tilkynntu að allar nýjar tegundir bíla sem fyrirtækið framleiðir verði rafmagnsbílar frá árinu 2019. Nýju bílategundirnar verða rafknúnar að hluta eða öllu leyti.

Volvo vakti athygli heimsins

Fréttin um að Volvo ætlaði að bjóða upp á rafmótora í öllum nýjum tegundum eftir 2019 vakti heimsathygli og var fjallað um hana í flestum miðlum hins vestræna heims.

Volvo er fyrsti stóri bílaframleiðandinn sem tekur þessa ákvörðun og margir telja að hún marki upphaf nýrra tíma. Volvo er þó ekki að segja skilið við vélar sem eru knúnar jarðefnaeldsneyti. Eldri tegundir verða áfram í framleiðslu svo lengi sem markaður er fyrir bílana, sagði Håkan Samuelsson forstjóri Volvo í viðtali við sænska ríkissjónvarpið. „Við höldum áfram að selja tegund sem við setjum á markað árinu á undan meðan viðskiptavinir vilja kaupa þann bíl".

Volvo í kínverskri eigu

Volvo var lengi eitt þekktasta fyrirtæki í Svíþjóð. Svíar eiga það ekki lengur heldur er Volvo í eigu kínverska fyrirtækisins Geely Holdings. Höfuðstöðvarnar eru þó áfram í Gautaborg og þar er einnig aðsetur þróunardeildar fyrirtækisins.

Vilja selja milljón rafbíla 2025

Volvo seldi rúmlega hálfa milljón nýrra bíla í fyrra í yfir eitt hundrað löndum. Stærsti markaðurinn er í Kína. Bílarnir eru framleiddir í Svíþjóð, Ghent í Belgíu og í Chengdu í Kína. Alls vinna meira en þrjátíu þúsund hjá Volvo. Håkan Samuelsson forstjóri hafði áður lýst efasemdum um framtíð rafbíla en hann hefur nú skipt um skoðun.

Verð á rafhlöðum hefur þróast í rétta átt, sagði Samuelsson og sömuleiðis eftirspurn eftir rafbílum. Volvo stefnir að því að selja milljón rafknúna bíla árið 2025. Sama ár á framleiðslan einnig að vera hætt að menga andrúmsloftið.

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV