Vitum við hvað er í matnum okkar?

13.10.2015 - 15:29
Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla hefur ekki verið uppfærður síðan 2011. Brýn þörf er á reglulegri uppfærslu því efnainnihaldið er breytilegt af margvíslegum ástæðum. Við vitum ekki nógu vel hvað er í matnum okkar, segir Laufey Steingrímsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Á árlegum Matvæladegi matvæla- og næringarfræðafélags Íslands er mikilvægi íslenskra og erlendra gagnagrunna á þessu sviði til umræðu. Laufey, sem er formaður MNÍ segir að gagnagrunnurinn sé mikilvæg grunnstoð við matvæli, merkingar matvæla, matvælaöryggi, útflutning, ráðgjöf til sjúkrahúsa og skóla og rannsóknir svo eitthvað sé nefnt.

Gagnagrunnurinn er vistaður hjá Matís sem þarf að fjármagna sig með verkefnastyrkjum. En fyrirtæki og stofnanir slást ekki um að kosta slíka grunna. „Í öllum löndum sem ég þekki til, hvort sem er í Bandaríkjunum eða Evrópuríkjum er þetta kostað af ríkinu,“ segir Laufey.

Í gagnagrunninum eru líka upplýsingar um innflutt matvæli og erlendir gagnagrunnar standa okkur til boða  en við getum ekki nýtt okkur það til fulls. En hvað þarf til að geta uppfært íslenska gagnagrunninn?„Það þarf ekki nema bara  eitt stöðugildi og svo einhverja peninga til að efnagreina“.

Rætt er við Laufeyju í Samfélaginu.

Mynd með færslu
Leifur Hauksson
dagskrárgerðarmaður
Samfélagið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi