Vita ekki hvernig Dachau-hlið endaði í Noregi

11.01.2017 - 12:44
Mynd með færslu
 Mynd: EPA  -  DPA
Norska lögreglan hefur lokið rannsókn á því hvernig hliðgrind, sem stolið var frá fangabúðunum í Dachau með hinni frægu áletrun Arbeit macht frei, dúkkaði upp í Björgvin. Lögreglan er engu nær um hvernig hún endaði í Noregi. Hin upprunalega grind hvarf eftir seinna stríð og og var endurgerð hennar sett upp 1965.

Grindin er gerð úr járni, um einn metri á breidd, tveir á hæð og vegur hundrað kíló. Það er grindin sem var stolið fyrir rúmlega tveimur árum úr hliðinu og fannst í Björgvin í desember. Lögregla segist í frétt á vef norska útvarpsins, NRK, ekki hafa fundið nokkrar vísbendingar um hvernig grindin komst þangað. Hún fannst eftir nafnlausa ábendingu.

Lögregla ætlar ekki að hafast frekar að en norska menningarmálaráðuneytið  bíður frekari upplýsinga frá þýskum stjórnvöldum um hvernig skila megi grindinni. Tugir þúsunda létust í Dachau. Búðirnar sem eru skammt utan við München voru upphaflega reistar 1933 til að halda pólitískum föngum en síðar stækkaðar og þar voru þrjátíu þúsund fangar við stríðslok, gyðingar og fólk frá löndum sem Þjóðverjar höfðu hernumið.

Áletrunin Arbeit Macht frei - vinnan gerir yður frjálsa var líka yfir innganginum að útrýmingarbúðunum í Auschwits-Birkenau í Póllandi. Því skilti var stolið 2009 og  sænskur nýnasisti dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir þjófnaðinn.