Vísindamenn hefja leit að tasmaníutígrum

28.03.2017 - 10:27
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons  -  Wikipedia
Skipulögð leit er hafin að tasmaníutígrum í fylkinu Queensland í Ástralíu eftir að „trúverðugar“ ábendingar bárust um að sést hefði til þeirra þar. Tasmaníutígurinn hefur verið talinn útdauður í 80 ár þótt fólk haldi því reglulega fram að hann hafi orðið á vegi þess. Sjaldnast verða slíkar ábendingar þó tilefni leitar sem þessarar.

Tasmaníutígurinn (Thylacinus cynocephalus) var ránpokadýr sem á öldum áður lifði á meginlandi Ástralíu, á Papúa Nýju-Gíneu og á áströlsku eyjunni Tasmaníu. Þegar evrópskir landkönnuðir komu fyrst til Ástralíu snemma á 17. öld var tasmaníutígurinn löngu horfinn af meginlandinu og Papúa Nýja-Gíneu, og var orðinn fágætur í Tasmaníu. 

Síðasta dýrið er svo talið hafa drepist í dýragarðinum í Hobart, stærstu borg Tasmaníu, 7. september 1936.

Þjóðgarðsstarfsmaður á meðal sjónarvotta

Fregnir af því að fólk telji sig hafa séð dýr sem líkist hundum en séu þó hvorki dingóar né refir hafa verið reglulegur viðburður síðan og hinir meintu sjónarvottar mæta yfirleitt miklum efasemdum.

Breska blaðið The Guardian segir hins vegar frá því að nú sé annað uppi á teningnum. Bill Laurence, prófessor við James Cook-háskóla, segist hafa rætt lengi við tvo sjónarvotta um dýr sem þeir sáu á Cape York-skaga. Þeir hafa gefið ítarlegar og trúverðugar lýsingar á dýrunum, sem geti svarað til útlits tasmaníutígra. Af lýsingunum að dæma geti þetta að minnsta kosti ekki hafa verið dingóar, villihundar eða svín.

Annar sjónarvotturinn er starfsmaður þjóðgarða Queensland-fylkis og hinn er þaulvanur tjaldferðalangur á svæðinu. Í öll skiptin hafi dýrin sést að nóttu til. „Og í eitt skiptið var fylgst með fjórum dýrum úr návígi – um sex metra fjarlægð – með vasaljósi,“ hefur Guardian eftir Laurence.

Hann segir að leitað sé á tveimur stöðum en að nákvæm staðsetning sé algjört leyndarmál.

Mjög ólíklegt en ekki óhugsandi að þeir finnist

Sandra Abell, rannsakandinn sem stýrir leitinni á vettvangi, segir við Guardian að síðan verkefnið spurðist út hafi borist enn fleiri ábendingar. Nú sé unnið að því að koma upp 50 myndavélum sem vonast sé til að geti fest dýrin á filmu þegar þurrkatíðin hefst í apríl eða maí.

Hún er samt ekki vongóð um að finna tasmaníutígrana. „Það er mjög ólíklegt en mögulegt. Þetta er ekki goðsagnavera. Sjónarvottar lýsa meiru en því að þeir hafi séð dýrið útundan sér á hlaupum framhjá bílljósum. Sumir hafa getað lýst þeim svo ítarlega að það er erfitt að halda því fram að þeir hafi séð nokkuð annað. Ég ætla ekki að útiloka að við finnum þá, en það væri ótrúleg heppni ef við næðum þeim á mynd.“

Ekkert skyldir tígrum

Tasmaníutígrar voru – og kannski eru – allt að 1,8 metrar að lengd með skotti, 59 sentimetrar upp að herðakambi og gátu orðið 30 kíló. Þeim svipaði til hunda á búkinn en skottið var eins og á kengúru.

Þeir voru ekkert skyldir tígrum. Nafngiftin stafar af því að dýrin voru röndótt á aftari hluta búksins. Á ensku er dýrið ýmist þekkt sem tasmaníutígur eða tasmaníuúlfur, þótt það sé raunar ekkert skylt úlfum heldur. Nánustu eftirlifandi ættingjar þeirra eru tasmaníudjöfullinn og pokamauraætan.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV