Vinnumarkaðslíkanið stærsti veikleikinn

13.09.2017 - 20:00
Vinnumarkaðslíkanið er ónýtt og það er stærsti einstaki veikleiki íslenskra efnahagsmála nú um stundir, sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í stefnuræðu sinni á Alþingi í kvöld. Hann sagði að þótt Íslendingum hefði tekist um margt vel að stjórna málum sínum undanfarna áratugi væri „gamalgróið sundurlyndi á vinnumarkaði“ Íslendingum fjötur um fót.

Bjarni lagði mikla áherslu á kjarasamninga í nútíð og fortíð í stefnuræðu sinni. Hann lýsti áttunda og níunda áratug síðustu aldar sem samfelldri sorgarsögu víxlhækkana launa og verðlags. Þótt svo þjóðarsáttarsamningarnir hafi leitt til betri vinnubragða og minni verðbólgu hafi laun og verðlag engu að síður hækkað meira en hjá viðskiptaþjónum Íslendinga. 

Það er grundvallaratriði kjaraviðræðna í nágrannalöndum að sammælast fyrst um hve mikið laun geti hækkað heilt yfir svo stutt sé við efnahagslegan stöðugleika, sagði Bjarni. „Enginn vísir er að slíku samkomulagi hér á landi eftir að það er orðin sérstök íþrótt að tala niður SALEK-samkomulagið og lýsa yfir andláti þess.“

Bjarni sagði að allir viðsemjendur þyrftu að rísa undir þeirri ábyrgð sem á þeim hvíldi í kjaraviðræðum opinberra starfsmanna sem eru framundan. Hann sagði að ábyrgð fylgdi bæði því að semja og semja ekki. Hann sagði að oft væri leitað að sökudólgum þegar farið væri út af sporinu í kjarasamningum. Það væri þó ekki rétt nálgun. „Vinnumarkaðslíkanið okkar er í raun ónýtt," sagði Bjarni. Þar væri hver höndin upp á móti annarri og nær engin samvinna til staðar. 

Bjarni lagði út af nýrri skýrslu um hækkandi skattbyrði launafólks, sérstaklega þeirra tekjulægstu. Hann sagði staðreyndina þó að engin þjóð mælist með meiri launajöfnuð en Ísland samkvæmt OECD. Þá væru ráðstöfunar sambúðarfólks á lágmarkslaunum með tvö börn þriðjungi hærri en þær voru árið 1998. „Kjörin hafa stórbatnað og þau hafa batnað með svipuðum hætti hjá öllum tekjuhópum.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV