Vinnueftirlit skoðar atvikið ekki sérstaklega

17.07.2017 - 14:03
Mynd með færslu
Búið var að slökkva eldinn þegar slökkviliðið kom á vettvang.  Mynd: Hilmar Bragi  -  Víkurfréttir
Vinnueftirlitið telur ekki ástæðu til að fara í eftirlitsferð í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík vegna atviks í nótt þegar 1600 gráðu heitur málmur flæddi á gólf. Töluverður reykur myndaðist í verksmiðjunni og slökkvilið var kallað út.

„Við vorum ekki kölluð út en höfðum samband þegar við fréttum af þessu. Við erum búin að ræða við öryggisstjóra verksmiðjunnar og fara yfir málið. Við sjáum ekki ástæðu til að skoða þetta atvik sérstaklega,“ segir Svava Jónsdóttir, sviðsstjóri hjá Vinnueftirlitinu. Hún segir að svo virðist sem málið sé í góðum farvegi hjá verksmiðjunni.

Fulltrúar Vinnueftirlitsins fara reglulega í eftirlitsferðir í verksmiðjuna. Svava segir að þegar gerðar séu athugasemdir við starfsemina þar sé þeim fylgt eftir. Hún segir alltaf hættu á ferðum þegar verið er að vinna með heitan málm en að miðað við upplýsingar sem Vinnueftirlitið hefur fengið brugðust starfsmenn rétt við. „Þeir eru í hlífðarfötum og hafa fengið þjálfun í að takast á við svona mál.“ Fyrirtækinu ber að skrá atvik sem þetta og finna leiðir til að bregðast við og segir Svava að Vinnueftirlitið fylgist með að það sé gert.

Slökkvilið var kallað út um klukkan fimm í morgun en starfsmenn voru búnir að slökkva eldinn þegar það kom að. Töluverðan reyk lagði frá verksmiðjunni í átt að Garði. Í tilkynningu frá United Silicon segir að skemmdir hafi ekki verið metnar og því ekki hægt að segja til um hversu miklar þær eru.