Vill umræðu út frá hagræði frekar en banni

25.07.2017 - 09:18
Vandinn við umræðu á dögunum um að taka stærstu peningaseðlana úr umferð var að málið var rætt á forsendum þess að banna fremur en hagræðis, að mati Björgvins Inga Ólafssonar, hagfræðings hjá Íslandsbanka. 

Björgvin Ingi ritaði grein í Kjarnann í gær um kostnað við seðla, sem hann segir mjög mikinn, bæði vegna ólöglegrar og svartrar starfsemi og líka vegna þess að það kostar sitt að reka kerfið. Hann segir áhugavert að ræða um að þessi mál á forsendum neytenda, hvort hægt sé að fá eitthvað betra en seðla með lægri tilkostnaði. „Ég vil frekar ræða þessi mál út frá hagræðingu og þægindum en boðum og bönnum. Ég held að það sé betra fyrir okkur að við komumst að því að kortin séu betri en seðlar og þá förum við í þá vegferð saman. Það er betra en að berja í hnakkadrambið á fólki og segja því að hætta að svíkja undan skatti,“ segir hann.

Björgvin Ingi var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun. Hann segir að í Svíþjóð noti aðeins örfá prósent íbúa seðla. „Það er mjög áhugavert fyrir okkur að velta því fyrir okkur hvort það hafi breytt sænsku samfélagi til hins betra,“ segir Björgvin. Hann bendir á að núna sé jafn mikið af seðlum í umferð í Svíþjóð og árið 2000. „Venjulegt fólk í Svíþjóð treystir ekki á seðla með sama hætti og fólk á flestum öðrum stöðum.“

Telur skattsvik minnka með brotthvarfi seðla

Sem dæmi um þægindi korta fram yfir seðla nefnir Björgvin Ingi smáforritið Leggja sem notað er til að greiða fyrir bílastæði. Með notkun smáforritsins þurfi fólk ekki að hlaupa út á bílastæðið til að bæta klinki við ætli það að vera lengur en upphaflega var áætlað. „Ef fólk fær eitthvað annað sem er betra en seðlarnir, þá held ég að hlutirnir geti hreyfst.“

Á dögunum skilaði starfshópur efnahags- og fjármálaráðherra niðurstöðum um umfang skattundanskota. Tillaga hópsins um að taka 10.000 og 5.000 krónu seðla úr umferð til að draga úr umfangi skattsvika, vakti mikla athygli. Björgvin telur að skattsvik myndu ekki leggjast af ef seðlarnir yrðu teknir úr umferð en þau myndu kannski minnka. Alltaf verði hvatar til þess að einhverjir greiði ekki skatt.

Dönsk rannsókn sýnir minni kostnað vegna debetkorta

Sumir vilja nota seðla við innkaup svo að hvergi sé skráð hvar og fyrir hve mikið þeir versla. Björgvin segir bæði kost og ókost við seðla að notkun þeirra sé ekki hægt að rekja. Hann bendir á að bankar hafi boðið fyrirtækjum upp á greiðslukerfi sem ekki eru rekjanleg. Þannig geti fólk notað kort en það farið sé með upplýsingar um notkunina á ákveðinn hátt.

Björgvin Ingi segir að notkun seðla kosti samfélög meira en notkun greiðslukorta. „Dönsk rannsókn sýndi að kostnaður samfélagsins vegna seðla er tvöfaldur á við debetkort.“ Hann telur að með tímanum muni notkun seðla minnka enn frekar, mis mikið eftir löndum. 

 

Dagný Hulda Erlendsdóttir
Morgunútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi