Vill skýrslu um áhrif fiskeldis á samfélagið

09.08.2017 - 09:20
Vinna þarf skýrslu um hagræn áhrif laxeldis á samfélagið við Ísafjarðardjúp. Ekki er nóg vinna aðeins skýrslu um áhrif á laxastofna, að dómi Péturs Markans, sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.

Pétur segir að laxeldi í Ísafjarðardjúpi myndi gera kraftaverk fyrir byggðaþróun á norðanverðum Vestfjörðum. Rætt var við hann í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi á vegum sjávarútvegsráðherra skilar tillögum sínum á næstunni. Í áhættumati sem unnið var á vegum Hafrannsóknastofnunar fyrir starfshópinn er lagst gegn eldi í Ísafjarðardjúpi.

Vill láta skoða áhrif á allt líf við Djúpið

„Áhættumatið er eitt og svo þyrfti náttúrulega að gera mjög myndarlega skýrslu um hagræn áhrif á líf fólks og samfélag við Djúpið með tilkomu eldisins. Það er þannig að það eru fleiri lífstofnar við djúpið en bara laxfiskar. Þegar við erum að tala um að koma inn með nýjan atvinnuveg þá þurfum við að mæla áhrifin á allt lífið,“ segir hann.

Pétur nefnir að hagvöxtur á Vestfjörðum sé minni en annars staðar á landinu en að tilkoma laxeldis myndi breyta því. Hann tekur Bíldudal sem dæmi. „Þar vaknar fólk í unnvörpum klukkan sjö og drífur sig til vinnu og það er slegist um bílastæðin. Það er bara þetta sem við þekkjum úr mannlegu samfélagi og lítum á sem ákveðið heilbrigðismerki.“ 

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fundaði í vikunni með sveitar- og bæjarstjórum á norðanverðum Vestfjörðum um uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi. Pétur segir það sína upplifun af fundinum að ráðherrann sé hlynntur því að íbúar á Vestfjörðum geti stundað atvinnugreinina með myndarbrag. 

Telur fiskeldi samræmast gildum Vestfjarða

Pétur segir að atvinnuuppbygging í tengslum við fiskeldi skipti sköpum fyrir norðanverða Vestfirði. „Við teljum það þetta sé atvinnuuppbygging sem samræmist gildum fjórðungsins. Við erum án stóriðju og höfum reynt að leita umhverfisvænna lausna.“ Pétur segir að við mat á áhrifum eldis í Ísafjarðardjúpi sé mikilvægt að taka mótvægisaðgerðir fiskeldisfyrirtækja inn í myndina. „Ég treysti Hafrannsóknastofnun vel til að uppfæra skýrsluna með mótvægisaðgerðunum.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.